Prestur leystur tímabundið frá störfum vegna ásakana um kynferðisbrot – „Ég vil ekki sitja með þetta í hjartanu lengur“
Kona sem sakar prest um að hafa brotið á sér kynferðislega fyrir 10 árum gagnrýnir þjóðkirkjuna fyrir viðbrögð við ásökununum en hún hefur nú leitað til teymis kirkjunnar í von um að fá úrlausn sinna mála. Biskup hefur vitað af ásökununum síðan í byrjun árs 2019 en í svari sínu til konunnar vísaði hún annars vegar til lögreglu og hins vegar fagráðs kirkjunnar þar sem prestur var formaður.
Ég segi það hreint út. Í þjóðkirkjunni er hentistjórnun – og það er ekkert samasem merki milli kirkju og trúar.“ Þetta segir kona sem sakar prest um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi árið 2011 en hún var starfsmaður í sókn hans á þeim tíma. Henni finnst biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, ekki hafa hlustað á sig þegar hún leitaði til hennar eftir aðstoð fyrir nokkrum árum.
Hún hefur nú farið með mál sitt fyrir teymi þjóðkirkjunnar sem ætlað er að vera óháð teymi er stuðlar að aðgerðum gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og veita stuðning og ráðgjöf við meðferð kynferðisbrota er kunna að koma upp innan þjóðkirkjunnar. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur presturinn tímabundið verið leystur frá störfum vegna málsins á meðan það er til skoðunar hjá teyminu. Biskupsstofa staðfestir þetta í svari við fyrirspurn Kjarnans en telur sig ekki geta tjáð sig frekar um málið á þessu stigi.
Konan kýs að koma ekki fram undir nafni og því er hún kölluð Anna í umfjölluninni.
Ekki fari saman hljóð og mynd
Þjóðkirkjan hefur sætt gagnrýni í gegnum tíðina fyrir að taka illa á kynferðisafbrotamálum innan kirkjunnar en hæst bar á sínum tíma á máli séra Ólafs Skúlasonar fyrrverandi biskups. Agnes M. Sigurðardóttir tók við embætti biskups árið 2012 og hefur eitt mál formlega komið á hennar borð síðan þá, samkvæmt svörum frá þjóðkirkjunni – málið sem fjallað er um hér að neðan.
Pétur Georg Markan samskiptastjóri Biskupsstofu sagði í samtali við Kjarnann þann 22. október síðastliðinn að það væri skylda kirkjunnar að læra af þessari sögu. Ekkert annað væri í boði en hann telur enn fremur að tíð Agnesar í embætti biskups verði minnst fyrir það að hún hafi tekið fast á slíkum málum.
Anna upplifir aftur á móti að kirkjan vinni ekki eftir því sem hún predikar. Henni finnist erfitt að horfa upp á það sem hún kallar tvískinnung kirkjunnar – að ekki fari saman hljóð og mynd. Kirkjan láti eins og hún hafi tekið á sínum málum en þegar öllu er á botninn hvolft viðhafist vinnubrögð sem séu ekki boðleg.
Meint kynferðisbrot átti sér stað um haustið 2011. Anna þekkti prestinn í gegnum störf sín hjá kirkjunni en hún sagði engum frá því sem gerðist á þessum tíma. „Hvert gat ég leitað? Prestar hafa svo sterka stöðu. Hver hefði trúað mér? Ég hefði ekki fengið neitt út úr því að segja frá þessu.“ Samkvæmt Önnu neitaði hann aldrei í hennar eyru fyrir það að hafa brotið á henni.
Biskup fékk upplýsingar um meint brot í ársbyrjun 2019
Það var í byrjun árs 2019 sem Anna sagði í fyrsta skiptið frá kynferðisofbeldinu en hún leitaði til annars prests og djákna sem hún treysti. Að hennar sögn var mannauðsstjóri kallaður til sem sagði að þau yrðu að láta biskup vita af þessu.
Anna treysti sér ekki til að fara sjálf á fund Agnesar biskups. Hún treysti því ekki að biskup myndi trúa henni eða taka orð hennar alvarlega. Presturinn og djákninn sem hún leitaði til virtu þá ósk hennar og fóru þau á fund biskups fyrir hennar hönd í byrjun árs 2019 til þess að láta biskup vita af ásökununum. Anna fékk afhent ábyrgðarbréf frá biskupi í lok apríl sama ár.
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, stendur að í janúarlok árið 2019 hefðu komið á fund biskups, biskupsritara og mannauðsstjóra biskupsstofu prestur og djákni sem mætt voru í umboði Önnu. Erindi þeirra hafi verið að upplýsa biskup um að einn prestur þjóðkirkjunnar hefði brotið gegn henni. Þau hafi jafnframt upplýst að hún vildi ekki leita með málið til fagráðs þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota.
„Biskup vill benda á að nauðgun er refsivert athæfi skv. lögum nr. 19/1940, 22. kafla, greinar 194 – 210 og á að kæra til lögreglu. Biskup hefur kynnt prestinum þessa ásökun en getur ekki aðhafst fleira nema þú sem brotaþoli óskir eftir frekari viðbrögðum.“
Undir bréfið skrifar Agnes biskup, 26. apríl 2019.
Treysti ekki fagráðinu þegar prestur sat í því
Anna segir að hún hafi upplifað mikla höfnun þegar hún fékk bréfið. „Okkur kemur þú ekki við,“ voru skilaboðin sem hún tók úr bréfinu. Hún bendir á að presturinn hafi fengið að halda embætti sínu óáreittur í kjölfarið – þrátt fyrir þessa vitneskju innan kirkjunnar.
Þegar hún er spurð hvort það hafi einhvern tímann komið til greina að kæra prestinn þá svarar hún því neitandi. „Nei, ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég var búin að vera svo veik. Ef ég myndi kæra þá fengi ég kirkjuna á móti mér,“ segir hún og bætir því við að hún treysti lögreglunni heldur ekki til að taka þetta mál fyrir.
Fram kom í svari Biskupsstofu við fyrirspurn Kjarnans í október að sérstakt verklag fyrir þolanda kynferðislegs áreitni/áreitis eða ofbeldis hefði verið í stöðugri þróun innan kirkjunnar í gegnum árin. Sértæk aðferð kirkjunnar væri sjálfstæður vettvangur, sérstakur faghópur, sem skipulagður væri til að þjóna þolandanum. Hópurinn bæri faglega ábyrgð á stuðningi og málsmeðferð þolandans.
Árið 2019 tók vettvangurinn „teymi þjóðkirkjunnar“ við umsjón og aðgæslu „fagráðs“ sem var ábyrgt fyrir málefninu frá árinu 1998. Teymi þjóðkirkjunnar er einungis skipað fagfólki og engum fulltrúa kirkjunnar – enda er teymið sjálfstæður vettvangur utan kirkjunnar, samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu. Starfsfólk þjóðkirkjunnar, þar með biskup, hafi ekki annað aðgengi að teyminu en að vísa málum þangað í ferlið.
Anna treysti ekki fagráðinu áður en því var breytt af þeirri ástæðu að í því sat alltaf prestur og vegna fyrri reynslu treysti hún ekki presti til að taka faglega á hennar máli.
Upplifði vanlíðan vegna skorts á upplýsingagjöf
Það sem fékk hana til að leita til teymis kirkjunnar núna í nóvember var fyrrnefnt viðtal við Pétur samskiptastjóra Biskupsstofu í Kjarnanum í október síðastliðnum en þar greindi hann frá því að málið hennar hefði borist á borð biskups sem hefði leiðbeint þolanda í formlegt ferli. Í teyminu eru ekki lengur prestar, eins og áður segir, og skipti það sköpum fyrir Önnu.
Niðurstaða teymis þjóðkirkjunnar í máli hennar liggur ekki fyrir. Anna fékk þær upplýsingar frá teyminu um miðjan desember að teymið hefði óskað eftir því við Biskupsstofu að sá aðili, sem kvörtun hennar beinist að, yrði leystur frá störfum á meðan málið er til meðferðar hjá teyminu. Jafnframt að vegna fjölda mála og þess að í hönd fer senn jólahátíðin með tilheyrandi fríum væri ljóst að teymið myndi ekki hafa tök á því að afla upplýsinga frá Önnu fyrr en í janúar.
Anna gagnrýnir meðferðartímann og segir að það verði erfitt að hafa þetta hangandi yfir sér yfir jólahátíðina. Hún gagnrýnir enn fremur að hún hafi litlar upplýsingar fengið í kjölfarið af fundinum með teyminu í nóvember. Hún hafi upplifað mikla vanlíðan vegna skorts á upplýsingagjöf.
„Ég vil bara réttlæti“
Varðandi þær væntingar sem Anna hefur í þessu ferli öllu saman sem nú stendur yfir þá segir hún að það dugi henni að presturinn verði settur til hliðar. „Ég vil bara réttlæti.“ Anna segist hafa búið við afleiðingar brota hans en hann ekki.
Hún setur spurningarmerki við allt þetta ferli með teyminu. „Bíddu við, hver er yfirmaður prestsins? Er það ekki biskup?“ spyr hún. Þannig upplifir hún það að kirkjan reyni að koma sér undan ábyrgð með því að vísa málum til lögreglu eða til teymis þjóðkirkjunnar.
Anna segir að ferlið hingað til hafi verið erfitt þrátt fyrir að fátt hafi komið henni á óvart og að fundurinn með teyminu hafi tekið á. „Þegar þú sest niður og ræðir þessi mál – sem þú hefur ekki talað um í langan tíma – þá ertu að rífa hvert sárið upp á fætur öðru og það er verið að snúa hnífnum í sárinu. Svo þegar þú ferð út af svona fundi þá ertu eitt flakandi sár. Og að bíða eftir niðurstöðu er mjög erfitt,“ segir hún.
„Ég er bara að bíða eftir réttlæti. Og ég vil ekki sitja með þetta í hjartanu lengur.“
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“