Bára Huld Beck Ali Reza (Mótmæli 23. ágúst 2021 – „Björgum Afgönum núna!“)
Bára Huld Beck

Dagurinn hefst ekki fyrr en hann veit að fjölskyldan sé heil á húfi

Fjölskyldan hans Ali er föst í Kabúl í Afganistan og reynir hann nú allt sem hann getur til að fá hana hingað til lands. Hópur fólks mótmælti á Austurvelli í dag og krafðist þess að íslensk stjórnvöld brygðust við ástandinu og kæmu Afgönum til bjargar – sérstaklega ættingjum þeirra sem hér búa. „Fólk er fast þarna og enginn veit hvað gerist næst; ekki næstu daga eða jafnvel næstu klukkutímana.“

Það fyrsta sem ég geri þegar ég vakna á morgn­ana er að athuga hvort ég hafi fengið skila­boð frá fjöl­skyld­unni minni og svo hringi ég í þau til að athuga hvort það sé í lagi með þau. Svo hefst dag­ur­inn minn eftir það.“ Svona lýsir Ali Reza flótta­maður frá Afganistan sem dvalið hefur á Íslandi í fimm ár hinum hefð­bundna degi síð­ustu vik­ur. Hann reynir nú allt sem í hans valdi stendur til að koma fjöl­skyld­unni sinni til Íslands en hefur engin við­brögð fengið frá íslenskum stjórn­völd­um.

Tugir komu saman á Aust­ur­velli fyrr í dag og kröfð­ust þess að Ísland bjarg­aði Afgönum núna og sér í lagi ætt­ingjum Afgan-Ís­lend­inga.

„Ef bróðir þinn eða móðir væri í felum undan ógn­ar­stjórn Tali­bana myndir þú ekki ætl­ast til þess að íslenska rík­is­stjórnin bjarg­aði þeim? Afgan-Ís­lend­ingar eiga ætt­ingja í Afganistan og krefj­ast þess að rík­is­stjórnin komu ætt­ingjum þeirra úr landi. Margir Afgan-Ís­lend­ingar hafa komið hingað sem flótta­fólk og fjöl­skyldur þeirra í Afganistan eru í hættu vegna Tali­bana, vegna póli­tískra umsvifa, kyns, eða trú­ar­bragða,“ var lýs­ingin á við­burð­inum í dag og hróp­aði mót­mæl­enda­hóp­ur­inn í kór: „Björgum Afgönum nún­a!“

Auglýsing

Flótta­fólk velur ekki áfanga­stað­inn

Ali, við­mæl­andi Kjarn­ans, kom fyrst til Íslands árið 2016 sem flótta­maður og fjórtán mán­uðum síðar fékk hann hæli eftir að hafa áfrýjað synjun í tvígang. Síðan árið 2019 hefur hann unnið á Land­spít­al­anum sem svefn­tækni­fræð­ing­ur.

„Ég fór fyrst frá Afganistan árið 2012 en eftir að ég kláraði nám í Frakk­landi og sneri til baka var mér ekki stætt á að vera þar.“

Fjöl­skylda hans er í Kabúl og heyrir hann í þeim á hverjum degi til að kanna hvernig þeim líð­ur. Hann á bróður sem á fimm börn en hann býr með for­eldrum þeirra og eig­in­konu.

Þegar Ali er spurður hvað hafi orðið þess vald­andi að hann hafi komið hingað til lands þá segir hann að flótta­fólk velji ekki landið sem þeir fara til.

„Þegar þú ert ekki öruggur í eigin landi þá velur þú aldrei að fara annað heldur er það landið sem þú endar í sem velur þig,“ segir hann. Alls staðar þar sem fólk býður þér skjól, tæki­færi til að öðl­ast annað líf og lifa af – þangað ferð­u.“

Þannig hafi Ali í þeim skiln­ingi ekki valið Ísland. „Ég vissi lítið um Ísland þegar ég kom hing­að. Ég kom hingað þegar ég fékk synjun um hæli í Sví­þjóð en þar dvaldi ég í eitt og hálft ár.“

Nokkrir Afganir tóku til máls í dag og töluðu um raunir fjölskyldna sinna í Afganistan og kúgun Talíbananna.
Bára Huld Beck

Ógn­vekj­andi þögn

Ali segir að hann og fjöl­skylda hans hafi ekki búist við því að Talí­banar myndu ná svo fljótt yfir­ráðum í Afganist­an. „Bróðir minn hugsar um for­eldra okkar en þau búa í Kab­úl. Hann vann fyrir setu­lið Banda­ríkj­anna fyrir nokkrum árum en frá árinum 2019 hefur hann ein­beitt sér að því að hugsa um for­eldra okk­ar. Hann á einnig fimm börn og býr fjöl­skyldan öll í sama hús­i.“

Þau hafa gert til­raunir til að fara frá Afganistan áður en því miður gekk það ekki upp, segir Ali. „Þetta er svaka­lega erfið staða. Ég tala við bróður minn og for­eldra núna á hverjum ein­asta degi, á hverjum morgni til að athuga hvernig þau hafi það. Núna er eilítið rólegt yfir öllu – og mér finnst það eig­in­lega ógn­vekj­andi þögn. Það er ekki hægt að treysta þessu fólki sem nú er komið við stjórn­völ­inn vegna sög­unnar sem þjóðin hefur með Talí­bön­um.“

Hvernig líður fjöl­skyld­unni þinni núna og hvað vilja þau gera?

„Núna er ég að reyna að finna lausn fyrir þau en því miður eru landa­mærin lok­uð. Það er hægt að sjá í frétt­unum hvað er að ger­ast þar og á öllum flug­völl­um. Allt er í óreiðu þarna og það er erfitt vegna þess að við fáum engin svör en ég er að reyna að sækja um vega­bréfs­á­ritun fyrir þau svo þau geti kom­ist í burt­u.“

Ali hefur sent tölvu­póst á hinar ýmsu stofn­anir og ráðu­neyti hér á landi til að kanna mögu­leika fjöl­skyldu hans að koma til Íslands. Hann hefur enn engin svör feng­ið.

Systir Ali býr í Nýja-­Sjá­landi en vegna starfa hennar í Afganistan þá þurfti hún að flýja land fyrir nokkrum árum.

Börn af afgönskum uppruna tóku líka til máls og lýstu áhyggjum af fjölskyldumeðlimum og framtíð heimalandsins.
Bára Huld Beck
Á mótmælafundinum talaði einn aðgerðasinninn um að Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefðu vísað hvort á annað þegar leitað var eftir stuðningi frá þeim.
Bára Huld Beck

Ótt­inn er raun­veru­legur

Hef­urðu heyrt frá vinum og kunn­ingjum sem búa í Kabúl hvernig þeim líð­ur?

„Þetta er allt svo klikkað og allir eru svo hrædd­ir. Til dæmis getur fólk ekki farið með sím­ann út á götu af ótta við að ef það yrði stoppað af yfir­völdum gæti líf þess verið í hættu vegna upp­lýs­inga sem væru í sím­an­um. Oft hef ég reynt að hringja í bróður minn en þá skildi hann sím­ann eftir heima. Hann seg­ist aldrei taka sím­ann með sér út nún­a.“

Ali segir að ótt­inn sé raun­veru­leg­ur. „Margir eru líka svo ráð­villtir varð­andi það hvað þeir eigi að gera í þessu ástandi – og hvað þeir geti gert. Fólkið er fast þarna og eng­inn veit hvað ger­ist næst; ekki næstu daga eða jafn­vel næstu klukku­tím­ana.“

Hvað telur þú að íslensk stjórn­völd og sam­fé­lag gæti gert fyrir Afgana?

„Ég bað íslensk stjórn­völd per­sónu­lega að hjálpa til við að koma fjöl­skyldu minni hingað og ég hef sagt að ég geti séð fyrir þeim. Margir hafa talað um að taka á móti afgönsku flótta­fólki og hafa hinar ýmsu þjóðir talað um að fá til sín Afgana sem eru nú þegar flótta­fólk í öðrum löndum heldur en Afganist­an. En það fólk er nú þegar hólpið úr glund­roð­an­um. Ég skil ekki af hverju þjóðir ættu að velja auð­veldu leið­ina í stað­inn fyrir að hjálpa fólki sem er núna í Afganist­an.“

Auglýsing

Ali segir að honum líði eins og hann sé umkomu­laus og viti ekki hvert hann eigi að snúa sér varð­andi það að fá fjöl­skyld­una hingað til Íslands. Hann hefur ekki áhyggjur af ætt­ingjum sínum sem hafa náð að kom­ast í burtu. Hugur hans sé hjá þeim sem eftir urðu í Kab­úl.

„Fjöl­skylda mín sem er föst í Kabúl getur ekk­ert gert. Ég get ekki einu sinni sent þeim pen­inga, það er búið að loka fyrir allt slíkt.“

Ali segir að þau geti lifað á því sem hann sendi síð­ast í byrjun ágúst. „Það er engin leið fyrir mig að hjálpa þeim. Kannski selja þau hluti sem þau eiga en ég myndi giska á að þau gætu bjargað sér í einn mánuð í við­bót.

Ég vildi óska að rík­is­stjórnin myndi hjálpa fólki eins og fjöl­skyldu minni. Ég bý hér og hef aðlag­ast íslensku sam­fé­lagi. Ég get hjálpað þeim og þau eru ein að þeim sem þurfa mest á hjálp­inni að halda núna. Þau og fólk í þeirra stöð­u,“ segir hann.

Ali seg­ist auð­vitað vona hið besta og að íslensk stjórn­völd grípi inn í og hjálpi til.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal