Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu Ragnarsdóttur harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Hún gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun um málið en það hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar þar sem hún var einungis orðin „skugginn af sjálfri“ sér á tímabili. Nú kveður þó við annan tón – og segist Helga Björg vera búin að finna sína rödd og ætlar hún að svara fyrir sig hér eftir.
Hér áður fyrr, þegar ég var að byrja að vinna hjá Reykjavíkurborg, hefði allt orðið vitlaust ef talað hefði verið svona um starfsfólk. Við bara vorum ekki á þeim stað og svona hegðun tíðkaðist ekki. Ég held að það muni enginn eftir öðru eins.“
Þetta segir Helga Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, í samtali við Kjarnann um reynslu sína af „stöðugum ofsóknum“ borgarfulltrúa Miðflokksins, Vigdísar Hauksdóttur.
Málið hefur ítrekað verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu ár en áreitið hófst, að sögn Helgu Bjargar, fljótlega eftir borgarstjórnarkosningarnar 2018. Hún gagnrýnir fjölmiðlaumfjöllun harðlega og segir hana hafa einkennst af rangfærslum, einkum framan af. Hún hafi lengi ekki átt möguleika á að verja sig gagnvart rangfærslunum og áreitinu. Hefur hún óskað eftir tilfærslu í starfi sem fallist hefur verið á og mun hún sinna jafnlaunamálum hjá Reykjavíkurborg á mannauðs- og starfsumhverfissviði.
Hefur upplifað fálæti af hálfu kerfisins og fjölmiðla
Niðurstöður á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfsumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs voru kynntar í síðustu viku en þar kemur meðal annars fram að erfið samskipti á vettvangi borgarráðs hafi gengið mjög nærri starfsmönnum Reykjavíkurborgar og kjörnum fulltrúum, margir starfsmenn borgarinnar hafi upplifað mikinn kvíða vegna þessa á kjörtímabilinu og ekki hafi tekist að tryggja sálfélagslegt öryggi starfsmanna á þessum vettvangi. Helga Björg telur að þessar niðurstöður segi allt sem segja þarf og fagnar hún að málið sé komið í þennan farveg.
„Ég hef upplifað fálæti bæði af hálfu kerfisins og fjölmiðla gagnvart rangfærslum, áreiti og ofsóknum borgarfulltrúans í minn garð sem hefur verið erfitt að skilja og sætta sig við. Fjölmiðlaumfjöllun hefur þar til nýlega nánast eingöngu byggst á Facebook-færslum borgarfulltrúans og túlkun hennar á málinu með tilheyrandi rangfærslum og jafnvel meiðyrðum og nánast undantekningarlaust án þess að leita eftir mínum sjónarmiðum.“
Hún segir að samstarfsfólk hennar hafi verið mjög styðjandi og getur hún ekki ímyndað sér annað en að þetta hafi verið þeim erfitt oft og tíðum. „Þetta lamar mann. Ég var metnaðarfullur stjórnandi sem breyttist í skuggann af sjálfri mér. Ég kom miklu minna í verk og var óörugg með það sem ég var að gera. Tilgangurinn er enda sá að einhverju leyti og þetta veikir kerfið.“
Það sem henni finnst einna áhugaverðast við niðurstöður úttektarinnar er að svona hegðun færir mörkin um hvað sé eðlilegt og hvað ekki. „Þetta normaliserar mjög bilaða samskiptahætti og einmitt milli pólitíkur og starfsfólks sem getur aldrei verið jafningjagrundvöllur. Á meðan stjórnmálafólk vinnur við að koma skoðunum sínum á framfæri, þarf starfsfólk stöðugt að gæta orða sinna, enda á það að geta unnið með kjörnum fulltrúum allra flokka. Það er eitthvað svo bogið við þetta.“
Ég kom miklu minna í verk og var óörugg með það sem ég var að gera. Tilgangurinn er enda sá að einhverju leyti og þetta veikir kerfið.
Starfið stór partur af sjálfsmyndinni
Helga Björg byrjaði að vinna hjá borginni árið 2006 á framkvæmda- og eignasviði en síðar fór hún á umhverfis- og samgöngusvið. Var hún alltaf í starfsmannamálum, fyrst mannauðsráðgjafi og síðar starfsmannastjóri þangað til árið 2012. Þá var hún ráðin sem skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Hún er félagsfræðingur í grunninn en hún er einnig með meistaragráðu í viðskiptafræði. Nú stundar hún nám í kynjafræði við Háskóla Íslands.
„Ég er svona Reykjavíkurborgarkona og hef alltaf brunnið fyrir málefnum borgarinnar. Mér fannst svo mikill heiður að fá að vinna að fjölbreyttum verkefnum en ég fékk svigrúm til að hafa áhrif og vinna að góðum málum. Ég er ein af þessum sem er stolt af því að vera starfsmaður Reykjavíkurborgar – þannig að þetta hefur verið stór partur af sjálfsmyndinni. Mér þykir óskaplega vænt um Reykjavíkurborg sem vinnustað þrátt fyrir allt saman.“
Umsnúningur með nýjum borgarfulltrúum
Helga Björg segir að þegar hún byrjaði að vinna hjá Reykjavíkurborg hafi starfsumhverfið verið frábært. „Það var bæði gott að vinna með stjórnmálamönnunum og starfsfólki. Það var til að mynda gaman að fá að vinna með meirihluta sem var svolítið óvanalegur – með Besta flokkinn í broddi fylkingar.“
Það var ekki fyrr en árið 2018 sem hlutirnir breyttust með mjög afdrifaríkum hætti, að hennar sögn. „Það verður umsnúningur á öllu.“
Málið átti sér ákveðinn aðdraganda. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm þann 5. júní 2018 þar sem hann felldi úr gildi áminningu sem Helga Björg veitti undirmanni sínum en þá var nýr meirihluti í þann mund að taka við. Hún segir að dómurinn hafi verið kynntur á borgarráðsfundi fljótlega eftir það. „Þá strax kom einhver „tónn“ í pólitíkina og það var ljóst á þessum tíma að ekki væri verið að virða valdmörk stjórnmálafólks og starfsfólks.“ Segir hún að ákveðnir borgarfulltrúar hafi farið á „bólakaf í starfsmannamál“ í staðinn fyrir að sinna hlutverki sínu sem eftirlitsaðilar. Fljótlega hafi skapast mikil óvissa um valdmörk og hlutverk kjörinna fulltrúa – og kveðið við annan tón en áður. „Ég varð þess vör að starfsfólk varð hrætt og upplifði jafnvel að sér væri ógnað varðandi starfsöryggi og annað.“
Helga Björg áréttar að henni hafi fundist eðlilegt að kjörnir fulltrúar kynntu sér málið og leituðu sér upplýsinga um dóminn – og ekkert nema eðlilegt um það að segja, að hennar mati. „Ég hefði til dæmis fagnað því ef þau hefðu viljað fá úttekt á starfsumhverfi skrifstofunnar í ljósi orðalags dómsins en ég óskaði sjálf eftir slíkri úttekt eftir að dómurinn féll. Ég ber ekki kala til fólks að hafa í fyrstu brugðist ókvæða við þessum dómi og viljað fá skýringar enda var umfjöllun um mig í dómnum vægast sagt sláandi. Ég hefði kippst við sjálf. Það er sjálfsagt að kjörnir fulltrúar sinni eftirlitshlutverki og veiti stjórnsýslunni aðhald en mikilvægt er að þeir blandi sér ekki inn í einstök starfsmannamál eða geri þau að umtalsefni á opinberum vettvangi.“
Dómurinn snerist sem sagt um ógildingu áminningar sem var veitt vorið 2017. „Ákvörðunin um áminningu var tekin af mér í samráði við tvo lögmenn og staðfest af borgarritara. Það er því fráleitt að tengja ákvörðunina við einhvers konar óvild, andúð eða jafnvel einelti af minni hálfu í garð þess sem var áminntur.“
Aftur á móti tókst ekki að færa rök fyrir því að þetta hefði verið efnislega rétt ákvörðun. „Dómari komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði tekist að sýna fram á að tilefni hafi verið til áminningar. Og þar við situr.“
Fannst hún ekki geta varið sig
Bendir hún á að í dómnum hafi komið fram að líta mætti á framkomu hennar sem lítilsvirðingu við starfsmanninn, sem hafi verið töluvert eldri en hún og með yfir 35 ára reynslu af fjármálatengdum störfum. Hann hafi gegnt stöðu fjármálastjóra ráðhússins í rúm 10 ár og starfað þar tvöfalt lengur en skrifstofustjórinn. „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna,“ segir í dómnum.
Helga Björg segir óskiljanlegt að dómarinn hafi í kjölfar „þessara skrautlegu lýsinga“ á stjórnunarháttum hennar og framkomu við fjármálastjórann komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi verið hæf til að taka ákvörðun um áminningu. „Hvernig kemur það heim og saman? Af hverju er dómarinn að segja þetta í kafla þar sem hún fellst ekki á að ég sé vanhæf vegna óvildar í garð starfsmannsins?“ spyr hún en hún telur þessi orð dómarans afvegaleiða niðurstöðuna.
„Þessi þáttur dómsins er hvað erfiðastur. Ég upplifði mig dæmda, óbeint, fyrir eitthvað sem ég hafði enga möguleika til að verja mig fyrir. Ég var ekki viðstödd þegar stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og vissi því ekki hvaða ásakanir hann hafði sett fram í minn garð og því gat ég ekki varist þegar ég gaf skýrslu. Ég var ekki aðili máls og gat því ekki áfrýjað niðurstöðunni. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að þetta gæti gerst. Að réttarkerfið gæti farið svona með fólk. Og þetta er það sem situr líklegast mest í mér en mér fannst kerfið þarna hafa brugðist,“ segir hún.
Sá fyrir sér að þurfa að vinna sér inn traust á ný
Sá Helga Björg alltaf fyrir sér, eftir að dómurinn féll, að hún þyrfti að vinna sér inn traust aftur. Bendir hún á að þeir borgarfulltrúar sem fyrir voru hafi þekkt hana og vitað hvernig stjórnandi hún var en þeir sem komu inn nýir á þessum tíma hafi auðvitað verið með aðeins aðra mynd af því sem hafði gerst.
„Nýja fólkið þekkti mig ekki og því eðlilegt að þau hafi þurft að kynnast mér. Ég gerði ráð fyrir að þurfa að vinna mér inn traust þeirra. Það reyndist flóknara en mig hafði getað grunað því nokkrir borgarfulltrúar minnihlutans settu tóninn um það sem koma skyldi og blönduðu sér af fullum þunga inn í málið, meðal annars með tillögum um breytingar á ráðningarsambandi mínu við borgina.“ Telur hún það ekki vera hlutverk kjörinna fulltrúa að skipta sér af starfsmannamálum með beinum hætti og vísar hún í álit siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var veitt eftir að hún sendi inn kvörtun í ágúst sama ár.
„Þar kemur mjög skýrt fram að það verður að passa upp á þessi mörk,“ segir hún en í áliti siðanefndar frá desember 2018 kemur fram að kjörnir fulltrúar ættu ekki að stíga inn í einstaka starfsmannamál, því það sé á ábyrgð framkvæmdastjóra.
Kom algjörlega af fjöllum – Vissi ekki af fjölmiðlaumfjöllun
Helga Björg segist hafa setið undir ásökunum um einelti frá borgarfulltrúa Miðflokksins í tvö ár án þess að aðhafast neitt eða í raun svara. „Það eina sem ég geri er, eftir fjórar vikur af persónulegum árásum á mig og rangfærslum þrátt fyrir leiðréttingar í borgarráði, að senda inn erindi til forsætisnefndar.“ Í erindinu óskaði hún eftir því að forsætisnefnd tæki til skoðunar hvort ákvæði sveitarstjórnarlaga um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa og siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg hefðu verið brotin. Þetta vildi hún meina að hefði átt sér stað í umræðu þar sem borgarfulltrúar hefði haldið því fram að hún hefði lagt undirmann sinn í einelti með vísan í dóm héraðsdóms um áminningu sem þvert á móti hafnar því að um einelti hafi verið að ræða þó áminningin hefði verið ógilduð.
Nefndin vildi aftur á móti ekki taka afstöðu til þeirra álitaefna sem komu fram í erindi Helgu Bjargar en samþykkti hins vegar að beina því til siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að kanna hvaða sjónarmið kynnu að gilda í tilfellum sem þessum, þegar kjörnir fulltrúar gera störf starfsmanna sveitarfélaga að umtalsefni opinberlega. Eins samþykkti forsætisnefnd að leita eftir leiðsögn siðanefndarinnar um hvernig rétt væri að haga umgjörð þeirra mála þegar starfsmenn sveitarfélaga telja kjörna fulltrúa brjóta siðareglur með framferði sínu eða öfugt.
Erindið var í kjölfarið til umfjöllunar í fjölmiðlum en Helga Björg segist alls ekki hafa viljað það. „Þetta var persónulegt og erfitt erindi. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur haldið því fram að ég hafi birt það sjálf. Ég kom aftur á móti algjörlega af fjöllum, fékk bara símtal að það væri bréf frá mér í fjölmiðlum sem kom mér á óvart enda kom svo í ljós að erindið hafði verið birt á fundarvefnum fyrir mistök. Ég gat svo sem átt von á því að það færi í umfjöllun þegar fundurinn hefði verið haldinn en ég hreinlega áttaði mig ekki á því að bréfið yrði birt fyrr.
En þetta er dæmigert fyrir meðhöndlun borgarfulltrúans á staðreyndum, hún hélt því til að mynda fram að ég skuldaði henni opinbera afsökunarbeiðni vegna tölvupósts sem borgarritari sendi henni og ég kom ekki nálægt. Það er mjög flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér.“
Rangfærslur og ósannindi fóru undantekningarlaust í fjölmiðla
Helga Björg lagði fram eineltiskvörtun eftir að hún sendi erindi til forsætisnefndar. Siðanefnd sambandsins sendi frá sér álit í desember 2018, meðal annars með leiðbeiningum til forsætisnefndar og fékk Helga Björg jafnframt að vita að réttur farvegur fyrir slíkar kvartanir væri að leita til yfirmanna en ekki forsætisnefndar. „Ég sendi þar af leiðandi endurtekið erindi út af siðareglubroti og nýja eineltiskvörtun vorið 2019. Þessi erindi voru það eina sem ég aðhafðist í þessu máli þangað til síðasta sumar þegar ég setti inn stöðuuppfærslu á Facebook um málið.“
Í færslunni fjallaði hún í fyrsta skiptið opinberlega um reynslu sína og það sem hún þurfti að upplifa af hendi Vigdísar.
Hafið þið einhvern tímann sest niður tvær til að reyna að leysa málin?
„Nei. Ég taldi mig ekki eiga að hafa frumkvæði að slíku og fannst mjög flókið að gera það í ljósi þess hvað mér fannst Vigdís óvægin. Ég hefði samt alveg verið tilbúin til þess ef það hefði verið lagt upp með eitthvað slíkt. En ég get ekki ímyndað mér að það hefði haft einhverja þýðingu,“ segir hún.
Helga Björg kvartaði fyrst undan stöðugu áreiti og ofsóknum – en á sínum tíma kallaði hún það ekki einelti. „Það voru rangfærslur og ósannindi um mig á hennar Facebook-síðu sem fóru undantekningarlaust í fjölmiðla. Hún fylgdi því eftir með viðtölum þar sem hún hélt áfram ósannindunum. Það er það sem ég var að kvarta yfir. Ég átti ekki í neinum samskiptum við hana, þannig að ég var í rauninni ekki að kvarta yfir einelti í návígi – heldur taldi ég hana vera að brjóta siðareglur. Ég óskaði í rauninni eftir að það yrði tekið til skoðunar hvort hún væri að brjóta ákvæði sveitastjórnarlaga eða siðareglna með því að fara yfir þessi mörk.“
Mikil vonbrigði að eineltiskvörtunin hafi ekki verið afgreidd
Álitið frá sambandinu sem kom í desember 2018 var mjög leiðbeinandi fyrir stjórnsýsluna, að mati Helgu Bjargar. „Á því byggði bráðabyrgðaverkferill um samskipti kjörinna fulltrúa og starfsmanna og fór ég eftir honum þegar ég setti fram eineltiskvörtunina. Þannig að ég var að reyna að fara eftir leikreglum og óskaði ég eftir leiðsögn, enda vissi ég ekki hvað ég átti að gera. Það voru engir ferlar um svona. En eineltiskvörtunin tók langan tíma í vinnslu, sem var mjög erfitt – en vegna þess að borgarfulltrúinn neitaði þátttöku þá var ekki hægt að rannsaka málið. Það var því afgreitt út af borðinu. Það voru líka rosaleg vonbrigði vegna þess að ég var ekki kvarta undan samskiptum mínum við hana í návígi. Ég var að kvarta yfir opinberum ummælum á Facebook í fjölmiðlum og í ráðum og nefndum á vegum borgarinnar og ég sá ekki af hverju ekki væri hægt að rannsaka það.“
Helga Björg segir að líklegast hafi einhver hræðsla og varkárni verið þar að baki. Segist hún skilja það að einhverju leyti. „En með því að taka þetta ekki fyrir þá var borgarfulltrúinn með frítt spil. Það sem hún gerði var að taka til dæmis eineltiskvörtunina mína og birta á internetinu. Kvörtunin var trúnaðarmerkt með persónulegum upplýsingum um mig – og ákvað hún að birta þetta allt saman.“
Segist hún hafa velt fyrir sér að senda inn kvörtun til persónuverndar en ekki hafa viljað „bjóða henni upp í dans“ með því að aðhafast meira í málinu að sinni. „Það er líka svo vont að hafa þurft að gera þetta sjálf. Það hefði verið allt annað ef kerfið hefði gripið inn í því þá hefði mín persóna ekki alltaf verið í forgrunni. Það er mjög lamandi og þess vegna þurfti ég að velja slagina.“
Siðaráð Dómarafélags Íslands sá ástæðu til að bregðast við
Eins og áður segir var Helga Björg ekki sátt við ákveðið orðalag í fyrrnefndum dómi og leitaði hún til siðaráðs Dómarafélags Íslands í kjölfarið. Henni fannst hún hafa verið dæmd án þess að geta í raun brugðist við og orðalagið byggt á framburði stefnanda en ekki gögnum. „Ég hef farið í gegnum öll þau gögn sem vörðuðu samskipti okkar í tengslum við dómsmálið og þar er ekki að finna stafkrók sem réttlætir lýsingar dómarans.“ Segist hún því hafa verið mjög þakklát fyrir að kvörtun hennar hafi verið tekin fyrir.
Álit siðaráðsins kom í febrúar 2020 en í því segir að í úrlausnum sínum kunni dómarar að þurfa að taka afstöðu til staðhæfinga um misbresti í fari nafngreindra aðila. Úrvinnsla á slíkum atriðum byggist ætíð á gögnum máls og framburðum aðila og vitna fyrir dómi. „Gæta ber hófsemi og sýna öllum sem koma við sögu fulla virðingu. Ekki er viðeigandi að í forsendum dóma sé hæðst að mönnum eða málefnum eða gert lítið úr þeim. Sömu hófsemi og virðingar ber að gæta í umfjöllun um sönnunargögn sem færð eru fram og málsástæður sem aðilar máls byggja á,“ segir í álitinu.
„Þetta álit er mér mjög mikilvægt. Siðaráðið telur þarna ástæðu til að bregðast við og árétta við dómara að þeir til dæmis gæti hófsemi og virðingar.“
Snillingur í að afbaka sannleikann
Álitið var ekki birt opinberlega og ákvað Helga Björg því að gera grein fyrir því. „Það kom mér á óvart að dómarafélagið birti ekki álitið á heimasíðu sinni af einhverjum ástæðum þó siðareglur dómara kveði á um það og fann ég mig því knúna til að fjalla um það sjálf á Facebook-síðu minni. Skömmu síðar var umfjöllun um álit siðaráðsins á vettvangi borgarráðs þar sem borgarfulltrúi Miðflokksins hélt því fram í bókun að niðurstaða siðaráðsins hefði verið mér í óhag. Hún er náttúrulega snillingur í að afbaka sannleikann. Ég leiðrétti því þessar rangfærslur borgarfulltrúans á Facebook-síðu minni.
En eftir situr að það er óskiljanlegt að kjörinn fulltrúi geti nýtt sér fundi í ráðum borgarinnar til að setja fram slíkar staðleysur um nafngreinda einstaklinga og leiðir til þess að við sem fyrir því verðum eigum ekki annarra kosta völ en að bregðast við.“
Hélt Helga Björg að þarna væri búið að útkljá þessi mál en svo var ekki. Hún tók þá ákvörðun að skrifa aðra stöðuuppfærslu núna í byrjun júní þar sem hún greinir frá því að hún ætli að skipta um starfsvettvang innan Reykjavíkurborgar. „Ég áttaði mig á því að ef ég myndi ekki greina sjálf frá því að ég væri að skipta um starf þá myndi líklega koma Facebook-færsla eða bókun um það frá henni að ég hefði verið rekin. Sem er náttúrulega ekki það sem gerðist. Svo ég ákvað að fara fram fyrir það og segja frá því.“
Niðurstöðum úttektar á starfsumhverfi í borgarráði
Segir Vigdísi hafa nýtt sér valdamuninn á þeim
Iðulega þegar fjallað er um málið í fjölmiðlum er talað um „deilur“ eða „samskiptavanda“ Helgu Bjargar og Vigdísar en hin fyrrnefnda er alls ekki sátt við að talað sé um málið þannig – og segir hún slíka orðanotkun vera gerendameðvirka.
Hvernig upplifir þú þessa gerendameðvirkni?
„Ég upplifi fjölmiðla í þessu máli eins og það séu tveir jafnir aðilar að deila. Og eins að við séum pólitískir andstæðingar. Ég er aftur á móti starfsmaður sem þarf að fara að leikreglum. Málið varðar starfsmannamál í grunninn sem takmarkar möguleika mína á að tjá mig. Það er eitt. Hitt er að ég taldi mig ekki geta rökrætt við kjörna fulltrúa á opinberum vettvangi þar sem ég þarf að geta unnið með fulltrúum allra flokka og það að taka þátt í opinberum deilum við borgarfulltrúa getur takmarkað möguleika mína á að sinna starfsskyldum mínum,“ segir Helga Björg.
Þannig nýti Vigdís sér þennan valdamismun sem sé á þeim. „Hann er gígantískur – í ljósi efnisins og stöðunnar. Fjölmiðlaumfjöllunin hefur verið svo blind á þessa stöðu.“
Segist hún hafa uppgötvað þetta einn eftirmiðdag þegar hún frétti að fjalla ætti um málið í Kastljósi seinna um kvöldið. „Þá heyrði ég að í þættinum ætti að ræða eineltiskvörtun mína við Vigdísi Hauksdóttur og Pawel Bartoszek forseta borgarstjórnar. Ég hefði ekki hugmynd um þetta. En þá rann upp fyrir mér að fjölmiðlar skilgreindu mig með valdinu. Pawel var bara fyrir mig í settinu og Vigdís fékk að tala um þetta eins og ég væri ekki partur af jöfnunni. Ég hafði aldrei talað við Pawel um þetta mál – ég hafði aldrei talað við þetta fólk um málið. Ég var alveg ein og ekki partur af þessu valdi.“
Mjög gaslýsandi staða
Helgu Björgu finnst einkennilegt að fá ekki að hafa skoðun á því þegar fjallað er um hana í fjölmiðlum, nema í undantekningartilvikum þegar hringt hefur verið í hana.
„Framan af var aldrei hringt í mig, enginn hafði samband. Rosalega skrítið. Mér finnst líka einkennileg þessi þörf til að stilla okkur upp sem jafningjum. Ég vildi óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum. Það er mikilvægt að gæta að því að við erum með mismunandi stöðu til að tjá okkur og bregðast við,“ segir Helga Björg.
„Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur verið með skilgreiningarvald yfir mjög stórum hluta míns lífs síðustu þrjú árin. Það er sérstök staða. Meira að segja þegar ég hef sent inn leiðréttingar á miðlana þá hefur lítið verið tekið tillit til þess. Ég hef ekki einu sinni fengið svör frá flestum. Það er auðvelt að efast um dómgreind sína þegar viðbrögðin við því sem ég upplifi sem áreiti, einelti, ofsóknir og jafnvel ofbeldi eru þöggun og fálæti. Ég spurði mig stundum hvort það væri ég sem væri í ruglinu, að þetta hafi jafnvel verið bara eðlileg vinnubrögð en sem betur fer þá á ég bestu vinkonur í veröldinni sem hafa verið óþreytandi við að minna mig á að svo er auðvitað ekki.“
Ég vildi óska þess að það væri meiri skilningur hjá fjölmiðlum á valdatengslum og á stöðu fólks í umfjöllunum.
Hvernig hefðir þú viljað að kerfið hefði tekist á við þetta mál?
„Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og það eru nokkur atriði. Ég hefði auðvitað kosið að málinu hefði verið áfrýjað. Þá hefði verið heppilegt að láta gera úttekt á stjórnunarháttum mínum í ljósi orða dómarans. Með því hefði orðið til einhver grundvöllur til ræða málið á lausnamiðuðum nótum. Ég fékk þau svör að ekki hefði verið talið tilefni til að gera slíka úttekt byggt á starfsánægjukönnnum og öðrum gögnum. Fyrst svo var þá hefði að mínu mati mátt miðla þeirri afstöðu út á við til að varpa öðru ljósi á málið.“
Helga Björg er þeirrar skoðunar að tilefni hefði verið til að rannsaka kvartanir hennar um einelti þrátt fyrir að borgarfulltrúinn hafnaði þátttöku því málið allt hefði byggt á opinberri umfjöllun borgarfulltrúans um hana. „Það er auðvitað umhugsunarvert, svona almennt, ef meintir gerendur geta komið í veg fyrir rannsókn með því að hafna þátttöku, og leiðir hugann að því hvort kerfið ráði við það er upp koma til dæmis kvartanir um kynferðislega áreitni af hálfu borgarfulltrúa.“
Hún vill enn fremur sjá siðareglur sveitarfélaga virka. „Að það væru einhver úrræði þegar borgarfulltrúar haga sér með einhverjum hætti og virða ekki þessi mörk. Þá hefði líka verið hægt að virkja siðanefnd til að fjalla um erindi mitt um brot á siðareglum.“ Mikilvægt sé að fá niðurstöðu í mál sem þessi, svo hægt sé að takast á við vandamálin og halda áfram.
„Þá er ég þeirrar skoðunar að forsætisnefnd hefði mátt taka það fastari tökum á vettvangi kjörinna fulltrúa þegar borgarfulltrúi nýtir ráð og nefndir til að veitast að nafngreindu starfsfólki. Ekki síst þegar slíkt á sér stað á opnum fundum borgarstjórnar.“
Bjó við mikla áfallastreitu
Haustið 2018 fékk Helga Björg leyfi til að sinna öðrum störfum og í níu mánuði leysti hún af aðstoðarmann Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. „Það var ofboðslega gott að geta stigið út úr þessum erfiðu aðstæðum en ég var eiginlega orðin örmagna. Ég var hrædd og þreytt en ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því fyrr en eftir á. Ég átti erfitt með að skilja almennilega hvað hafði gerst og hvernig ég gæti unnið mig út úr því. Vinkona mín sem fylgdist vel með málinu hvatti mig til að hitta Gyðu Margréti Pétursdóttur, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, og ræða við hana. Eftir klukkutíma samtal opnuðust augu mín fyrir nýjum vinklum á málinu,“ segir hún og í framhaldinu skráði hún sig í nám í kynjafræði.
„Í framhaldi af samtalinu sendi Gyða mér nokkrar greinar til að lesa í samhengi við þessa reynslu mína. Þar á meðal grein heimspekingsins Kate Mann um „himpathy“ eða „hannúð“ sem ég tengdi sterkt við og ég setti í samhengi við reynslu mína af dómnum þar sem ég er þeirrar skoðunar að samúð dómarans með karli hafi mögulega gert það að verkum að hann byggði afstöðu sína til málsins á vitnisburði aðila máls meira en eðilegt er. Ég get auðvitað ekki fullyrt það en þannig blasir það við mér.“
Hún var í náminu meðfram vinnu næsta árið og segir Helga Björg að það hafi verið eins og sálfræðimeðferð. „Námið var leið til að skilja þetta allt saman – og átta mig á því að þetta snerist mikið minna um mig og meira um kerfi og kerfisvanda. Það var góð tilfinning. Ég sá að ég var partur af kerfi sem kunni ekki að takast á við svona. Það var gott og valdeflandi.“
Vigdís „stjórnlaus“ á fundi
Þegar Helga Björg kom tilbaka haustið 2019 eftir að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra kom hún í fyrstu hægt inn.
„Síðan þurfti ég að taka þetta föstum tökum og mæta með mín mál inn í borgarráð. Í fyrsta sinn kom ég inn á fundinn með starfsmanni skrifstofunnar sem hélt kynninguna. Þegar kynningin var búin fór borgarfulltrúi Miðflokksins fram á að ég yrði fjarlægð af fundinum. Hún varð mjög æst og heimtaði að ég yrði rekin út af fundinum. Hún stóð upp, strunsaði fram og til baka og starði stöðugt á mig með frekar illu augnarráði. Hún virkaði eiginlega bara alveg stjórnlaus. Þetta var mjög óþægilegt og fólk var farið að færa sig til að vera á milli okkar í sjónlínu. Það var hávaði í henni og hún strunsaði út og skellti hurð. Þetta var bara alveg hrikalegt.“
Segist hún hafa hugsað með sér þegar á þessu stóð að hún mætti ekki brotna saman. „Mér brá svo svakalega. Ég hafði ekki haft hugmyndaflug í að svona gæti gerst þrátt fyrir allt sem á undan var gengið. Þegar ég kom út af fundinum fann ég hvernig ég byrjaði að missa máttinn. Þetta tók í og ég þurfti að fara heim og jafna mig.“
Hún virkaði eiginlega bara alveg stjórnlaus. Þetta var mjög óþægilegt og fólk var farið að færa sig til að vera á milli okkar í sjónlínu. Það var hávaði í henni og hún strunsaði út og skellti hurð. Þetta var bara alveg hrikalegt.
Var mjög lasin á tímabili
Helga Björg segir að hún hafi þó verið fljótari að ná sér eftir þetta atvik en hún bjóst við og var hún mætt til vinnu tveimur dögum síðar. „En næsti fundur var enn verri. Þá varð Vigdís háværari og krafðist þess að formaður borgarráðs „henti“ mér út af fundinum annars myndi hún gera það sjálf. Hún gerði sig í rauninni líklega til þess en var stöðvuð. Hún ætlaði að draga mig út af fundinum. Þetta var ömurlegt.“
Segir hún að þessar uppákomur hafi haft mikil áhrif á líðan hennar og vissi hún ekki hvernig hún ætti að bregðast við þar sem trúnaður ríkir um það sem gerist á lokuðum fundum borgarráðs. „Hálfpartinn batt ég vonir við að kjörnir fulltrúar myndu bregðast við. Mér er annt um að rækta skyldur mínar og gæta ítrasta trúnaðar, og það mun ég gera hér eftir sem hingað til. Ég get samt ekki annað en sagt frá þessu hér, enda getur markmið trúnaðarins ekki verið að þagga ofbeldisfulla hegðun. Sagan hefur sýnt okkur að þögnin er versti óvinur ofbeldis.“
COVID-19 faraldurinn skall síðan á með þunga í mars 2020 og hættu þá staðfundir í ráðhúsinu. Helga Björg segir að margir hafi orðið því fegnir. „Þá sneri borgarfulltrúinn alltaf baki í mig og bókaði á hverjum einasta fundi eitthvað rugl um mig. Ég reyndi að harka þetta af mér og ég hugsaði með mér að hún gæti ekki hagað sér svona að eilífu,“ segir hún og bætir því við að hún hafi ekki verið sú eina sem hafi orðið fyrir áreiti frá Vigdísi. En mest hafi þetta beinst að henni.
Eftir sumarfrí 2020 þá segir Helga Björg að hún hafi frestað því ítrekað að koma aftur til starfa. „Ég fór í stutt veikindaleyfi vegna þess að ég var hætt að sofa og orðin langþreytt á því að eiga stöðugt yfir höfði mér ofsóknir þessarar konu og var eiginlega bara sárlasin og treysti mér ekki til baka í vinnu. Ég ákvað því að sækja um námsleyfi samhliða vinnu að jafnlaunamálum.“ Nú er hún sem áður segir komin með nýjar skyldur hjá Reykjavíkurborg og segist hún hafa óskað eftir þessum flutningi vegna framkomu Vigdísar. Þó sé hún einnig spennt fyrir því að takast á við önnur verkefni og finnst henni frábært að fá tækifæri til að vinna að því að útrýma launamun kynjanna hjá borginni.
„Lífið er bara miklu betra þegar ég er ekki stöðugt að fást við ofsóknir af hálfu Vigdísar Hauksdóttur. Það er bara þannig.“
Þá sneri borgarfulltrúinn alltaf baki í mig og bókaði á hverjum einasta fundi eitthvað rugl um mig. Ég reyndi að harka þetta af mér og ég hugsaði með mér að hún gæti ekki hagað sér svona að eilífu.
Hvernig líður þér núna eftir þessa ákvörðun, að söðla um og breyta til?
„Mér líður bara mjög vel, en auðvitað er streita í mér. Ég veit ekkert hvað kemur næst. Ég geri mér enga grein fyrir því hvort þetta sé búið og ég á alltaf von á einhverju þó ég voni nú að þessu fari að linna. En ég tók þá ákvörðun að hér eftir mun ég svara fyrir mig ef mér finnst ég þurfa. Það hefur ekki virkað vel fyrir mig að sitja þegjandi undir ruglinu og ég er búin að fá nóg af því og það hefur ekki hjálpað mér,“ segir Helga Björg. „Ef eitthvað er afvegaleitt þá bara kem ég með hina hliðina. Það er eina leiðin.“
Tvö ár liðu áður en hún ákvað að svara og láta rödd sína heyrast í sínum eigin málum opinberlega og segist hún hafa fundið þegar hún tók ákvörðun um að tala að henni hafi liðið betur. „Að fá að verja sig og koma fram með sín sjónarmið. Það er eitthvað við það – styrkjandi.“
Fann fyrir skömm – en ekki lengur
Það tók Helgu Björgu tíma að venjast því að almenningsálitið á henni væri slæmt, að talað væri um hana sem hálfgert skrímsli. „Það var auðvitað ömurlegt fyrir börnin mín og fólkið sem stendur mér næst og þykir vænt um mig að horfa upp á þetta. En þetta truflar mig ekki lengur og fjölskyldan er komin með skráp líka. En þetta var mjög erfitt fyrst. Ég fann fyrir skömm og vanmætti en það er ekki lengur vandamál.“
Er einhvern lærdóm hægt að draga af þessu öllu saman?
„Já, ég vona það. Ég vona að þessi skýrsla sem liggur fyrir skili sér í einhverjum aðgerðum. Svo vona ég líka að við verðum gagnrýnni á það þegar kjörnir fulltrúar fara svona í starfsfólk. Að gripið verði til aðgerða á vettvangi stjórnmálanna og að stéttarfélögin skoði þessi mál enda varða þau starfsumhverfi starfsfólks.“
Sem stjórnandi er Helga Björg ekki í neinu stéttarfélagi sem gerir það að verkum að hún stóð ein í gegnum þetta allt saman. Þar sem málið er flókið hefur hún þurft að leita lögfræðiaðstoðar sem hún hefur staðið straum af sjálf. Hún segir að því fylgi mikið óöryggi að vera ekki í stéttarfélagi og hvetur stjórnendur sem eru utan stéttarfélaga til að sækjast eftir réttindum til að vera í stéttarfélagi.
„Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur náð ágætis tökum á þeirri aðferðafræði að setja fram staðlausar fullyrðingar og endurtaka þær nógu oft til að ljá þeim sannleiksáru. Sú nálgun minnir óneitanlega á aðferðir kollega hennar úti í heimi þar sem öllum brögðum er beitt í þeim pólitíska tilgangi að skapa vantraust og grafa undan stjórnkerfum,“ segir hún.
Mikilvægt sé að horfa á nálgun stjórnmálafólks sem beitir þessari aðferðafræði í gagnrýnu ljósi hér á landi sem annars staðar og enn mikilvægara að fréttaflutningur sé vandaður og byggi á staðreyndum. „Annars er hætt við að það skapist svigrúm til að flæma fólk úr starfi í pólitískum tilgangi sem grefur undan því að opinberar stofnanir geti sinnt sínum verkefnum og veikir að lokum lýðræðið,“ segir hún.
Lesa meira
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
1. desember 2022Sá hluti Reykjavíkurborgar sem rekinn er fyrir skattfé tapaði 11,1 milljarði á níu mánuðum
-
18. október 2022„Fullkomið ábyrgðarleysi“ af ríkinu að fylla ekki upp í fjármögnunargat sveitarfélaga
-
19. september 2022Í maí var stefnt að því þjóðarhöll yrði risin 2025 – Í september er búið að fresta henni
-
13. september 2022Sigurður Ingi: Ekki unnt að fallast á fyrirhugaða byggð í Skerjafirði að óbreyttu
-
5. september 2022Virði íbúða Félagsbústaða hefur aukist um rúmlega 20 milljarða á sex mánuðum
-
1. september 2022Tap á A-hluta Reykjavíkur 8,9 milljarðar á fyrri hluta árs – Miklu meira tap en ætlað var
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
27. júlí 2022Telja að Alliance-húsið og byggingarréttur séu öllu meira en 650 milljóna virði
-
8. júní 2022Dagur ógnar