Það er nokkuð súrrealískt að hlusta á sömu stjórnmálamenn öskra á torgum um nauðsyn þess að sýna ráðdeild í rekstri en bera samt sem áður ábyrgð á því stofnana- og stjórnsýslufumfangi sem er á Íslandi. Og bæta frekar við það en vinna gegn því.
Hér búa 374 þúsund manns. Það er ekki þörf á 69 sveitarfélögum, rúmlega 160 stofnunum, tólf ráðuneytum og níu stjórnmálaflokkum á fjárlögum. Það er heldur ekki þörf á þessum risastóru, flóknu og þungu framfærslukerfum, uppfullum af skerðingum sem skilja allt of marga þegna í þessu ríka og góða landi eftir í fátæktargildrum og föst í viðjum kvíða og vanlíðan. Það er hægt að einfalda þetta allt saman.
Þegar við bætist að margar einingarnar sem eiga raunverulega að þjóna tilgangi fyrir almenning eru alltaf undirfjármagnaðar að mati þeirra sem þær reka, og geta þar af leiðandi ekki sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað, þá er lítið annað hægt en að klóra sér í hausnum yfir tilganginum.
Og aðgerðarleysinu við að endurskipuleggja þessi kerfi með hagsmuni notenda þeirra að leiðarljósi.
Frelsi til að eyða peningum í millifitu og gæðinga
Ef íslensk stjórnsýsla væri fyrirtæki á almennum markaði í eðlilegu landi þar sem of miklum peningum væri eytt í millifitu og púka á fjósbitum en allt of litlum í að láta starfsemi hennar virka fyrir notendur þá væri fyrir löngu búið að reka alla æðstu stjórnendur.
Hér er þessu ástandi hins vegar pakkað inn í þá pólitísku orðræðu að um stöðugleika sé að ræða og tekin afvegaleiðandi hliðarumræða um að minnka þurfi báknið með því að selja samfélagslega innviði til spákaupmanna, í nafni frelsis. Stundum tekst að selja þennan pakka með hnyttni og hlýlegu viðmóti heimilislegra einstaklinga og sannfæra nægilega marga um að það sé bara best að kjósa kyrrstöðu. Það er svo þægilegt að breyta litlu, eða engu.
Markmiðið á ekki endilega að vera að fækka opinberum starfsmönnum. Markmiðið á fyrst og síðast að vera að bæta þjónustuna, færa hana nær notendum og tryggja að við, eigendur þessa stjórnkerfis, fáum meira fyrir skattpeningana okkar. Með þessu yrði hægt að fjölga starfsmönnum þar sem þeirra er þörf, til dæmis í grundvallarþjónustu á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála, en fækka þeim annarsstaðar, t.d. á skrifstofum sveitarstjórna eða í stjórnendalagi stofnana. Lykilatriðið er að fjármagna þær einingar sem eftir standa þannig að þær geti raunverulega veitt þá þjónustu sem þær eiga að veita, og samfélagið þarf á að halda.
Frelsi til að þjappa saman valdi
Ísland er ekki mjög lýðræðislegt land, í þeim skilningi að vald er afar samanþjappað. Hér er sterkt ráðherraræði, enda ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald, og aðkoma almennings að stjórnmálum er að mestu bundin við kosningar. Leiðir til að bæta þá aðkomu, til dæmis í gegnum skýrari ferla um þjóðaratkvæðagreiðslur með breytingum á stjórnarskrá, hafa verið svæfðar af íhaldsöflum á síðustu árum.
Fyrir rúmum fjórum árum fór ný ríkisstjórn af stað meðal annars með það markmið að ætla að efla Alþingi. Það var sérstaklega skrifað inn í stjórnarsáttmálann og var meira að segja í titli hans. Þegar á reyndi fólst þessi efling þó einungis í auknu fjáraustri í fjölgun starfsmanna þingflokka og þingnefnda. Enginn vilji var til staðar til að breyta þingsköpum. Bara til að eyða meiri peningum í að auka tök starfandi stjórnmálaflokka á völdum, og um leið skapa stórar fjárhagslegar hindranir fyrir ný öfl til að komast inn á stjórnmálasviðið.
Þegar sama stjórn endurnýjaði svo hjúskaparheitin var samhliða ákveðið að kasta þessari styrkingargrímu. Hún tók aftur við stýringu nær allra fastanefnda, fjölgaði ráðuneytum og styrkti það ráðherraræði sem stjórnin stendur fyrir í sessi. Hver og einn ráðherra er konungur sinna málaflokka og ný skipan stjórnarráðsins, þar sem málaflokkar raðast á köflum eftir áhugasviði þeirra sem sitja í stólunum frekar en samfélagslegri þörf, sýnir þetta skýrt.
Alþingi er fyrir vikið aðallega leikhús og afgreiðslustofnun fyrir vilja ráðherranna. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, rakti þessa stöðu ágætlega í áramótagrein sem birt var á Kjarnanum.
Þetta er kerfi þeirra sem finna til valdsins og sækjast fyrst og síðast eftir sæti við borðið til að útdeila peningum okkar allra til sumra sem þeim þóknast.
Frelsi til að valdefla Borgartúnið
Borgartúnið, heimili sérhagsmunagæslu valdamikilla og efnaðra hópa, leggur línurnar fyrir þessi stjórnmál. Þær áherslur eru nokkuð skýrar: opinbert eftirlit er vont og fyrirtæki eiga frekar að fá að hafa eftirlit með sjálfum sér. Flest verkalýðsfélög eru slæm. Þeim þarf að fækka verulega og það þarf að veikja vopn þeirra á borð við verkfallsrétt umtalsvert. Flestir launþegar eru með allt of há laun.
Skattar eru slæmir, sérstaklega á efnað fólk og valin fyrirtæki, jafnvel þótt öllu skynsömu fólki ætti að vera ljóst að brauðmolahagfræðin þar sem stærri kaka ríkra á að búa til stærri brauðmola fyrir pöpulinn virkar ekki vel fyrir neinn nema efsta lagið.
Hækkun á útgjöldum vegna þess sem Borgartúnið kallar „bótakerfi“ er afleit ráðstöfun, enda ekki þörf á því að allt fólk geti borðað sig til seddu eða búið einhversstaðar.
Opinberir starfsmenn eru slæmir og opinberir starfsmenn sem fá mannsæmandi laun eru sérstaklega slæmir, jafnvel þótt samið hafi verið við þá fyrir fimm árum um að gefa eftir lífeyrisréttindi í skiptum fyrir hærri laun, án þess að það hafi verið efnt.
Umræða um upptöku annars gjaldmiðils eða frekara alþjóðlegt samstarf er ekki á dagskrá, enda gæti aukin samkeppni skert frelsi þeirra sem hafa mest tök á íslensku atvinnulífi til að halda fákeppni og einokun lifandi.
Frelsi til að skammta réttum aðilum milljarða í skattfé
Ríkisútgjöld eru að uppistöðu slæm nema þegar þau fela í sér greiðslur til fyrirtækja í kreppuástandi svo eigendur þeirra, sem margir hafa tekið milljarða út úr fyrirtækjunum þegar vel gengur, þurfi ekki að ganga á eigið fé sitt. Þetta gerðist síðast þegar fyrrverandi formaður Samtaka Iðnaðarins, nú formaður efnahags- og viðskiptanefndar, ákvað að hlýða kalli núverandi stjórnenda þess hagsmunagæsluarms og framlengja átakið „allir vinna“. Það var gert þrátt fyrir að sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafi sagt framlenginguna vera slæma hagstjórn og að engin þörf væri á henni. Kostnaðurinn ríkissjóðs: um sjö milljarðar króna.
Enn eitt dæmið er Matvælasjóður, sem á að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Stjórn hans útdeilir nokkur hundruð milljónum króna af skattfé á hverju ári. Í henni situr meðal annars framkvæmdastjóri hagsmunagæslusamtaka útgerðarmanna. Nokkur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, sem eiga eigið fé upp á tugi milljarða króna og geta vel sinnt þróun án styrkja, eru á meðal helstu styrkþega.
Svo má ekki gleyma ákvörðun um að greiða 700 milljónir króna úr ríkissjóði til stuðnings bændum vegna hækkunar áburðarverðs í kjölfar heimsfaraldursins svo hægt sé að viðhalda „fæðuöryggi“.
Frelsi til að græða peninga
Allt byggir þetta á einfaldri hugmyndafræði: eini tilgangur gangverksins er að sumir græði peninga. Enginn annar mælikvarði er á árangur en bankareikningurinn og völdin sem peningarnir veita. Hagvöxtur, hagvöxtur, hagvöxtur.
Aukin auðsöfnun elur svo af sér meiri völd.
Öflin sem starfa eftir þessari möntru hafa styrkt stöðu sína gríðarlega á síðastliðnum áratug. Þau hafa úr miklum fjármunum að spila og hafa ótrúlegt aðgengi að ráðamönnum og ákvörðunartöku í gegnum tengslanet, umsagnarferli, komu fyrir þingnefndir og setu í hinum ýmsu nefndum og hópum sem skipaðir eru til að móta sýn eða framfylgja henni.
Samhliða þessari þróun var ákveðið að dæla fé í að koma upp upplýsingafulltrúa- og spunameistarageri innan framkvæmdavaldsins og stjórnmálaflokkanna með fjáraustri úr opinberum sjóðum. Þessi hópur hefur það meginhlutverk að láta yfirmenn sína og ákvarðanir þeirra, litaðar af hagsmunum lobbíista, líta vel út.
Frelsi til að ná tökum á fjölmiðlaumfjöllun
Þá var tekin pólitísk ákvörðun um að veikja kerfisbundið fjölmiðlaumhverfið, aðallega með því að gera nánast ekkert til að laga það í rúman áratug. Aðhaldshlutverk þess hefur fyrir vikið veikst gífurlega, stórfelldur atgervisflótti eru úr stéttinni, starfandi hefur fækkað gríðarlega og stærstu fréttamiðlarnir hafa verið reknir í botnlausu tapi árum saman. Það geta þeir vegna þess að ríkt og valdamikið fólk úr atvinnulífinu getur nýtt skattalegt tap sitt af öðrum verkefnum til að setja milljarða króna í hítina í stað þess að greiða þá í skatta, og fá „tök á umræðunni“ fyrir vikið.
Fáránleiki þessa eitraða sambands náði nýjum hæðum í síðasta mánuði þegar velgjörðarfélag fólks sem stundar Vinnustofu Kjarvals stóð fyrir „Fullveldishátið atvinnulífsins“ í samstarfi við nýjan viðskiptamiðil. Fyrir hönd félagsins kom fram kona sem er grunuð um að hafa, ásamt öðrum, ólöglega haft mikið fé af Íslandsbanka með glæpsamlegum hætti. Á þessum viðburði var sami Íslandsbanki verðlaunaður fyrir að hafa verið seldur. Meðal þeirra sem tók við verðlaununum var bankastjórinn sem stýrði Íslandsbanka þegar hinn ætlaði glæpur var framinn og lét kæra málið til héraðssaksóknara.
Frelsi til að breyta
Stöðugleiki er í besta falli kyrrstaða. Sá stöðugleiki sem er stanslaust verið að klifa á við okkur að sé lífsnauðsynlegur snýst ekki um ráðdeild eða ábyrgð í ríkisrekstri eða bætta stjórnmálamenningu. Hann snýst ekki um heilbrigða umræðu, valddreifingu, góða þjónustu, velferð flestra, sterka fjölmiðla og það að hagsmunir almennings séu hafðir í fyrirrúmi.
Hann snýst um völd og því að viðhalda völdum. Því meira samdauna þessu kerfi sem fólk verður, því sérkennilegri verða öll samskipti við það.
Stjórnmálafólk sem árum saman brann af eldmóði og dirfsku er allt í einu orðið hálf vænisjúkt og sér samsæri gegn sér í hverju horni vegna þess að það fær gagnrýni fyrir að vera orðið að því sem það stóð áður á móti. Fjölmiðlamenn eru nú margir hverjir miklu nær viðfangsefnum sínum sem þeir eiga að veita aðhald en þeim sem þeir eiga að vera að skrifa fyrir. Eigendur umræðunnar eru þeir sem eiga mestan pening hverju sinni.
Sá stöðugleiki sem verið er að bjóða okkur upp á er ekki eftirsóknarverður. Þótt Ísland hafi um margt þróast í rétta átt á úndanförnum áratugum og sé að mörgu leyti gott land til að búa í þá má það ekki vera afsökun fyrir því að standa kyrr og taka ekki á þeim meinsemdum sem blasa við. Hér er sameiginlegum gæðum misskipt, hér er völdum misbeitt og hér er opinberum fjármunum sóað í að viðhalda því ástandi.
Það þarf að að þora að breyta því sem er ekki að virka. Og nýta frelsið til að standa óhrædd upp í hárinu á þeim sem vilja standa í vegi fyrir þeim breytingum.