„Trúir einhver þessari konu?“ stóð í kommentakerfi undir nýlegri frétt um mál ungrar konu sem steig fram með reynslusögu um áreitni og ofbeldi. Enn og aftur skiptist fólk í fylkingar á samfélagsmiðlum varðandi það hvort trúa eigi þolendum eða ekki – með tilheyrandi álagi á þá sem um ræðir.
Eftir að fyrsta metoo-bylgjan reið yfir í lok árs 2017 áttu margir von á því að samfélagsbreytingar væru í vændum og að nýr sáttmáli um að kynferðisleg áreitni og ofbeldi myndi ekki líðast lengur væri í höfn. Þúsundir íslenskra kvenna greindu frá reynslu sinni og tæplega 5.650 konur úr ýmsum starfsstéttum sem lifa við margs konar aðstæður skrifuðu undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóðinni 815 sögum. Hver og ein frásögn lýsir reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns.
Hugur var í fólki og tóku hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki sig til og breyttu verkferlum til að koma til móts við þolendur. Þess var þó ekki lengi að bíða að ákveðið bakslag léti á sér kræla. Breytingarnar sem margir sáu fyrir sér raungerðust ekki þrátt fyrir fögur fyrirheit, breyttar reglur og stórar og stæðilegar ráðstefnur um málefnið.
Tíminn leið og stöku sinnum dúkkuðu næstu misserin upp sértæk mál. Spurningin „metoo, hvað svo?“ ómaði í pólitískri umræðu og margt virtist færast í sama horf og fyrir fyrstu bylgjuna. Tími þagnarinnar var svo sannarlega ekki liðinn.
En eins og verða vill með kraumandi óróa þá sauð upp úr í maí á þessu ári þegar hundruð íslenskra kvenna stigu fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur sögðu að brotið hefði á sér. Karlar voru í þetta skiptið hvattir til að taka meiri þátt í umræðunni með það fyrir augum að þetta væri samfélagslegt vandamál en ekki einungis kvennavandamál. Þögnin var rofin á ný.
KSÍ-málið á allra vörum
Inn í þessa nýju bylgju henti Hanna Björg Vilhjálmsdóttir handsprengju í sumar þar sem hún sakaði Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna. KSÍ sendir frá sér yfirlýsingu nokkrum dögum síðar þar sem því var hafnað að sambandið tæki þátt í því að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að „dylgjum“ um slíkt væri alfarið vísað á bug. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, staðfesti þetta í samtölum við fjölmiðla og sagði að engin slík mál hefðu komið á borð sambandsins. Hann taldi gagnrýnina „ómaklega“ og sagði að KSÍ hefði rýnt alla sína ferla strax eftir fyrstu metoo-bylgjuna.
Í kjölfarið steig ung kona, Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, fram og sagði frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem landsliðsmaður hefði beitt hana og vinkonu hennar. Ástæðan fyrir því að hún steig fram í viðtali á RÚV var ekki til að kasta rýrð á landsliðsmanninn enda nafngreindi hún hann ekki og greindi frá því að þau hefðu skilið sátt eftir að hún átti í samskiptum við hann vegna atviksins. Ástæðan sem hún gaf fyrir því að fara í fyrrnefnt viðtal var að benda á að málið hennar hefði komið á borð formanns KSÍ, Guðna Bergssonar, en hann hafði neitað því að slík væri raunin.
Eftir viðtalið hélt stjórn KSÍ maraþon-krísufundi og sagði formaðurinn af sér nokkrum dögum síðar. Í yfirlýsingu frá stjórninni við tilefnið sagði meðal annars: „Kæru þolendur, við í stjórn Knattspyrnusambands Íslands trúum ykkur og biðjum ykkur innilega afsökunar. Við vitum að við sem ábyrgðaraðilar höfum brugðist ykkur og við ætlum okkur að gera betur.“
Gríðarlegur þrýstingur var á stjórnina að segja einnig af sér, sem og varð raunin þann 30. ágúst. En málinu var ekki lokið í umfjöllun fjölmiðla og á samfélagsmiðlum. Unga konan, Þórhildur Gyða, þurfti í kjölfarið að takast á við ásakanir og níð á samfélagsmiðlum þar sem hún var sökuð um lygar og reynt var að gera frásögn hennar tortryggilega.
Árásir á þolanda hefjast
Nafni landsliðsmannsins, sem reyndist vera Kolbeinn Sigþórsson, var lekið í fjölmiðla og sendi hann frá sér yfirlýsingu þann 1. september þar sem hann sagði að hann kannaðist ekki við að hafa áreitt Þórhildi Gyðu og vinkonu hennar eða beitt ofbeldi og að hann hefði neitað sök á sínum tíma. „Hegðun mín var hins vegar ekki til fyrirmyndar og baðst ég afsökunar á henni. Ég iðraðist og tók á því ábyrgð og var tilbúinn að leita sátta,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni.
Þá komu upp ásakanir um að faðir Þórhildar Gyðu hefði beðið Guðna Bergsson um að halda trúnaði varðandi mál hennar og því hefði formaðurinn ekki getað tjáð sig þegar hann var spurður út í það hvort mál sem þetta hefði komið á hans borð. Foreldrar Þórhildar Gyðu sáu sig knúin til að senda frá sér yfirlýsingu til að „leiðrétta ítrekaðar rangfærslur vegna meints trúnaðar“. Þau hefðu aldrei beðið um trúnað varðandi tölvupóstinn sem faðir hennar sendi meðal annars á almennt netfang KSÍ en í honum var tilkynnt um fyrrnefnda líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni af völdum Kolbeins.
Hæstaréttarlögmaðurinn og forseti dómstóls KSÍ, Sigurður G. Guðjónsson, birti þann 5. september Facebook-færslu um málið sem vakti mikla athygli en í henni réðst hann að Þórhildi Gyðu og sakaði Stígamót um að hafa valið lið „til að þóknast konu sem sakað hafði landsliðsmann um ofbeldi aðfaranótt laugardags um miðja september 2017, en gert við hann sátt í maí 2018 og fengið bætur sér til handa og fé í sjóði Stígamóta“. Með færslunni birti hann persónugreinanleg gögn úr skýrslutöku Þórhildar Gyðu þegar hún kærði fyrrnefnt ofbeldi. Í samtali við mbl.is hvers vegna hann birti þessa færslu sagðist Sigurður vera „orðinn þreyttur á þessum atlögum að knattspyrnumönnum, sérstaklega þeim sem hafa átt sér stað upp á síðkastið“.
„Það tekur á að berjast við þá sem trúa ekki“
Í yfirlýsingu Stígamóta sem samtökin sendu frá sér tveimur dögum síðar var bent á að Sigurður væri fagaðili sem starfar innan kerfisins sem lögmaður og birti hann lögregluskýrslur í máli sem hann hefði enga beina aðkomu að. Í viðtölum við fjölmiðla sagðist Sigurður ekki vilja upplýsa um það hvar hann hefði fengið gögnin.
Stígamót sögðu í yfirlýsingunni að ekkert skrýtið væri við það að konur kærðu ekki ofbeldið sem þær væru beittar eða að þær segðu ekki frá því. Réttarvörslukerfið passaði vel upp á það. „Alltaf skulu finnast nýir og nýir angar þess sem nýttir eru á einhvern hátt gegn brotaþola – til þess að hræða, þagga og lítilsvirða. Þessu verður að linna.“
Ekki þarf að kafa djúpt í iðrum internetsins til að finna árásir á þessa ungu konu sem steig fram til þess eins að beina ljósi að því sem var satt og rétt í samskiptunum við KSÍ. Enda hefur hún sjálf lýst því á samfélagsmiðlum hversu mikið það taki á að standa í þessari baráttu. „Það tekur á að berjast við þá sem trúa ekki. Það tekur á að berjast við efasemdar raddirnar. Þakklát að mikill meirihluti trúir,“ skrifaði hún á Twitter.
Bakslagið kemur með krafti – Ábyrgð sett á þolendur
Öll þessi atburðarás er að vissu leyti fyrirsjáanleg og er hún gott dæmi um kröftugt viðbragð við metoo-umræðum; þolandi stígur fram, fær stuðning en eftir nokkra daga kemur bakslagið. Þetta rímar við það bakslag sem greina mátti eftir fyrstu metoo-bylgjuna árið 2017. Vissulega mátti sjá stuðning úr mörgum áttum en einnig mátti sjá miklar persónuárásir í kjölfarið úr öðrum áttum. Þetta bakslag hefur gert það að verkum að það reynist ómögulegt fyrir þolendur að stíga fram. Í framhaldinu er líka ekki hægt að gera þá kröfu að þeir geri það.
Þá vandast málin. Ef kerfin okkar og verkferlar hjá fyrirtækjum, íþróttasamböndum og stjórnsýslunni virka ekki sem skyldi og hafa ekki raunverulegar breytingar í för með sér þar sem þolandinn gengur eins sáttur frá borði og hugsast getur þá hafa þeir sem lenda í kynferðislegri áreitni eða ofbeldi ekkert val nema „gleyma“ því sem gerðist, bíta á jaxlinn og „sætta sig“ við orðinn hlut með tilheyrandi afleiðingum eða greina opinberlega frá reynslu sinni til að ná fram réttlæti.
Ábyrgðin er því sett á þolendur – og verða þeir sjálfir að sjá um að koma málum í réttan farveg eða fara í fjölmiðla ef ekki er vel staðið að málum. Við það er ekki hægt að una.
Sameiginlegt vandamál okkar allra
Ef réttindabarátta kvenna síðustu ára á að hafa einhverja merkingu verður kné að fylgja kviði. Það gerum við með því að styrkja réttarkerfið og fylgja verkferlum sem búið var að setja á laggirnar eftir fyrstu metoo-bylgjuna. Við þurfum að halda hlífiskildi yfir þolendum og ekki setja þá í þá aðstöðu að þurfa að bera ábyrgðina einir. Við sem samfélag ættum að hafa burðina til þess.
Þöggun er lúmsk og er ekki alltaf beitt vísvitandi. Hún getur verið hluti af meðvirkninni sem fólk finnur fyrir þegar erfið mál koma upp og ekki reynist öllum auðvelt að takast á við þau. Í umræðunni um metoo tölum við sjaldnast um þá núansa sem koma upp en þeir eru vissulega margir.
Sérstaklega þarf að takast á við svokallaða skrímslavæðingu. Sigurður G. sagði við mbl.is eftir færslu sína á Facebook að hann væri „orðinn þreyttur á þessum atlögum að knattspyrnumönnum“ en ekki mátti heyra á máli hans að hann væri orðinn þreyttur á þögguninni sem fylgdi eða að hann hefði samúð með þeim konum sem lent höfðu í áreitninni eða ofbeldinu. Með því að fylgjast með samfélagsmiðlum mátti sjá að samúðin snerist úr því að vera hjá þolendum yfir á gerendur – að þeir væru misrétti beittir og ósanngjarnt væri að saka þessa góðu drengi sem máttu ekki vamm sitt vita. Skrímslavæðing hefur í för með sér að við eigum erfitt með að viðurkenna eða gera okkur í hugarlund að góðir og indælir drengir geti gert eitthvað á hlut annarrar manneskju.
Þannig að já, málin eru oft flókin og já, þau reyna á einstaklingana sem um ræðir. En nei, það á ekki að „skjóta“ neinn, eða „taka af lífi“ eins og oft heyrist á samfélagsmiðlum þegar fjallað er um mál sem þessi. Þau snúast ekki um gott eða illt heldur að takast á við hvert einstakt mál sem fyrir ber. Þessi mál snúast um að setja ábyrgðina á rétta staði svo þolendur þurfi ekki að sitja enn og aftur uppi með persónuárásirnar og drusluskömmina. Þetta snýst um samkennd og það að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda – bæði þolendum og gerendum.
Þögnin var rofin á ný á þessu ári og við verðum að búa svo um hnútana að hún leggist ekki yfir okkur aftur með því að fæla þolendur aftur í skuggann með þöggun og vandræðagangi. Þetta er það sem metoo snýst um!