10. Fréttamenn Kveiks koma af fjöllum
„Fréttamenn Kveiks fullyrða nú að þeir hafi aldrei sett þessar ásakanir fram. Það er með nokkrum ólíkindum. Var þá upplifun okkar, stjórnenda og starfsfólks Samherja og fjölmargra annarra sem horfðu á Kveik, bara eintómir hugarórar? Vorum við ímynda okkur það sem við sáum og heyrðum? Þá er ekki nema von að menn spyrji, um hvað var eiginlega þessi Kveiksþáttur, þar sem fjallað var um Cape Cod, ef hann fjallaði ekki um þau atriði sem Samherji vildi leiðrétta?“
Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, skrifaði grein og sagði það útúrsnúninga og eftiráskýringar að ásakanir sem Samherji taldi að hefðu komið fram í Kveiksþætti í nóvember í fyrra, hefðu ekki komið þar fram.
Lesið greinina í heild sinni hér.
9. Má bjóða þér skógarelda með kaffinu?
„Hafradrykkurinn Oatly nýtur síaukinna vinsælda víða um heim, sér í lagi á Íslandi. Mörgum finnst hann ómissandi í kaffið eða út á morgunkornið. Unnendur drykkjarins muna eflaust eftir því þegar hann var ófáanlegur síðasta sumar og fólk barðist um síðustu fernurnar á göngum kjörbúða. Á sama tíma geisuðu sögulegir skógareldar í Amazonfrumskóginum sem vöktu óhug um allan heim.
Getur verið að drykkurinn og eldarnir tengist og að hjá Oatly sé kannski óhreint mjöl í pokahorninu?“
Ísak Már Jóhannesson skrifaði um sænska haframjólkurframleiðann Oatly og ágreining sem ríkir um umsvif hans.
Lestu greinina í heild sinni hér.
8. Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega takk, ég er með ykkur öll í vasanum
„Hvernig líður þér, elsku vin?
Bara prýðilega, við erum búnir að arðræna Namibíumenn í mörg ár, höfum grætt fáránlega mikið, syndum í peningum, við mútuðum, við komumst hjá því að borga skatt af gróðanum, skildum ekki gat með krónu eftir í samfélaginu. Hugsaðu þér, Kristján, við komum þarna inn þegar Íslendingar eru nýbúnir að byggja upp sjávarútveginn, við njótum því trausts og nýttum okkur það til hins ítrasta. Við stálum ekki bara öllu steini léttara heldur fluttum vinnsluna út á sjó eftir að búið var byggja upp verkþekkingu í landi og þjálfa til þess þúsund manns. Við rændum þúsund fjölskyldum viðurværi sínu. Við skildum allt eftir í rúst. Þetta var svona rbb dæmi.
Ríða, búið bless?
Æ, hvernig líður þér, elsku vinur?
Bara prýðilega, ég hef þig í vasanum.“
Í lok síðasta árs skrifaði Jón Kalman Stefánsson rithöfundur um íslensk stjórnmál, Kristján Þór Júlíusson, Samherja, RÚV og Miðflokkinn. Hann velti fyrir sér hvort við værum smám saman að missa sjónar á réttu og röngu á meðan púkarnir á fjósbitanum fitnuðu.
Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni hér.
7. Rannsóknin sem hvarf í Keflavík
„Þegar hæstiréttur sýknaði sakfellda af drápum á Geirfinni Einarssyni og Guðmundi Einarssyni, bættust tvö ný óupplýst mannshvörf á borð lögreglunnar. Sem lögreglumál urðu til ný óupplýst mál, þótt mannshvörfin sjálf hafi átt sér stað fyrir 46 og nærri 47 árum síðan. Fyrri rannsókn á mannshvörfunum lauk með þeirri dómsniðurstöðu að mennirnir hefðu verið drepnir og hverjir hefðu drepið þá, þótt aldrei hefði verið upplýst hvað varð um líkin. Þegar hæstiréttur sýknar hina sakfelldu af drápunum, verða mannshvörfin lagalega séð óupplýst á ný. Hvað ætlar lögregla að gera í því?“
Soffía Sigurðardóttir skrifaði um hvarf Geirfinns Einarssonar, og rannsóknina á því mannshvarfi.
Lestu greinina í heild sinni hér.
https://kjarninn.is/skodun/2020-11-20-rannsoknin-sem-hvarf-i-keflavik/
6. Af hverju mál Þorvaldar Gylfasonar er bæði lítið og stórt
„Þorvaldarmálið er stórt, vegna þess að það er svo lítið. Enginn hefur heyrst minnst á þetta litla fræðirit áður. En heift og hatur fólks á hægri væng stjórnmálanna á Íslandi á meintum pólitískum andstæðingum er svo stækt að það getur ekki hugsað sér að fólk með „rangar skoðanir” fái nokkur framgang, hérlendis eða annars staðar, svo lengi sem þeir fái nokkru við ráðið. „Ég myndi ekki einu sinni treysta mér til að senda Þorvald út í búð fyrir mig, jafnvel þótt hann væri með miða,” segir Brynjar Níelsson á Facebook. Firring þessara manna og heift og blindni á eðlilega siðvenjur er alger.
Stóra myndin er þessi: Þessir menn hafa ekkert lært eftir allar umræður um frændhygli, skort á fagmennsku og spillingu síðustu ára. Stóra vandamálið á Íslandi er frændhygli og skortur a fagmennsku.“
Aðsend grein eftir Gauta B. Eggertsson, prófessor í hagfræði við Brown-háskólann, um mál Þorvaldar Gylfasonar.
Lestu greinina í heild sinni hér.
5. Staðreyndir og spurningar um Icelandair, Landssímareitinn og Lindvarvatn ehf.
„Í íslensku þjóðlífi er því miður algengt að stjórnmálamenn og fyrirsvarsmenn eftirlitsaðila gefa yfirlýsingar um að lífeyrissjóðir eigi að taka þátt í þessu verkefni eða hinu, hvort heldur sem um er að ræða fjárfestingu í grænum skuldabréfum eða fyrirmæli eftirlitsaðila um sjálfsköpuð gjaldeyrishöft á kostnað lífeyrisþega. Þá eru alþekkt dæmi þess að staðbundnir lífeyrissjóðir taki þátt í verkefnum á starfssvæði sínum og séu ítrekað hvattir til að taka þátt í slíku. Eru jafnvel dæmi um að lífeyrissjóðir hafi komið að félögum til að taka þátt í slíkum verkefnum.
Að sama skapi leggja starfsmenn fyrirtækja áherslu á að fá lífeyrissjóði með í verkefni eða taki þátt í fjárfestingum, s.s. útboði.“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifaði ítarlega grein um málefni Icelandair, Landssímareitsins og Lindarvatns. Þar sagði hann samantekt sína kalla á að óháð rannsókn fari fram.
Lestu greinina í heild sinni hér.
4. COVID-19: Að vita betur en þeir sem best vita
„Það er grafalvarlegt mál - sérstaklega og sér í lagi við svona kringumstæður - að grafa undan tiltrú fólks á tilmælum og ákvörðunum hins opinbera. Það ætti enginn að gera nema hafa mjög ríkar ástæður til og þá annað hvort vegna sérfræðiþekkingar sinnar, eða upplýsinga sem yfirvöld hafa ekki. Það eru til leiðir fyrir slíkar upplýsingar og það eru líka til leiðir til að koma áhyggjum sínum og spurningum á framfæri með hógværum hætti.
Það gæti hreinlega bjargað mannslífum!“
Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri GRID og stjórnarformaður Kjarnans, skrifaði um þá sem grafa undan tiltrú fólks á tilmæli og ákvarðanir hins opinbera.
Lesið greinina í heild sinni hér.
3. Andað á ofurlaunum
„Í fljótu bragði dettur mér ekki í hug stétt sem stjórnvöld hafa niðurlægt jafnrækilega og hjúkrunarfræðingar. Kjarabaráttan kæfð með gerðardómi. Lög sett á verkföll. Logið til um meðallaun. Launin lækkuð í miðjum heimsfaraldri. Samningarnir látnir lafa lausir því hvað eiga hjúkrunarfræðingar svo sem að gera? Fara í verkfall? Nei, nú fyrst missa ráðamenn andann af hlátri.
Anda. Muna að anda. Og muna að betla til baka hjúkrunarfræðingana sem við hröktum í önnur störf.
Því það er svo merkilegt að þegar mest á reynir eru það ekki náskyldir ráðgjafar eða aðstoðarmenn ráðherra sem við treystum á, þótt launaseðlar bendi til annars – nei, við treystum á mæður sem snúa til baka úr fæðingarorlofi með fimm mánaða gömul börn á brjósti, ömmur á eftirlaunum, fórnfúsar frænkur og frændur – þetta eru manneskjurnar sem við treystum á.
Svo næst þegar heilbrigðisráðherra hugar að andardrættinum vona ég að í fullkominni hugarró fái hún eftirfarandi hugmynd: Það þarf að hækka laun hjúkrunarfræðinga.“
Dagur Hjartarson rithöfundur skrifaði um kjör hjúkrunarfræðinga.
Lesið pistilinn í heild sinni hér.
2. Dagur 366 án atvinnu
„Í dag eru 366 dagar eða heilt ár (hlaupár munið þið) síðan ég hef verið án launaðrar vinnu. Heilt ár án þess að vakna á morgnana, fara í ræktina eða sund, fengið mér morgunmat og farið síðan til vinnu. Komið heim seinnipart dagsins, sest niður með kaffi og rætt við konuna mína um hvernig vinnudagur okkar var[...]Ég á alveg tíu ár eftir á vinnumarkaðnum enda frískur og sprækur og held mér í formi með reglulegri líkamsrækt og sundi. Þá ósk á ég heitasta að hafa vinnu í stað þess að sækja stöðugt um störf næstu tíu ár.
Það rætist vonandi úr innan tíðar!“
Bjarni Jónsson skrifaði grein um hvernig það er að vera atvinnulaus í lengri tíma en vilja vinna. Bjarni fékk ýmis boð um störf eftir að greinin birtist og komst aftur inn á vinnumarkað í ágúst síðastliðnum.
Lesið greinina í heild sinni hér.
1. Allt það hræðilega sem ég hef gert!
„Þetta og miklu meira til gerði ég á þessum aldri. Sumir gerðu eitthvað miklu gáfulegra. En það skilgreinir mig ekki í dag, þó að ég geti flissað að þessu. Ég veit samt ekki hvernig það hefði verið ef netheimar hefðu verið orðnir eins og þeir eru í dag. Kannski hefði ég misst mannorðið fyrir lífstíð, fyrir eitthvað af þessu, eða eitthvað af því sem ég man ekki einu sinni eftir. Ég var ekki með sömu dómgreind og ég er með í dag, þó að henni sé svosem oft ábótavant í núinu. Ég var ung. Og vitlaus. Stundum skemmtilega vitlaus, stundum hættulega. Og þess vegna hugsa ég núna, þegar ég sé ungar stelpur sjeimaðar í breskum miðlum fyrir unggæðingslegan dómgreindarbrest: Þetta hefði getað verið ég!“
Auður Jónsdóttir rithöfundur rifjaði upp atvik frá sínum ungdómsárum og hrósar happi yfir því að ekki hafi verið til samfélagsmiðlar á þeim tíma.