Dagurinn hefst ekki fyrr en hann veit að fjölskyldan sé heil á húfi
Fjölskyldan hans Ali er föst í Kabúl í Afganistan og reynir hann nú allt sem hann getur til að fá hana hingað til lands. Hópur fólks mótmælti á Austurvelli í dag og krafðist þess að íslensk stjórnvöld brygðust við ástandinu og kæmu Afgönum til bjargar – sérstaklega ættingjum þeirra sem hér búa. „Fólk er fast þarna og enginn veit hvað gerist næst; ekki næstu daga eða jafnvel næstu klukkutímana.“
Það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna á morgnana er að athuga hvort ég hafi fengið skilaboð frá fjölskyldunni minni og svo hringi ég í þau til að athuga hvort það sé í lagi með þau. Svo hefst dagurinn minn eftir það.“ Svona lýsir Ali Reza flóttamaður frá Afganistan sem dvalið hefur á Íslandi í fimm ár hinum hefðbundna degi síðustu vikur. Hann reynir nú allt sem í hans valdi stendur til að koma fjölskyldunni sinni til Íslands en hefur engin viðbrögð fengið frá íslenskum stjórnvöldum.
Tugir komu saman á Austurvelli fyrr í dag og kröfðust þess að Ísland bjargaði Afgönum núna og sér í lagi ættingjum Afgan-Íslendinga.
„Ef bróðir þinn eða móðir væri í felum undan ógnarstjórn Talibana myndir þú ekki ætlast til þess að íslenska ríkisstjórnin bjargaði þeim? Afgan-Íslendingar eiga ættingja í Afganistan og krefjast þess að ríkisstjórnin komu ættingjum þeirra úr landi. Margir Afgan-Íslendingar hafa komið hingað sem flóttafólk og fjölskyldur þeirra í Afganistan eru í hættu vegna Talibana, vegna pólitískra umsvifa, kyns, eða trúarbragða,“ var lýsingin á viðburðinum í dag og hrópaði mótmælendahópurinn í kór: „Björgum Afgönum núna!“
Flóttafólk velur ekki áfangastaðinn
Ali, viðmælandi Kjarnans, kom fyrst til Íslands árið 2016 sem flóttamaður og fjórtán mánuðum síðar fékk hann hæli eftir að hafa áfrýjað synjun í tvígang. Síðan árið 2019 hefur hann unnið á Landspítalanum sem svefntæknifræðingur.
„Ég fór fyrst frá Afganistan árið 2012 en eftir að ég kláraði nám í Frakklandi og sneri til baka var mér ekki stætt á að vera þar.“
Fjölskylda hans er í Kabúl og heyrir hann í þeim á hverjum degi til að kanna hvernig þeim líður. Hann á bróður sem á fimm börn en hann býr með foreldrum þeirra og eiginkonu.
Þegar Ali er spurður hvað hafi orðið þess valdandi að hann hafi komið hingað til lands þá segir hann að flóttafólk velji ekki landið sem þeir fara til.
„Þegar þú ert ekki öruggur í eigin landi þá velur þú aldrei að fara annað heldur er það landið sem þú endar í sem velur þig,“ segir hann. Alls staðar þar sem fólk býður þér skjól, tækifæri til að öðlast annað líf og lifa af – þangað ferðu.“
Þannig hafi Ali í þeim skilningi ekki valið Ísland. „Ég vissi lítið um Ísland þegar ég kom hingað. Ég kom hingað þegar ég fékk synjun um hæli í Svíþjóð en þar dvaldi ég í eitt og hálft ár.“
Ógnvekjandi þögn
Ali segir að hann og fjölskylda hans hafi ekki búist við því að Talíbanar myndu ná svo fljótt yfirráðum í Afganistan. „Bróðir minn hugsar um foreldra okkar en þau búa í Kabúl. Hann vann fyrir setulið Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum en frá árinum 2019 hefur hann einbeitt sér að því að hugsa um foreldra okkar. Hann á einnig fimm börn og býr fjölskyldan öll í sama húsi.“
Þau hafa gert tilraunir til að fara frá Afganistan áður en því miður gekk það ekki upp, segir Ali. „Þetta er svakalega erfið staða. Ég tala við bróður minn og foreldra núna á hverjum einasta degi, á hverjum morgni til að athuga hvernig þau hafi það. Núna er eilítið rólegt yfir öllu – og mér finnst það eiginlega ógnvekjandi þögn. Það er ekki hægt að treysta þessu fólki sem nú er komið við stjórnvölinn vegna sögunnar sem þjóðin hefur með Talíbönum.“
Hvernig líður fjölskyldunni þinni núna og hvað vilja þau gera?
„Núna er ég að reyna að finna lausn fyrir þau en því miður eru landamærin lokuð. Það er hægt að sjá í fréttunum hvað er að gerast þar og á öllum flugvöllum. Allt er í óreiðu þarna og það er erfitt vegna þess að við fáum engin svör en ég er að reyna að sækja um vegabréfsáritun fyrir þau svo þau geti komist í burtu.“
Ali hefur sent tölvupóst á hinar ýmsu stofnanir og ráðuneyti hér á landi til að kanna möguleika fjölskyldu hans að koma til Íslands. Hann hefur enn engin svör fengið.
Systir Ali býr í Nýja-Sjálandi en vegna starfa hennar í Afganistan þá þurfti hún að flýja land fyrir nokkrum árum.
Óttinn er raunverulegur
Hefurðu heyrt frá vinum og kunningjum sem búa í Kabúl hvernig þeim líður?
„Þetta er allt svo klikkað og allir eru svo hræddir. Til dæmis getur fólk ekki farið með símann út á götu af ótta við að ef það yrði stoppað af yfirvöldum gæti líf þess verið í hættu vegna upplýsinga sem væru í símanum. Oft hef ég reynt að hringja í bróður minn en þá skildi hann símann eftir heima. Hann segist aldrei taka símann með sér út núna.“
Ali segir að óttinn sé raunverulegur. „Margir eru líka svo ráðvilltir varðandi það hvað þeir eigi að gera í þessu ástandi – og hvað þeir geti gert. Fólkið er fast þarna og enginn veit hvað gerist næst; ekki næstu daga eða jafnvel næstu klukkutímana.“
Hvað telur þú að íslensk stjórnvöld og samfélag gæti gert fyrir Afgana?
„Ég bað íslensk stjórnvöld persónulega að hjálpa til við að koma fjölskyldu minni hingað og ég hef sagt að ég geti séð fyrir þeim. Margir hafa talað um að taka á móti afgönsku flóttafólki og hafa hinar ýmsu þjóðir talað um að fá til sín Afgana sem eru nú þegar flóttafólk í öðrum löndum heldur en Afganistan. En það fólk er nú þegar hólpið úr glundroðanum. Ég skil ekki af hverju þjóðir ættu að velja auðveldu leiðina í staðinn fyrir að hjálpa fólki sem er núna í Afganistan.“
Ali segir að honum líði eins og hann sé umkomulaus og viti ekki hvert hann eigi að snúa sér varðandi það að fá fjölskylduna hingað til Íslands. Hann hefur ekki áhyggjur af ættingjum sínum sem hafa náð að komast í burtu. Hugur hans sé hjá þeim sem eftir urðu í Kabúl.
„Fjölskylda mín sem er föst í Kabúl getur ekkert gert. Ég get ekki einu sinni sent þeim peninga, það er búið að loka fyrir allt slíkt.“
Ali segir að þau geti lifað á því sem hann sendi síðast í byrjun ágúst. „Það er engin leið fyrir mig að hjálpa þeim. Kannski selja þau hluti sem þau eiga en ég myndi giska á að þau gætu bjargað sér í einn mánuð í viðbót.
Ég vildi óska að ríkisstjórnin myndi hjálpa fólki eins og fjölskyldu minni. Ég bý hér og hef aðlagast íslensku samfélagi. Ég get hjálpað þeim og þau eru ein að þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda núna. Þau og fólk í þeirra stöðu,“ segir hann.
Ali segist auðvitað vona hið besta og að íslensk stjórnvöld grípi inn í og hjálpi til.
Lesa meira
-
25. maí 2022„Íslensk stjórnvöld sjá mig ekki“
-
14. janúar 2022Áformað að taka við 35-70 manns frá Afganistan
-
25. október 2021Beiðni um að fá minnisblað afhent synjað
-
31. ágúst 2021Tökum á móti hlutfallslega færri flóttamönnum en Bandaríkin og Kanada
-
27. ágúst 2021Skora á íslensk stjórnvöld að gera meira fyrir Afgana á flótta
-
24. ágúst 2021Reyna að finna leiðir til að koma flóttafólki til Íslands – „Tíminn er enginn“
-
24. ágúst 2021Íslensk stjórnvöld ætla að taka á móti allt að 120 Afgönum
-
23. ágúst 2021Dagurinn hefst ekki fyrr en hann veit að fjölskyldan sé heil á húfi
-
19. ágúst 2021Tólf umsækjendur um vernd frá Afganistan bíða úrlausnar sinna mála hér á landi
-
19. ágúst 2021Nokkur orð um heimsvaldastefnu NATO og hvítan femínisma