Undanfarna daga hafa birst fréttaskýringar á Kjarnanum og í Stundinni sem byggja á gögnum sem sýna hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja hafa lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið. Í sumum tilfellum allt þrennt.
Ástæða þess að þetta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins stendur í þessari vegferð – sem starfsmenn hennar kalla „stríð“ og er að hluta rekið áfram af hópi sem kallar sig „skæruliðadeild Samherja“ – er sú að ofangreint fólk hefur annað hvort flett ofan af því sem Samherji hefur gert eða gagnrýnt framferði fyrirtækisins á opinberum vettvangi.
Fyrir að vinna vinnuna sína eða nýta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt varð fólk skotspónn ofsókna alþjóðlegs stórfyrirtækis og fótgönguliða þess, sem að uppistöðu virðist vera fólk með afar lágan siðferðisþröskuld, enga virðingu fyrir samfélagssáttmálanum og litla mannlega reisn.
Það sem Samherji gerði
Í umfjöllun Kjarnans hefur eftirfarandi komið fram: Samherji – stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins í eigu einstaklinga sem eru metnir á annað hundrað milljarða króna – er með fólk á fóðrum sem njósnar um blaðamenn. Starfsmenn og ráðgjafar fyrirtækisins eru að greina tengsl blaðamanna, safna af þeim myndum, og skipuleggja árásir á þá. Fólk sem ætlar sér að stinga, snúa og salta svo í sárið.
Sagt var frá því að starfsmenn og ráðgjafar Samherja reyndu að hafa áhrif á formannskjör í stétta- og fagfélagi blaðamanna á Íslandi. Sú aðför var gegn öðrum frambjóðandanum og rökstudd með því að það þyrfti að koma í veg fyrir að RÚV tæki yfir félagið og breytti því í vopn gegn Samherja. Það er rétt hjá nýkjörnum formanni Blaðamannafélags Íslands að þetta er alvarleg aðför sem ætlað var að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Henni var beint gegn nýjum formanni, mótframbjóðanda hennar og öllum blaðamönnum landsins.
Í þeim gögnum sem umfjöllunin byggir á kemur skýrt fram að stjórnendur, starfsmenn og ráðgjafar Samherja eru saman í þessari vegferð til að skapa ótta hjá öðrum blaðamönnum en þeim sem eru í beinni skotlínu „skæruliðadeildar“ fyrirtækisins svo þeir hræðist að fjalla um fyrirtækið. Allt er þetta gert eftir samþykkt „mannanna“, æðstu stjórnenda Samherja, og til að þóknast þeim.
Í umfjölluninni hefur líka komið fram að starfsmenn Samherja lögðu á ráðin um að draga úr trúverðugleika rithöfundar sem gagnrýndi fyrirtækið, með því að fletta upp eignum hans. Til þess voru notaðar fasteignaskrá Þjóðskrár og ökutækjaskrá Samgöngustofu. Misnotkun á aðgengi að þessum gagnasöfnum getur varðað við lög.
Kjarninn greindi frá því að skýr vilji hafi verið til staðar innan Samherja til að skipta sér að því hverjir leiði lista Sjálfstæðisflokks í heimakjördæmi fyrirtækisins, nú þegar fyrrverandi stjórnarformaður Samherja er að ljúka áralangri veru í því sæti. Kjarninn greindi frá því að starfsmenn Samherja voru með áætlanir um víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berjast gegn spillingu. Kjarninn greindi líka frá því hvernig Samherji hugðist bregðast við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gegn nafngreindu fólk.
Þetta eru allt einstakar aðfarir í sögu Íslands. Þær eru lýðræðislega stórhættulegar og þær kalla á sterk viðbrögð.
Það styttist í tendrun á gaslýsingunni
Líkt og alltaf þegar opinberanir verða á raunverulegu gangverki íslensks samfélags þá heyrist lítið í helstu varðmönnum valdsins fyrstu daganna. Síðan mæta þeir hægt og rólega með gaslýsingarlampann og reyna að fá fólk til að horfa á fingurinn frekar en tunglið.
Það að blaðamenn taki við gögnum sem eru jafnvel fengin með ólögmætum hætti er ekki lögbrot. Fyrir því eru mörg fordæmi hérlendis. Það skýrasta er frá árinu 2009. Þá kærði Fjármálaeftirlitið alls sex blaðamenn til sérstaks saksóknara fyrir brot á bankaleynd eftir að þeir birtu upplýsingar úr lánabókum Kaupþings og Glitnis skömmu eftir bankahrun. Saksóknari vísaði öllum kærunum frá.
Í tilviki þriggja blaðamanna var viðurkennt að þeir hefðu haft upplýsingar úr lánabók Kaupþings er varða viðskipta- og einkamálefni viðskiptavina. Hins vegar sagði í frávísun saksóknara að þeir hagsmunir vegist á við stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi blaðamannanna, lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla að stuðla að upplýstri umræðu og þá almannahagsmuni að vekja athygli á rannsóknarverðum athöfnum.
Það er kaldhæðni örlaganna að tveir þessara þriggja blaðamanna koma við sögu í Samherjagögnunum sem Kjarninn og Stundin hafa greint frá undanfarna daga. Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni, er á meðal þeirra blaðamanna sem „skæruliðadeild“ Samherja vill grafa undan með kerfisbundnum hætti með rógi og árásum. Þorbjörn Þórðarson, sem var starfandi blaðamaður árið 2009, er nú í hópi þeirra launuðu starfsmanna og ráðgjafa Samherja sem hafna stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi blaðamanna, reyna að takmarka lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla til að stuðla að upplýstri umræðu og vinna gegn þeim almannahagsmunum að vekja athygli á rannsóknarverðum athöfnum.
Það er síðan enn meiri kaldhæðni að einungis einu sinni hefur starfsmaður fjölmiðlafyrirtækis verið fundinn sekur um að hafa brotið lög – í því tilfelli persónuverndarlög – fyrir að fara í heimildarleysi inn í tölvupóst einhvers annars. Sá maður, Óskar Magnússon, var þá útgefandi Morgunblaðsins og fór í leyfisleysi inn í pósthólf blaðamanns sem starfaði hjá honum en er í dag stjórnarmaður í Samherja og einn þeirra sem kemur að áróðursherferð fyrirtækisins gegn blaðamönnum.
Aðgerðaráætlun um eitthvað sem varð ekkert
Í dag hefst þingfundur á Alþingi síðdegis á sérstakri umræðu um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu, þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður fyrir svörum.
Þar væri fullt tilefni til að spyrja hana út í aðgerðalista sem ríkisstjórnin setti saman vegna Samherjamálsins í nóvember 2019 og átti að leiða til aukins trausts á íslenskt atvinnulíf. Af þeim sjö aðgerðum sem þar eru tilteknar má segja að ein hafi orðið að veruleika, að leggja skattrannsóknum til aukafjárveitingu upp á 200 milljónir króna. Reyndar var þar um einskiptisaðgerð að ræða og skömmu síðar ákvað sama ríkisstjórn að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra í núverandi mynd, gera minni skattsvik refsilaus og veikja verulega grundvöll fyrir stærri skattrannsóknum, líkt og lesa má um hér.
Þá átti að láta Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinna úttekt á „viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum.“ Síðast þegar fréttist af því máli var enn verið að reyna að ganga frá samningum um gerð úttektarinnar, sem augljóslega hefur því ekki verið gerð.
Sýning sett á fót til að sefa múginn tímabundið
Stjórnvöld hafa ekkert gert í kjölfar Samherjamálsins sem gagn er af. Sjö liða aðgerðaáætlunin var lítið annað en sýning, til að sefa reiðina sem gaus upp í samfélaginu tímabundið þangað til að fólk færi að hugsa um annað. Sýningarstjórinn var valinn Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, persónulegur vinur forstjóra Samherja og einn óvinsælasti ráðherra Íslandssögunnar. Sá hinn sami og hringdi í forstjórann, vin sinn, eftir að Samherjamálið kom upp í nóvember 2019 og til að spyrja hvernig honum liði.
Stjórnvöld gerðu ekkert þegar opinberað var að starfsmaður Samherja væri að elta blaðamann mánuðum saman. Þau gerðu ekkert þegar Samherji birti alls 13 myndbönd þar sem ráðist er á fólk sem sagði frá. Þau gerðu ekkert þegar Ísland féll niður í 16. sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum, meðal annars vegna herferðar Samherja. Það eina sem þau hafa gert er að aðlaga frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla að þörfum fjölmiðils sem var einu sinni í eigu Samherja en er nú að mestu í eigu annarra útgerða, og draga samhliða úr styrkjum til þeirra fjölmiðla sem fjallað hafa mest um fyrirtækið. Um framtíð þess frumvarps verður kosið á Alþingi á morgun, strax á eftir sérstöku umræðunni um traust. Sú uppröðun er nánast ljóðræn.
Hér hefur verið brotinn samfélagssáttmáli. Þeir sem hann brutu sækja vald sitt til kerfislegs vanda sem stjórnmálamenn þurfa að hafa þor og dug til að taka á. Á meðan að hluti stjórnmálanna telur það vera forgangsatriði að verja þetta kerfi, á meðan að annar hluti telur mikilvægara að komast að völdum með því að gera málamiðlanir um að hreyfa ekki við kerfinu og á meðan að þeir sem eftir sitja í andstöðu hafa ekki getu til að nýta sér þessar glórulausu aðstæður til framdráttar þá mun ekkert breytast. Þá er svarið við spurningunni „er þetta í lagi?“ einfaldlega áfram „já“.
Það verður nefnilega enginn hluti af lausninni með því að verða að vandamálinu.