Tæknispá 2022: Breyttir vinnustaðir, bálkakeðjuæðið og hlutverk Íslands í orkuskiptum
Í árlegri tæknispá sinni kemur Hjálmar Gíslason, forstjóri GRID, víða við. Hann sér fyrir sér breytt jafnvægi milli vinnu á föstum vinnustað og í fjarvinnu, að hörð leiðrétting sé framundan í bálkakeðjutækni og að Ísland geti orðið tilraunastofa í orkuskiptum og grænni tækniþróun.
Sem óseðjandi áhugamaður um tölvur og tækni hef ég gaman af að reyna að átta mig á mótandi straumum í tækniheiminum á hverjum tíma og ímynda mér svo hvert þeir straumar eru líklegir til að leiða heiminn í framhaldinu.
Í íslensku samhengi eru þrír slíkir straumar mér efst í huga í ár:
- Vinnustaðir eru að breytast og það mun móta borgir og bæi
- Bálkakeðjuæðið er að ná hámarki og er mestmegnis bóla
- Hugsanlegt hlutverk Íslands í grænni tækni og orkuskiptum
1. Vinnustaðir
Eftir að Covid kenndi heimsbyggðinni allri fjarvinnu hefur mikið verið rætt um framtíð vinnustaða, það er „skrifstofunnar” svokölluðu, orð sem aðgreinir vinnustað þar sem að mestu fer fram í huga, ræðu og riti frá vinnustöðum þar sem unnið er með áþreifanlega hluti.
Sumir hafa gengið svo langt að spá því að öll skrifstofuvinna muni fara fram í fjarvinnu héðan í frá og þörfin fyrir skrifstofuhúsnæði muni því sem næst hverfa. Fyrirtæki muni ekki einu sinni hafa höfuðstöðvar. Aðrir vilja meina að skrifstofulífið muni falla aftur í nákvæmlega sama farið um leið og aðstæður leyfa.
Ég er annars vegar á því að raunveruleikinn verði - eins og oftast - einhvers staðar þarna öfganna á milli, en hins vegar á því að stærstu breytingarnar séu allt aðrar og meiri en þær sem mest er um rætt.
Hvað jafnvægið milli vinnu á föstum vinnustað og í fjarvinnu varðar er svarið nær örugglega meiri fjölbreytni og meiri sveigjanleiki. Í allmörg ár hafa verið til fyrirtæki sem hafa verið stofnuð, byggð upp og rekin algerlega í fjarvinnu. Sum jafnvel þannig að samstarfsfólk hefur aldrei hist í eigin persónu. Manni skilst að það hafi gengið á ýmsu við að finna rétta vinnulagið hjá sumum þessara fyrirtækja, enda fyrirkomulagið alveg nýtt af nálinni og enginn reynslubrunnur sem hægt er að leita í. Önnur fyrirtæki eru byggð upp dreifð en reyna reglulega að ná teymum eða starfsmönnum öllum saman á einn stað. Þetta eru ennþá undantekningar, en þessum fyrirtækjum mun fjölga. Svo raðast þau fyrirtæki sem halda úti starfsstöðvum á skalann einhvers staðar frá því að fjarvinna sé ráðandi en fólk komi á skrifstofuna fáeina daga í viku eða mánuði, yfir í að vinna á skrifstofunni sé venjan en sveigjanleiki til að vinna að heiman eftir því sem hentar, yfir í hefðbundna átta-tíma-á-dag-á-skrifstofunni módelið sem margir munu halda sig við.
Til að skilja hvert þetta sé líklegast að leiða þarf að skoða kostina sem felast í hvoru fyrirkomulaginu fyrir sig.
Í skapandi vinnu, eða þéttu teymissamstarfi er þörf á miklum og skilvirkum samskiptum. Standi valið á milli þess annars vegar að slíkt teymi vinni sína vinnu saman í rými þar sem hægt er að horfast í augu, teikna á töflu, horfa á sömu hlutina, benda og blaðra og hins vegar að eiga í slíkum samskiptum yfir netið mun samvinna með samveru alltaf hafa yfirhöndina. Boðleiðir eru stuttar, samskipti skilvirk og hættan á misskilningi minni. Hins vegar er ekki nærri því öll vinna - jafnvel ekki þó fólk sé hluti af skapandi teymum - af þessum toga. Stór hluti slíkrar vinnu fer fram með einbeitingu hvers og eins fyrir framan sína vinnustöð og slíkri einbeitingu getur verið jafngott eða jafnvel betra að ná heima fyrir.
Aðrir kostir fjarvinnu eru skýrir. Þau sem þurfa að ferðast lengi til og frá vinnu greiða allhátt gjald í formi tíma og peninga til að komast á vinnustaðinn. Eftir því sem minni viðveru er krafist er hægt að leita lengra eftir hæfileikaríku starfsfólki og það er langstærsti kosturinn sem dreifð fyrirtæki búa við. Þau geta ráðið til sín starfsfólk hvaðan sem er úr heiminum, frekar en að einskorða sig við sína heimabyggð. Þau fyrirtæki sem þurfa á sérhæfðu og oft eftirsóttu starfsfólki að halda geta þannig margfaldað möguleika sína á því að ná til sín hæfu fólki - jafnvel framúrskarandi fólki sem býr ekki við mikil tækifæri í sinni heimabyggð.
Marga aðra kosti og galla hvorrar leiðar fyrir sig mætti nefna, en sá þáttur sem oftast verður útundan í þessari umræðu er félagslegi þáttur vinnunnar. Þó fólk sé misjafnlega félagslynt, er staðreynd að félagsleg samskipti eru manninum nauðsynleg og öll þörfnumst við þess að eiga í innihaldsríkum samskiptum við annað fólk, þó í mismiklum mæli sé. Í fullu starfi ver fólk um þriðjungi vökustunda sinna við vinnu. Það er verulegur hluti lífsins og samskipti við samstarfsfólk getur verið stór hluti félagslegra samskipta - í raun oft ómissandi hluti vinnunnar. Og þó hægt sé að eiga ágæta fundi og sinna flestum „hörðum” þáttum vinnunnar yfir internetið er mun erfiðara að mæta mjúku þáttunum þannig. Fyrirtæki ættu alls ekki að leiða þennan þátt hjá sér. Rannsóknir sýna (sjá m.a. bók Marissu King - Social Chemistry) að fólk sem á í góðum persónulegum samskiptum við samstarfsfólk sitt er ánægðara og ólíklegra til að skipta um starf en fólk sem á það ekki. Gott persónulegt samband milli starfsmanna eykur skilvirkni samskipta og minnkar hættuna á misskilningi, oftúlkunum og ósætti.
Nú þegar fyrirtæki víða um heim nálgast nærri 2 ár af algerri eða nær algerri fjarvinnu birtast afleiðingar þessa með ýmsum hætti. Starfsmenn hverfa frá störfum sem þeir hefðu síður gert hefðu þeir persónulegar tengingar við samstarfsfólk sitt og yfirmenn, margir glíma við hugræn vandamál sem greind eru sem kulnun eða jafnvel klínískt þunglyndi og sumum fyrirtækjum hefur reynst erfitt að fá fólk til að mæta aftur á skrifstofur sínar sem getur svo orðið að vítahring sem ekki næst að rjúfa og fólkið einangrar sig enn meira.
Af þessu dreg ég tvær ályktanir:
- Fjölbreytni í bæði landfræðilegri uppsetningu fyrirtækja og fjarvinnu mun halda áfram að aukast
- Vinna þarf – meðal annars að uppfylla þörfina fyrir félagsleg samskipti
Þörfinni fyrir félagsleg samskipti má auðvitað að einhverju leyti mæta með samskiptum við starfsfólk annarra fyrirtækja, til dæmis í samvinnurýmum (e. Co-working spaces), en vegna áðurnefnds styrks sem felst í traustum samskiptum samstarfsfólks græða bæði fyrirtæki og starfsfólk á því að slík samskipti eigi sér sem mest stað milli samstarfsfólks.
Þannig held ég að hefðbundnum skrifstofurýmum muni sannarlega fækka. Kostirnir við það að hafa stórar höfuðstöðvar sem rúma hundruð, ef ekki þúsundir starfsmanna fara hverfandi miðað við kostina sem felast í því að dreifa þeirri starfsemi og geta sótt starfskraft víðsvegar um heiminn. En þörfin fyrir vinnurými sem nýtast allt frá einstaklingum og litlum teymum upp í nokkra tugi starfsmanna mun aukast. Það er reyndar ekki ólíklegt að efri mörk þessarar stærðar sé einhvers staðar í námunda við hina frægu tölu Dunbars eða í kringum 150.
Af þessum sökum held ég að það sé líklegt - og raunar má sjá þess merki nú þegar - að í stað þess að ráða staka starfsmenn á víð og dreif um heiminn reyni fyrirtæki að ráða eitt eða fleiri teymi á hverjum stað. Þetta held ég að muni leiða af sér stórar breytingar, ekki bara á fyrirtækjum og fyrirtækjarekstri heldur á borgum, bæjum og mannlegu umhverfi hvívetna. Að því marki sem borgir og bæir hafa keppst við að laða til sín fólk, hefur sú keppni mest snúist um hagsmuni fyrirtækja - einkum stærri fyrirtækja. Hvar þau borgi sem lægsta skatta, hvar koma megi þeim sem best fyrir í skipulaginu með þeirra hagsmuni að leiðarljósi og hvernig tryggja megi þeim nauðsynleg aðföng og mannafla.
Með þann sveigjanleika sem að ofan er nefndur mun þetta snúast á haus. Valið um búsetu verður æ minna háð því hvar störf eru í boði og mun snúast meira um þau lífsgæði sem eru í boði á svæðinu - þar á meðal aðgengi að vinnuaðstöðu fyrir einstaklinga og lítil teymi. Til að blómstra þurfa borgir og bæir því að leggja áherslu á mannvænt umhverfi frekar en fyrirtækjavænt. Þannig mun fólki sem elst upp í Reykjavík og lærir og þjálfar sig upp til að stunda þekkingarstörf standa til boða að búa nánast hvar sem er í heiminum en líka fjölbreytt störf óháð því hvar það kýs að búa. Þekkingarstarfsmenn munu smám saman get unnið fyrir hvern sem er en líka hvaðan sem er.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig bæir, borgir og lönd munu mæta þessu nýja umhverfi - og þá í okkar íslenska samhengi hvernig Reykjavík, eða Íslandi í heild mun ganga að halda í, eða jafnvel draga til sín slíkt fólk.
2. Bálkakeðjur og Bitcoin
Ég hef fjallað um Bitcoin og bálkakeðjutækni í tæknispánni áður. Þar á meðal í spánni fyrir árið 2018 sem birtist fyrir fjórum árum. Á þessum tíma var Bitcoin nánast eini hluti bálkakeðjuheimsins sem var í umræðunni og verðið hafði hækkað hratt, sérstaklega á síðari hluta 2017. Ég tók nokkuð harða afstöðu í spánni og spáði beint út „miklu verðfalli Bitcoin á árinu 2018.”
Það stóð heima. Á árinu 2018 féll verð Bitcoin úr meira en 15 þúsund dollurum í byrjun ársins í minna en 4 þúsund dollara í lok þess. Fall sem nam um 75% og verðið náði í raun ekki aftur sömu hæðum fyrr en í lok árs 2020.
Á árinu 2021 hefur verð á Bitcoin rokkað í kringum 50 þúsund dollara. Sveiflast allt upp undir 65 þúsund dollara niður undir 30 þúsund. Þessi endurkoma kemur ekki alveg á óvart, enda fylgdi ég spánni fyrir fjórum árum eftir með þeim orðum að rétt væri að taka fram að „þrátt fyrir spá mína um yfirvofandi hrun á verði Bitcoin á árinu, þá tel ég samt talsverðar líkur á að myntin muni sanna sig til langs tíma sem nokkurskonar rafgull. Það er, sem verðmæti (ekki hlæja, málmgull er einskis virði heldur í sjálfu sér) sem sjaldan skipta um hendur og litið verður á sem langtímafjárfestingu.”
Ég stend við þetta og er reyndar mun vissari í minni sök nú en þá um að Bitcoin muni ná og halda þessum sessi sem „rafgull” og muni til langs tíma hækka í verði. Ekki hlaupa samt upp til handa og fóta og kaupa Bitcoin byggt á þessum spádómi því ég þykist líka sjá mjög svipuð bólueinkenni núna og ég sá fyrir fjórum árum og ætla því aftur að spá Bitcoin verulegu falli á komandi ári þó ég trúi því að langtímatrendið - sérstaklega af þeim botni - verði upp á við.
Fyrst ég er kominn í endurvinnsluham er rétt að halda bara áfram að vinna með spána frá 2018. En þar sagði: „Hin undirliggjandi og stórmerkilega „blockchain” tækni er nefnilega komin til að vera - og ekki bara sem hryggjarstykkið í rafmyntum, heldur alls kyns færslum öðrum, frá listaverkaviðskiptum til gagnamiðlunar.”
Þessi sýn hefur aldeilis fengið byr síðustu misserin. Fjárfestingar bæði leikra manna og lærðra í „crypto” eða „web3” (sem hvort tveggja eru önnur nöfn yfir tækni og hugmyndir sem hverfast um bálkakeðjutækni) hafa farið með himinskautum og mikið af kláru fólki sem leitar inn í þennan geira.
Þarna þykist ég samt sjá jafnvel enn greinilegri bólu en í gengi Bitcoin einu saman. Satt að segja sýnist mér margar af þessum hugmyndum á hreinum villigötum - blockchainlausnir í leit að vandamáli - þar sem „gamaldags” tækni með miðlægum gagnagrunnum og aðgangsstýringu taki blockchain-útfærslunum fram í hraða, þægindum og hreinlega raunhæfni.
Ég spái því að „web3”-bólan stefna í harða leiðréttingu á árinu 2022 og að fjárfesting í slíkum fyrirtækjum og verkefnum muni dragast skarpt saman. Það verði þannig ekki lengur nóg að veifa „crypto” orðinu til að sprotafyrirtæki sé talið álitlegur fjárfestingakostur og á næstu 2-3 árum muni 95% crypto-fyrirtækja fara veg forvera sinna: túlípana, gulleitar í Vatnsmýri og undirmálsskuldabréfa.
Það skal tekið fram að þetta er fullkomlega eðlileg framvinda þegar ný og byltingarkennd tækni kemur fram og á sér hliðstæðu helst í „dotcom”-bólunni í kringum síðastliðin aldamót sem þrátt fyrir allt skapaði grunninn að flestu því sem okkur þykir hversdagslegt nú við internetið og snjallsíma.
Fjárfestingar í geiranum munu nú þéttast í kringum þær hugmyndir þar sem bálkakeðjutæknin hefur skýra kosti umfram hefðbundnari lausnir. Viðskiptamódel sem byggjast á því að vera milliliður í viðskiptum einstaklinga og taka gjald fyrir munu eiga mjög undir högg að sækja eftir því sem greiðslumiðlun byggð á blockchain ryður sér til rúms þannig að fólk geti með öruggum hætti átt í viðskiptum milliliðalaust. Þannig held ég að greiðslulausnir sem byggja á blockchain muni með tímanum ógna engu minni aðilum en greiðslukortafyrirtækjum og greiðslumiðlunarstarfsemi banka og sparisjóða.
Markaðstorg munu enn hafa hlutverki að gegna til að koma á samskiptum, en síður sem milliliður í viðskiptunum sjálfum. Það er því líklegt að Ebay, Etsy og jafnvel Amazon muni þurfa að endurskoða starfsemi sína að einhverju leyti vegna þessa.
Að síðustu held ég að web3 muni gera það auðveldara en nokkru sinni fyrir skapandi fólk að koma list sinni í verð - allt frá tónlist og myndlist til algerlega stafrænna listforma svo sem aukahluta í sýndarveruleikaleikjum og „metaverse”-heimum. Þarna verður kannski mesta nýsköpunin í þessu öllu saman.
En þetta mun nú ekki allt eiga sér stað á einu stuttu ári.
3. Ísland og græna tæknin
Þessi árin herðist greinilega upptakturinn í orkuskiptum og grænni tækni. Sumar þjóðir hafa náð mögnuðum árangri síðastliðinn áratug eða svo og það er farið að hægja verulega á vexti í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, en betur má ef duga skal og vonandi sjáum við innan fárra ára að vöxturinn breytist í samdrátt og losunin fari minnkandi ár frá ári.
Ísland getur spilað hlutverk þarna, en þó ekki endilega það sem pólitíkusar hafa talað hæst um síðustu mánuði.
Það hefur verið áhugavert að sjá hvernig fólk sem jafnvel opinberlega efaðist um loftslagsbreytingar af mannavöldum virðist nú séð ljósið í þeim efnum, en túlkar það þá sem svo að framlag okkar Íslendinga eigi að vera að auka orkuframleiðslu til stóriðju og koma þannig í veg fyrir sambærilega framleiðslu með óendurnýtanlegri orku erlendis.
Vandinn liggur bara ekki að það sé skortur á grænni orku í heiminum, heldur í því hversu misdreifð hún er um heiminn og hversu erfitt er að flytja hana. Sem dæmi um það hversu gnótt er af henni gæti 150x150 km sólarsellureitur í Sahara uppfyllt alla orkuþörf heimsins.
Ástæður þess að stóriðja (þar sem álvinnsla er langorkufrekasta vinnslan sem fram fer í miklu magni) er enn að keyra á kolum og jarðgasi eru að miklu leyti geopólitískar. Kínverjar eiga ekki nógar grænar orkulindir og jarðgas fellur „ókeypis” til við olíuvinnslu og nýtist ekki í annað. Þann vanda leysa Íslendingar ekki.
Þess í stað á Ísland stórt tækifæri í því að verða fyrirmynd og tilraunastofa í orkuskiptum og grænni tækniþróun. Hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er þegar eitthvað sem vekur verðskuldaða athygli. Verkefni á borð við Carbfix og Orca hafa sett Ísland hvað efst á listann þegar kemur að tilraunum til þess að beinlínis fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu.
Fyrst og fremst felast verðmætin samt í því að setja metnaðarfull markmið um orkuskipti og að verða sannarlega fyrsta samfélagið sem er óháð jarðefnaeldsneyti. Þannig verða til margfalt meiri verðmæti í formi þekkingar, nýsköpunar og samstarfs við leiðandi fyrirtæki á sviði grænna orkugjafa. Sú þekking getur síðan nýst um allan heim og skapað stór og merkileg tækni- og þekkingarfyrirtæki sem eiga sér náttúrulegt heimili á Íslandi.
Frumkvöðullinn Davíð Helgason er einn þeirra sem hefur bent hefur á þessi tækifæri og er að fylgja þeim eftir með metnaðarfullum hætti. Við munum án efa heyra meira af því á árinu.
Af mörgu öðru að taka
Það væri hægt að taka margt annað fyrir. Ég minntist í framhjáhlaupi á „metaverse”-ið hér að ofan. Þetta er í sjálfu sér bara framhald af þeirri þróun sem verið hefur í gangi í kringum sýndarveruleika (VR) og viðbættan veruleika (AR) undanfarinn áratug, en þarna munu hlutir halda áfram að gerast - hægt og rólega.
Vísindamiðlun er mér líka ofarlega í huga, enda hefur Covid verið enn ein áminning þess hve einföld en misvísandi skilaboð eiga mikið auðveldara með að komast í dreifingu en besta vísindalega þekking á hverjum tíma með öllum sínum núönsum, fyrirvörum og breytileika. Þarna er ótrúlega spennandi svið á mörkum sálfræði og upplýsingatækni sem ég væri spenntur að sjá meiri þróun í.
Sjáum hvert þetta fer allt saman. Gleðilegt tækniár 2022!
Höfundur er forstjóri GRID. Hann er einnig hluthafi í Kjarnanum og situr í stjórn útgáfufélags hans.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi