Ritstjórn Kjarnans fær stundum að heyra það frá sumum lesendum að sunnudagarnir byrji vart almennilega fyrr en lestri á nýjustu fréttaskýringu Borgþórs Arngrímssonar um norræn málefni er lokið.
Borgþór hefur ritað yfir 350 pistla og fréttaskýringar í Kjarnann frá því miðillinn var stofnaður árið 2013. Á sunnudagsmorgnum klukkan 9 færir hann lesendum útskýringar á málum sem hátt bera í Danmörku, þar sem hann var búsettur um árabil, eða þá frá hinum Norðurlöndunum, ef svo ber undir.
Nú í lok árs þótti ritstjórninni við hæfi að taka saman glefsur af því sem Borgþór hefur sagt frá á þessu ári kórónuveirunnar, skyndilegra minkadrápa og nýrrar #MeeToo-byltingar danskra kvenna.
Norskur bókavörður lét sér fátt um finnast
Áður en janúar var að baki var Borgþór búinn að fræða lesendur Kjarnans um undirbúning æfingaferðar 40 kínverskra skíðamanna til Noregs, sem hafði óvæntar afleiðingar:
„Bókavörðurinn á bæjarbókasafninu í Meráker í Þrændalögum, þar sem fyrirhugað er að kínversku skíðamennirnir æfi, rak upp stór augu þegar kínverskir embættismenn birtust á bókasafninu. Ekki var undrun bókavarðarins minni þegar þeir báru upp erindið: Þeir kröfðust þess að allar bækur, sem ekki væru kínverskum stjórnvöldum þóknanlegar yrðu fjarlægðar úr hillum safnsins. Til dæmis bækur um Falun Gong-hreyfinguna. Bókavörðurinn kiknaði ekki í hnjáliðunum en sagði þessum sjaldséðu gestum á safninu að hér væri það hún (bókavörðurinn er kona) sem réði og úr hillum safnsins yrðu engar bækur fjarlægðar þótt einhverjir skíðamenn kæmu til æfinga í bænum. „Hér í Noregi búum við nefnilega við tjáningarfrelsi.“ Engum sögum fer af viðbrögðum kínversku sendimannanna,“ sagði í fréttaskýringu Borgþórs, Bókavörðurinn blés á Kínverjana.
Handabandsskilyrðið
Í upphafi marsmánaðar fjallaði Borgþór um umdeilt mál, lagaákvæði í Danmörku sem skyldar tilvonandi Dani sem eru að öðlast ríkisborgararétt, til þess að taka í hönd bæjarstjóra í sínu sveitarfélagi eða fulltrúa hans til þess að staðfesta umsóknina.
Handabandsskilyrðinu var „bætt inn í lögin um ríkisborgararéttinn árið 2018 en kom í raun fyrst til framkvæmda um land allt í ár. Í tengslum við „ríkisborgaradaginn“ í síðustu viku (þeir eru tveir árlega) hafa danskir fjölmiðlar fjallað talsvert um þetta lagaákvæði og spurt um ástæður þess að handaband skuli bundið í lög,“ skrifaði Borgþór og rakti svo þátt Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjenda og aðlögunar í stjórn Venstre, í því að þessu ákvæði, sem styr stóð um, var bætt inn í lögin.
„Hún hefur í viðtölum sagt að þetta sé hluti þess að „vera danskur“ eins og hún hefur komist að orði. „Þeir sem sækjast eftir að verða Danir hljóta að laga sig að dönskum siðum, og handabandið er einn þeirra. Svo einfalt er það,““ skrifaði Borgþór í fréttaskýringunni Að takast eða ekki takast í hendur.
Veiran raskaði stórafmæli drottningar
Danir voru víst ekki ónæmir fyrir kórónuveirunni. Drottningin þurfti að blása áttræðisafmælisveislu sína af og þeim viðburðum sem höfðu verið skipulagðir um landið lítið og flatt í tilefni afmælis Margrétar Þórhildar var ýmist frestað eða aflýst.
„Þótt iðulega fylgi mikið tilstand stórafmælum í dönsku konungsfjölskyldunni stóð óvenjulega mikið til að þessu sinni. Fyrir því voru tvær ástæður. Önnur var sú að þegar drottningin varð sjötug, árið 2010 kom gosið í Eyjafjallajökli í veg fyrir að margir af hinum tignu gestum sem boðið hafði verið til veislunnar komust ekki til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra sem fjarri voru góðu gamni var forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson. Veislan fór fram eins og ráð var fyrir gert þótt langtum færri væru viðstaddir en til stóð. Af þessum sökum stóð til að veislan nú yrði sérlega vegleg,“ skrifaði Borgþór í fréttaskýringunni Engin veisla hjá Margréti Þórhildi á áttræðisafmælinu.
Rjómaterturáðherrann sem gæti endað fyrir landsdómi
Á árinu sem er að líða hefur áðurnefnd Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála í Danmörku, sætt opinberri rannsókn vegna ákvörðunar sem hún tók í embætti.
„Um er að ræða tilkynningu sem send var út 10. febrúar 2016. Þar tilkynnti ráðuneyti innflytjendamála að hjón þar sem annað eða bæði væru undir 18 ára aldri, og byggju í búðum hælisleitenda skyldu ekki búa þar saman, heldur sitt í hvoru lagi, jafnvel þótt þau ættu börn. Án undantekninga. Hjón sem búið höfðu saman í búðum hælisleitenda skyldu þannig aðskilin. Embættismenn ráðuneytisins sögðu ráðherranum að þessi ákvörðun stæðist ekki lög, og væri þar að auki brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ráðherra stóð fast á sínu. Lögum samkvæmt ber að vega og meta hvert einstakt tilfelli en samkvæmt ákvörðun ráðherrans skyldi eitt yfir alla ganga. Án undangengis mats,“ skrifaði Borgþór í fréttaskýringunni Rjómaterturáðherrann, sem birtist sunnudaginn 24. maí.
Málið var þá í hámæli í Danmörku, þar sem til stóð að Støjberg kæmi á fund rannsóknarnefndar þann sama sunnudag og aftur daginn eftir til að skýra sína hlið á málinu. Vikuna eftir sagði Borgþór frá því í fréttaskýringunni Að tala tungum tveim og draga kanínu úr hatti að í framburði Støjberg hefðu komið fram glænýjar upplýsingar um málið.
„Í öllum þeim gagnahaug sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum er ekki að finna, skjal sem Inger Støjberg dró fram í dagsljósið á sunnudaginn „eins og kanínu úr hatti sjónhverfingamanns“ sagði blaðamaður Berlingske þegar hann lýsti því sem fram fór,“ skrifaði Borgþór.
Um var að ræða minnisblað á skúffubotni, sem fyrrverandi yfirlögfræðingur ráðuneytisins sagði rannsóknarnefndinni að væri haldlaust, þar sem ráðherrann sjálf hefði sagt yfirvöldum undir sinni stjórn að líta á undirritaða fréttatilkynningu um málið sem tilskipun.
Skýrsla rannsóknarnefndar um málið kom út fyrr í þessum mánuði, eins og Borgþór sagði frá í fréttaskýringunni Vandræðabarnið í Venstre á síðasta sunnudegi aðventu.
„Skipta má niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar niður í þrjá meginþætti:
Í fyrsta lagi vildi Inger Støjberg að fylgt yrði reglum hennar, sem stönguðust á við lög, og lét sig í engu varða aðvaranir embættismanna. „Minnisblaðið á skúffubotninum“ skipti þar engu þrátt fyrir yfirlýsingar ráðherrans fyrrverandi.
Í öðru lagi segir í skýrslunni að Lene Skytte Mørk Hansen, deildarstjóri í innflytjendaráðuneytinu, hafi hringt til Útlendingastofnunarinnar og uppálagt starfsfólki að fylgja tilkynningu ráðuneytisins um aðskilnað para. Við yfirheyrslur hjá rannsóknarnefndinni sagðist Lene Skytte Mørk Hansen aftur á móti hafa hringt til að segja að ekki ætti að fylgja tilmælunum í tilkynningunni til hins ýtrasta, heldur gera undantekningar. Þessar skýringar taldi rannsóknarnefndin í meira lagi ótrúverðugar enda gengu þær þvert á yfirlýsingar þriggja starfsmanna Útlendingastofnunar, sem höfðu heyrt áðurnefnt símtal. Starfsfólk Útlendingastofnunarinnar sagði að Lene Skytte Mørk Hansen hefði sagt að ráðherrann teldi mjög mikilvægt að tilmælunum yrði fylgt,í öllum málum. Þar með eru tilmælin orðin tilskipun segir í skýrslunni.
Í þriðja lagi hefði Inger Støjberg, að minnsta kosti sex sinnum, beinlínis sagt ósatt við yfirheyrslur þingnefndar (samråd). Það að ljúga í þinginu væri mjög alvarlegt. Ennfremur hefðu svör og útskýringar embættismanna í innflytjendaráðuneytinu við spurningum umboðsmanns verið „út og suður“ og fyrir þeim væri ráðherrann ábyrgur,“ skrifaði Borgþór.
Óljóst er hvort þessi mikla rannsókn á embættisfærslum Støjberg endar með því að hún verður dregin fyrir landsdóm, en það er ákvörðun sem á að liggja í höndum stjórnmálamanna á þingi.
Minkaskandallinn í Danmörku er búinn að flækja þessa ákvörðun, eins og rakið var í nýjustu fréttaskýringu Borgþórs af málinu. Utanaðkomandi ráðgjafarnefnd hefur verið fengin til að leggja mat sitt á málið, sem þykir pólitískt þægilegt fyrir alla.
„Það yrði býsna erfitt fyrir Mette Frederiksen og flokk hennar að samþykkja að mál Inger Støjberg fari fyrir landsdóm en leggjast svo gegn því að sama gildi um minkamálið. Á sama hátt yrði það erfitt fyrir Jakob Ellemann-Jensen og Venstre að styðja að minkamálið fari fyrir landsdóm en leggjast gegn því að mál Inger Støjberg fari þangað.“
Minkadráp án lagaheimilda
Og þá komum við að minkunum. Eins og frægt varð lét danska ríkisstjórnin drepa alla minka í landinu, hátt á annan tug milljóna dýra, vegna hættu sem talin var á að nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem hafði borist frá mönnum í minka og aftur úr minkum í menn breiddist út. Óttast var að það gæti skemmt fyrir virkni bóluefna sem væntanleg eru á markað.
„Það var stór ákvörðun að fyrirskipa slátrun alls minkastofnsins í landinu og binda þar með endi á atvinnugrein sem á sér áratuga sögu. Þótt ráðherrar hafi talað um að hægt yrði að halda eftir tilteknum lágmarksfjölda, í því skyni að endurreisa minkaræktina síðar, segja bændur það ógerlegt.
Skipun um að lóga minkastofninum þurfti að styðjast við lög. Í ljós kom að slík lög voru ekki til staðar en voru sett eftirá, í miklum flýti. Mogens Jensen matvæla- og landbúnaðarráðherra varð margsaga í viðtölum varðandi lagaheimildina og varð á endanum að segja af sér. Sumir dönsku fjölmiðlanna sögðu að Mette Frederiksen hefði ákveðið að fórna Mogens Jensen til að bjarga eigin skinni, „kastet ham under bussen“ eins og Danir orða það. Mette Frederiksen forsætisráðherra og Nick Hækkerup dómsmálaráðherra hafa síðar sagt að þau orð forsætisráðherrans að aflífa skyldi allan mink í landinu hafi verið tilmæli en ekki tilskipun. „Yfirklór“ sögðu stjórnmálaskýrendur,“ skrifaði Borgþór í fréttaskýringunni Minkaklúðrið.
Þetta klúður þykir mjög pólitískt óþægilegt fyrir ríkisstjórn Sósíaldemókrata. Og fleiri óþægileg mál komu upp hjá dönskum jafnaðarmönnum á árinu.
#MeToo, fallinn konungur Kaupmannahafnar og hönd á læri
Í upphafi hausts reis ný #MeToo-bylgja í Danmörku, eftir eldræðu sjónvarpskonunnar Sofie Linde í skemmtiþætti sem sýndur var í beinni útsendingu á TV2.
„Sofie Linde, sem er þrítug, sagði frá því að þegar hún var átján ára og nýbyrjuð að vinna hjá DR, danska sjónvarpinu, mætti hún í matarveislu starfsmanna (julefrokost) í byrjun desember. Þar hefði þekktur sjónvarpsmaður, sem hún nafngreindi ekki, komið til hennar og sagt orðrétt: „Hvis du ikke går med ud og sutter min pik, så fucking ødelægger jeg din karriere.“ Þessi hótunarorð þarfnast ekki þýðingar. Sofie Linde sagði að hún hefði strax sagt nei, og ekki einu sinni hugsað út í að þessi þekkti sjónvarpsmaður gæti hugsanlega haft áhrif á störf hennar og framtíðarmöguleika,“ skrifaði Borgþór í fréttaskýringunni Fjölmiðlakonurnar og karlaáreitið 13. september.
Í dönskum stjórnmálum komu í kjölfarið upp mál sem kostuðu karla embætti sín. Borgþór sagði frá #MeToo-tengdum sviptingum innan Radikale Venstre í upphafi októbermánaðar, í fréttaskýringunni Að leggja hönd á læri.
Þá hafði Morten Østergaard leiðtogi flokksins sagt af sér eftir að hafa viðurkennt að hafa árum fyrr farið fram með ósæmilegum hætti í garð þingkonunnar Lotte Rod og síðar reynt að leyna því.
„Danskir fjölmiðlar hafa síðustu daga fjallað ítarlega um afsögn Morten Østergaard og ástæður hennar. Hvort hann hefði átt, og þurft, að segja af sér. Þótt margir telji að framkoma Morten Østergaard í garð Lotte Rod hafi ekki verið í lagi séu það miklu fremur viðbrögð hans eftir að málið komst í hámæli sem hafi orðið til þess að hann hafi ekki átt annars úrkosti en segja af sér. Það er að segja að hann skyldi beinlínis ljúga að félögum sínum á þingi, og almenningi í blaðaviðtali. Slíkt gangi ekki,“ rakti Borgþór.
Og ekki var öll #MeToo-sagan sögð. Undir lok októbermánaðar sagði Frank Jensen, yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar og varaformaður Sósíaldemókrataflokksins, af sér embættum og tilkynnti að hann væri hættur í stjórnmálum eftir ásakanir um áreitni af hendi fjölda kvenna. Borgþór skrifaði um afsögn mannsins sem kallaður hafði verið „konungur Kaupmannahafnar“.
„Nú er Frank Jensen fallinn af stallinum. Fyrir eigin hendi, ef svo má segja,“ skrifaði Borgþór í inngangsorðum fréttaskýringarinnar Þegar kóngur fellur.
Hvað árið 2021 mun bera í skauti sér í Danmörku og öðrum norrænum ríkjum vitum við ekki, en fróðlegar greinar um ýmislegt það helsta sem á baugi er munu áfram berast lesendum Kjarnans stundvíslega kl. 9 á sunnudagsmorgnum.