Kynþáttafordómar eru viðkvæmt mál alls staðar í samfélaginu og er lögreglan ekki undanskilin. „Það eru fordómar innan okkar stéttar eins og alls staðar annars staðar. Að halda það að við séum hafin yfir það, það held ég að sé bara vitleysa,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, í samtali við Kjarnann.
Kynþáttamörkun er tiltölulega nýtt hugtak í íslensku samfélagi, sem útleggst sem „racial profiling“ á ensku en nýlegir atburðir hafa komið því í umræðuna og hefur fólk af erlendum uppruna bent í kjölfarið á brotalamir hvað varðar vinnubrögð lögreglunnar í slíkum málum.
Með kynþáttamörkun er átt við það þegar kynþáttur eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni, samkvæmt hópi fræðafólks og aktívista sem kom með tillöguna að þýðingu á hugtakinu. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar eða húðlitar frekar en sönnunargagna.
Nefnd um eftirlit með lögreglu með atvikin í apríl til skoðunar
Sigríður Björk segir að lögreglan geti dregið ýmsan lærdóm af atburðunum í apríl þar sem lögregla fylgdi í tvígang eftir ábendingu sem sneri að strokufanga sem lögregla leitaði að. Í bæði skiptin reyndist ekki um eftirlýsta manninn að ræða heldur sextán ára dreng, sem er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi. Atvikin ýfðu upp umræðuna um kynþáttamörkun.
Sigríður Björk kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í maí þar sem hún ræddi verklag lögreglu í málinu sem og fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma. Á fundinum sagði hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða í tilfelli 16 ára drengsins. Hún stendur við þá fullyrðingu en bætir við að málið sé til skoðunar hjá eftirlitsaðila.
„Við erum ekki rétta fólkið til að meta okkur. Það er enginn þar. Málið er komið til nefndar um eftirlit með lögreglu sem mun leggja óháð mat á þetta mál og afskipti lögreglu,“ segir Sigríður Björk. Ekki liggur fyrir hvenær von er á niðurstöðu nefndarinnar, ríkislögreglustjóri á enn eftir að afhenda ýmis gögn vegna rannsóknarinnar sem nefndin mun fara yfir áður en niðurstaða liggur fyrir.
Ekki um bein afskipti að ræða
Tæpir tveir mánuðir eru nú liðnir frá því að lögregla lýsti eftir strokufanganum. Í kjölfarið spratt upp umræða, meðal annars á samfélagsmiðlum, þar sem margir fordæmdu vinnubrögð lögreglunnar og lýstu yfir vanþóknun.
Sigríður Björk fagnar umræðunni sem fór af stað og telur hana mikilvæga. Hún segir hins vegar að í raun hafi ekki verið um afskipti lögreglu að ræða, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum.
„Við vorum að leita að manni sem var talinn hættulegur samkvæmt sögu hans og við erum að tala um alvöru hættu. Við óskuðum eftir atbeina almennings og aðstoðar almennings, eins og við gerum oft,“ segir Sigríður Björk og bætir að samband lögreglu við almenning hafi bjargað mannslífum. Oft.
„Þarna báðum við um ábendingar og það komu mjög margar ábendingar. Tvær þeirra lúta að þessu sama ungmenni. Strax eftir fyrstu ábendinguna fara alls konar sögur af stað að það hefðu verið höfð afskipti af drengnum, að hann hafi verið dreginn út úr strætó og alls kyns. Það var ekki satt. Við skoðuðum myndböndin. Það sem gerist er það að strætóinn er stöðvaður, lögreglumaðurinn labbar inn, sér drenginn og ber strax kennsl á það að þetta sé ekki sá sem verið er að leita að og segir það strax í talstöðina og labbar til baka. Engin afskipti, engin orðaskipti, ekkert.“
„Í seinna tilvikinu labbar einn lögreglumaður inn í bakarí þar sem barnið var í sakleysi sínu með móður sinni. Hann labbar að þeim, biður um nafn og kennitölu, og segir strax að þetta er ekki maðurinn sem við erum að leita að. Það eru aldrei höfð bein afskipti, bara talað við móður, aldrei höfð afskipti af drengnum sem slíkum.“
Fóru varlegar í seinna skiptið
Sigríður Björk segir lögregluna gera sér fyllilega grein fyrir því að reynslan hafi verið drengnum erfið og lögreglu beri að endurskoða verklag í málum sem þessum. „Hefði sérsveitin ekki átt að vera kölluð út í fyrra skiptið? Við gátum ekki annað vegna þess að við erum með óvopnaða lögreglu á Íslandi. Þegar við erum að leita að manni sem hefur beitt vopnum þá sendum við ekki óvopnað fólk í það. Það er bara vinnuregla því við þurfum líka að hugsa um okkar starfsmenn. Hins vegar fórum við varlegar í seinna skiptið þannig að sérsveitin var til stuðnings.“
Ríkislögreglustjóri fundaði í tvígang með drengnum og móður hans eftir atvikin tvö. „Það sem við lærum af þessu máli er mjög margt og það má í rauninni skipta þessu viðfangsefni sem horfir við okkur í tvennt. Annars vegar viðmót og framkoma íslensku lögreglunnar en hins vegar sú menning sem fólk tekur með sér frá sínu heimalandi jafnvel, þar sem það er með ákveðna reynslu eða jafnvel væntingar eða traust sem síðan yfirfærist á okkur. Við getum ekki horft á okkar þátt afmarkaðan. Í huga fólks er lögregla lögregla og við þurfum að vinna upp það traust. Við þurfum að sanna það að við séum ekki að mismuna, sýna fordóma eða vera með óeðlileg afskipti. Til þess þurfum við aukna fræðslu, eftirlit og fylgja eftir hverju einasta máli.“
Því hafi málið verið sent til nefndar um eftirlit með lögreglu. „Við viljum að það verði farið yfir þetta allt saman. Og ef að það kemur í ljós að við hefðum getað gert hlutina öðruvísi þá að sjálfsögðu lærum við af því. Það sem ég hef verið að koma með inn í þessa umræðu er að sjálfstætt mat lögreglu hefur aldrei farið fram, við vorum að bregðast við ábendingum,“ segir Sigríður Björk.
Eftir á að hyggja segir hún að það hafi ef til vill verið barnalegt hjá lögreglunni að lýsa eftir strokufanganum með sama hætti og gert er í öllum öðrum málum. „Það sem við hins vegar lærðum þegar við ræddum við móðurina er að við hefðum þurft að hafa einhvers konar „caveat“ [innskot blaðamanns: fyrirvara eða varnarorð] og það var strax sett inn. Og það er það sem við lærum af þessu, það er að fara varlegar en ég held að það hafi engum dottið þetta í hug innan okkar raða, við erum ekki með framhaldsmenntun í þessu en við erum samt að kenna þetta, við erum búin að stórefla okkar þjálfun í hatursglæpum og leggja áherslu á þau málefni.“
Kynþáttamörkun sem hugtak að síast inn hjá lögreglu
Umræða um kynþáttamörkun hefur ekki verið fyrirferðarmikil innan lögreglunnar en það er að breytast að sögn Sigríðar Bjarkar. Eftir hennar bestu vitund er fyrst fjallað um kynþáttamörkun, kynþáttamiðaða löggæslu, eða „racial profiling“ í breyttum reglum um sakbendingar fyrir sex árum.
„Við horfum mikið til okkar erlendu samstarfsaðila þegar við erum að þróa námsefni, og ég man að þetta kom inn í sakbendingarumræðuna. Þeim reglum var breytt.“
Líkt og Kjarninn hefur greint frá heldur lögregla ekki sérstaklega utan um mál sem tengjast kynþáttamörkun. Hægt er að leita að slíkum málum í kerfi lögreglu þar sem öll mál eru skráð en „ekki er hægt að fara í slíka vinnu,“ eins og kom fram í svari embættis ríkislögreglustjóra í fyrirspurn Kjarnans.
Lögregla má ekki flokka mál eftir húðlit
Sigríður Björk segir lögregluna einfaldlega ekki mega flokka mál með þessum hætti. „Við megum ekki flokka í lögreglukerfi eftir húðlit. Ég held að ástæðan fyrir því að við höfum ekki verið mjög upptekin af þessu er að við höfum verið einsleitt samfélag. Það er tiltölulega ný breyting, við sem samfélag erum seinni af stað, þessi umræða hefur verið í fjölbreyttari samfélögum í langan tíma. En hún hefur ekki verið eins mikil hér og þessi mál hafa ekki verið að koma upp, þess vegna erum við að skoða þetta mál ofboðslega vel,“ segir hún og vísar í mál sextán ára drengsins.
„Þetta hljómar eins og mér finnist þetta vera í besta lagi. En það er ekki þannig.“
„Ég er ekki að segja að þetta sé allt í besta lagi, ég er að segja að klárlega verðum við að horfa mjög vandlega á þennan þátt og efla okkur.“
Í kjölfar atburðanna í apríl skapaðist umræða um kynþáttamörkun og hefur Kjarninn birt viðtöl við foreldra tveggja barna sem hafa orðið fyrir óþarfa afskiptum lögreglu að þeirra mati. Faðir annar drengsins segir lögregluna vera stofnun sem allir ættu að geta treyst. Sonur hans glímir hins vegar við hræðslu eftir kynni sín af lögreglu.
Lögreglan að þróast úr valdastofnun í þjónustustofnun
Sigríður Björk segir traust til lögreglu hluta af þeirri vinnu sem nú er í gangi í að bregðast við fjölbreyttara samfélagi. Það sé meðal annars gert með því að viðhalda því trausti sem lögregla hefur og ná til fjölbreyttari hóps sem felst meðal annars í því að lögreglan setji sig í spor þeirra sem hún er að þjóna.
„Lögreglan hefur verið að færast frá því að vera valdastofnun yfir í að vera þjónustustofnun. Til þess að geta veitt fólki þjónustu þá er þessi gamla nálgun, að við ákveðum hvaða þjónustu við ætlum að veita samkvæmt okkar skilningi, hún er bara úrelt í nútímasamfélagi. Við þurfum að reyna að skilja hópana sem við erum að þjóna. Og það sem er vandamál innan lögreglu er að við erum frekar einsleit,“ segir Sigríður Björk.
Meðal markmiða embættis ríkislögreglustjóra er að auka fjölbreytileika innan lögreglunnar. „Við erum að setja af stað nýja rannsókn sem fylgir eftir fyrri rannsókn um jafnrétti innan lögreglu. Með sama hætti þurfum við að fókusa á fordóma. Ef við ætlum að vera sönn í því sem við erum að gera þá stöndum við fyrir það að allir eiga að geta leitað til lögreglu og treyst lögreglu. Við leggjum mikið upp úr því mikla trausti sem við höfum. Og við höfum mikið traust, ég held að við höfum mælst hærri en forsetinn síðast,“ segir Sigríður Björk.
Traustið er dýrmætt
Ríkislögreglustjóri hefur rétt fyrir sér í þessum efnum. Samkvæmt árlegum þjóðarpúlsi Gallup þar sem traust til stofnana samfélagsins er mælt er lögreglan í öðru sæti, á eftir Landhelgisgæslunni. Nýjasta mælingin tekur til ársins 2021 og bætti lögreglan við sig mestu trausti milli ára, en alls segjast 78 prósent landsmanna treysta henni vel. Það er sjö prósentustigum meira en í fyrra. 77 prósent treysta Háskóla Íslands vel og þar á eftir kemur forsetinn, með 73 prósent.
„Það er alltaf talað eins og lögreglunni sé ekki treyst. Við erum með mikið traust og við vinnum fyrir því trausti,“ segir Sigríður Björk, og segir hún traustið mjög dýrmætt. „Við viljum halda því. Þú getur verið að byggja upp traust í mjög langan tíma en það getur hrunið á mjög skömmum tíma.“
„Þetta er ekki nýr fókus“
Fjölbreytileiki, fordómar og kynþáttamörkun eru ekki ný viðfangsefni lögreglu, síður en svo, að mati ríkislögreglustjóra. Áherslan er einfaldlega að færast smám saman í þessa átt. „Það sem við fókusum á, það gengur. Það sem við fókusum ekki á, það að sjálfsögðu fær ekki framgöngu. Þetta er ekki nýr fókus, við erum meðvituð, en við sem samfélag á Íslandi höfum ekki verið með þessa umræðu eins sterka eins og í mörgum löndum í kringum okkur,“ segir Sigríður Björk.
Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, sagði í viðtali við Kjarnann um síðustu helgi að lögreglan á Íslandi hafi ekki brugðist við örum samfélagsbreytingum hér á landi síðustu ár. Sigríður Björk segir að vissulega hafi verið brugðist við en það hefði mátt gerast hraðar. Viðbrögðin hafa meðal annars falist í því að færa lögreglunámið á háskólastig en það var gert árið 2016 þegar Háskólinn á Akureyri hóf kennslu í lögreglufræði.
„Ein af ástæðunum fyrir því að við fórum upp á háskólastig er að lögreglan á alltaf að spegla það samfélag sem við erum að þjóna. Þegar ég tók við lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vorum við með 14 prósent konur. Þegar ég fór þaðan voru þær orðnar 30 prósent allra starfsmanna. Þetta gerist ekki af því bara. Þetta gerist af því að þetta er ákvörðun og henni er fylgt eftir. Með nákvæmlega sama hætti erum við að reyna að auka fjölbreytileika innan lögreglunnar. Það sem Eyrún hefur til síns máls er að það hefur vantað styrkingu lögreglu í langan tíma. En það er komið fjármagn í það að tvöfalda inntöku lögreglunema,“ segir Sigríður Björk.
Vilja fólk af erlendum uppruna í lögregluna
Breytingin tekur gildi í haust þegar 80 nemendur verða teknir inn í lögreglufræði í stað 40. „Þarna verður stærri og fjölbreyttari hópur sem kemst inn og við ætlum að fókusera á það að fá inn fólk af erlendum uppruna og það er verið að vinna í því með Háskólanum á Akureyri hvernig við náum inn þessu hópi. Ég held að tækifærin séu klárlega núna, áherslurnar eru klárlega núna. Við höfum hægt og rólega verið að feta okkur áfram í þessu, við hefðum getað farið hraðar, við hefðum getað fjölgað fyrr og gert betur. Við getum alltaf gert betur.“
Sigríður Björk segir að það skipti máli að horfa heildrænt á þá samfélagsþróun sem hefur átt sér stað síðustu ár. „Við höfum kannski verið pínu sofandi yfir því að við þurfum að horfa inn í ólíka menningarheima. Við erum að bregðast við nýjum áskorunum á hverjum einasta degi.“
„Við gerum mistök“
Ríkislögreglustjóri viðurkennir að lögreglan hafi gert mistök í þessum efnum. „Við gerum mistök, það eru mistök í öllum stéttum. En ég held að það séu fáar stéttir sem sæta eins miklu eftirliti og lögreglan, vegna þess að við erum með inngrip inn í líf fólks.“
Kjarninn sendi fyrirspurnir á nokkur lögregluumdæmi um verklag lögreglu í málum þar sem kynþáttamörkun gæti mögulega komið við sögu. Líkt og í öðrum umdæmum eru slík mál ekki flokkuð sérstaklega hjá lögreglunni á Suðurnesjum og fullyrti lögreglustjóri umdæmsins að löggæsla á Suðurnesjum væri ekki kynþáttamiðuð.
Sigríður Björk segir svar Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, ekki tæmandi. Áhersla á menntun og fjölbreytileika hafi verið til staðar þegar hún var sjálf lögreglustjóri þar á sínum tíma.
„Ef eitthvert umdæmi hefur verið með fræðslu og fókus, að því leytinu til að þau eru með flugstöðina, þá eru það Suðurnes. Þannig að þau eru að „prófílera“ alla daga og eru með mikið nám í því og mikla sérfræðinga, þurfa að kunna að bera kennsl á einkenni og einmitt hvað á að fókusa á og hvað ekki.“
Aukið námsframboð tengt fjölbreytileika og fjölmenningu
Aukin fræðsla er liður í að auka fjölbreytileika innan lögreglunnar og bregðast við samfélagsbreytingum. Námsefni innan lögreglufræðinnar hefur til að mynda verið tekið til endurskoðunar. Sem dæmi um námskeið sem verða í boði í lögreglufræði næsta haust, þegar 80 nýir nemendur verða teknir inn í stað 40, má nefna Fjölbreytileika í löggæslu, Hatursglæpi og uppgang öfgahópa í Póllandi, Málefni útlendinga og Fjölmenningu. Námskeiðin eru ýmist hluti af náminu eða aðgengileg fyrir starfandi lögreglumenn, stjórnendur innan lögreglunnar og annað starfsfólk lögreglunnar.
Sjálf er Sigríður Björk afar spennt fyrir svokölluðu TAHCLE-námskeiði (e. Training Against Crimes for Law Enforcement) á vegum Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Námið er eins konar þjálfunarnámskeið þar sem starfsfólk innan lögreglunnar er þjálfað í því hvernig standa á að vinnusmiðju fyrir lögreglumenn um rannsóknir á hatursglæpum og viðbrögðum við þeim.
„Þegar þú þjálfar þjálfara ertu komin með þekkingu inn í liðið sem byrjar að seytla út. Þá ertu ekki alltaf að kalla fólk á einhvern miðlægan stað frá öðrum störfum heldur ertu með þjálfara sem er inni í liðnu og þá er auðveldar að vinna með fræðsluna innan frá.“
Þessi kennsluaðferð heillar ríkislögreglustjóra. „Það er ekki nóg að lögregluráð í samtali komist að því að þetta sé mikilvægur þáttur. Það þarf að passa það að þeir sem raunverulega eru í samskiptum við fólk á vettvangi fái þau tæki og tól til að gera þetta rétt og vel. Þú breytir menningunni innan frá.“
Samfélagið bíður ekki eftir okkur
Námskeið eins og TAHCLE eru liður í að bregðast við tíðræddum örum samfélagsbreytingum og Sigríður Björk segir lögregluna vera á réttri leið en krafan um hraðari breytingar sé til staðar.
„Menningin okkar er á ferðalagi, hún er að þroskast og þróast eins og hjá öllum öðrum. Það þýðir ekkert að sitja og halda að við getum breyst á okkar hraða þegar samfélagið bíður ekkert eftir okkur. Það er eins gott fyrir okkur að spretta úr spori en því hraðar sem við förum, því meiri hætta er á mistökum. Þess vegna þurfum við þetta aðhald. Öllu valdi fylgir ábyrgð og eftirlit verður að vera með öllu valdi.“
„Nú er það okkar hlutverk sem samfélags að breytast nægilega hratt, af því að við erum eftir á. Þá er ég að tala um sem samfélag og við sem lögreglan klárlega líka sem partur af því.“
En getur samfélagið breyst nægilega hratt til að bregðast við auknum fjölbreytileika?
„Ég held að okkar breytingar muni ráðast að einhverju leyti af okkar samfélagsgerð. Hún er aðeins öðruvísi en í mörgum öðrum löndum. Við þurfum að þróast hratt en það er kannski ekki ætlast til þess að við dettum inn í einhverja umræðu eða menningu eins og hún hefur verið til dæmis í Bandaríkjunum þar sem er gjörólíkar aðstæður. Við getum ekki skoðað það sem er best verið að gera þar eftir margra áratuga reynslu og tráma, við erum á allt öðrum stað sem samfélag hér.“
Ný, sértæk nálgun möguleg
Breytingarnar þurfa að felast í að lögreglan þjóni öllum þegnum samfélagsins. „Án tillits til kynferðis, kynþáttar, húðlitar, kynhneigðar og svo framvegis. Við eigum að sæta eftirliti, það á að skoða þau mál sem út af standa, við eigum að hlusta á fólkið sem við erum að þjóna og reyna að gera betur og vera stöðugt að þjálfa okkar fólk í að bregðast við nýju samfélagi,“ segir Sigríður Björk.
„Þetta er verkefni sem við leggjum áherslu á og við erum á þessari vegferð alveg eins og allir aðrir í samfélaginu. En það að taka lögregluna út úr skiptir máli út frá valdbeitingarpartinum. Og þar kemur eftirlitið inn. Aftur, traustið er mikið, við viljum halda því, við viljum byggja ofan á það. Við viljum ná til allra, ekki bara sumra, þannig að fólk geti leitað til okkar með þá þjónustu þegar það þarf á henni að halda án einhvers fyrirvara eða fræðslu. Það getur verið að það þurfi að finna sértækar aðgerðir, það getur vel verið að við þurfum að búa til einhverja aðra nálgun.“
Ríkislögreglustjóri fagnar þeirri umræðu sem hefur átt sér stað undanfarnar vikur. „Það þarf að halda okkur við efnið í þessu. Við erum á vegferðinni og viljum gjarnan fá að læra af þeim tækjum og tólum sem er verið að nota sem kannski nýtast. Við verðum að átta okkur á sem samfélag að það er ekki ein nálgun sem nýtist öllum, við þurfum að setja okkur í hugarheim okkar þjónustuþega og stilla þjónustuna af þannig að hún nýtist þeim sem best. Það er áskorunin.“
Þessu tengt:
-
22. nóvember 2022Spyr dómsmálaráðherra hvernig það getur verið lausn við afbrotahegðun að fara í stríð
-
12. nóvember 2022Opinberu flóðljósin sem blinda fjölmiðla
-
15. september 2022Mál 16 ára drengs enn hjá eftirlitsnefnd fimm mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
26. júní 2022Sænskir ráðherrar í læri hjá Dönum
-
22. júní 2022„Misskilningur“ olli því að mál 16 ára drengs rataði ekki til eftirlitsnefndar – fyrr en nú
-
20. júní 2022Ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið um bein afskipti að ræða
-
12. júní 2022Rasismi innan lögreglunnar eins og annars staðar í samfélaginu
-
5. júní 2022„Hann varð ofsalega hræddur þegar löggan kom“
-
4. júní 2022„Löggæsla á Suðurnesjum er ekki kynþáttamiðuð“