Konu og ungri dóttur hennar hefur verið synjað um efnislega meðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli þess að hún hafi fengið vernd í öðru landi og bíða þær nú brottflutnings til Suður-Evrópuríkis. Hún kom allslaus til Íslands fyrr á árinu en hún hefur búið við mikla fátækt og ofbeldi til fjölda ára – og stöðugan ótta við fyrrverandi eiginmann.
Kjarninn ræddi við konuna til að fá að heyra reynslusögu hennar, hvað dró hana til Íslands og af hverju hún óski eftir vernd hér á landi. Til að vernda hagsmuni hennar og dóttur hennar hefur nafni hennar og staðarháttum verið breytt og verður því notast við nafnið Janet.
Vígahópur óð um göturnar
Janet ólst upp í landi í vesturhluta Afríku. Fjölskylda hennar var stór og voru þau systkinin sextán talsins. Faðir hennar beitti móðir hennar ofbeldi og þekkti Janet því ekkert annað en að karlmenn kæmu þannig fram við eiginkonur sínar. Faðir hennar var ekki trúaður en móðir hennar kristin og fór hún í kirkju með henni þegar hún var lítil.
Þegar Janet var 17 ára gömul urðu straumhvörf í lífi hennar en dag einn réðst vígahópur inn í borgina sem hún bjó í en hún var nemi á þessum tíma.
Hún lýsir því þegar óeirðirnar brutust út þennan örlagaríka dag. „Þennan dag var ég með vinkonu minni en við vorum í skóla saman. Á leiðinni heim úr skólanum – en ég bjó með henni á þessum tíma – brutust út óeirðir og mikið af fólki með ýmis barefli safnaðist saman á götum úti. Margir huldu andlit sín, það var einungis hægt að sjá í augun. Vígamennirnir lömdu með bareflunum annað fólk sem hljóp um göturnar.
Á þessu augnabliki fraus ég – ég var í algjöru áfalli. Það sem ég man er að vinkona mín hljóp á undan mér og ég féll á jörðina. Maður stóð við hliðina á mér og rétt hjá var kona í bifreið. Hann lamdi konuna þannig að blóðið spýttist yfir mig alla,“ segir Janet en það tekur á hana að rifja þessa atburði upp. Hún segir að hún endurupplifi þá þegar hún segi frá reynslu sinni.
„Konan reyndi að öskra á hjálp en það var enga hjálp að fá. Ég hljóp af stað og náði að koma mér í skjól með öðru fólki. Þar földum við okkur,“ útskýrir hún. Þar kynntist Janet konu sem lofaði að hjálpa henni að komast úr landi. Sú átti ættingja í Evrópu sem ætluðu að aðstoða Janet að koma sér fyrir í nýju landi – og jafnvel styrkja hana til náms.
Janet tekur það sérstaklega fram að hún hafi haldið að hún gæti haldið menntun sinni áfram í nýju landi og þess vegna hafi hún samþykkt þessa aðstoð. En ekki var allt sem sýndist.
Neydd í vændi
„Ferðalagið tók á og var mjög erfitt. Mér var oft nauðgað og þegar við komumst loks á leiðarenda þá sveik þessi kona öll loforð. Hún sagði að ég þyrfti að borga fyrir flutninginn á milli landa með vændi. Ég stóð í þeirri trú að ég myndi þurfa að vinna fyrir þetta fólk venjulega vinnu og í staðinn fengi ég menntun og húsaskjól. Ég samþykkti þetta tilboð með þessum skilmálum. En það var ekki þannig.“
Viðkomustaðurinn var land í Suður-Evrópu. Hún segir að við komuna hafi hún fengið annað nafn sem konan valdi fyrir hana. Konan sagði líka að hún þyrfti að hækka aldur sinn um eitt ár. Ætlun þessarar konu og fólksins á hennar vegum var að neyða Janet í vændi.
„Ég var mjög ósátt við þetta allt saman og flúði frá þeim.“ Með undraverðum hætti náði Janet að flýja og flæktist borga á milli þangað til hún hitti tilvonandi eiginmann sinn sem er frá þessu tiltekna Suður-Evrópuríki. „Ég vonaðist til að hlutirnir yrðu betri en þeir urðu ekki betri,“ segir hún með trega.
Ég sagði honum ekki frá reynslu minni vegna þess að ég segi engum frá henni. Ég var hrædd við fólkið sem var að leita að mér.
Eiginmaðurinn eins og tvær manneskjur
Janet segir að hún hafi í fyrstu talið eiginmann sinn góðan mann og að hann hafi ekki beitt hana ofbeldi fyrst um sinn. „Ég sagði honum ekki frá reynslu minni vegna þess að ég segi engum frá henni. Ég var hrædd við fólkið sem var að leita að mér.“
Hún var hamingjusöm á brúðkaupsdaginn en segir að eiginmaðurinn hafi breyst fljótlega eftir að þau giftust. „Ég á svo erfitt með að útskýra þetta – þessa breytingu á honum. Hann var eins og tvær manneskjur. Þegar hann breyttist var hann svo öðruvísi, svo ofbeldisfullur.“
Janet sá föður sinn beita móður sína heimilisofbeldi og hélt að þannig kæmu eiginmenn fram við eiginkonur sínar. „Ég hélt kannski að það væri eðlilegt þegar hann reyndi að kyrkja mig í fyrsta skiptið en hann barði mig líka og var vondur við mig. Einu sinni, af engri ástæðu, tók hann kodda og reyndi að kæfa mig með honum. Þetta kom síðan ítrekað fyrir – og eftir því sem ég barðist meira um þá reyndi hann meira að kæfa mig. Í eitt skiptið þá þóttist ég vera dáinn – og hann tók fötin sín og fór af heimilinu.“
Janet sagði í framhaldinu vinkonu sinni frá ofbeldinu sem ráðlagði henni að fara ekki frá eiginmanninum – heldur halda þetta út. Hvert ætti hún hvort sem er að fara? Hún fór til baka til eiginmannsins og vonaðist eftir breyttri hegðun.
„Hann hélt samt áfram að beita mig ofbeldi eftir þetta,“ segir hún og bætir því við að fjölskylda hans hafi vitað af ofbeldinu en ekkert gert.
Ógnaði henni með hníf
Eiginmaður hennar hélt lífi hennar í heljargreipum sem lýsti sér meðal annars í því að hann keypti ekki mat fyrir heimilið og fór Janet því oft svöng í háttinn. Einu skiptin sem hún fékk heila máltíð var þegar þau heimsóttu móður eiginmanns hennar um helgar.
Janet vildi ekki fara frá eiginmanni sínum á þessum tíma vegna þess að hún upplifði algjört úrræðaleysi. Hún vildi bara að hann myndi breytast aftur í hugljúfa manninn sem hún kynntist fyrst. Að hennar sögn neitaði hann aldrei fyrir ofbeldið og faldi það aldrei.
„Ég varð svo hrædd, ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Eitt kvöldið fékk ég peninga til að kaupa í matinn og eldaði um kvöldið. Ég reyndi að tala við hann um ofbeldið en ég sá að hann breyttist í skapi þegar ég byrjaði að tala. Ég sagði við hann að ef hann ætlaði að halda áfram að beita mig ofbeldi þá myndi ég fara. Þegar ég sagði það við hann barði hann hendinni fast í borðið. Ég stóð upp og undirbjó mig til að fara út skíthrædd. Ég sagði við hann að ég ætlaði að fara en venjulega undir þannig kringumstæðum myndi hann berja mig. Þegar ég var að fara þá kom hann aftan að mér með hníf. Hann hélt honum upp að hálsinum á mér og ég öskraði á hann og spurði hvað hann væri eiginlega að gera. Hann sagði: „Fyrst þú ert að fara þá skulum við bara enda þetta!“ Ég náði að brjótast frá honum og hlaupa út,“ segir Janet skjálfandi röddu.
Janet náði að hringja á lögregluna sem kom á heimilið stuttu seinna en lögreglumennirnir sögðu henni að fara til vinkonu sinnar um nóttina. Eftir þetta vissi hún ekki hvað hún ætti að gera. Var þetta bara venjulegt hjónaband? Hvert ætti hún að fara?
Hún fór til baka til eiginmanns síns, enda hafði hún ekki í nein hús að vernda. Ekkert lagaðist í framhaldinu og hélt ofbeldið áfram. „Enginn gat hjálpað mér,“ segir hún.
Á þessum tímapunkti þoldi hún ekki við lengur og á endanum fór hún frá eiginmanni sínum – og endaði á vergangi í landinu. Hún fékk gistingu hjá vinum og reyndi að fela sig fyrir honum. Hann fann hana þó alltaf með einhverjum hætti, segir Janet. Mitt í þessu róti öllu saman varð hún ólétt.
Janet lýsir þessum tíma sem hryllilegum. „Hann elti mig út um allt, sama hvert ég fór eða hvar ég bjó.“
Maðurinn skildi dótturina eftir læsta inni í bíl
Að lokum flúði hún til annars Evrópulands en hvert sem hún fór fann eiginmaður hennar hana alltaf. Hann var bljúgur við Janet inn á milli og á einum tímapunkti þegar dóttir hennar var fædd fór hún til baka til hans. „Mér leið eins og í búri,“ segir hún.
Í eitt skiptið þegar eiginmaður hennar var með árs gamla dótturina skildi hann hana eftir læsta inni í bíl og segir Janet að þá hafi hún gert sér grein fyrir því að barnið var orðið að skotmarki hans. Dóttirin var læst inni í bílnum ein í marga klukkutíma en með hjálp lögreglu náði Janet henni út úr bílnum. Þessi reynsla situr í henni enda hélt hún að dóttir hennar myndi deyja.
„Eftir þetta atvik þá fór ég bara. Steig upp í bíl með dóttur mína og keyrði í burtu. Ég fór með ekkert á milli handanna nema lífið og dóttur mína.“
Janet endaði för sína í öðru Evrópuríki og kom undir sig fótunum þar. Hún sótti um skilnað en eiginmaður hennar neitaði að skrifa undir skilnaðarpappírana. Hann barðist einnig fyrir forræði yfir barninu en Janet neitaði því harðlega.
Á endanum ákvað dómari að forræði yfir barninu skyldi vera hjá móðurinni. Auðvitað fagnaði Janet því en hún lifði í stöðugum ótta á þessum tíma að eiginmaður hennar myndi skaða hana. Hann hótaði því meðal annars að skjóta hana.
Eftir þetta atvik þá fór ég bara. Steig upp í bíl með dóttur mína og keyrði í burtu.
Sleit á öll tengsl
Eftir margra ára baráttu fékk Janet lögskilnað við eiginmann sinn ofbeldismanninn. „Ég trúði þessu ekki,“ segir hún og grætur þegar hún lýsir upplifuninni. „Það tók mig 10 ár að komast frá þessum manni. Ég var loksins frjáls.“ Var þetta þó skammgóður vermir því fyrrverandi eiginmaður hennar hélt áfram að hrella hana.
Þegar Janet tók þá ákvörðun að fara til Íslands þá sleit hún á öll tengsl við vini og samstarfsfélaga – alla sem hún þekkti. Því alltaf náði fyrrverandi eiginmaður hennar að hafa upp á henni og ofsóknir hans hættu ekki þrátt fyrir skilnaðinn. Hún segist alltaf vera hrædd, hvar sem hún er. „Ég vil ekki deyja. Ég fór frá heimahögunum þegar ég var mjög ung og ég hef gengið í gegnum svo mikið. Ég vil ekki deyja.“
Hún segir að Ísland hafi orðið fyrir valinu vegna þess að hún taldi að hér gæti hún fengið frið. Janet segist vilja byggja upp líf hér á Íslandi, ekki síst fyrir dóttur sína. Hún vill halda henni frá fyrrverandi eiginmanni sínum en það er hennar helsta markmið núna. Hún vill heldur ekki fara til baka til heimalandsins þar sem dóttir hennar yrði beitt kynfæralimlestingum þar eins og hún sjálf varð fyrir þegar hún var lítil stúlka.
„Mig langar að vinna og mig langar að læra meira. Ég hef alltaf haft það í huga að klára menntun mína en ég þurfti eins og ég sagði áðan að flýja í skyndingu frá heimalandinu og hætta í námi.“
Vill hætta að lifa í ótta
Dóttir hennar blómstrar á Íslandi, að hennar sögn. „Dag einn eftir að við komum til Íslands þegar við vorum búin að vera nokkra daga heima veikar þá sagði dóttir mín við mig: „Núna þegar ég horfi út um gluggann er ég ekki leið.“ Ég spurði hana hvers vegna og hvernig henni liði hérna á Íslandi. Hún sagði: „Já, mér líður vel hérna vegna þess að við erum ekki alltaf að flytja á milli staða.“,“ segir hún.
Janet segir að hún hafi ekki gert sér almennilega grein fyrir því að stöðugleikinn sem dóttir hennar hefur upplifað á þessu ári á Íslandi hefði haft svona góð áhrif á hana. „Sannleikurinn er sá að ég hef verið mjög róleg síðan ég kom hingað þangað til ég fékk synjun frá stjórnvöldum. Eftir þá ákvörðun hef ég verið mjög óróleg og mér líður ekki vel núna.“
Hún þráir ekkert heitar en að sjá dóttur sína hamingjusama eins og hún hefur verið undanfarna mánuði. „Kannski mun ég einhvern tímann gifta mig aftur en það sem ég vil fyrst og fremst er að geta séð fyrir mér – geta keypt mat fyrir dóttur mína og séð henni fyrir húsaskjóli. Mig langar að vera frjáls undan ofsóknum fyrrverandi eiginmanns míns. Mig langar að geta vaknað á morgnana án þess að vera ein taugahrúga yfir því hvað muni gerast fyrir mig og dóttur mína. Ég vil hætta að lifa í ótta,“ segir hún.
Aðstoð hvergi að finna
Claudia Ashanie Wilson lögmaður Janet segir að málið hennar endurspegli sömu ágalla og bent hefur verið á í öðrum sambærilegum málum vegna málsmeðferðar stjórnvalda við afgreiðslu umsókna kvenna á flótta. Kynjasjónarmið með tilliti til kynbundins ofbeldis, mismunar og áreitni hafi ekkert vægi við afgreiðslu slíkra mála sem er að hennar áliti mjög hættulegt og ólögmætt.
„Það er ekki tekið tillit til þeirrar fjölþættu mismununar sem konur á flótta verða fyrir, sökum kyns og þess hvernig erfiðleikar þeirra margfaldast þegar aðrir þættir bætast við, svo sem kynþáttur, þjóðerni og menningarlegur bakgrunnur, eins og í tilfelli umbjóðanda míns. Aðstoð er hvergi að finna og það hjálpar ekki þegar rasismi og fordómar þrífast meðal æðstu ráðamanna í því landi sem viðkomandi er að flýja, þar með talið hjá lögreglunni,“ segir hún.
Hvað mun koma fyrir Janet og dóttur hennar þegar þær verða sendar úr landi?
„Einfalda svarið er þetta: Lífi þeirra og öryggi verður stefnt í hættu. Hér er um að ræða konu og barn sem eru að flýja gróft ofbeldi, konu sem vill gera allt til að vernda barnið sitt.
Umbjóðandi minn er fórnarlamb mansals sem flúði það fólk sem hélt henni gíslingu til margra mánaða þar sem hún sætti kynbundinni misnotkun. Henni hefur verið hótað af þeim til að fá hana til að endurgreiða pening sem þau telja hana skulda, það er „flutningsgjald“ fyrir að vilja ekki stunda vændi,“ segir Claudia.
Auk þess sé Janet að flýja ofbeldismann sem hefur gert það að lífsverki sínu að misþyrma henni og barni hennar. Janet sé enn fremur fórnarlamb kynfæralimlestingar og þurfi nauðsynlega á sálfræðilegri og læknisfræðilegri aðstoð að halda.
Hvað þurfa stjórnvöld að gera til að koma til móts við konur í hennar stöðu?
„Krafan er skýr, að íslensk stjórnvöld virði skuldbindingar sínar á grundvelli alþjóðlegra samninga um að vernda konur frá kynbundinni mismunun og ofbeldi, að taka tillit til sérstaklega viðkvæmrar stöðu þessara einstaklinga við mat á því hvort taka skuli umsókn þeirra til efnislegrar meðferðar og eftir atvikum að veita þeim vernd hérlendis.
Mál umbjóðanda míns sem og mál annarra kvenna sem fjallað hefur verið um upp á síðkastið eru skólabókardæmi um hversu hættulegt það er þegar stjórnvöld taka ekki tillit til kynjasjónarmiða við mat á umsóknum kvenna á flótta,“ segir Claudia.
Stjórnvöldum ber að gera betur
Claudia telur afar mikilvægt í samræmi við ráðleggingar mannréttindanefndar um afnám mismununar gagnvart konum að stjórnvöld þjálfi starfsfólk sitt sérstaklega í því hvernig beri að meta umsóknir kvenna á flótta að teknu tilliti til kynjasjónarmiða.
„Það er ekki langsótt að segja að stjórnvöldum hérlendis beri að taka þessar ráðleggingar til sín og á mjög einföldu máli – gera betur. Síðan sakna ég þess sárlega að mannúð sé höfð að leiðarljósi líkt og útlendingalögin gera ráð fyrir þegar ákvæðum þeirra er beitt. Því miður sýna þessi mál okkur það að sú er ekki alltaf raunin.
Svo virðist einnig sem börn á flótta með foreldrum sínum fái lakari málsmeðferð en börn án fylgdar foreldra. Þetta er afar alvarlegt og þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á þetta, halda stjórnvöld ótrauð áfram við það að hunsa ákvæði barnasáttmálans við afgreiðslu umsókna barna á flótta. Líkt og varðandi konur á flótta, ber stjórnvöldum skylda til að gæta að þeim kynbundnu sjónarmiðum sem gilda um stúlkur á flótta. Það var því miður ekki gert í þessu máli,“ segir hún.
Lesa meira
-
16. desember 2022Segir Múlaþing ekki vera að útiloka flóttafólk frá öðrum ríkjum en Úkraínu
-
14. desember 2022Hlutverk RÚV ekki „að mála opinbera embættismenn upp sem einhverjar grýlur“
-
13. desember 2022„Í alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“
-
9. desember 2022Segja stjórnarmeirihlutann stilla öryrkjum upp á móti útlendingum
-
8. desember 2022Leggja til að fjölskyldur sem ekki var hægt að senda úr landi fái dvalarleyfi
-
6. desember 2022„Þau hefðu bara átt góðan séns á því að fá hæli á Íslandi“
-
17. nóvember 2022Ítalskir lögregluþjónar hafi undrast komu Antons og Viktoríu
-
17. nóvember 2022Fáum verið vísað frá Noregi og Danmörku til Grikklands á grundvelli verndar þar
-
16. nóvember 2022Telja að heimilislausum muni fjölga og mansal aukast ef útlendingalögum verði breytt
-
15. nóvember 2022Svona varð ég „glæpamaður“ á Íslandi