Rasismi innan lögreglunnar eins og annars staðar í samfélaginu
Lögreglan á Íslandi hefur ekki brugðist við örum samfélagbreytingum á Íslandi síðustu ár að mati Eyrúnar Eyþórsdóttur, lektors í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri. Í viðtali við Kjarnann segir hún mikilvægt að lögreglan afneiti ekki fordómum þó hún hafi ekki áhyggjur af því að kynþáttafordómar grasseri innan stofnunarinnar. Lögreglan sé hins vegar einsleit stofnun á meðan íslenskt samfélag einkennist af fjölbreytileika og því þurfi að bregðast við.
Ísland er ekki lengur einsleitt samfélag heldur einkennir fjölbreytileiki íslenskt nútímasamfélag. Lögreglan hefur ekki brugðist við þessum breytingum og er enn einsleit stofnun og því þarf að breyta. Þetta er mat Eyrúnar Eyþórsdóttur, lektors í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, sem ræddi við blaðamann Kjarnans um aukinn fjölbreytileika íslensks samfélags á síðustu árum og áskoranir innan lögreglunnar, til að mynda þegar kemur að kynþáttamörkun og trausti til lögreglu.
„Lögreglan hefur ekki gert ráðstafanir vegna þessara samfélagslegu breytinga sem hafa átt sér stað yfir allaveganna 20-30 ára tímabil. Þetta er ekki langur tími en samt nægur tími til að bregðast við með alls konar hætti. Og það hefur ekki verið gert. Það hefur kannski verið gert af veikum mætti undanfarin ár, í gegnum nám lögreglumanna, en það er það eina,“ segir Eyrún.
Ísland er ekki einsleitt samfélag
Ísland er ekk einsleitt samfélag eins og það var kannski einu sinni og við því þarf að bregðast að mati Eyrúnar. „Við þurfum að gera ráð fyrir því að lögreglan, lögreglumenn og aðrir í samfélaginu viti ekki hvernig eigi að bregðast við. Við erum líka mötuð af alls konar hugmyndum, kannski sömu hugmyndum og aðrir eru mataðir í heiminum, eins og að svartir karlmenn séu líklegri til að vera hluti af glæpagengjum.“
Þegar þetta er ímyndin hefur það áhrif á hvernig fólk lítur á veruleika sinn á Íslandi. „Þetta hefur bein áhrif á það. Þetta læðist inn og maður mótar hugarheim sinn á þessum hugmyndum. Í mörgum tilvikum gerir fólk sér ekki alveg grein fyrir því að það sé með ákveðin viðhorf og af hverju þau eru með þessi neikvæðu viðhorf,“ segir Eyrún.
Kynþáttafordómar ekki „grasserandi“ innan lögreglunnar en þó til staðar
Eyrún hefur starfað innan lögreglunnar og segist sannfærð um að kynþáttafordómar viðgangist þar eins og annars staðar í samfélaginu. „En ég hef ekkert rosalega miklar áhyggjur af því að það sé allt grasserandi í rasisma innan lögreglunnar. Ég er sannfærð um það séu rasistar innan lögreglunnar bara eins og annars staðar í samfélaginu.“
Það sé hins vegar ekki ásættanlegt að fordómar viðgangist innan lögreglunnar og telur Eyrún tilefni til að endurskoða inntökuferli innan lögreglunnar. En það er flókið verk. „Það er náttúrulega mjög, mjög erfitt að greina þessi viðhorf. Ef þú spyrð einhvern um viðhorf gagnvart minnihlutahópum þá vita allir hvernig þeir eiga að svara. Það segist enginn vera með mikla fordóma gagnvart svörtu fólki, vitandi að þeir komast þá ekki inn í lögregluna.“
Kom ekki á óvart að „fólk fór að hringja inn og tilkynna hann í hverju horni“
Hugtakið kynþáttamörkun er tiltölulega nýtt í íslensku samfélagi, sem útleggst sem „racial profiling“ á ensku en nýlegir atburðir hafa komið því í umræðuna og hefur fólk af erlendum uppruna bent í kjölfarið á brotalamir hvað varðar vinnubrögð lögreglunnar í slíkum málum.
Með hugtakinu er átt við það þegar kynþáttur eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni, samkvæmt hópi fræðafólks og aktívista sem kom með tillöguna að þýðingu á hugtakinu. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar eða húðlitar frekar en sönnunargagna.
Um miðjan apríl síðastliðinn hafði lögregla í tvígang, dag eftir dag, afskipti af 16 ára dreng vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufangi sem slapp úr haldi lögreglunnar. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi. Atvikin ýfðu upp umræðuna um kynþáttamörkun.
Eyrún varð vör við tilkynningu lögreglu eins og aðrir þegar lýst var eftir manninum sem slapp úr haldi lögreglu við héraðsdóm. „Það kom mér ekki á óvart að fólk fór að hringja inn og tilkynna hann í hverju horni,“ segir Eyrún. Að hennar mati sýna atvikin í apríl svart á hvítu, að lögreglan hefur ekki brugðist við samfélagslegri þróun síðustu ára. Ísland er ekki einsleitt samfélag heldur einkennist það af fjölbreytileika líkt og flest önnur samfélög.
„Fólk hefur ekki alveg hugsað að þetta geti líka verið uppi á teningnum hér. Og þá er áhugavert að pæla í hvað fjölbreytileiki samfélagsins hér á Íslandi hefur átt sér stað yfir skamman tíma. Og samt, á öllum þessum tíma, hefur aldrei verið í forgangi hjá neinum að bregðast við. Ef eitthvað gerist, þá skulum við laga það, en ekki hugsa hvað getur gerst,“ segir Eyrún.
Dugar fræðsla innan lögreglufræðinnar til?
„Fræðsla er besta meðalið við fordómum,“ segir Eyrún, sem hefur lengi unnið að ýmis konar fræðslu um fordóma og hatursglæpi innan lögreglunnar. Þegar lögreglunámið fluttist til Háskólans á Akureyri árið 2017 varð áfanginn „Fjölbreytileiki og löggæsla“, sem Eyrún kennir, gerður að skyldufagi. En Eyrún veltir því fyrir sér hvort fræðslan sem á sér stað innan lögreglufræðinnar dugi til. Einnig þurfi að ná til þeirra tæplega 700 lögreglumanna sem eru starfandi hér á landi. Þar kemur Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar sterkt inn þar sem Eyrún hefur staðið að lang mestum hluta fræðslunnar að eigin frumkvæði.
Um valnámskeið er að ræða og hefur það sínar takmarkanir að sögn Eyrúnar. „Þá sækja auðvitað þeir sem hafa áhuga á þessum málaflokki í þessi námskeið, sem eru kannski ekki þeir sem við þurfum að ná til. Eina leiðin til að ná í þá væri að skylda þá til að taka þessi námskeið. En ég veit svo sem ekki hvaða árangri það myndi skila.
Ekkert umburðarlyndi gagnvart fordómum
Önnur leið til að sporna gegn fordómum innan lögreglunnar væri að taka upp stefnu þar sem fordómar verða einfaldlega ekki liðnir, svokallaða „zero tolerance“-stefnu. Með henni yrði ekki liðið innan lögreglunnar að lögreglumenn og annað starfsfólk tjái sig með fordómafullum hætti. „Hvort sem það er gagnvart konum eða minnihlutahópum eða hverjum sem er, að það sé mjög hart tekið á því þegar lögreglumenn sýna með einhverjum hætti hefðun með fordómafullum hætti,“ segir Eyrún, sem segir að svo sé ekki gert í dag. „Það er ekkert eftirlit.“
Viðmót hjá lögreglu gagnvart því að auka fræðslu er almennt gott að mati Eyrúnar. Áhersla á fjölbreytileika innan löggæslu flokkist hins vegar sem mjúk löggæsla og eftirspurn eftir slíkri löggæslu er ekki ýkja mikil.
Síðustu fjögur ár hefur Eyrún ásamt Margréti Valdimarsdóttur, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, lagt spurningalista fyrir nemendur í lögreglufræði um viðhorf þeirra til minnihlutahópa. „Frumniðurstöður okkar sýna fram á að nemendur eru mjög jákvæðir og það væri mjög mikið þarfaverk að leggja spurningalistann aftur fyrir þegar þessir nemendur eru búnir að vera nokkur ár í starfi. Hefur eitthvað breyst?“
Kallar eftir fjölbreyttari bakgrunni en „bara Íslendingabók“
Lögreglan á Íslandi getur ekki lengur verið einsleit stofnun að mati Eyrúnar. „Hún verður að fara að ráða til sín fólk með annan bakgrunn heldur en bara Íslendingabók. Það verða að vera fleiri tungumál, litarhættir, trúarbrögð, kynhneigð.“
Sjálf hefur hún talað fyrir því að fólk með fötlun starfi innan lögreglunnar. „Undirtektirnar hafa verið mjög lélegar. En ég skil samt ekki af hverju þú getur ekki verið fatlaður í lögreglunni? Það er fullt af störfum þar sem þú situr við skrifborð allan daginn, af hverju getur þú ekki verið í hjólastól? Til dæmis.“
Aukin fjölbreytni innan lögreglunnar er einnig liður í því að byggja upp traust gagnvart lögreglunni. „Lögreglan þarf virkilega að fara að huga að þessu og fá innan raða sinna meiri fjölbreytileika og fara í virk verkefni til að byggja upp traust,“ segir Eyrún. Dæmin hafa sannað, ekki síst eftir atvikið í apríl, að skortur er á trausti til lögreglu, stofnunar sem allir ættu að geta treyst, líkt og fram kom nýlega í viðtali Kjarnans við föður drengs sem tvívegis hefur lent í því á sinni stuttu ævi að verða fyrir óþarfa afskiptum lögreglunnar – fyrst sjö ára.
Undir lögreglunni sjálfri komið að hafa raunveruleg áhrif
Hvort atburðir síðustu vikna og aukin umræða um kynþáttamörkun muni hafa raunveruleg áhrif innan lögreglunnar segir Eyrún að það sé alfarið undir henni sjálfri komið.
„Fari lögreglan í vörn og afneiti því að nokkuð hafi verið gert rangt er hún búin að missa gríðarlega stórt tækifæri til að læra um sjálfa sig. Ég hef séð þetta ítrekað. Ef við neitum því að það sé eitthvað athugavert í gangi þá er lögreglan að missa gríðarlega mikið tækifæri til að eiga samtal við samfélagið, til að læra, til að betrumbæta verklagið og svo framvegis.“
„Samtal við samfélagið“ var einmitt eitt af því sem fram kom í máli Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma um miðjan maí. Á fundinum fullyrti hún að í tilfelli 16 ára drengsins hafi ekki verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða. Hún sagðist þó harma að drengurinn hafi ítrekað orðið fyrir áreiti við leit lögreglu að strokufanga. „Við þurfum að hlusta betur á samfélagið. Það er verkefnið sem við erum í,“ sagði Sigríður Björk.
Aðspurð hvað megi lesa í þessi orð ríkislögreglustjóra kemur örlítið hik á Eyrúnu áður en hún svarar: „Ég veit það bara ekki, satt best að segja.“
„Ég held að það þurfi að fylgja eftir þegar svona hlutir eru sagðir, það var líka talað um það fyrir tveimur árum, eftir morðið á George Floyd, að það þyrftu að setja gríðarlegt fjármagn í að rannsaka betur lögregluna, gera rannsókn innan lögreglunnar á því hvort fordómar eru til staðar því við vitum það ekki, þetta hefur ekki verið skoðað,“ segir Eyrún, sem segist ekki vita til þess að núna, tveimur árum seinna, sé búið að veita fjármagn til rannsóknar á fordómum eða kynþáttamörkun innan lögreglunnar.
Fram kom í máli ríkislögreglustjóra á fundinum í maí að lögreglan hefði nýlokið stefnumótun og út úr henni hefði slagorðið „Að vernda og virða“ komið. Hún væri þakklát fyrir að vera boðuð á fundinn því umræða sem þessi skipti máli.
Þekkingin til staðar en fjármagnið skortir
Þekkingin til að framkvæma rannsóknir og auka við námsframboðið innan lögreglunnar er til staðar að sögn Eyrúnar en fjármagnið skortir. Eyrún hefur til að mynda unnið að námskeiði um hatursglæpi og uppgang öfgaafla hjá Háskólanum á Akureyri. Búið er að samþykkja námið en ekki fæst fjármagn til að kenna það.
„Það eru engir peningar eyrnamerktir til rannsóknar í lögreglufræðum í Háskólanum á Akureyri. Þar er staðan þannig að við erum svo ótrúlega fá í lögreglufræðinni, en mjög mikið af nemendum og námið er í stanslausri þróun. Við þyrftum að vera allavega helmingi fleiri ef við ætlum að geta stundað almennilegar rannsóknir.“
Umræða um kynþáttafordóma og kynþáttamörkun er þó að síast inn í umræðuna, bæði hjá lögreglu og í samfélaginu sem heild og telur Eyrún að það megi að hluta til rekja til nýútskrifaðra lögreglumanna. „Mikið af ungum lögreglumönnum sem eru að koma núna til starfa eru ungt fólk sem er meðvitað um hluti og ég er viss um að það eiga eftir að eiga sér stað miklar breytingar, líka innan lögreglunnar.“
Eyrún er hins vegar ekki jafn bjartsýn á að fjölbreytileiki innan löggæslunnar verði forgangsmál og verði það líklega aldrei. „Það er alltaf eitthvað sem er mikilvægara en löggæsla í fjölbreytileika. Þar liggur vandamálið, ef engum finnst þetta mikilvægt er enginn að setja pening í þetta eða vinna virkt með að breyta þessu.“
Líkt og Kjarninn hefur greint frá heldur lögregla ekki sérstaklega utan um mál sem tengjast kynþáttamörkun. hægt er að leita að slíkum málum í kerfi lögreglu þar sem öll mál eru skráð en „ekki er hægt að fara í slíka vinnu,“ segir í svari ríkislögreglustjóra í fyrirspurn Kjarnans.
Eyrún segir þetta kjörið rannsóknarefni fyrir masters- eða doktorsnema. „Ef einhver doktorsnemi eða mastersnemi væri til í að fara í svona rannsókn þá væri það hægt. Ef það væru til fjármunir til að rannsaka lögregluna þá væri þetta mjög góð rannsókn.“
„Það getur enginn í lögreglunni fullyrt þetta“
Í sams konar fyrirspurn Kjarnans til Lögreglunnar á Suðurnesjum, hvort haldið væri utan um mál sem tengjast kynþáttamörkun, kom fram að svo sé ekki og fullyrti lögreglustjórinn í umdæminu að löggæsla á Suðurnesjum væri ekki kynþáttamiðuð.
„Hann getur ekki fullyrt þetta. Það getur enginn í lögreglunni fullyrt þetta af því að þetta hefur ekki verið skoðað. Það að lögreglan fullyrði svona hluti, þá eru þeir í raun og veru að einhverju leyti að vinna gegn sér,“ segir Eyrún. Rannsókn á kynþáttamörkun á Íslandi verður að fara fram, þá fyrst verður hægt að setja fram fullyrðingar, óháð því hver hún verður.
Varhugaverð skilaboð til minnihluahópa
Eyrún segir að með yfirlýsingu sem þessari sé lögreglan að senda varhugaverð skilaboð. „Lögreglan getur ekki fullyrt þetta af því að hún veit það ekki. Hún vinnur gegn sér ef hún fullyrðir þetta því þá er hún að senda skilaboð til fólks sem telur sig hafa orðið fyrir kynþáttamiðaðri löggæslu að þau taki ekki mark á þeim, sem er gríðarlega mikilvægt upp á traust. Og það er ekki verið að skoða ofan í kjölinn hvað gæti verið að bjáta á.“
Rannsóknir Eyrúnar hafa meðal annars snúið að hatursglæpum þar sem hún hefur rætt við fólk sem telur sig hafa orðið fyrir slíkum. Þar kemur traust til lögreglu einnig við sögu. „Það er algjör undantekning ef fólk hefur leitað til lögreglu. Og flestir sem leita til lögreglu eru óánægðir með þjónustuna. Þetta er hluti af því sem hefur verið bent á víða erlendis, ef fólk sem tilheyrir minnihlutahópum ber ekki traust til lögreglunnar þá leitar það heldur ekki til lögreglunnar, hvorki þegar brotið er gegn þeim né þegar það er vitni eða eitthvað slíkt. Þá getur skapast samfélag þar sem er alls konar í gangi sem ratar aldrei á borð lögreglu, sem er auðvitað mjög slæmt. Ef fólk sem tilheyrir minnihlutahópi á Íslandi er að fá þau skilaboð frá lögreglunni að öll starfsemi lögreglunnar er rétt, hún mismuni ekki og það er ekki kynþáttamiðuð löggæsla, þá mun það bara skerða traustið enn frekar og koma í veg fyrir að fólk leiti til lögreglunnar. Með þessu er lögreglan að segja: Við heyrum hvað þú segir, við leggjum bara ekki trúnað í það. Það er mjög slæmt.“
Löggæsla í fjölbreytileika „mun líklega aldrei verða forgangsmál“.
Stóra verkefnið fram undan er að horfast í augu við að Ísland er fjölbreytt samfélag og takast á við áskoranirnar sem því fylgja. Eyrún segir að öll tól og tæki séu til staðar, þar á meðal þekkingin, en þörf sé á breyttu viðmóti innan stjórnsýslunnar.
„Ég veit ekki hvað þarf að gerast til að fólk taki hlutunum alvarlega, ég veit ekki af hverju þetta þykir aldrei mikilvægt. Þó að það sé alltaf víðs vegar í kerfinu verið að benda á annmarka og slæmar samfélagslegar afleiðingar sem eru dýrar fyrir samfélagið.“
Lausnin, að hennar mati, mun ekki koma frá almennum lögreglumönnum, þó viljinn sé þar til staðar, heldur er þörf á viðbrögðum frá stjórnvöldum, það er ráðuneytinu eða ríkislögreglustjóra sjálfum. Aukinn mannskapur, fræðsla og rannsóknir er hluti af lausninni en þetta eru aðgerðir sem þurfa að komast í framkvæmd. Auk þess þarf einhvers konar sjálfsskoðun eða innri endurskoðun að eiga sér stað innan lögreglunnar, sem þarf að viðurkenna mistök og læra af þeim. Aðgerðir lögreglu hafa hingað til, til að mynda það sem kemur fram í fréttatilkynningum, gefið það í skyn að lögreglan sé ekki tilbúin að viðurkenna mistök. „Það breytist ekkert ef lögreglan heldur bara áfram að senda út fréttatilkynningar og segja að allt sé í góðu.“
Framtíðarsýn skortir en mikilvægt að hafa byrjunarreit
„Fyrir lögregluna sem stofnun er gríðarlega mikilvægt að afneita því ekki að það geta verið einhverjir fordómar innan lögreglunnar, þó ég hafi ekki áhyggjur, eins og ég hef sagt áður, að það sé allt grasserandi í fordómum. Almennt er fólk vel hugsandi, meðvitað og að vanda sig. En það er mjög mikilvægt að skoða þetta og rannsaka þetta. Sjá hvar við stöndum, þá höfum við einhvern byrjunarreit.“
Eyrún er samt sem áður ekki bjartsýn á að ríkislögreglustjóri grípi til aðgerða til að breyta verklagi hjá lögreglu til að koma til móts við fjölbreytileika íslensks samfélags. Hún segir atvik á borð við það sem varð í apríl hafa gerst áður og þá hafi hún beðið full eftirvæntingar eftir alvöru aðgerðum. En svo gerðist ekkert. Eyrún segist því hafa lært að gera sér ekki of miklar vonir. Vonbrigðatilfinningin er farin að venjast, því miður. „En auðvitað verður maður alltaf rosalega spenntur að það sé eitthvað að fara að gerast, loksins, og alltaf jafn fúll þegar ekkert gerist.“
Eyrún fagnar umræðunni sem á sér stað um þessar mundir en tekur því með fyrirvara að raunverulegar breytingar muni eiga sér stað. „Það er ekki búið að móta neina framtíðarsýn, það er það sem vantar.“
Þessu tengt:
-
22. nóvember 2022Spyr dómsmálaráðherra hvernig það getur verið lausn við afbrotahegðun að fara í stríð
-
12. nóvember 2022Opinberu flóðljósin sem blinda fjölmiðla
-
15. september 2022Mál 16 ára drengs enn hjá eftirlitsnefnd fimm mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
26. júní 2022Sænskir ráðherrar í læri hjá Dönum
-
22. júní 2022„Misskilningur“ olli því að mál 16 ára drengs rataði ekki til eftirlitsnefndar – fyrr en nú
-
20. júní 2022Ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið um bein afskipti að ræða
-
12. júní 2022Rasismi innan lögreglunnar eins og annars staðar í samfélaginu
-
5. júní 2022„Hann varð ofsalega hræddur þegar löggan kom“
-
4. júní 2022„Löggæsla á Suðurnesjum er ekki kynþáttamiðuð“