Ferlið varð til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“ Þetta er meðal þess sem fram kemur í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem birtur var í morgun þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að fjórir dómarar við Landsrétt Íslands séu ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð.
Þar segir enn fremur að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi brotið gegn landslögum með því að gera breytingar á lista yfir þá 15 dómara sem skipaðir voru án þess að rökstyðja þær með viðunandi hætti þrátt fyrir að hafa fengið ráðgjöf sérfræðinga um að hverjar afleiðingar ákvörðunar hennar gætu orðið. Sigríður fjarlægði ólöglega fjóra umsækjendur sem hæfisnefnd hafði lagt til að yrðu skipaðir og setti fjóra aðra í staðinn.
Í dómi Mannréttindadómstólsins er einnig vikið að því að afgreiðsla Alþingis á skipun dómaranna hafi brugðist, en kosið var um skipun þeirra allra í einu í stað þess að kosið yrði um skipan hvers og eins.
Niðurstaðan leiðir af sér að starfsemi Landsréttar er í fullkomnu uppnámi. Þegar er búið að fresta öllum málum sem dómararnir fjórir sem voru skipaðir með ólögmætum hætti; Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson, áttu að koma að í þessari viku og lögmenn sem Kjarninn hefur rætt við segja borðleggjandi að taka þurfi upp öll mál sem dómararnir fjórir hafa komið að. Þá sé einnig vandséð, og í raun ómögulegt, að þeir geti setið áfram í réttinum. Það þurfi að skipa nýja dómara í þeirra stað.
Ferlið allt mun að öllum líkindum einnig verða íslenska ríkinu dýrt í peningum talið. Þeir fjórir sem teknir voru af listanum hafa fengið eða munu fá miska- og/eða skaðabætur, dómararnir fjórir sem skipaðir voru án þess að hafa verið taldir á meðal 15 hæfustu eiga líkast til háa skaðabótakröfu á ríkið verði þeir að víkja og kostnaður við endurupptöku mála sem þeir hafa komið að mun verða umtalsverður.
Dómurinn í morgun mun ekki einungis hafa miklar afleiðingar á dómskerfi Íslands, hann mun einnig hafa áhrif á löggjafarvaldið Alþingi, sem brást í afgreiðslu sinni við skipan dómaranna. Og, í ljósi þess að þegar eru komnar fram endurnýjaðar kröfur um tafarlausa afsögn Sigríðar, hafa áhrif á ríkisstjórnina, framkvæmdarvaldið.
Nýtt millidómsstig verður til
En um hvað snýst þetta allt saman? Þann 10. febrúar 2017 voru embætti 15 dómara við Landsrétt, nýtt millidómsstig, auglýst til umsóknar, en rétturinn átti að hefja starfsemi sína í byrjun árs 2018. Alls sóttu 37 um stöðurnar, fjórtán konur og 23 karlar. Fjórir drógu síðar umsóknir sínar til baka.
Árið 2010 var lögum um skipan dómara breytt þannig að fimm manna dómnefnd var sett á laggirnar til að velja dómara og vægi ákvörðunar nefndarinnar aukið þannig að ráðherra yrði bundinn við niðurstöðu hennar. Þessar breytingar voru m.a. gerðar til að auka tiltrú á dómstóla og þrískiptingu valds á Íslandi í kjölfar afar umdeildra skipana dómara þar sem rökstuddur grunur var um að annað ef hæfni hefði ráðið för við skipun. Lagabreytingin gerði þó ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti vikið frá niðurstöðu dómnefndar og lagt nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar, samkvæmt lögunum.
Í ljósi þess að skipan í Landsrétt var umfangsmesta nýskipun dómara í Íslandssögunni var ákveðið að listinn yfir þá sem tilnefndir yrðu til verksins yrði lagður fyrir Alþingi óháð því hvort dómsmálaráðherra legði til breytingar eða ekki. Um yrði að ræða fyrsta skipti sem Alþingi kæmi að skipun dómara.
Þann 12. maí 2017 birti Kjarninn lista yfir þá 15 sem dómnefndin hafði metið hæfasta til að sitja í Landsrétti. Um er að ræða þann lista sem sendur hafði verið út til umsækjenda um embættin. Það vakti athygli að dómnefndin hefði talið nákvæmlega 15 umsækjendur hæfa til að gegn nákvæmlega 15 embættum. Á listanum voru tíu karla og fimm konur.
Þann 29. maí afhenti Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra forseta Alþingis tillögu sín að skipun í embætti 15 dómara við Landsrétt. Tillaga Sigríðar var önnur en sú sem dómnefnd hafði lagt til. Fjórir umsækjendur sem dómnefnd hafði talið á meðal þeirra 15 sem hæfastir voru í embættin hlutu ekki náð fyrir augum ráðherra og í þeirra stað voru fjórir aðrir settir inn á listann. Kynjahlutföll voru nú þannig að átta karlar og sjö konur yrðu dómarar við réttinn. Í ljós kom að Sigríður taldi 24 umsækjendur hæfasta, en ekki 15, og hún valdi þá sem hún gerði tillögu um úr þeim hópi.
Dómsmálaráðherra rökstuddi þó ekki breytta röðun sína með kynjasjónarmiðum heldur sagðist hún hafa aukið vægi dómarareynslu. Hún lagði ekki fram nein gögn sem sýndu fram á hvernig það hafi verið gert.
Listinn birtur
Ástráður Haraldsson, einn þeirra sem dómnefnd hafði mælt með en Sigríður fjarlægði af listanum, sendi samdægurs bréf til forseta Alþingis þar sem hann sagði að þau frávik sem ráðherra geri á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar. Um sé að ræða ólögmæta embættisfærslu. Sigríður hafnaði því algjörlega.
Daginn eftir, 30. maí, birti Kjarninn lista dómnefndarinnar yfir hæfi umsækjenda. Þar kom í ljós að einn þeirra sem Sigríður fjarlægði af listanum, Eiríkur Jónsson, hafði verið með sjöundu hæstu einkunnina samkvæmt nefndinni. Þar kom enn fremur fram að einn þeirra sem Sigríður ákvað að skipa, Jón Finnbjörnsson, hafði verið metinn á meðal þeirra minnst hæfu af nefndinni. Hann sat í 30. sæti á listanum af 33 umsækjendum.
Auk þess var ljóst að rökstuðningur dómsmálaráðherra, um að auka vægi dómarareynslu, rímaði ekki við einu fyrirliggjandi úttektina á dómarareynslu. Í 117 blaðsíðna ítarlegri umsögn dómnefndar um umsækjendur er reynsla umsækjenda af dómsstörfum meðal annars borin saman. Þar kom í ljós að þrír umsækjendur sem lentu neðar en Eiríkur í heildarhæfnismati dómnefndar voru með minni dómarareynslu en hann, en rötuðu samt sem áður inn á lista Sigríðar yfir þá sem hún vill skipa í dómarasætin 15.
Jón Höskuldsson, sem dómnefndin setti í 11. sæti, hlaut heldur ekki náð fyrir augum ráðherra. Jón er þaulreyndur dómari og hefði átt að færast upp listann frekar en niður hann ef slík reynsla væri metin umfram aðra. Í hans stað ákvað Sigríður m.a. að skipa Ásmund Helgason, sem hafði verið settur í 17. sæti af dómnefnd. Í umsögn Jóns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom fram að hann og Ásmundur hafi verið skipaðir héraðsdómarar sama dag, 15. maí 2010. Ásmundur þótti þó hafa eilítið meiri reynslu vegna þess að hann hefur auk þess setið í félagsdómi og verið ad hoc-dómari í Hæstarétti í einu máli.
Þá er ótalið að Ólafur Ólafsson, sem dómnefnd mat einn þeirra fjögurra sem hafi næst mesta dómarareynslu, hlaut ekki náð fyrir augum Sigríðar þrátt fyrir að hafa lent í 27. sæti á upphaflegum lista dómnefndar, eða þremur sætum ofar en Jón Finnbjörnsson, sem Sigríður ákvað að tilnefna.
Lögmannafélag Íslands gagnrýndi ákvörðun dómsmálaráðherra um að breyta röðun á listann og í umsögnum sem hæstaréttarlögmaðurinn Jóhannes Karl Sveinsson sendi inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagðist hann hafa verið í áfalli þegar hann las rökstuðning dómsmálaráðherra. Þau uppfylli engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standist auk þess „enga efnislega skoðun“.
Tekist var harkalega á um málið á Alþingi í kjölfarið. Stjórnarandstaðan sagði tillögu dómsmálaráðherra vera alveg órökstudda og kallaði eftir lengri tíma til að fara yfir málið. Til stóð að afgreiða málið miðvikudaginn 31. maí 2017, og ljúka þingstörfum þann sama dag. Það náðist ekki og þetta eina mál varð til þess að þing þurfti að koma saman 1. júní.
Þar var hnakkrifist um málið og þáverandi stjórnarliðar kynntu ýmis sjónarmið sín fyrir því að styðja tillögur ráðherra. Þau voru t.d. að Alþingi ætti ekki að hafa vald til að taka ákvörðun í svona máli þar sem það bæri ekki ábyrgð, heldur ráðherrann. Aðrir sögðu kynjasjónarmið hafa ráðið úrslitum og enn aðrir sögðust telja að ráðherrann hefði rökstutt mál sitt nægjanlega vel, en hún bar við auknu vægi dómarareynslu í rökstuðningi sínum.
Stjórnarandstaðan lagði fram frávísunartillögu sem var felld 31-30. Hún gerði ráð fyrir meiri málsmeðferðartíma fyrir tillögu ráðherra. Í kjölfarið var tillaga ráðherra samþykkt með 31 atkvæða þingmanna Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar gegn atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Framsóknarflokkurinn sat hjá. Tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði vegna tengsla sinna við umsækjendur. Annars vegar Brynjar Níelsson, sem er giftur Arnfríði Einarsdóttur, og hins vegar Svandís Svavarsdóttir, sem var áður gift Ástráði Haraldssyni og á með honum börn.
Hæstiréttur segir ráðherra hafa brotið lög
Málinu var þó fjarri því lokið. Ástráður stefndi íslenska ríkinu vegna skipunarinnar. Það gerði Jóhannes Rúnar Jóhannsson líka.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 15. september 2017, sama dag og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk, að Sigríður Andersen hafi brotið lög við skipun Landréttardómara. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði átt að óska eftir nýju áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöðu, ef hún taldi annmarka á áliti dómnefndarinnar. Í niðurstöðukafla dómsins var tekið fram að „stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 sem og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.“
Þann 19. desember 2017 komst Hæstiréttur síðan líka að því að Sigríður hafi brotið gegn ákvæði stjórnsýslulaga. Dómstóllinn tók afdráttarlausa efnislega afstöðu til málsins. Ef dómsmálaráðherra ætlaði að víkja frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis verður slík ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kveðið er á um í stjórnsýslulögum. Í dómi Hæstaréttar segir að það liggi ekki fyrir að Sigríður hafi ráðist í frekari rannsókn á þeim atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem málið snérist um og rökstuðningur hennar til forseta Alþingis, sem settur var fram í bréfi dagsett 28. maí 2017, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndar fullnægði ekki lágmarkskröfum.
Þar segir einnig að án tillits til þess hvort dómsmálaráðherra hafi getað með minnisblaði sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem sent var 30. maí 2017, bætt úr þeim annmörkum, sem voru á rannsókn hennar, rökstuðningi og tillögugerð, hafði það minnisblað ekkert nýtt að geyma umfram það sem fram hafði komið í áliti dómnefndar. Sjónarmið um jafna stöðu karla og kvenna gátu ekki komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Ekki hafi verið um það að ræða í málinu.
„Að gættum þeim kröfum sem gera bar samkvæmt framansögðu var rannsókn ráðherra ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið. Var málsmeðferð ráðherra að þessu leyti því andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Leiðir þá af sjálfu sér að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi.“
Í dómnum var fallist á miskabótakröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars. Þeir fengu 700 þúsund krónur hvor vegna skipunar dómara við Landsrétt. Hæstiréttur sýknaði hins vegar ríkið af skaðabótakröfu og hafði áður vísað frá ógildingarkröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars, sem laut að ógildingu þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að leggja ekki til við Alþingi að þeir yrðu skipaðir í embætti dómara við Landsrétt.
Ástæða þess að Hæstiréttur féllst ekki á skaðabótakröfu þeirra var sú að þeir gátu ekki sýnt fram á fjárhagslegt tjón, enda báðir vel launaðir lögmenn.
Hinir tveir sem fjarlægðir voru af upphaflega listanum um dómara sem átti að skipa, Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson, stefndu hins vegar ríkinu vegna þess tjóns sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna ákvörðunar Sigríðar.
Í október 2018 komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að greiða þeim báðum bætur vegna málsins. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jóni fjórar milljónir króna í skaðabætur, 1,1 milljón króna í miskabætur. Dómurinn féllst á bótaskyldu ríkisins gagnvart Eiríki en hann þurfti að höfða skaðabótamál til að innheimta þá bótaskyldu. Ríkið greiddi auk þess málskostnað beggja. Á meðal þeirra sem báru vitni í málunum voru núverandi og fyrrverandi þingmenn Viðreisnar, sem sat á þessum tíma í ríkisstjórn.
Það mál er nú í áfrýjunarferli.
Sigríður varin vantrausti
Þrátt fyrir það sem undan hafði gengið var Sigríður Andersen samt sem áður aftur gerð að dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn sem mynduð var síðasta dag nóvembermánaðar 2017 undir forsætis Katrínar Jakobsdóttur. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa ætið staðið þétt við bakið á henni, líka eftir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að Sigríður hefði brotið stjórnsýslulög. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf það þá út að hún myndi ekki gera kröfu um að Sigríður viki úr ríkisstjórn vegna málsins og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist bera „fullt traust“ til dómsmálaráðherra.
Um miðnætti 5. mars lögðu tveir stjórnarandstöðuflokkar, Píratar og Samfylking, fram vantrauststillögu á dómsmálaráðherra. Í könnun sem Maskína vann fyrir Stundina á þeim tíma kom fram að 72,5 prósent landsmanna vildu að Sigríður segi af sér embætti. Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“
Tillagan var tekin fyrir á Alþingi 6. mars. Þar var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason Miðflokki.
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Í kjölfarið var því haldið fram, meðal annars af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að stjórnarmeirihlutinn teldi eftir atkvæðagreiðsluna 33 þingmenn en ekki þá 35 sem sitja á þingi fyrir stjórnmálaflokkanna þrjá sem mynda ríkisstjórn. Málið hefur því haft miklar pólitískar afleiðingar.
Þáttur Vilhjálms
Það voru þó fleiri þættir málsins sem enn voru óleystir. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður manns sem var dæmdur í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti, vakti athygli á einum þeirra þegar hann lagði fram kröfu í Landsrétti þann 2. febrúar 2018 um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari í máli skjólstæðings hans, væri vanhæf vegna þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í embættið. Arnfríður var ein þeirra umsækjenda sem hæfisnefndin hafði ekki metað á meðal 15 hæfustu, en sem hafði hlotið náð fyrir augum dómsmálaráðherra sem skipaði hana þrátt fyrir það í embætti.
Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms og sagði að skipun Arnfríðar yrði ekki haggað. Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Landsréttur. Þann 24. maí 2018 staðfesti Hæstiréttur svo dóm Landsréttar í málinu og skjólstæðingur Vilhjálms var dæmdur í 17 mánaða fangelsi.
Vilhjálmur kærði í kjölfarið þá niðurstöðu að seta Arnfríðar í Landsrétti væri í samræmi við lög til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann ákvað að taka málið fyrir í lok júní 2018 og veita því flýtimeðferð.
Í greinargerð sinni hélt Vilhjálmur því meðal annars fram að dómsmálaráðherra hefði handvalið umsækjendur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til samþykktar. Það hafi hún gert á grundvelli vináttu og pólitískra tengsla. Í málatilbúnaði Vilhjálms er því haldið fram að Arnfríður hafi verið skipuð sem hluti af hrossakaupum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar Níelsson gaf í staðinn eftir oddvitasæti sitt í öðru Reykjavíkurkjördæminu í síðustu kosningum til Sigríðar Á. Andersen.
Auk þess hafi Sigríður hafnað öðrum umsækjendum, sem dómnefndin hafi mælt með að skipa, á grundvelli pólitískra skoðana þeirra. Ríkislögmaður telur að í þessum málatilbúnaði Vilhjálms felist sú fullyrðing að spilling hafi ráðið því hverjir hafi verið skipaðir dómarar við Landsrétt.
Íslenska ríkið hafnaði því í greinargerð sinni að ferlið við skipun dómara við Landsrétt í fyrra hafi verið gallað eða spillt. Það sagði að skipun Arnfríðar hefði verið staðfest með lögmætu ferli. Ríkið taldi einnig að dómar Hæstaréttar Íslands, frá því í desember 2017, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Sigríður Á. Andersen hafi brotið gegn stjórnsýslulögum við skipan dómara í Landsrétt leiddi ekki til þess að Arnfríður hafi ekki verið löglega skipuð.
Þessu var Mannréttindadómstóll Evrópu ósammála í dómnum sem fimm af sjö dómurum hans standa á bakvið, og birtur var í morgun.
Lestu meira:
-
26. febrúar 2021Dómsmálaráðherra gerir tillögu um að skipa Símon Sigvaldason í Landsrétt
-
22. febrúar 2021Dómnefnd metur Símon Sigvaldason hæfastan til að setjast í Landsrétt
-
10. desember 2020Þrjú sækja um laust embætti dómara við Landsrétt
-
9. desember 2020„Þetta er í öllu falli liðin tíð og ég dvel ekki frekar við hana“
-
3. desember 2020Segir að allir þurfi aðhald – líka dómarar í Strassborg
-
3. desember 2020„Misnotkun á valdi og bolabrögð hafa verið einkenni Sjálfstæðisflokksins í langan tíma“
-
3. desember 2020Lítil eru geð guma – Um Landsrétt og Sjálfstæðisflokkinn
-
1. desember 2020Íslenska ríkið tapaði málinu fyrir yfirdeildinni
-
15. september 2020Jón og Ragnheiður skipuð í Landsrétt – Ástráði hafnað enn og aftur
-
5. ágúst 2020Hæfur til að meta hæfni þar til annað kemur í ljós