Litla Ísland ekki svo saklaust lengur
Kynþáttafordómar eru hluti af íslensku samfélagi, svo nokkuð er ljóst, að mati Kristínar Loftsdóttur mannfræðings. Kynþáttamörkun á Íslandi hefur ekki verið sérstaklega rannsökuð en Kristín telur að það sé tímabært. „Við verðum að skoða á gagnrýnan hátt hvernig fordómar eru kerfislægir í samfélaginu okkar í dag.“
Það þyrmdi yfir mig, mér fannst fyrirsjáanlegt að þetta myndi enda illa af því að rasismi er jú staðreynd í okkar samfélagi,“ segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Kjarnann.
Atvikið sem hún vísar til er þegar lögregla lýsti eftir tvítugum manni sem strauk úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í apríl. Leit stóð yfir af honum í nokkra daga og hafði lögregla í tvígang, á jafn mörgum dögum, afskipti af 16 ára gömlum dreng, vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufanginn. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi.
Kristín varð vör við tilkynningu lögreglu eins og aðrir þar sem lýst var eftir strokufanganum. „En það þyrmdi líka yfir mig af því að þarna var mjög ungur einstaklingur sem var eftirlýstur á þennan hátt. Mér fannst þetta mjög furðuleg leið til að hafa uppi á kornungum strák, fyrir mér er hann mjög ungur, hann er að stíga sín fyrstu skref sem fullorðin manneskja,“ segir Kristín, sem var brugðið við að sjá tilkynningu lögreglu og segir hún að, því miður, hafi atburðirnir í kjölfarið að sumu leyti ekki komið á óvart.
Lögregla hafði fyrst afskipti af 16 ára drengnum í strætó og daginn eftir í bakaríi. Móðir drengsins var með honum í seinna skiptið og sagði hún í samtali við Kjarnann að atvikið hefði verið niðurlægjandi og að ekki væri um neitt annað að ræða en fordóma. Drengurinn var sjálfur með ósk sem hann vildi koma á framfæri eftir að lögregla hafði ítrekuð afskipti af honum. „Ég væri til í að geta stigið út úr mínu eigin húsi og vera með vinum mínum án þess að lögreglan stoppi mig fyrir það hvernig ég lít út.“
Margt hér ekki ólíkt því sem gerist í nágrannaríkjunum
Í kjölfarið spratt upp umræða, meðal annars á samfélagsmiðlum, þar sem margir fordæmdu vinnubrögð lögreglunnar og lýstu yfir vanþóknun. Kristín segir að fyrir marga hafi það verið ákveðið áfall að svona nokkuð geti gerst á Íslandi. „Það eina sem er jákvætt er að þetta vakti upp umræðu og vitund margra á því að það er margt neikvætt hér í gangi sem er ekki ólíkt nágrannaríkjum okkar,“ segir Kristín.
Rannsóknir hennar hafa meðal annars beinst að fordómum, nýlenduhyggju og hugmyndum um hvítleika. Rannsóknir hennar á Íslandi hafa undirstrikað mikilvægi þess að skoða samtímann í samhengi við sögu kynþáttafordóma og hvernig þeir eru endurskapaðir í samtímanum. Þá hafa rannsóknir Kristínar og nemanda hennar síðustu ár sýnt að Íslendingar sem eru dökkir á hörund eða eru af erlendum uppruna eiga erfitt með að vera samþykkt sem Íslendingar á sömu forsendum og aðrir Íslendingar.
„Ég hef verið lengi að skoða ýmis málefni sem tengjast kynþáttafordómum og eitt af því sem hefur einkennt umræðu á Íslandi mjög lengi er þessi sýn að þetta sé eitthvað sem komi okkur ekki sérstaklega við af því að við áttum ekki nýlendur, við tókum ekki þátt, við vorum að mótmæla ýmsum fordómum annars staðar, að þá komi þessi umræða að ákveðnu leyti okkur ekkert við og eitthvað sem séu kynþáttafordómar annars staðar séu það ekki hérna.“
Skoða þarf afskipti lögreglu af drengnum í stærra samhengi
Að mati Kristínar sýna atburðir síðustu vikna að staðan sé önnur. Fjölbreytileiki íslensks samfélags er að aukast og kallar það á breytt viðhorf. „Ég held að þessi sýn á saklausa litla Ísland hafi verið að breytast á síðastliðnum árum, það er ekki bara að fordómarnir séu til staðar af því að við höfum aukinn fjölda fólks, bæði af erlendum uppruna en líka Íslendinga sem eru dekkri heldur en meirihlutinn. Það sem hefur breyst er einnig ákveðin meðvitund um að fordómar hafi líka verið hér á Íslandi áður fyrr.“
Afskipti lögreglu af drengnum í apríl þarf að skoða í stærra samhengi að mati Kristínar, til að mynda í samhengi við pólitískar sviptingar og uppgang popúlistaflokka á síðastliðnum árum. Þá nefnir hún einnig atburði í Bandaríkjunum líkt og morðið á George Floyd í lok maí 2020, þegar lögreglumaður hélt hné sínu að hálsi hans í 8 mínútur og 46 sekúndur. Morðið var dropinn sem fyllti mælinn hjá hópi fólks og gaf „Black Lives Matter“-hreyfingunni byr undir báða vængi.
Ákall um að skoða kerfislæga fordóma
„Ég held að það sé gott að tengja þetta við umræðu sem hefur átt stað í miklu víðara samhengi en hér á Íslandi í kjölfar morðsins á Floyd, sem er ákall um að skoða þessa kerfislægu fordóma,“ segir Kristín. Hugmyndir um hvítt forræði (e. white supremacy) er meðal þess sem þarf að skoða í þessu samhengi að hennar mati, hugmyndir sem byggja á því að það að vera hvítur sé betra en að vera einhvern veginn öðruvísi.
„Ég held einmitt að þessar hugmyndir snúast ekki bara um sýn ákveðinna einstaklinga á að það að vera hvítur sé betra, heldur snýst þetta líka um að líta þannig á að hvítur sé normið í samfélögunum. Þetta er gömul umræða að því leyti að það hefur lengi verið bent á hvernig þessi umræða um aðra kynþætti gengur út á að hvítur sé það sem er náttúrulegt og eðlilegt. Hér á Íslandi held ég að þessi tenging á milli þess að vera Íslendingur og hvítur hafa ekki minnkað á síðustu árum.“
„En líka, við verðum að skoða á gagnrýnan hátt hvernig fordómar eru kerfislægir í samfélaginu okkar í dag,“ segir Kristín.
„Kynþáttamörkun“ mikilvægt íslenskt hugtak um ákveðið form kynþáttafordóma
Umræða um kynþáttamörkun, sem útleggst sem „racial profiling“ á ensku, hefur verið áberandi eftir atburðina í apríl. Kynþáttamörkun er þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunum gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húðlitar frekar en sönnunargagna.
Kristín segir mikilvægt að eiga hugtak á íslensku sem nær utan um þetta form kynþáttafordóma og er hlynnt hugtakinu kynþáttamörkun, sem hópur fræðafólks og aktívista hafa lagt til. „Það er mikilvægt að hugsa um þetta sem hluta af kynþáttahyggju í stærra samhengi þar sem ákveðnir líkamar eru taldir eðlilegri, eða saklausari, heldur en aðrir,“ segir Kristín.
Kynþáttamörkun snýst ekki alltaf um að einstaklingar ætli sér að mismuna og getur því bæði verið um meðvitaða og ómeðvitaða fordóma að ræða. „Ég held að það sé svo mikilvægt að við í þessu samfélagi horfumst í augu við að kynþáttafordómar eru hluti af samfélaginu sem við búum í, þeir eru hluti af heiminum sem við búum í. Ef við horfumst í augu við það hefur það auðvitað áhrif á hvaða aðgerðir þykja eðlilegar og æskilegar. Eins og í þessu tilviki þegar verið er að lýsa eftir einstaklingi er mikilvægt að staldra við og velta fyrir sér hvað þetta þýðir í samfélagi þar sem rasismi er ennþá þáttur í tengslum milli ólíkra hópa,“ segir Kristín.
Kynþáttamörkun hefur ekki verið rannsökuð sérstaklega á Íslandi og segir Kristín svo sannarlega tíma vera kominn til þess. „En það eru samt, sem betur fer, fleiri farnir að skoða kynþáttafordóma í íslensku samfélagi og ég held einmitt að þetta atvik verði til þess að þessi umræða verði meira í kastljósinu, bæði í fræðasamfélaginu og hjá almenningi.“
„Hlýtur eitthvað að vera bogið við hvernig hlutirnir eru gerðir þegar útkoman er þessi“
Kristín telur það mjög mikilvægt að lögregla skoði atburðina í apríl ofan í kjölinn. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sat fyrir svörum á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í síðasta mánuði vegna málsins. Þar fullyrti hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða.
„Að hvaða leyti er ekki um það að ræða og af hverju er útkoman þessi? Það hlýtur eitthvað að vera bogið við hvernig hlutirnir eru gerðir þegar útkoman er þessi, alveg sama hvert markmiðið er,“ segir Kristín, sem telur mikilvægt að lögreglan horfist í augu við atburðina í apríl.
„Auðvitað hlýtur að vera mikilvægt að velta fyrir sér hvernig er hægt að koma í veg fyrir að svona gerist aftur og af hverju var þessi leið farin? Er þetta leiðin sem er venjulega farin fyrir svipaða einstaklinga, svona unga, sem hafa gert svipaða hluti? Ég held að þetta þurfi að skoða vel og ég held að það sé mikilvægt að við horfumst í augu við að fordómar eru hluti af okkar samfélagi, og að spyrja hvernig ætlum í ljósi þess að tækla ákveðin vandamál og atriði svo að við séum ekki að byggja undir aukna kynþáttafordóma eða fordóma af öðru tagi.“
Mikilvægt að skoða kynþáttamörkun hér á landi
Breytingar verða að eiga sér stað, innan einstakra hluta samfélagsins, svo sem hjá lögreglu og fjölmiðlum, sem og innan samfélagsins alls. Þá bíða ýmis verkefni fræðasamfélagsins að mati Kristínar.
„Hvað varðar kynþáttamörkun sérstaklega þá er mikilvægt að skoða betur hvort hún hefur verið að eiga sér stað í íslensku samfélagi og þá hvernig. Kynþáttafordómar eru efni sem hefur verið svolítið á jaðrinum en það er að breytast núna og ég held að þetta sé eitthvað sem þarf að skoða með markvissum hætti. Hvernig þetta hefur verið og hvernig þetta er í samfélögum í dag. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé lagður þungi á að við skiljum betur hvað er í gangi, eins og hvað varðar lögreglu og samstarf við hana.“
Öndum að okkur fordómunum
Fyrsta skrefið er, að mati Kristínar, að horfast í augu við að það eru kynþáttafordómar á Íslandi. „Við öll sem búum hérna öndum þeim að okkur með margvíslegum hætti og ég held að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki eitthvað sem snýst bara um þig sem einstakling, hvort þú ert að meina eitthvað eða ekki,“ segir Kristín. Nefnir hún dæmi sem heyrast oft í íslenskri umræðu, til að mynda setningar á borð við: „Ég var nú ekkert að meina þetta þannig“.
Eitt af markmiðum Kristínar í störfum sínum hefur verið að gera fræðilega umræðu um kynþáttafordóma aðgengilegri. Fyrir tveimur árum kom út bók eftir hana, Kynþáttafordómar í stuttu máli, þar sem kynþáttahugmyndir eru teknar til skoðunar, og er hún hluti af ritröð á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. „Þessari ritröð er ætlað að koma rannsóknum fræðasamfélagsins á framfæri á aðgengilegan hátt,“ segir Kristín.
Kristín skrifaði bókina áður en morðið á George Floyd var framið en hún vonar að bókin varpi ljósi á umræðu sem tengist kynþáttafordómum fyrir fólk sem hefur áhuga á að kynna sér málin betur. „Mér finnst mikilvægt að það sé til eitthvað efni á íslensku sem er aðgengilegt og geti verið fyrsta skrefið að skoða þessa hluti nánar.“
Hræðilegir atburðir sem þó hafi leitt til jákvæðrar umræðu
Kristín segir að þó svo að kynþáttamörkun sé staðreynd í íslensku og alþjóðlegu samfélagi í dag og að hræðilegir atburðir hafi átt sér stað þá hafi þeir á sama tíma leitt til jákvæðrar þróunar í umræðu um kynþáttafordóma og það þurfi að nýta til breytinga.
„Þó að margir hræðilegir hlutir hafi gerst þá finnst mér ég sjá samt líka jákvæðar breytingar, eins og í kjölfar morðsins á George Floyd. Margir Íslendingar stigu fram og töluðu um sína reynslu af rasisma. Ég held að fyrir margt fólk var það áfall að lesa lýsingar á mjög grófum rasisma og öráreiti og hversu mikil áhrif það eðlilega hafi haft á líf þessara einstaklinga. Ég held að það hafi verið gífurlega sterkt.“
Fyrsta skrefið til að takast á við þær áskoranir sem standa frammi fyrir breyttri samsetningu íslensks samfélags er, að mati Kristínar, að viðurkenna að kynþáttafordómar eru hluti af íslensku samfélagi og því er nauðsynlegt að skoða á gagnrýnan hátt hvernig fordómar eru kerfislægir í samfélaginu í dag.
Lesa meira
-
22. nóvember 2022Spyr dómsmálaráðherra hvernig það getur verið lausn við afbrotahegðun að fara í stríð
-
12. nóvember 2022Opinberu flóðljósin sem blinda fjölmiðla
-
15. september 2022Mál 16 ára drengs enn hjá eftirlitsnefnd fimm mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
26. júní 2022Sænskir ráðherrar í læri hjá Dönum
-
22. júní 2022„Misskilningur“ olli því að mál 16 ára drengs rataði ekki til eftirlitsnefndar – fyrr en nú
-
20. júní 2022Ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið um bein afskipti að ræða
-
12. júní 2022Rasismi innan lögreglunnar eins og annars staðar í samfélaginu
-
5. júní 2022„Hann varð ofsalega hræddur þegar löggan kom“
-
4. júní 2022„Löggæsla á Suðurnesjum er ekki kynþáttamiðuð“