Femíníski framhaldsskólakennarinn Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari við Borgarholtsskóla og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, henti sprengju inn í KSÍ þegar hún ritaði grein undir yfirskriftinni „Um KSÍ og kvenfyrirlitningu“ um miðjan ágúst þar sem hún sakaði sambandið um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna. Nokkrir dagar liðu án þess að nokkur viðbrögð létu á sér kræla en fjórum sólarhringum síðar fann KSÍ sig knúið til að senda út yfirlýsingu vegna málsins þar sem sambandið vildi ítreka að það gerði „engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum“. „Dylgjum“ um slíkt var alfarið vísað á bug.
Atburðarásin var tiltölulega hröð í kjölfarið – sérstaklega eftir að þolandi steig fram og greindi frá ofbeldi og áreitni sem KSÍ hafði vitnesku um – og hefur formaður sambandsins, Guðni Bergsson, sagt embætti sínu lausu og stjórnin sagt af sér síðan þá. Hanna Björg segir í samtali við Kjarnann að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að afleiðingarnar yrðu með þessum hætti – né hversu útbreitt ofbeldið væri í fótboltaheiminum. „Ég vissi ekki að þetta væri svona hryllilegt eins og er að afhjúpast.“
Fórnar minni hagsmunum fyrir meiri
Síminn hefur ekki stoppað síðustu vikur hjá Hönnu Björgu. „Ég var ekki búin að sjá fyrir mér nákvæmlega hvað myndi gerast. En það sem kemur mér á óvart eru þessi svakalega jákvæðu viðbrögð ég hef fengið – sko, rosalega mikil frá alls konar fólki.“ Hún segir að viðbrögðin séu af ýmsum toga. Til að mynda hafi móðir landsliðsmanns haft samband við hana og sagt hana vera að gera frábæra hluti en að henni hafi fundist erfitt að allir lægju undir grun. Hanna Björg segir að því miður sé slíkt fórnarkostnaðurinn fyrir baráttuna. „Ég er meðvituð um það að ég er að fórna minni hagsmuni fyrir meiri.“
Viðbrögðin á samfélagsmiðlum hafa heldur ekki látið á sér standa en umræða á þeim vettvangi getur verið óvægin en gagnrýnin á sama tíma. Sjálf segist Hanna Björg hafa sloppið vel við árásir á netinu vegna skrifa hennar og skoðana. „Ég hef komist ótrúlega létt frá þessu,“ segir hún en bætir því við að hún hafi þó séð í vikunni athugasemd við frétt að einhver hafi óskað þess að hún fengi krabbamein aftur, sem hún þurfti að glíma við árið 2019.
Hvernig leið þér við það að lesa þessi skilaboð?
„Þetta var stunga en ég var fljót að hrista þetta af mér. En þetta stingur, þetta gerir það. Að einhver hugsi svona um mig því mér finnst ég auðvitað vera að berjast fyrir réttlæti eins og femínistar gera,“ segir hún.
Fótboltinn efstur í virðingarpíramídanum
Hanna Björg vekur máls á því að ýmsir hafi vitað af þessum atvikum sem um ræðir, til að mynda íþróttafréttafólk. „Það vissu þetta allir. Það er ekki bara bleikur fíll í herberginu – það er fíla-fokking-hjörð út um allt í öllum herbergjum og það er gengið undir hann og bak við hann. Þetta er samtryggingin – þetta er feðraveldið. Samtryggingin, gerendameðvirknin og kvenfyrirlitningin sem er í raun kvenhatur. Af því að þetta er svo alvarlegt. Við erum að tala um hópnauðgun.“
Vísar hún í póst sem kona setti á samfélagsmiðla í fyrravor þar sem hún greindi frá því að henni hefði verið nauðgað af tveimur mönnum árið 2010. Hún nafngreindi ekki mennina en sagan segir að um landsliðsmenn í fótbolta hafi verið að ræða. „Þetta er botnlaus viðbjóður, algjörlega sturlað,“ segir Hanna Björg.
Telur þú að þessi eitraða menning sé meiri í fótboltanum en annars staðar?
Í Borgarholtsskóla er svokölluð afreksbraut og kennir Hanna Björg mörgum íþróttakrökkum þar. „Bæði hafa þau sagt mér alls konar, stelpur og strákar, þannig að ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Það er náttúrulega ekkert svið samfélagsins sem er laust við kvenfyrirlitningu. En málið er að fótboltinn er efstur í virðingarpíramídanum í íþróttum. Og þar er mesta valdið og mestu peningarnir og þar er karlmennskan eitruðust. Það tengist valdinu.
Ég held að tíðni ofbeldisbrota sé meiri hjá valdameiri körlum en valdaminni. Þannig að þarna eru tengsl. Þarna er hreint orsakasamhengi milli þess að vera valdamikill karl í forréttindastöðu og fara yfir mörk í samskiptum og yfirgangi, kynferðislegri frekju og allt svoleiðis.“
Hún bendir á að auðvitað eigi þetta ekki einungis við valdamikla karlmenn og að kvenfyrirlitning sé mjög almenn.
Búningsklefastemningin í fótboltanum er verst, en auðvitað er hún út um allt Þessi skaðlega karlmennska er uppspretta nauðgunarmenningar. Nauðgunarmenningin er knúin áfram af skaðlegri karlmennsku og meðvirkni með henni.
Feðraveldið snýr vörn í sókn
„Búningsklefastemningin í fótboltanum er verst, en auðvitað er hún út um allt Þessi skaðlega karlmennska er uppspretta nauðgunarmenningar. Nauðgunarmenningin er knúin áfram af skaðlegri karlmennsku og meðvirkni með henni.“
Hanna Björg tekur dæmi af þessari stemningu en hún frétti að í íþróttafélagi hérlendis hefði viðgengist ákveðið grín hjá karlaliðinu í handbolta. „Það var sektarsjóður ef leikmenn komu seint á æfingu. Þeir gátu unnið sig út úr sektinni með því að ríða einhverri stelpu í meistaraflokk.“ Hún segir að hún hafi góðar heimildir fyrir þessu. „Og þetta er bara eitt dæmi um hvernig þessi menning er.“
Af hverju hefur þessi menning viðhaldist svona vel?
„Út af meðvirkninni. Aflið er alveg rosalega sterkt. Feðraveldið er raunverulegt og sjáðu til dæmis hvernig þolendur eru að koma fram í auknum mæli eftir metoo og hvernig bregst feðraveldið við? Það finnur upp á því að gagnkæra. Það snýr vörn í sókn og kærir þolendur fyrir að nafngreina og fyrir að kæra. Þetta er bara viðspyrna forréttindahópsins, gerenda, til að halda áfram að gera það sem þeir eru að gera – og þagga þannig niður. Og þetta virkar.“
Hanna Björg segir að margar konur í kringum hana líti svo á að þær geti ekki sagt frá sinni reynslu eða kært geranda sinn af ótta við að þær verði kærðar á móti eða fjárkúgaðar af lögfræðingum.
„Þannig að við skulum aldrei vanmeta hversu voldugt feðraveldið er eða öflin í samfélaginu sem vilja ekki missa forréttindi sín og vilja ekki jafnrétti og klárlega ekki láta afhjúpa sig. Þessi öfl finna upp á alls konar aðferðum.“
Vitnar hún í orð Vigdísar Finnbogadóttur um að þegar konur hafa náð árangri í sinni baráttu þá kæmi tíska þar sem hálsmálið síkkar og pilsið styttist. „Klámvæðingin er bakslag og kvenhatur. Ef við hugsum þetta þá eru strákar niður í sjö ára aldur að sjá klám. Þar er konum misþyrmt til þess að búa til kynörvandi efni og ofbeldið er viðbjóðslegt. Af hverju er samfélagslega samþykkt að strákar horfi á klám?“ spyr hún.
„Gerðu það sem þú vilt – en ekki kalla það femínisma“
Hvað segir þú við þeirri spennu sem má greina milli ungra femínista og þeirra af eldri skólanum varðandi það að konur ættu að fá að vera inn á síðum eins og OnlyFans – að konur ættu að geta gert það sem þær vilja við sinn líkama?
„Það er bakslag í mínum huga. Ég er alveg sammála því að konur eigi að geta gert það sem þær vilja við líkama sinn, hvort sem það er að fara í aðgerðir, fóstureyðingar eða hvað. Þær eiga að fá að vera í friði með það. En það er ekki hægt að segja að það að konur selji kynferðislegan aðgang að sér sé femínískt. Vegna þess að kynhegðun kvenna hefur verið haldið gegn þeim í gegnum alla söguna. Þær hafa verið drusluskammaðar.
Vændi hefur verið sjálfsögð viðskipti en við vitum núna að áhrif vændis á þá sem taka þátt í því er eins og eftir kynferðisofbeldi. Langflestir sem fara í vændi eiga sögu um kynferðisbrot, sem segir okkur náttúrulega ákveðna sögu. Og að ætla að taka núna eitthvað sem haldið hefur verið gegn okkur í gegnum söguna og snúa því upp í femínisma gengur ekki. Það bara gengur ekki upp hugmyndafræðilega. Af því að femínismi snýst um konur sem hóp. Gerðu það sem þú vilt en ekki kalla það femínisma.“
Hanna Björg segir að þarna sé verið að normalísera klám og það að konur séu kynferðisleg viðföng karla. „Af því að þetta er kynjað. Karlar eru notendur og konur eru seljendur. Það er verið að færa vændið í annan búning.“ Bendir hún á að Stígamót séu á þessari sömu línu.
Taka þarf á klámnotkun drengja með fræðslu
„Margar konur sem eru í vændi hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, eins og ég sagði áðan, og það tengist því hvernig kynferðisleg sjálfsmynd þeirra er. Henni er raskað í besta falli og viðmiðin verða önnur en hjá manneskju sem ekki hefur verið brotið á. Það getur vel verið að konur á OnlyFans hafi upplifað valdeflingu en það held ég að hafi verið eins og fix í mómentinu en svo sitja konur eftir í skaðanum þegar víman fer. Og þær sögðu líka að þær hefðu byrjað með mörk sem hefðu síðan færst til vegna þess að notendurnir vilja alltaf meira og meira. Gredda eða virk kynörvun virkar þannig að ef hún er svona gervi þá þarf hún stöðugt nýtt áreiti. Þess vegna er klámið orðið svona ógeðslegt, því að þörfin fyrir nýjungar er endalaus.“
Fræðsla virkar. Strákar eru móttækilegir, það þarf bara að búa til ákveðið andrúmsloft og ákveðið rými.
Hún segir að ekkert annað virki en fræðsla til að takast á við þetta vandamál. „Fræðsla virkar. Strákar eru móttækilegir, það þarf bara að búa til ákveðið andrúmsloft og ákveðið rými. Og setja hlutina í ákveðið samhengi – þá virkar það. Það er samt ekki nóg að rétta þeim bækling. Skólakerfið þarf að taka á þessu innan og utan skólastofunnar.“
Eins þurfi fólk að gera sér grein fyrir því að samfélagið sé með allt önnur viðmið fyrir kynin. „Við leyfum strákum að vaða uppi og sættum okkur ekki við það ef stelpur gera það.“
Þér finnst það enn vera þannig?
„Já, algjörlega. Og þetta segja krakkarnir mér líka sem ég kenni. Það er svo frábært að fá allt það nýjasta frá þeim. Auðvitað er þetta ekki alltaf svona alls staðar en þetta er rosalega algengt.“ Tekur Hanna Björg dæmi af stelpu sem sagði henni frá því að hún hefði verið send í heyrnarmælingu þegar hún var lítil vegna þess að hún talaði svo mikið og hátt.
„Vandamálið er út um allt. Kynferðisofbeldið er ljótasta birtingarmyndin af misréttinu og kúguninni en það er stutt af annarri kvenfyrirlitningu og þannig normalíserað. Og þetta hangir allt saman. Óvirðing gagnvart konum er kerfisbundin og meðvirknin með ofbeldi gegn þeim hefur verið samfélagslega samþykkt,“ segir hún.
Eftir höfðinu dansa limirnir – Skilaboð frá valdafólki skipta máli
Ekki er nóg að krakkar fái fræðslu heldur þurfa kennarar einnig að fá hana, að mati Hönnu Bjargar. „Sko, það kemur mér svo á óvart að stjórnmálafólk hikar við að segja að misrétti sé ekki í boði. Orð frá fólki sem hefur völd hafa svo mikið að segja.“
Hún tekur dæmi af því að skólameistarinn í Borgarholtsskóla hafi sagt að skólinn væri femínískur skóli. „Það hefur áhrif á alla kennarana í skólanum. Eftir höfðinu dansa limirnir. Og ef stjórnmálafólk talaði um það reglulega og afhjúpaði kvenfyrirlitningu þegar hún sést þá væru hlutirnir öðruvísi. Til dæmis eftir Klausturmálið. Þetta voru svo lömuð viðbrögð og ömurlegt að við höfum ekki einhverjar bjargir til að refsa svona mönnum.“
Hanna Björg telur því að valdafólk þurfi að segja hlutina upphátt. „Það þarf að segja: „Ég er femínisti.“ Sem sagt setja tóninn – tala upphátt og tala skýrt. Þannig seytlast þetta inn og hefur áhrif á okkur þegar við heyrum þetta aftur og aftur frá fólki sem maður ber virðingu fyrir og hefur vald. Og þá ekki nema til að efla fánaberana og gera rödd þeirra sterkara í staðinn fyrir að láta sem ekkert sé sem er bara hluti af samtryggingunni, meðvirkninni og vandanum. Ef fólk segir þetta ekki bara upphátt – aftur og aftur – í öllum mögulegu samhengi, þá er það hluti af vandanum.“
Hún segir að þegar svona mál koma upp, eins og KSÍ-málið, þá þurfi allir að axla ábyrgð. „Bara út með alla. Harðar aðgerðir eru sársaukafullar en það þarf að skapa fordæmi og þannig verður keðjuverkunin jákvæð, í staðinn fyrir það að nú er hún neikvæð. Máttleysisleg viðbrögð verða í rauninni að engu, lyppast einhvern veginn niður og allt verður eins og það var. Nema það verður eiginlega verra því þarna er verið að senda skilaboð um það að gerendur komast upp með hlutina. Skilaboðin verða: „Þetta er allt í lagi, þú getur alveg nauðgað.“ Því ekkert gerist. Engar afleiðingar.“
Hún segir að þetta mál sem núna er í gangi verði að hafa forvarnargildi, annars sé verra af stað farið en heima setið.
Hin leynda þjáning þolenda
Hvað segir þú um „cancel-culture“ eða slaufunarmenningu? Telur þú að hún sé til og að það skipti máli hvernig umræðu í kringum viðkvæm mál sé háttað?
„Þeir sem hafa orðið fyrir „cancel-culture“ í gegnum tíðina eru þolendur. Það er bara þannig. Þeim hefur verið „cancelerað“ úr vinahópum, fjölskyldum, vinnustöðum og út um allt. Þannig að það er menning. Hitt sem við köllum slaufunarmenningu, eins og gerðist með Ingó og Auður, það er ekki menning. Það eru bara nokkur atvik. Ég sé ekki að það hafi nein áhrif á þá. Auður reyndar steig til baka og sýndi ákveðna ábyrgð en Ingó bíður þetta bara af sér og er kominn aftur í gang.“
Vísar Hanna Björg þarna í mál tónlistarmannanna Ingó Veðurguðs og Auðs sem hafa verið ásakaðir um kynferðisbrot. Hún vill ekki kalla dæmin með Auð og Ingó slaufumenningu. „Ég myndi kalla það ákall um ábyrgð. Láttu þig hverfa af sjónarsviðinu – sýndu gerendum þínum tillitsemi.“
Hún segir að þolendur hafa þurft að „díla við slaufunarmenningu í gegnum alla andskotans tíðina. Og í versta falli voru þær settar á geðveikrahæli og margar fyrirfóru sér vegna þess að ekki var hlustað á þær. Þar er hin leynda þjáning og harmsaga hvernig komið hefur verið fram við þolendur í gegnum tíðina.“
Í versta falli voru þær settar á geðveikrahæli og margar fyrirfóru sér vegna þess að ekki var hlustað á þær.
Frjórri jarðvegur fyrir hvassan femínisma
Hanna Björg segir að í íslensku samfélagi sé að verða til hvassari femínismi sem sé tilbúinn að ganga lengra og beita nýstárlegum aðferðum. „Ég er að vísa mest í Öfgar, sem er hópur kvenna sem eru mjög róttækar. Þær eru að gera alls konar hluti sem eru virkilega hvassir og það fellur í frjórri jarðveg núna. Mér finnst þær mjög flottar og virkilega sterkar og kraftmiklar. Það er þörf á þeim núna og samfélagið á að vera hrætt við uppreisn. Þetta er ákveðið aðhald og stuðningur við fánaberana.“
Rifjar hún upp baráttu Hildar Lilliendahl á sínum tíma þegar hún kom fyrst fram á sjónarsviðið með sinn róttæka femínisma. Hún nafngreindi meðal annars karlmenn sem sýndu kvenfyrirlitningu. „Hún hefði þurft að vera með meiri stuðning. Hún var með róttækan femínisma en núna er meiri jarðvegur fyrir hvassar aðgerðir,“ segir Hanna Björg.
Hún bendir á að þessar hvössu aðgerðir séu til staðar vegna þess að dómskerfið sé svo máttlaust að takast á við kynferðisofbeldismál. „Þetta er viðbragð við máttleysi stjórnvalda að þolendur fái réttlæti.“
Við erum komin aðeins áfram í umræðunni eftir að fyrsta metoo-bylgjan reið fyrir árið 2017. Mikið er rætt um skrímslavæðingu; að gerendur séu ekki hræðilegar manneskjur heldur fólk sem elskar og er elskað – synir, bræður, feður og vinir. Hvernig finnst þér að áherslan ætti að vera varðandi gerendurna sjálfa?
„Þetta er mjög mikilvægur vinkill. Ég er algjörlega talsmaður þess að við eigum að fordæma hegðunina. Við eigum að höfða til ábyrgðar gerenda, þeir eiga að víkja. Þeir eiga ekki að njóta forréttinda, eins og frægðar og frama. En við eigum ekki að senda þá á eyðieyju – þeir eiga að fá að lifa sínu lífi en þeir eiga að draga sig í hlé.“
Hanna Björg segist gefa fólki sem tengist gerendum það ráð að það þurfi ekki endilega að rjúfa tengslin við þá. Hægt sé að segjast fordæma hegðunina. „Þannig að ég er þar að við þurfum að samþykkja þessa gerendur en við getum gert það með því að láta þá axla ábyrgð, fordæma hegðunina en þeir eiga að fá auðvitað að lifa sínu lífi.“
Mikilvægt að tala af yfirvegun og dýpt
Hún segir umræðuna mikilvæga og að við sem samfélag þurfum að tala um þessa hluti. „Skrímslavæðingin er líka svo hættuleg fyrir þolendur vegna þess að ef við erum að tala um gerendur sem óviðbjargandi siðleysingja þá trúum við auðvitað aldrei upp á neinn að hann nauðgi. Því hann er með sínar góðu hliðar eins og allir. Þetta eru ekki allt siðblindir aumingjar, þetta eru líka bara venjulegir menn sem einmitt elska og eru elskaðir.“
Þetta sé mikilvægt bæði fyrir gerendur og þolendur og fyrir sanngirni og réttlæti. „Við þurfum ekkert að fara alltaf út í móa, við getum líka verið í yfirveguninni. Að tala af yfirvegun og dýpt og skilningi og þannig komumst við áfram. Annars erum við í upphrópunum og skotgrafahernaði og átökum sem skilar kannski engu eða litlu – í staðinn fyrir að taka samtalið fallega og höfða til fólks.“
Hún segist nýta þessa aðferð í skólastofunni hjá sér – drengirnir myndu ganga út úr kennslustund hjá henni ef hún vandaði sig ekki. Í Borgarholtsskóla kennir hún kynjafræði, uppeldisfræði og sögu. „Reyndar segja nemendur mínir: „Já, Hanna. Hún kennir bara kynjafræði, áfangarnir hennar heita bara mismunandi.“ Ég er femínískur kennari sem er alltaf að tala um valdatengsl,“ segir hún að lokum.
Lesa meira
-
29. desember 2022Öfga uppgjör
-
25. desember 2022Hátíðarhugvekja: Heimilisofbeldi um jólin og gerendameðvirkni í lok árs
-
27. september 2022Stjórn Ferðafélags Íslands hafnar lýsingum fráfarandi forseta
-
27. september 2022Fyrsti kvenkyns forseti Ferðafélagsins segir af sér vegna framferðis stjórnarkarla
-
20. ágúst 2022Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot
-
7. júlí 2022Vítalía búin að gefa skýrslu hjá lögreglu
-
5. júní 2022Vítalía um fráfarandi forstjóra Festi: „Ég á Eggerti mikið að þakka“
-
25. maí 2022Einstaklingar sem eru til rannsóknar skuli stíga til hliðar
-
24. maí 2022„Á meðan helvítis eftirspurnin er þá er framboð“
-
28. apríl 2022„Var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað“