Óróinn kokkaður upp inni á skrifstofu SA
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Næst í röðinni er Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna.
Sú hætta er raunverulega fyrir hendi að ungt fólk finni ekkert að gera eftir nám. Við getum þá siglt inn í aðstæður sem eru svipaðar og í sunnanverðri Evrópu þar sem atvinnuleysi ungs fólks er gríðarlegt. Þetta má ekki gerast hér. Við getum ekki boðið nýjum kynslóðum upp á það að þau komi út úr sinni skólagöngu og að ekkert sé í boði.“
Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), en hún hefur miklar áhyggjur af unga fólkinu sem er í háskóla og þeim sem koma út á vinnumarkað við aðstæðurnar sem eru uppi í dag.
Lausnin liggur í því, að hennar mati, að horfa til lengri tíma og ákveða hvernig atvinnuuppbygging eigi að vera hér á landi. „Við höfum langa reynslu af náttúruauðlindanýtingu og hún er að sjálfsögðu ástæða þess að við getum búið í þessu landi. Við eigum orkulindir og fisk í sjónum og svo er uppgangur ferðaþjónustunnar ein útgáfa af auðlindanýtingu. Næstum allir ferðamenn sem koma til Íslands segjast gera það vegna þess að þeir vilja sjá náttúruna og þetta stórkostlega land.
En náttúruauðlindanýtingin getur hrunið í einu vetfangi eins og dæmin sanna. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja atvinnulífið líka á stoðum sem ekki er hægt að kippa undan okkur sí svona. Það er ekkert nýtt í því og engin geimvísindi. Það snýst um rannsóknir, hugvit, þekkingu, nýsköpun, nýjar útflutningsgreinar og svo framvegis,“ segir hún.
Þórunn vonar að Íslendingar verði færir um það að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem gefi af sér sjálfbæran hagvöxt og velferð, og góð störf fyrir. „Við þurfum að horfa til langs tíma. Það krefst uppstokkunar og nýrrar hugsunar en ég er vongóð um að við getum gert þetta,“ segir hún.
Hópurinn í harkinu
Stjórnvöld hafa brugðist við ástandinu með nokkrum aðgerðapökkum – sem vissulega hafa verið umdeildir. Þegar Þórunn er spurð út í aðgerðirnar þá segir hún að margt hafi verið vel gert. „Það má virða stjórnvöldum það til vorkunnar að það er erfitt að bregðast við í óstöðugu ástandi og sumt heppnast og annað ekki. En við höfðum gert okkur von um að gripið yrði til víðtækari aðgerða en hefur verið gert og við fundum tilfinnanlega fyrir því að það vantaði að koma sérstaklega til móts við listafólk.“
Um miðjan október dró til tíðinda en þá kynnti ríkisstjórnin stuðningsaðgerðir fyrir listamenn sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Aðgerðirnar miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja en liður í þeim eru tekjufallsstyrkir sem einyrkjar og smærri rekstraraðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að slíkur stuðningur geti samtals numið rúmum 14 milljörðum króna. Tillögurnar er nú til afgreiðslu á Alþingi.
Fyrir hvað erum við að lifa ef ekki fyrir menningu og listir?
„Innan BHM eru leikarar, hljómlistarmenn, tónlistarmenn og sviðslistafólk og við höfum varið drjúgum tíma í það að vekja athygli ráðherra á því að það þyrfti að koma sérstaklega til móts við þennan hóp. Þetta er hópurinn sem er í harkinu, sjálfstætt starfandi eða í blönduðu starfi,“ segir hún en Þórunn telur nauðsynlegt að koma beint til móts við þetta fólk á vinnumarkaði eins og annað.
„Það eru fordæmi fyrir svona aðgerðum í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Bretlandi. Þetta er ekki aðeins hluti að því að koma til móts við fólk í harkinu heldur líka nauðsynleg aðgerð til að viðhalda menningar- og listastarfsemi í landinu og fleyta henni í gegnum þetta skrítna tímabil.
Ég er einlæglega þeirra skoðunar að í því felist mikil lífsgæði fyrir okkur öll því fyrir hvað erum við að lifa ef ekki fyrir menningu og listir?“ spyr hún.
Allt í húfi
Þórunn bendir á að auðvitað sé ástandið einnig erfitt innan annarra hópa í BHM. Meðallaunin þar eru á bilinu sjö til átta hundruð þúsund og verði gríðarlegt tekjufall ef fólk missi starfið sitt. „Á þetta höfum við margoft bent og tel ég að með því að lengja tekjutengingu atvinnuleysisbóta um þrjá mánuði sé verið að koma til móts við ábendingar okkar og annarra.
Miklum fjármunum hefur verið varið úr ríkissjóði í lokunarstyrki, hlutabætur og annað sem hefur gagnast fyrirtækjun, stofnunum og launafólk. Við höfum fullan skilning á því að verið sé að reyna að koma til móts við ólíkar þarfir.“
BHM hefur bent á góða stöðu ríkissjóðs sem geri Íslendingum kleift að mæta kreppunni með skuldasöfnun. „Við verðum að gera það sem samfélag – því þessi kreppa er ekki eins og hinar, svo maður endurtaki þá klisju, og það er allt í húfi.“
Þórunn nefnir í þessu sambandi atvinnuleysistölurnar fyrir september en fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hefur aukist um 43 prósent frá því faraldurinn skall á en almenna aukningin er 31 prósent.
Hún segir að samanburður við árið 2009 sem flestum sé í fersku minni gefi skýra mynd af ástandinu. „Í september árið 2009 voru háskólamenntaðir 15 prósent af heildarfjölda atvinnulausra. Í september 2020 eru þeir 27 prósent af heildarfjöldanum.“
Kreppa dregur fram mikilvægi hinnar opinberu þjónustu
Þórunn bendir enn fremur á að þessi kreppa sé kynjuð. „Fleiri konur eru að missa vinnuna. Það er líka augljóst að staða innflytjenda er mjög erfið enda eru þeir stærsti hópurinn á atvinnuleysisskrá. Þá liggur fyrir að innan opinbera geirans, hjá ríki og sveitarfélögum sem reka heilbrigðis- og menntakerfið í landinu, fer fram niðurskurður og fækkun starfa í formi skipulagsbreytinga.
Það er nauðsynlegt að taka ekki augun af því hversu mikilvægt það er að halda úti góðri opinberri þjónustu – ekki síst opinberri heilbrigðisþjónustu. Henni er einmitt haldið uppi af fjölmörgum kvennastéttum. Það sama má segja um menntakerfið en sem betur fer höfum við getað hlíft börnum og unglingum mestmegnis við samkomubanni.“ segir hún.
Þannig dragi þessi kreppa fram „mikilvægi allra sem eru í framlínustörfum, hvort sem það er heilbrigðisstarfsfólk, strætisvagnabílstjórar eða aðrir. Að því leyti finnst mér hún varpa mjög skýru ljósi á það hvað skiptir máli í samfélagi sem við rekum saman og þurfum að eiga saman.“
Ef hægt sé að tala um einhverja góðkynja afurð af þessari kreppu þá sé það þessi staðreynd.
Það er nauðsynlegt að taka ekki augun af því hversu mikilvægt það er að halda úti góðri opinberri þjónustu – ekki síst opinberri heilbrigðisþjónustu.
Hlutverk þeirra að halda stjórnvöldum við efnið
En munu gildi í íslensku samfélagi breytast við þetta ástand, að mati Þórunnar? „Já, ég er vongóð um það en það er með þetta eins og annað að ekkert af þessu er sjálfsagt. Það er hlutverk okkar, til dæmis hjá Bandalagi háskólamanna, að halda stjórnvöldum við efnið. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins sinni því vel.
Einnig er mikilvægt að við töpum ekki tækifærum sem geta legið í þessari kreppu. Kannski finnst einhverjum það svolítið djarft að tala með þeim hætti en við þurfum til dæmis að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og uppfylla Parísarsamkomulagið. Það er mikilvægt fyrir okkur öll, ekki síst fyrir launafólk.“
„Það er svo auðvelt að tapa þræðinum þegar kemur að loftslagsbreytingum, sérstaklega þegar fólk fer í skyndireddingarnar og hugsar ekki til langs tíma: Hvar viljum við vera eftir 10 ár og hvernig ætlum við að komast þangað? Við verðum að skapa góðan grundvöll fyrir nýjar atvinnugreinar og nýsköpun, bæði á einkamarkaði og hjá hinu opinbera.“
Þórunn segist sannfærð um að Íslendingar verði að breyta um áherslu í atvinnumálum. „Það er samstarfsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Við vitum að efling alls kyns sjóða skilar árangri en við vanmetum það hvað íslenskt atvinnulíf er fábreytt. Við þurfum miklu meiri fjölbreytni,“ segir hún.
Ættum ekki að lenda á sama stað og eftir hrunið 2008
Þórunn segist sjá mikinn mun á þessari kreppu og hruninu 2008. „Þessi kreppa er allt öðruvísi. Það eru allt aðrar ástæður fyrir henni og aðstæður aðrar í samfélaginu líka. Skuldastaða ríkissjóðs er mikið betri núna. Það erfiðasta við kreppuna eftir hrun fjármálakerfisins var hvaða áhrif það hafði á eigna- og skuldastöðu heimilanna. En ef hér tekst að halda verðbólgu í skefjum og nýta stöðu ríkissjóðs og varaforða Seðlabankans með skynsamlegum hætti þá ættum við ekki að lenda á sama stað,“ telur hún.
Þá bendir hún enn fremur á að nú séu Íslendingar hins vegar í atvinnuleysiskreppu en þó atvinnuleysi hafi rokið upp eftir hrun þá hafði það farið tiltölulega fljótt niður aftur.
„Svo byrjaði vöxtur sem stóð yfir í sex til sjö ár. Sá vöxtur kom hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Nú berum við fullan þunga atvinnuleysisins og að því leyti eru aðstæður okkur svipaðar þeim sem önnur Evrópuríki þekkja.
Haga þarf að jaðarsettu hópunum
Margir halda því fram að tækifæri felist í kreppu. Telur Þórunn að nú sé tími til að gera kerfisbreytingar?
„Kerfisbreytingar og ekki kerfisbreytingar,“ segir hún. „Ég velti fyrir mér hvort þess þurfi. Jú, það þarf að gera nauðsynlegar umbætur, t.d. á almannatryggingakerfinu. Fyrst og síðast þarf að standa vörð um kjör og réttindi launafólks og síðan að byggja undir atvinnusköpun og nýjar atvinnugreinar þannig að við komumst klakklaust í gegnum þessa kreppu.“
Gæta þurfi þess að enginn verði skilinn eftir, láglaunahópar eða jaðarsettir hópar. „Það er stóra verkefnið fyrir okkur öll. Jaðarsetning hefur alvarlegar félagslegar afleiðingar sem við viljum ekki sjá og það er stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að koma í veg fyrir það. En gleymum því ekki að margir græða peninga í þessari kreppu.
Hún bendir á að sumar atvinnugreinar mali þannig gull í þessu ástandi. „Á endanum verðum við að sjá til þess að allir njóti þess ábata.“
Hætta á því að öryrkjar verði skildir eftir eina ferðina enn
Þórunn segir að Íslendingar eigi góð kerfi á borð við atvinnuleysistryggingakerfið og almannatryggingakerfið. „Það er vissulega ekki óumdeilt og þar er mikil hætta á því að öryrkjar verði skildir eftir eina ferðina enn við fjárlagagerð næsta árs. Fæðingarorlofskerfið virkar og verður enn betra þegar það verður komið í 12 mánuði og jafna skiptingu milli foreldra. Við skulum ekki fara í að brjóta það sem virkar en það sem skiptir máli er að gæðunum sé skipt með réttlátum hætti á milli landsmanna.“
„Við erum pínulítið hagkerfi, opið og auðlindadrifið, sem byggir á útflutningi. En svo ég ítreki það enn og aftur að hagkerfið verður að vera miklu fjölbreyttara. Við þurfum á fleiri atvinnugreinum að halda.“
Lífskjarasamningurinn „eins og spennitreyja“
Kjarabarátta og umræða um hana hefur verið að herðast undanfarin ár en Þórunn væntir þess ekki að harkan verði ekki með sama hætti í vetur. Hún segir að næstum öll aðildarfélög BHM séu búin að semja við ríkið og ganga frá samningum við sveitarfélögin. „Við erum einnig með almennan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins þar sem tryggð eru réttindi en ekki kveðið á um launatöflur. Allir kjarasamningar sem aðildarfélög BHM hafa gert síðastliðið eitt og hálft ár hafa verið gerðir innan ramma lífskjarasamningsins. Hann virkar eins og spennitreyja. En það var samið til langs tíma á íslenskan mælikvarða eða til þriggja ára að minnsta kosti. Það var samið um krónutöluhækkanir en það eru ódýrustu kauphækkanir sem atvinnurekendur geta fengið. Og þær tryggja þeim sem eru með lægstu launin mestar hækkanir.“
Innan þessa ramma þurftu síðan aðildarfélög BHM að ná niðurstöðu. „Það var erfitt en það tókst og það var ekki vegna þess að verið væri að semja um miklar launahækkanir heldur vegna þess að verið var að semja um mögulega styttingu vinnuvikunnar og breytt vaktavinnukerfi. Þegar við lítum til baka verða það líklega mestu tíðindin í þessari samningslotu.“
Hún segist vonast til þess að stytting vinnuvikunnar hafi góð áhrif á líf fólks. „Ég vona að hún verði ekki til þess að konur fari fyrr heim til þess að sinna heimilisrekstri og börnum í meira mæli en þær gera nú þegar, nóg er nú samt. Ég vona að hún verði til þess að jafna ábyrgð karla og kvenna á heimilisrekstri og í barnauppeldi. Ég ég vona ekki síður að hún verði til þess að minnka álag á fólki og gefa því fleiri gæðastundir fyrir sjálft sig og með fjölskyldunni. Það veitir ekki af.“
Ekki viss um að samningum hefði verið sagt upp í atkvæðagreiðslu SA
Varðandi óróa á vinnumarkaði þá segist Þórunn ekki sjá fyrir sér að hann verði mikill í vetur, þótt það sé vissulega ekki útilokað.
„Nema kannski sá órói sem er kokkaður upp inni á skrifstofu hjá Samtökum atvinnulífsins. Þetta „skuespil“ sem farið var í í september með hótunum um uppsögn að segja upp lífskjarasamningsins var náttúrulega engu lagi líkt. SA náði með því 25 milljörðum króna út úr ríkiskassanum en ég er ekki viss um að samningum hefði verið sagt upp í atkvæðagreiðslu. Mér finnst það meira að segja ólíklegt.“
Hún segir það vera skrítið ástand þegar það séu vinnuveitendur sem ruggi bátnum en ekki launafólk.
Fleiri viðtöl við fulltrúa atvinnulífs og launafólks
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði