10. Hækkum rána: Rýnt í rök Viðars
„Grein Viðars, fræðimanns á sínu sviði, virðist því miður ekki uppfylla þessa kröfu. Þannig má finna vísbendingu um afstöðu Viðars til þjálfarans strax í fyrstu málsgreinum greinar hans, þar sem hann líkir þjálfaranum við trúarleiðtoga sem hafi vafið bæði leikmönnum og foreldrum þeirra um fingur sér. Slíkir sleggjudómar eiga ekki heima í grein fræðimanns um samfélagsleg málefni sem varða sérsvið hans.”
Eiríkur Ari Eiríksson svaraði grein Viðars Halldórssonar birtist í Kjarnanum í febrúar.
Lestu greinina í heild sinni hér.
9. Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
„Niðurstaðan er öll á sama veg og verið hafði frá 1993 til 2015. Skattbyrði lægstu og milli tekjuhópa stórjókst en skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkaði. [...] Þetta er hin raunverulega skattastefna Sjálfstæðisflokksins í framkvæmd. Skattalækkun fyrir hina ríku og skattahækkun hjá öllum þorra almennings – mest hjá þeim tekjulægstu.“
Stefán Ólafsson skrifaði í september að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einungis lækkað skatta á hátekjufólk á árunum 1990 til 2019.
Lestu greinina í heild sinni hér.
8. Einvera barns – ómannúðleg framkoma við barn
„Mikið væri nú ágætt ef foreldrar eða starfsfólk sem ekki vill láta svona verklag yfir börnin ganga þyrfti ekki að heyja baráttur við skólayfirvöld. Við viljum geta treyst því að sérkennslustjórar, skólastjórar, deildarstjórar og allir sem koma að því að fræða foreldra og starfsfólk leikskóla og skóla til að styrkjast í hlutverki sínu leiti ávallt að virðingarríkustu og best rannsökuðu leiðinni sem fær er hverju sinni. Við erum nú þegar búin að ákveða með lögum að börn eiga að njóta vafans. Tökum það alla leið, sem samfélag sem hlúir að og gætir hagsmuna barna á mikilvægustu æviárum þeirra.“
Lestu greinina í heild sinni hér.
7. … uns sek er sönnuð
„Almenningsálitið og opinber umræða um einstök mál er sannarlega ekki heppileg málsmeðferð en nú er svo komið að margir brotaþolar og aðstandendur þeirra sjá ekki aðra leið færa. #metoo frásagnir eru í raun neyðarréttur fólks sem kerfið og samfélagið allt hefur brugðist.“
Margrét Tryggvadóttir sagðist í júlí vilja lifa í samfélagi þar sem enginn sé fundinn sekur uns sekt er sönnuð en þá verði líka að taka kynferðisbrot alvarlega.
Lestu greinina í heild sinni hér.
6. Leigjandi er sá sem kaupir íbúð fyrir annað fólk
„Leigumarkaðurinn hefur þannig öll einkenni okurlánamarkaðar. Þetta er vettvangur þar sem fólk auðgast á veikri stöðu meðbræðra sinna. Og hið opinbera blessar ástandið með því að vernda kerfið. Helstu aðgerðir þess eru að gefa leigusölum helmings afslátt af fjármagnstekjuskatti og að greiða út húsnæðisbætur sem í reynd niðurgreiða okurleiguna. Það eru hins vegar engin takmörk á því hversu há leigan má vera, hversu mikið okrið er og hversu hart er gengið að lífsafkomu leigjenda.“
Guðmundur Hrafn Arngrímsson og Yngvi Ómar Sighvatsson skrifuðu grein í nóvember um hvað það þýðir að vera leigjandi á Íslandi í dag.
Lestu greinina í heild sinni hér.
5. Af gervi-öryrkjum
„„Fjármálaráðherra veit náttúrlega alveg af þessum gervi-öryrkjum og hefur því varað fólk við þeim sí og æ enda viðsjárverðir,“ skrifar María Pétursdóttir sem skiptar fyrsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi. „Fólk getur verið á örorku en samt labbað upp að eldfjallinu, jafnvel uppá Esjuna! Sumir benda meira að segja á þetta á Facebook en átta sig þó ekki á því endilega að það sé kannski allt í lagi með fæturna á fólki með geðhvörf.“
María Pétursdóttir skrifaði grein í júlí um flókna stöðu öryrkja við þær aðstæður sem núverandi kerfi skapar.
Lestu greinina í heild sinni hér.
4. Svar við bréfi Viðars
„Viðar, þér urðu á mistök. Öllum verða á mistök. Í þessari grein viljum við bara benda þér á þessi mistök sem þú gerðir sem fræðimaður. Stundum er hægt að leiðrétta þau en það er alltaf hægt að læra af þeim. Dóttir okkar er sérfræðingur í mistökum, hún veit að næsta skrefið er að viðurkenna þau fyrir sjálfum sér.“
Lestu greinina í heild sinni hér.
3. Hvað gerist ef þú fellur í glóandi hraun?
„En þó glóandi hraunið gleypi þig ekki með húð og hári er harla ólíklegt að þú sleppir frá því lifandi. Í stað þess að sökkva í hraunið kviknar einfaldlega í þér. Glóandi hraun er allt að 1250° heitt – meira en 10 sinnum heitara en sjóðandi vatn - og því munu vítiseldar umvefja þig á örskotsstundu með þeim afleiðingum að þú fuðrar upp. Það eina sem eftir stendur verður aska sem svo bráðnar og rennur saman við glóandi hraunið. Game over.“
Eigendur Icelandic Lava Show skrifuðu hraunmola á Kjarnann í kjölfar þess að eldgos hófst við Fagradalsfjall.
Lestu greinina í heild sinni hér.
2. Helgar tilgangurinn meðalið?
„Það eru sumir sem eru þeirrar skoðunar að börn í nútímasamfélagi lifi í of mikilli bómull, séu veikgeðja og það þurfi að herða þau upp. Þrátt fyrir að sú skoðun geti verið réttmæt þá er úrsérgengin hugmyndafræði um einhverja töffarahörku og gamaldags karlmennsku ekki rétta svarið. Það er vafasamt að gera tilraunir á viðkvæmum hópum eins og börnum. Börn eiga ekki að vera tilraunadýr fyrir slíkar hugmyndir. Að taka upp þessar gömlu og úreltu þjálfunaraðferðir í íþróttaþjálfun barna er í mínum huga eins og að foreldrar myndu byrja að rassskella börnin sín á nýjan leik til að halda uppi aga. Er þetta virkilega stefnan sem við viljum taka?“
Ein umdeildasta grein ársins á Kjarnanum var skrifuð af Viðari Halldórssyni, prófessor í félagsfræði, um heimildarmyndina Hækkum rána.
Lestu greinina í heild sinni hér.
1. Er stærsta peningabóla allra tíma að springa?
„Stóra spurningin er ekki hvort heldur hvenær niðursveiflan kemur. Verður hún lítil eða mikil eða mesta hrun allra tíma? Hversu lengi mun vöruskortur, umframeftirspurn og aðgerðir ríkisstjórna og seðlabanka duga til að halda þessu gangandi og hvað þýðir þetta fyrir almenning á Íslandi.
Þurfum við að verja okkur og getum við varið okkur?
Eða eigum við bara að sitja á hliðarlínunni og bíða og sjá hvað gerist og vona það besta þegar kemur að því að deila út björgunarbátum, spenna greipar og vona að hagsmunatengd stjórnvöld setji fólkið í fyrsta sæti, í fyrsta sinn í sögunni?
Eigum við að bíða og vera svo jafn jarmandi hissa á þessu öllu saman, jafn hissa og stjórnmálafólkið og sérfræðingar fjármálakerfisins verða þegar yfirvofandi skellur dynur yfir? Og sætta okkur enn og aftur við að vera sett aftast í röðina eftir björgunarvestum sem verða allt of fá þegar frekasti og ríkasti minnihlutinn hefur tekið sitt?“
Mest lesna aðsenda grein ársins á Kjarnanum var skrifuð af Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, og birtist í byrjun nóvember.