Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins, hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, sem er staðsett á Akureyri, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Þeim var greint frá þessu símleiðis í dag og þeir boðaðir í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni embættisins sem mun gera sér ferð til Reykjavíkur til að framkvæma hana.
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, er sömuleiðis með stöðu sakbornings í málinu og hefur einnig verið boðaður í yfirheyrslu. Þá var greint frá því á vef RÚV í kvöld að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hafi einnig verið boðuð í yfirheyrslu.
Sakarefnið sem blaðamönnunum er gefið að sök er að hafa skrifað fréttir um „skæruliðadeild Samherja“ upp úr samskiptagögnum. Í hegningarlögum segir að hver sá sem „brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda sé háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.“
Engin þekkt dæmi eru fyrir því að lögregla ákærði blaðamenn fyrir slík brot fyrir að skrifa fréttir upp úr gögnum. Hins vegar eru fjöldi fordæma fyrir því hérlendis sem erlendis að fjölmiðlar birti trúnaðargögn sem eiga erindi við almenning.
Það var, og er, skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti þeirra gagna sem umfjöllunin byggði á ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.
„Skæruliðadeild“ opinberuð
Í maí 2021 birtu Kjarninn og Stundin röð fréttaskýringa sem byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið.
Kjarninn greindi frá því að skýr vilji hefði verið til staðar innan Samherja til að skipta sér að því hverjir myndu leiða lista Sjálfstæðisflokks í heimakjördæmi fyrirtækisins og að starfsmenn Samherja hefðu verið með áætlanir um víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berjast gegn spillingu. Kjarninn greindi líka frá því hvernig Samherji hugðist bregðast við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gegn nafngreindu fólki.
Þetta ferli stóð yfir frá því að umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera um Samherja og atferli fyrirtækisins í Namibíu birtist í nóvember 2019 og þangað til að fréttaskýringaröð Kjarnans fór í loftið.
Athæfi Samherja fordæmt víða
Viðbrögðin við umfjölluninni voru mikil. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist telja framgöngu Samherja algerlega óboðlega, óeðlilega og ætti ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. „Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu. Svona gera menn einfaldlega ekki.“
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sagðist hafa áhyggjur af því ef það væri eitthvað óeðlilegt í gangi, með hvaða hætti fyrirtæki blanda sér í stjórnmálabaráttu einstakra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélaga og svo framvegis. „Ef fyrirtæki taka með einbeittum hætti ákvörðun um að fara að beita sér með slíkum hætti er það að allra mati og flestra mati ekki ásættanlegt.“
Þingmaður Pírata, Andrés Ingi Jónsson, sagði aðgerðir gegn fjölmiðlafólki geta komið niður á kosningum og að það væri stórhættulegt að „fjársterkt útgerðarfyrirtæki beiti sér með þessum hætti gegn gervöllu gangverki lýðræðisins“. Þingflokkur hans sendi formlegt erindi til ÖSE vegna málsins og kallaði eftir því að stofnunin myndi skipuleggja kosningaeftirlit á Íslandi í þingkosningunum sem fram fóru í haust.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að hann teldi að Samherji hefði „gengið óeðlilega fram í þessu máli með sínum afskiptum.“
Alvarleg aðför
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði að hún liti á framferðið sem alvarlegri aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi „sem er algjörlega ólíðandi“. Þessi aðför Samherja veki einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar stæðu nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu.
Alþjóðasamtökin Transparency International lýstu yfir miklum áhyggjum af því sem fram hefur komið í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar. „Fyrirtæki sem vilja sanna heilindi sín nota ekki undirförular aðferðir gagnvart þeim sem segja frá staðreyndum í þágu almannahagsmuna.“
Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands fordæmdi þá „ljótu aðför að mál- og tjáningarfrelsi sem og æru rithöfunda og fréttafólks sem opinberast hefur síðustu daga í fréttum af Samherja og þeim vinnubrögðum sem þar eru stunduð“.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sögðu í yfirlýsingu telja það „mikilvægt að fyrirtækið axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum, stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum. Á þeim forsendum er unnið á vettvangi SFS og samtökin gera sömu kröfu til sinna félagsmanna.“
Samherji biðst afsökunar
Samherji sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins 30. maí 2021. Þar sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið [...] Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Nokkrum vikum síðar, 22. júní, voru birtar heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um var að ræða bréf sem fjallar um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í Samherjamálinu, skrifaði undir bréfið.
Þar sagði einnig að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hefði fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hefði verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar. Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“