Pexels

Prestur leystur tímabundið frá störfum vegna ásakana um kynferðisbrot – „Ég vil ekki sitja með þetta í hjartanu lengur“

Kona sem sakar prest um að hafa brotið á sér kynferðislega fyrir 10 árum gagnrýnir þjóðkirkjuna fyrir viðbrögð við ásökununum en hún hefur nú leitað til teymis kirkjunnar í von um að fá úrlausn sinna mála. Biskup hefur vitað af ásökununum síðan í byrjun árs 2019 en í svari sínu til konunnar vísaði hún annars vegar til lögreglu og hins vegar fagráðs kirkjunnar þar sem prestur var formaður.

Ég segi það hreint út. Í þjóð­kirkj­unni er henti­stjórnun – og það er ekk­ert sama­sem merki milli kirkju og trú­ar.“ Þetta segir kona sem sakar prest um að hafa beitt sig kyn­ferð­is­of­beldi árið 2011 en hún var starfs­maður í sókn hans á þeim tíma. Henni finnst biskup Íslands, Agnes M. Sig­urð­ar­dótt­ir, ekki hafa hlustað á sig þegar hún leit­aði til hennar eftir aðstoð fyrir nokkrum árum.

Hún hefur nú farið með mál sitt fyrir teymi þjóð­kirkj­unnar sem ætlað er að vera óháð teymi er stuðlar að aðgerðum gegn ein­elti, kyn­ferð­is­legri áreitni, kyn­bund­inni áreitni, ofbeldi og veita stuðn­ing og ráð­gjöf við með­ferð kyn­ferð­is­brota er kunna að koma upp innan þjóð­kirkj­unn­ar. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans hefur prest­ur­inn tíma­bundið verið leystur frá störfum vegna máls­ins á meðan það er til skoð­unar hjá teym­inu. Bisk­ups­stofa stað­festir þetta í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans en telur sig ekki geta tjáð sig frekar um málið á þessu stigi.

Konan kýs að koma ekki fram undir nafni og því er hún kölluð Anna í umfjöll­un­inni.

Ekki fari saman hljóð og mynd

Þjóð­kirkjan hefur sætt gagn­rýni í gegnum tíð­ina fyrir að taka illa á kyn­ferð­is­af­brota­málum innan kirkj­unnar en hæst bar á sínum tíma á máli séra Ólafs Skúla­sonar fyrr­ver­andi bisk­ups. Agnes M. Sig­urð­ar­dóttir tók við emb­ætti bisk­ups árið 2012 og hefur eitt mál form­lega komið á hennar borð síðan þá, sam­kvæmt svörum frá þjóð­kirkj­unni – málið sem fjallað er um hér að neð­an.

Pétur Georg Markan sam­skipta­stjóri Bisk­ups­stofu sagði í sam­tali við Kjarn­ann þann 22. októ­ber síð­ast­lið­inn að það væri skylda kirkj­unnar að læra af þess­­ari sögu. Ekk­ert annað væri í boði en hann telur enn fremur að tíð Agn­­esar í emb­ætti bisk­­ups verði minnst fyrir það að hún hafi tekið fast á slíkum mál­­um.

Anna upp­lifir aftur á móti að kirkjan vinni ekki eftir því sem hún predik­ar. Henni finn­ist erfitt að horfa upp á það sem hún kallar tví­skinn­ung kirkj­unnar – að ekki fari saman hljóð og mynd. Kirkjan láti eins og hún hafi tekið á sínum málum en þegar öllu er á botn­inn hvolft við­haf­ist vinnu­brögð sem séu ekki boð­leg.

Meint kyn­ferð­is­brot átti sér stað um haustið 2011. Anna þekkti prest­inn í gegnum störf sín hjá kirkj­unni en hún sagði engum frá því sem gerð­ist á þessum tíma. „Hvert gat ég leit­að? Prestar hafa svo sterka stöðu. Hver hefði trúað mér? Ég hefði ekki fengið neitt út úr því að segja frá þessu.“ Sam­kvæmt Önnu neit­aði hann aldrei í hennar eyru fyrir það að hafa brotið á henni.

Í janúarlok árið 2019 komu á fund biskups prestur og djákni sem mætt voru í umboði Önnu. Erindi þeirra var að upplýsa biskup um að einn prestur þjóðkirkjunnar hefði brotið gegn henni.
Birgir Þór Harðarson

Biskup fékk upp­lýs­ingar um meint brot í árs­byrjun 2019

Það var í byrjun árs 2019 sem Anna sagði í fyrsta skiptið frá kyn­ferð­is­of­beld­inu en hún leit­aði til ann­ars prests og djákna sem hún treysti. Að hennar sögn var mannauðs­stjóri kall­aður til sem sagði að þau yrðu að láta biskup vita af þessu.

Anna treysti sér ekki til að fara sjálf á fund Agn­esar bisk­ups. Hún treysti því ekki að biskup myndi trúa henni eða taka orð hennar alvar­lega. Prest­ur­inn og djákn­inn sem hún leit­aði til virtu þá ósk hennar og fóru þau á fund bisk­ups fyrir hennar hönd í byrjun árs 2019 til þess að láta biskup vita af ásök­un­un­um. Anna fékk afhent ábyrgð­ar­bréf frá bisk­upi í lok apríl sama ár.

Í bréf­inu, sem Kjarn­inn hefur undir hönd­um, stendur að í jan­ú­ar­lok árið 2019 hefðu komið á fund bisk­ups, bisk­ups­rit­ara og mannauðs­stjóra bisk­ups­stofu prestur og djákni sem mætt voru í umboði Önnu. Erindi þeirra hafi verið að upp­lýsa biskup um að einn prestur þjóð­kirkj­unnar hefði brotið gegn henni. Þau hafi jafn­framt upp­lýst að hún vildi ekki leita með málið til fagráðs þjóð­kirkj­unnar um með­ferð kyn­ferð­is­brota.

„Biskup vill benda á að nauðgun er refsi­vert athæfi skv. lögum nr. 19/1940, 22. kafla, greinar 194 – 210 og á að kæra til lög­reglu. Biskup hefur kynnt prest­inum þessa ásökun en getur ekki aðhafst fleira nema þú sem brota­þoli óskir eftir frek­ari við­brögð­u­m.“

Undir bréfið skrifar Agnes bisk­up, 26. apríl 2019.

„Okkur kemur þú ekki við,“ voru skilaboðin sem Anna tók úr bréfinu. Hún bendir á að presturinn hafi fengið að halda embætti sínu óáreittur í kjölfarið – þrátt fyrir þessa vitneskju innan kirkjunnar.
Mynd af bréfi til Önnu frá biskupi.

Treysti ekki fagráð­inu þegar prestur sat í því

Anna segir að hún hafi upp­lifað mikla höfnun þegar hún fékk bréf­ið. „Okkur kemur þú ekki við,“ voru skila­boðin sem hún tók úr bréf­inu. Hún bendir á að prest­ur­inn hafi fengið að halda emb­ætti sínu óáreittur í kjöl­farið – þrátt fyrir þessa vit­neskju innan kirkj­unn­ar.

Þegar hún er spurð hvort það hafi ein­hvern tím­ann komið til greina að kæra prest­inn þá svarar hún því neit­andi. „Nei, ég treysti mér ekki til þess vegna þess að ég var búin að vera svo veik. Ef ég myndi kæra þá fengi ég kirkj­una á móti mér,“ segir hún og bætir því við að hún treysti lög­regl­unni heldur ekki til að taka þetta mál fyr­ir.

Fram kom í svari Bisk­ups­stofu við fyr­ir­spurn Kjarn­ans í októ­ber að sér­­stakt verk­lag fyrir þol­anda kyn­­ferð­is­­legs áreitn­i/áreitis eða ofbeldis hefði verið í stöðugri þróun innan kirkj­unnar í gegnum árin. Sér­­tæk aðferð kirkj­unnar væri sjálf­­stæður vett­vang­­ur, sér­­stakur fag­hóp­­ur, sem skipu­lagður væri til að þjóna þol­and­an­­um. Hóp­­ur­inn bæri fag­­lega ábyrgð á stuðn­­ingi og máls­­með­­­ferð þol­and­ans.

Árið 2019 tók vett­vang­­ur­inn „teymi þjóð­­kirkj­unn­­ar“ við umsjón og aðgæslu „fagráðs“ sem var ábyrgt fyrir mál­efn­inu frá árinu 1998. Teymi þjóð­­kirkj­unnar er ein­ungis skipað fag­­fólki og engum full­­trúa kirkj­unnar – enda er teymið sjálf­­stæður vett­vangur utan kirkj­unn­­ar, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Bisk­ups­stofu. Starfs­­fólk þjóð­­kirkj­unn­­ar, þar með bisk­­up, hafi ekki annað aðgengi að teym­inu en að vísa málum þang­að í ferl­ið.

Anna treysti ekki fagráð­inu áður en því var breytt af þeirri ástæðu að í því sat alltaf prestur og vegna fyrri reynslu treysti hún ekki presti til að taka fag­lega á hennar máli.

Upp­lifði van­líðan vegna skorts á upp­lýs­inga­gjöf

Það sem fékk hana til að leita til teymis kirkj­unnar núna í nóv­em­ber var fyrr­nefnt við­tal við Pétur sam­skipta­stjóra Bisk­ups­stofu í Kjarn­anum í októ­ber síð­ast­liðnum en þar greindi hann frá því að málið hennar hefði borist á borð bisk­ups sem hefði leið­beint þol­anda í form­legt ferli. Í teym­inu eru ekki lengur prestar, eins og áður seg­ir, og skipti það sköpum fyrir Önnu.

Nið­ur­staða teymis þjóð­kirkj­unnar í máli hennar liggur ekki fyr­ir. Anna fékk þær upp­lýs­ingar frá teym­inu um miðjan des­em­ber að teymið hefði óskað eftir því við Bisk­ups­stofu að sá aðili, sem kvörtun hennar bein­ist að, yrði leystur frá störfum á meðan málið er til með­ferðar hjá teym­inu. Jafn­framt að vegna fjölda mála og þess að í hönd fer senn jóla­há­tíðin með til­heyr­andi fríum væri ljóst að teymið myndi ekki hafa tök á því að afla upp­lýs­inga frá Önnu fyrr en í jan­ú­ar.

Anna gagn­rýnir með­ferð­ar­tím­ann og segir að það verði erfitt að hafa þetta hang­andi yfir sér yfir jóla­há­tíð­ina. Hún gagn­rýnir enn fremur að hún hafi litlar upp­lýs­ingar fengið í kjöl­farið af fund­inum með teym­inu í nóv­em­ber. Hún hafi upp­lifað mikla van­líðan vegna skorts á upp­lýs­inga­gjöf.

„Ég vil bara rétt­læti“

Varð­andi þær vænt­ingar sem Anna hefur í þessu ferli öllu saman sem nú stendur yfir þá segir hún að það dugi henni að prest­ur­inn verði settur til hlið­ar. „Ég vil bara rétt­læt­i.“ Anna seg­ist hafa búið við afleið­ingar brota hans en hann ekki.

Hún setur spurn­ing­ar­merki við allt þetta ferli með teym­inu. „Bíddu við, hver er yfir­maður prests­ins? Er það ekki bisk­up?“ spyr hún. Þannig upp­lifir hún það að kirkjan reyni að koma sér undan ábyrgð með því að vísa málum til lög­reglu eða til teymis þjóð­kirkj­unn­ar.

Anna segir að ferlið hingað til hafi verið erfitt þrátt fyrir að fátt hafi komið henni á óvart og að fund­ur­inn með teym­inu hafi tekið á. „Þegar þú sest niður og ræðir þessi mál – sem þú hefur ekki talað um í langan tíma – þá ertu að rífa hvert sárið upp á fætur öðru og það er verið að snúa hnífnum í sár­inu. Svo þegar þú ferð út af svona fundi þá ertu eitt flak­andi sár. Og að bíða eftir nið­ur­stöðu er mjög erfitt,“ segir hún.

„Ég er bara að bíða eftir rétt­læti. Og ég vil ekki sitja með þetta í hjart­anu leng­ur.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal