Meirihluti ráðuneytisstjóra var skipaður án auglýsingar
Frá árinu 1954 hefur það verið meginregla í lögum á Íslandi að það skuli auglýsa opinberlega laus embætti hjá íslenska ríkinu. Eftir þessari meginreglu er þó ekki farið í mörgum tilvikum. Þannig voru sjö af tólf núverandi ráðuneytisstjórum skipaðir án þess að embættið væri auglýst. Frá því að sitjandi ríkisstjórn tók við hafa sex af þeim níu sem enn eru ráðuneytisstjórar verið skipaðir án auglýsingar.
Af þeim tólf einstaklingum sem sitja í embætti ráðuneytisstjóra á Íslandi í dag voru sjö skipaðir í það, en fimm ráðnir í kjölfar þess að starfið var auglýst laust til umsóknar. Þetta er staðan þrátt fyrir að lög og meginreglur séu afar skýr hvað þetta varðar: það á að auglýsa þessi störf laus til umsókna. Sérstakar, en þröngar, undanþágur eru frá þessu. Ráðherrar fara hins vegar ítrekað á svig við þær skýru reglur og vilja löggjafans þegar þeir skipa í valdamikil embætti innan stjórnsýslunnar og beita, að mati umboðsmanns Alþingis, sífellt breytilegri flóru frávika til að rökstyðja það.
Valdamesta embættið innan stjórnsýslunnar, utan þess að sitja sem ráðherra í lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, er embætti ráðuneytisstjóra. Sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur skipað níu enn starfandi ráðuneytisstjóra frá því að hún tók við völdum seint á árinu 2017. Af þeim hafa sex verið fluttir til í starfi eða skipaðir án auglýsingar, en þrívegis voru störfin auglýst laus til umsóknar og hæfisnefnd látin meta hverjir umsækjenda væru hæfastir til að sinna starfi ráðuneytisstjóra.
Af þeim þremur ráðuneytisstjórum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur ekki skipað hafa tveir verið í slíku embætti frá árinu 2003.
Meginregla í næstum 70 ár
Allt frá árinu 1954, þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett, hefur það verið meginregla í lögum á Íslandi að auglýsa skuli opinberlega laus embætti og störf hjá ríkinu.
Þegar lögin voru endurskoðuð og ný lög sett árið 1996 voru áfram ákvæði um auglýsingaskylduna. Í þessum reglum er það meginreglan að auglýsa skuli laus störf en þau tilvik þegar ekki er skylt að auglýsa störf eru afmörkuð sérstaklega. Þessar undanþágur frá auglýsingaskyldu eiga við um störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf sem eru tímabundin vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingar- og foreldraorlofs, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana og því um líkt, enda sé ráðningunni ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
Þá eru undanþágur frá reglunum sem fela í sér að störf sem hafa verið auglýst innan síðustu sex mánaða ef þess er getið í auglýsingunni að umsóknin geti gilt í sex mánuði frá birtingu hennar. Að endingu er að finna undanþágur um störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.
Engar fleiri undanþágur er að finna í lögunum.
Stjórnendur velja að fara aðrar leiðir en að auglýsa
Þrátt fyrir þetta hafa komið upp fjölmörg dæmi um að auglýsingaskyldunni hafi ekki verið fylgt. Á síðustu árum hefur, samkvæmt samantekt umboðsmanns Alþingis um þessi mál, auk þess bæst verulega við flóru frávika frá reglunum. Oftast er þetta gert á grundvelli 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem sagt er að stjórnvald geti skipað mann í embætti eða samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi óski stjórnvaldið eftir því. Einnig hefur verið vísað í 7. grein sömu laga til að komast hjá auglýsingaskyldu, enn þar segir að heimilt sé að flytja mann til í embætti án þess að embættið sé laust til umsóknar.
Í umfjöllun sem umboðsmaður birti á heimasíðu sinni 28. apríl í fyrra sagði: „Þær athuganir sem umboðsmaður hefur gert á framkvæmd stofnana ríkisins, einkum Stjórnarráðsins, á því hvernig lögum og reglum um auglýsingar á lausum stöfum er fylgt veita vísbendingar um að nokkuð algengt sé að stjórnendur velji að fara aðrar leiðir við að ráða í störf heldur en að auglýsa þau. Þá sýna þau mál sem komið hafa til athugunar hjá umboðsmanni að undanförnu að stjórnvöld hafa í vaxandi mæli notað þær heimildir sem hafa komið til á síðari árum til að flytja embættismenn og starfsmenn milli stofnana og starfa án þess að auglýsa störfin.“
Í fréttinni segir að það hafi vakið athygli umboðsmanns, við eftirlit með ráðningarmálum innan stjórnarráðsins, að þrátt fyrir skýrar reglur og vilja löggjafans sem birtist í gildandi lögum, um að tryggja jafnræði og gagnsæi við meðferð þessara mála, hafi „ítrekaðar ábendingar umboðsmanns um að tiltekin framkvæmd sé ekki í samræmi við lög og reglur á þessu sviði í ýmsum tilvikum aðeins leitt til þess að fundin er önnur leið til þess að haga málum á skjön við reglurnar í stað þess að laga framkvæmdina að þeim. Þá gætir þess í vaxandi mæli að nýjar lagaheimildir til flutnings milli embætta og starfa án auglýsingar séu notaðar.“
Ekki forsvaranlegt að nota takmarkaðan mannafla
Í ljós þessa gafst umboðsmaður einfaldlega upp á frumkvæðisathugun embættisins á framkvæmd stjórnvalda ríkisins á skyldunni til að auglýsa laus störf nema forsendur fyrir nýtingu undantekningarheimilda séu til staðar. Það var tilkynnt í áðurnefndri umfjöllun frá því í fyrravor. Ekki væri forsvaranlegt að nýta takmarkaðan mannafla embættisins til að ljúka frumkvæðisathuguninni í ljósi þess að ráðamenn færu hvort eð er ekkert eftir skýrum reglum og vilja löggjafans í þessum málum.
Umboðsmaður sagði að þau tilmæli sem myndu koma út úr athuguninni gætu hvort eð er „vart lotið að öðru en að stjórnvöld fylgi þeim skýru reglum sem þegar gilda um þessi mál en þar reynir fyrst og fremst á vilja þeirra til að haga málum með þeim hætti. “
Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni., fjármála- og efnahagsráðherra var tilkynnt um ákvörðunina.
Sitjandi ríkisstjórn hefur skipað marga ráðuneytisstjóra
Síðan að umfjöllun umboðsmanns birtist í apríl 2021 hafa fimm ráðuneytisstjórar verið skipaðir. Sá fyrsti, Benedikt Árnason, var skipaður í embætti ráðuneytisstjóra í því sem hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á síðasta kjörtímabili eftir lögbundið auglýsingaferli. Alls sóttu 13 um starfið og hæfisnefnd mat þrjá umsækjendur hæfasta til að gegna embættinu.
Í fyrrahaust var kosið til þings og sömu flokkar: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, ákváðu í kjölfar þess að halda áfram stjórnarsamstarfi undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Á meðal breytinga sem sátt náðist um var að fjölga ráðherrum um tvo, þannig að ráðuneytin yrðu tólf. Auk þess voru málaflokkar fluttir á milli ráðherra þannig að til urðu áður óséðar ráðuneytiseiningar víða innan stjórnarráðsins.
Ráðherrar í endurnýjuðu ríkisstjórninni hafa ráðið fjóra ráðuneytisstjóra. Í einu tilviki var starfið auglýst, þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skipaði Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, yfir sitt ráðuneyti. Áður hafði Áslaug Arna þó sett Ásdísi Höllu tímabundið til þriggja mánaða í nýtt embætti ráðuneytisstjóra innan síns ráðuneytis. Umboðsmaður Alþingis tók tímabundnu skipunina óstinnt upp og óskaði eftir skýringum á henni frá ráðherra.
Ráðherra braut gegn lögum
Í bréfi Umboðsmanns Alþingis til Áslaugar Örnu sagði að ekki yrði annað ráðið, í ljósi þess að verið væri að setja á fót nýtt ráðuneyti, að um nýtt embætti innan ráðuneytisins væri að ræða.
Umboðsmaður óskaði því eftir upplýsingum „um hvort umrætt embætti hafi verið auglýst til umsóknar“ og ef svo hafi ekki verið, óskaði hann eftir skýringum frá ráðherra á því á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert.
Í byrjun mars birti umboðsmaður álit þess efnis að Áslaugu Örnu hefði ekki verið heimilt að setja Ásdísi Höllu í embættið án auglýsingar. Ráðherrann hafi því brotið gegn lögum með ákvörðun sinni.
Á nánast sama tíma og umboðsmaður var að birta álit sitt var ráðuneytisstjórastaðan auglýst. Ásdís Halla sótti um var tekin fram yfir aðra umsækjendur þegar Áslaug Arna ákvað að skipa hana í embætti ráðuneytisstjóra í apríl. Alls sóttu átta um embættið, fjórir drógu umsókn sína til baka og tveir voru metnir hæfastir. Á meðal umsækjenda var Sigríður Auður Arnardóttir, þá ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.
Ekki lagaskilyrði til að halda athugun áfram
Hinir þrír sem hafa verið skipaðir ráðuneytisstjórar á þessu ári hafa allir verið fluttir til í starfi. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði Skúla Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðanda, í það embætti innan síns ráðuneyti snemma á þessu ári.
Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir skýringum á lagalegum grundvelli fyrir skipan hans og á bréfum hans til ráðherrans mátti merkja að hann áttaði sig ekki fyllilega á hvaða lagalegi grundvöllur hafi verið fyrir skipuninni.
Í mars sendi umboðsmaður Lilju bréf þar sem fram kom að athugun hans á skipan þáverandi ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis væri lokið.
Í bréfinu sagði meðal annars að í ljósi aðkomu og afstöðu þingsins gagnvart tilfærslu Skúla Eggerts úr embætti ríkisendurskoðanda yrði ekki hjá því komist að líta svo á að það félli utan við starfssvið umboðsmanns, þar sem það taki ekki til starfa Alþingis, að fjalla um ákvörðun ráðherra að skipa viðkomandi með þeim hætti sem gert var og án undangenginnar auglýsingar. Ekki væri því lagaskilyrði til þess að embætti umboðsmanns geti haldið athugun sinni áfram.
Umboðsmaður tók þó fram að með niðurstöðunni hefði engin efnisleg afstaða verið tekin til atvika málsins eða þeirra skýringa sem hefðu verið færðar fram vegna þess.
Tveir fluttir til í sumar
Í júní var greint frá því að Páll Magnússon, sem var skipaður ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eftir afar umdeilt ráðningarferli þar sem jafnréttislög voru brotin, hefði verið færður til í starfi og færi til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf og muni þar starfa á sviði málefna barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði í hans stað Ernu Kristínu Blöndal, skrifstofustjóra í ráðuneytinu. Starfið var ekki auglýst.
Í byrjun viku var svo greint frá því að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði skipað Stefán Guðmundsson, sem gegnt hefur embætti skrifstofustjóra á skrifstofu fjármála og rekstrar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem ráðuneytisstjóra frá og með 1. september næstkomandi.
Staðan var ekki auglýst heldur var Stefán fluttur í embættið á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta.
Áðurnefnd Sigríður Auður Arnardóttir, sem hafði gegnt embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneytinu frá árinu 2014 og sótt um annað ráðuneytisstjórastarf fyrr á árinu, hefur ráðið sig til Orkuveitu Reykjavíkur sem stjórnandi á nýju fagsviði Samhæfingar og stjórnsýslu sem heyrir undir forstjóra.
Sjö af tólf fluttir í embætti
Þegar horft er á alla þá tólf einstaklinga sem gegna embætti ráðuneytisstjóra liggur fyrir að sjö þeirra hafa verið fluttir til í starfi án þess að ráðuneytisstjórastaðan hafi verið auglýst, líkt og lög gera ráð fyrir. Fimm hafa verið ráðnir eftir lögbundið auglýsingaferli þar sem hæfisnefnd hefur metið umsækjendur um starfið og raðað þeim upp eftir hæfi.
Af öllum ráðuneytisstjórum hefur Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, setið lengst. Hann hefur verið ráðuneytisstjóri frá því í mars 2003 og í þessu valdamikla embætti frá árinu 2009, þegar hann var færður tímabundið úr embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu í júní það ár og Baldur Guðlaugsson færður í hina áttina.
Guðmundur átti upphaflega að vera settur í embætti ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu til loka árs 2009 en eftir að Baldur óskaði eftir starfslokum vegna þess að hann var til rannsóknar fyrir innherjasvik, sem hann hlaut síðar dóm fyrir, hélt Guðmundur einfaldlega áfram í fjármálaráðuneytinu. Hann var fluttur í embættið án þess að það væri auglýst laust til umsóknar.
Auglýst árið 2010 og 2017
Sú sem hefur setið næst lengst sem ráðuneytisstjóri er Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu. Hún var skipuð ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu frá og með 1. júní 2003. Haustið 2010 var ráðuneytisstjórastaða í nýju innviðaráðuneyti, sem varð til við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, auglýst laus til umsóknar og sóttu þrettán um. Ragnhildur varð hlutskörpust umsækjenda og hefur verið ráðuneytisstjóri síðan.
Í maí 2017 var Haukur Guðmundsson skipaður ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu í kjölfar þess að embættið var auglýst laust til umsóknar. Alls sóttu tólf um og þrír voru metnir hæfastir af hæfisnefnd, þar á meðal Haukur.
Undantekning frekar en regla að auglýsa hjá sitjandi ríkisstjórn
Síðan að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum seint á árinu 2017 hafa níu ráðuneytisstjórar verið skipaðir. Þrír þeirra hafa verið ráðnir eftir lögbundið auglýsingaferli en sex fluttir til í starfi. Líkt og áður sagði hafa fimm þeirra verið skipaðir síðasta tæpa eina og hálfa árið. Hinir fjórir voru skipaðir fyrr á síðasta kjörtímabili.
Í lok árs 2018 skipaði Ásmundur Einar Daðason þáverandi forstjóra Vinnumálastofnunar, Gissur Pétursson, í embætti ráðuneytisstjóra í nýju félags- og barnamálaráðuneyti. Hann hóf störf í byrjun árs 2019. Starfið var ekki auglýst.
Í mars 2019 skipaði Svandís Svavarsdóttir, þá heilbrigðisráðherra, Ástu Valdimarsdóttur sem ráðuneytisstjóra. Hún var á meðal fjögurra umsækjenda sem lögskipuð hæfisnefnd mat hæfasta til að gegna embættinu.
Í nóvember 2019 var greint frá því að Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, myndi taka við nýju embætti í utanríkisþjónustunni. Í hennar stað skipaði Katrín Jakobsdóttir þáverandi ríkissáttasemjara, Bryndísi Hlöðversdóttur. Hún hóf störf í byrjun árs 2020. Staðan var ekki auglýst.
Í ágúst 2020 var greint frá því að Sturla Sigurjónsson, þáverandi ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, hefði verið færður til og yrði næsti sendiherra Íslands í London. Við starfi hans tók Martin Eyjólfsson, sem hafði verið skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarskrifstofu ráðuneytisins. Embættið var ekki auglýst laust til umsóknar.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars