Fram er komið frumvarp til að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Það var, vægast sagt, tímabært að ráðamenn rönkuðu úr rotinu og gripu í taumana ef þeir þá yfir höfuð einhvern áhuga á að reka hér öfluga, frjálsa og gagnrýna fjölmiðla sem vinna að því að upplýsa almenning með því að segja satt, rannsaka og skapa samhengi.
Flestir einkareknir fjölmiðlar í þessu örsamfélagi eru enda reknir í hugsjónastarfsemi þar sem starfsmenn og stjórnendur leggja meira á sig en eðlilegt er til að halda hlutunum gangandi, en passa sig á að halda öllum kostnaði í lágmarki til að halda óhæði og sjálfstæði.
Svona hefur þetta verið undanfarin áratug, á meðan að allt rekstrarumhverfið hefur kúvenst vegna tækni- og upplýsingabyltingarinnar sem hefur gerbreytt neytendahegðun og gengið nánast frá hefðbundnum tekjumódelum fjölmiðla.
Hún leiðir af sér að færri vilja greiða fyrir fréttir og fréttavinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar tegundir miðla, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla. Á sama tíma hefur misnotkun á frelsinu sem fylgir óheftu aðgengi að umræðunni stóraukist og fleiri sjá sér hag í því að koma röngum upplýsingum á framfæri sem staðreyndum.
Þess vegna er verið að bregðast við með tímabærum tillögum um endurgreiðslur á hluta af ritstjórnarkostnaði.
Að uppistöðu gott frumvarp
Að uppistöðu er frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gott. Það er til að mynda nauðsynlegt að vera með skilyrði um rekstrarsögu, starfsmannafjölda og um hversu stórt hlutfall birts efnis þurfi að vera ritstjórnarefni sem byggist á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun. Það tryggir að endurgreiðslurnar lendi hjá þeim sem frumvinna mest efni og miðlum sem þegar hafa sannað tilverurétt sinn og eftirspurn með því að hafa starfað í tiltekin tíma.
Þá er það réttlætismál að undanskilja alla þá fjölmiðla sem hafa ekki greitt lögbundin gjöld til opinbera aðila, lífeyrissjóða og stéttarfélaga frá því að vera hæfir til að fá endurgreiðslu. Of margir fjölmiðlar hafa fengið að starfa óáreittir árum saman hérlendis á síðustu árum, á grundvelli ólöglegra lána frá hinu opinbera, án þess að gripið hafi verið í taumanna. Ganga mætti lengra að koma einnig í veg fyrir að þeir sem hafa stundað þetta geti orðið sér úti um endurgreiðslur með nýrri kennitölu og nýju nafni. Þetta atferli hefur valdið öllum þeim fjölmiðlafyrirtækjum sem keppa heiðarlega og löglega miklum skaða.
Verði frumvarpið að lögum mun það styrkja minni miðla á Íslandi feikilega mikið. Þeir munu geta ráðið fleira fólk og bætt alla sína starfsaðstöðu. Allt nýtt fé verður nýtt til sóknar. Og samfélagið mun njóta góðs af því.
Svo virðast í burðarliðnum frekari skref til að bæta umhverfið, t.d. með því að skerða veru RÚV á auglýsingamarkaði og skilgreina skýrar hvert hlutverk þess miðils eigi að vera í gegnum endurnýjun á þjónustusamningi, sem rennur út á næsta ári.
Auk þess blasir við að það þurfi að taka vitræna umræðu um bann við auglýsingum frá t.d. áfengisframleiðendum og veðmálafyrirtækjum, í ljósi þess að það bann skýlir engum frá slíkum auglýsingum og hefur einungis þau áhrif í alþjóðavæddum heimi að skekkja samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla. Að lokum verður væntanlega fundnar leiðir til að láta samfélagsmiðla og aðra erlenda tekjukeppinauta íslenskra miðla greiða skatt hérlendis ef þeir ætla að höggva skörð í auglýsingatekjukökuna.
Þessi frekari skref munu fyrst og síðast gagnast stærstu miðlum landsins: Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og fréttastofu Sýnar. Þessir þrír aðilar munu einnig taka til sín 43 prósent af þeim 350 milljónum króna sem endurgreiðslurnar munu dreifa út.
En þetta er ekki nóg. Tveir þeirra, Fréttablaðið og Morgunblaðið, vilja að þessir þrír fái meira. Miklu, miklu meira. Og helst allt.
Hvað er vettvangur persónulegra skoðana?
Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi Fréttablaðsins, og Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi þess, skrifa saman umsögn um frumvarpið. Þar leggja þær stöllur m.a. til að stærstu þrjár fréttastofur landsins fái 200 milljónir króna á ári úr ríkissjóði í beina styrki. Þá vilja þær að skilyrði um lágmarksstærð verði breytt þannig að fjöldi þeirra sem starfi á ritstjórn þurfi að minnsta kosti að vera 20 til að slík teljist styrkhæf, í stað þriggja eins og nú er gert ráð fyrir. „Öflug fréttastofa, sem hefur einhverja þýðingu fyrir samfélagið verður aldrei rekin af þremur starfsmönnum. Miðill með svo fáa starfsmenn verður aldrei nett annað en vettvangur persónulegra skoðana þeirra sem þar starfa sem að mati Torgs [eignarhaldsfélags Fréttablaðsins] hefur ekki þá þýðingu fyrir samfélagið að rétt sé að styrkja með opinberu fé.“
Þessar umsagnir eru ekki bara til að reyna að auka hlut Fréttablaðsins og Morgunblaðsins heldur einnig til þess að gera lítið úr, og reyna að hefta, starfsemi allra annarra einkarekinna miðla eins og Kjarnans, Stundarinnar, Hringbrautar, Mannlífs, Viðskiptablaðsins, DV, Grapevine, staðbundinna miðla á landsbyggðinni, tímarita og sérhæfðra syllumiðla á borð við Fótbolti.net og Túristi.is svo fáeinir séu nefndir.
Litlu miðlarnir hafa skarað fram úr
Ef litið er á síðustu rúmu fimm ár þá er hægt að tína ýmislegt til sem sýnir mikilvægi slíkra miðla fyrir samfélagið allt. Kjarninn hefur til að mynda hlotið tilnefningu til blaðamannaverðlauna á hverju ári sem hann hefur starfað. Árið 2015 hlaut blaðamaður hans verðlaunin fyrir fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins, vegna umfjöllunar um sölu Landsbankans á eignarhlutum sínum í Borgun. Á meðal annarra umfjallana sem Kjarninn hefur leitt er ýmiss konar birting á leynigögnum sem áttu mikið erindi við almenning, umfangsmiklar greiningar um stöðu stjórnmála og efnahagsmála, fréttaskýringar um stærstu viðskiptafréttir hvers tíma, umfjöllun Kjarnans um Leiðréttinguna, þátttaka okkar í úrvinnslu Panamaskjalanna og umfjöllun okkar og lykilgagnabirtingar í Landsréttarmálinu. Umfangsmikil umfjöllun um stöðu kvenna í íslensku samfélagi (sérstaklega þegar kemur að stýringu á fjármunum), umfjöllun um þær gríðarlega miklu samfélagsbreytingar sem eru að eiga sér stað hérlendis vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum og umfjöllun okkar um ójöfnuð í íslensku samfélagi. Allt eru þetta umfjallanir sem byggja á staðreyndum og hagtölum og hafa þannig getað myndað vitrænt gólf fyrir umræðu um þessa mikilvægu samfélagsþætti. Samhliða hefur byggst upp mikið traust á miðlinum og rekstarleg sjálfbærni, sem endurspeglast best í því að Kjarninn var rekinn með hagnaði á árinu 2018. Og þetta hefur ritstjórn með þrjá til fimm fasta starfsmenn getað.
Enginn miðill hefur fengið fleiri tilnefningar til Blaðamannaverðlauna á undanförnum árum en Stundin. Í fyrra fékk ritstjórn hennar þau verðlaun fyrir umfjöllun um uppreist æru, máls sem sprengdi ríkisstjórn og leiddi af sér algera endurskoðun á lögum. Málin sem Stundin hefur komið á dagskrá og leitt umfjöllun um skipta tugum hið minnsta.
Hringbraut er eini einkarekni miðillinn sem rekur raunverulegan fréttamagasínþátt, 21, þar sem fjallað er ítarlega um helstu atriði dagsins í klukkutíma á hverju virka kvöldi. Allt efni sem sýnt er á stöðinni er íslensk framleiðsla og sýnir hin mörgu blæbrigði íslensks samfélags. Hún er því einstök í íslenskri fjölmiðlaflóru. Það væri hægt að halda lengi áfram.
Það þarf að vera með mjög sérkennilega sýn á veruleikann til að telja ofangreinda fjölmiðla, og fjölmarga aðra minni og meðalstóra miðla, ekki hafa neina þýðingu fyrir samfélagið. Enginn ofangreindra fjölmiðla mun segja allar fréttir sem verða í íslensku samfélagi. En enginn þeirra ætlar sér það heldur. Heldur að einbeita sér að þeim sviðum sem sérhæfing þeirra liggur og skara fram úr þar.
Fjölskyldublaðið
Það er einmitt sú sérkennilega sýn sem er ráðandi á meðal eigenda og stjórnenda Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Á ritstjórn beggja miðla starfar margt yfirburðarfólk. Ritstjórn Morgunblaðsins er líkast til öflugasta heild af slíkri sem fyrirfinnst á Íslandi. En hún líður, líkt og ritstjórn Fréttablaðsins, fyrir vanhæfnina, taktleysið og sérhagsmunagæsluna sem eigendur og stjórnendur sýna af sér.
Lítum á nokkur dæmi. Í janúar fékk Fréttablaðið áður óþekktan áhuga á minnihlutavernd í skráðum félögum og margfeldiskosningu við val í stjórn þeirra. Ástæðan var sú að Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar eiganda og einn helsti stjórnandi fyrirtækisins, vildi komast í stjórn Haga á bakinu á litlum eignarhlut eiginkonu hans í Högum. Á örfáum dögum voru birtar fjölmargar fréttir, skoðanapistlar og nafnlaus skrif um málið. Á meðal þeirra sem skrifuðu fréttirnar var annar ritstjóri Fréttablaðsins, og bróðir hennar, nánasti samstarfsmaður Jóns Ásgeirs, birti fimm dálka skoðanagrein í blaðinu. Þess má geta að móðir þeirra er útgefandi Fréttablaðsins og fyrrverandi almannatengill fjölskyldufyrirtækis Jóns Ásgeirs, sem sjálfur var til viðtals í nokkrum fréttanna.
Skömmu síðar birtist viðtal við Ingibjörgu Pálmadóttur í blaðinu hennar, merkt kynning, sem enginn var skrifaður fyrir. Þar gagnrýndi hún alla sem fara í taugarnar á henni – þrotabú sem þau hjón skulduðu peninga sem þau gátu ekki greitt, RÚV og ótilgreinda smámiðla – og áðurnefnt stjórnarkjör í Högum, sem skilaði eiginmanni hennar ekki stjórnarsætinu sem hann þráði svo heitt.
Til viðbótar hefur Fréttablaðið vitanlega beitt sér á undanförnum árum með vítaverðum og ótrúlega óheiðarlegum hætti til að reyna að draga úr tiltrú á dómskerfið þegar það hefur sótt að þeim sem stýra fyrirtækinu. Um það er hægt að lesa hér og hefur verið margstaðfest af fjölmörgum sem þar hafa unnið, bæði sem stjórnendur og blaðamenn. Það er því réttmæt spurning hvort sé meiri „vettvangur persónulegra skoðana“, Fréttablaðið með alla sína vítaverðu afvegaleiðingu, alla sína erindagöngu fyrir eigandann og alla sína kynningu á viðskiptaævintýrum helstu ættingja, eða smærri miðlar sem sannarlega ganga engra erinda sérhagsmuna.
Tryggja tökin á umræðunni
Fyrir liggur að Morgunblaðið var keypt af útgerðarfólki til þess að „fá öðruvísi tök á umræðunni“. Þau tök snéru í upphafi að því að koma í veg fyrir að Ísland gengi í Evrópusambandið, að breyta taktinum í umfjöllum um Icesave og að því að koma í veg fyrir breytingar á skipulagi sjávarútvegsmála. Auk þess var vilji til þess að koma þáverandi ríkisstjórn frá, koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskrá og að endurskrifa söguna um hvernig hrunið varð, af hverju og hverjum það var að kenna. Tilgangurinn var að verja gamalt valdakerfi. Á þeim áratug sem liðinn er frá yfirtökunni hefur þessi hópur sett 1,6 milljarð króna inn í tapreksturinn. Heimild er til þess að henda 400 milljónum króna í viðbót í hítina í ár. En það hafa þessir sömu eigendur fengið margfalt til baka í samfélagslegum áhrifum og beinhörðum peningum.
Til þess að stýra þessu var ráðinn stjórnmálamaðurinn Davíð Oddsson, sem virðist ekki hafa neinn skilning né áhuga á grundvallaratriðum blaðamennsku heldur eyðir öllum sínum kröftum í að uppnefnda fólk, setja nöfn innan gæsalappa, daðra við hómófóbíu eða útlendingaandúð, hatast út í Evrópusambandið, mannréttindi, manngæsku og almennt frjálslyndi og dásama Donald Trump, mann sem getur varla sagt satt og rétt frá um nokkurn hlut. Á milli þess sem hann reynir að rétta eigin hlut í sögunni.
Fyrir þetta þiggur hann 5,9 milljónir króna á mánuði, að hluta til frá skattgreiðendum vegna óhóflegra lífeyrisréttinda sem hann skammtaði sér sjálfur. Sameiginlegur kostnaður við tvo ritstjóra Morgunblaðsins á mánuði er um 10,4 milljónir króna á mánuði, sem er um það bil sú upphæð sem Kjarninn getur vænst að fá á ári í endurgreiðslu kostnaðar frá ríkinu verði frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra að lögum. Ein leið fyrir Morgunblaðið að auka rekstrarhæfni sitt væri að reka þá báða og ráða alvöru blaðamann í starfið fyrir brot af þessari upphæð.
Ekki verðlauna óumhverfisvænt óhagræði
Rekstrarmódel Fréttablaðsins og Morgunblaðsins eru fallandi. Það sést ekki einungis á gríðarlegu tapi sem rekstur þeirra hefur skilað á undanförnum árum heldur líka á sífellt lækkandi lestrartölum og hverfandi trausti. Á tæpum níu árum hefur lestur Fréttablaðsins hjá fólki undir fimmtugu helmingast og er nú rétt yfir 30 prósent. Fyrir níu árum las þriðjungur þjóðarinnar í sama aldurshópi Morgunblaðið, en nú er það hlutfall 14,4 prósent.
Það blasir við að stafræn miðlun frétta er ekki bara framtíðin, hún er nútíminn. Það má færa sterk rök fyrir því að hluti af vandamáli íslensks fjölmiðlamarkaðar sé áframhaldandi uppihald á þessum ónýtu rekstrarmódelum, sem gera það að verkum að hlutfall prentauglýsinga er enn miklu hærra en raunveruleikinn kallar á að það sé. Ein afleiðing þess er að Fréttablaðið uppfyllir ekki það skilyrði endurgreiðslu að vera með að minnsta kosti 40 prósent af efni sínu hverju sinni ritstjórnarefni og hefur farið fram á að sá þröskuldur verði lækkaður. Morgunblaðið virðist líka vera í vandræðum með að mæta skilyrðunum með því að vera með helming síns efnis unnið af ritstjórn. Í stað þess að verðlauna óumhverfisvæna, óhagkvæma og úr sér gengna útgáfu væri nær lagi að láta Fréttablaðið og Morgunblaðið (sem er fríblað í aldreifingu einu sinni í viku), sem og aðra prentmiðla, greiða gjald fyrir að fylla bláu tunnurnar hjá okkur óumbeðið. Urðun á þessum vágesti kostar nefnilega borgarbúa nokkra tugi milljóna króna á ári.
Þá er ótalið að þessir tveir miðlar eru nú í raun að renna saman í eitt fyrirtæki, þar sem móðurfélög þeirra keyptu, með blessun Samkeppniseftirlitsins, Póstmiðstöðina í fyrra. Með kaupunum hyggjast þessir tveir samkeppnisaðilar sameina dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst. Árvakur á nú þegar öflugustu prentsmiðju landsins þannig að nær öll prentun og dreifing verður nú í höndum þessara aðila.
Þið hafið val
Ef fallist er á vilja eigenda og stjórnenda Fréttablaðsins og Morgunblaðsins, og einungis stærstu miðlar landsins styrktir, þá erum við að fara að horfa á fjölmiðalandslag sem verður saman sett af stórum ríkismiðli, tveimur sterkum miðlum reknum af og fyrir sérhagsmunaöfl sem sýnt hafa af sér einbeittan vilja til að misbeita þeim, og nokkrum miðlum í eigu fjarskiptafyrirtækja, sem munu eðlilega með tíð og tíma færa sig nær afþreyingu en gagnrýnni fréttamennsku einfaldlega vegna þess að það fellur betur að viðskiptalíkaninu.
Það má gagnrýna minni fjölmiðla landsins fyrir að vera ekki stærri. Og það má gagnrýna þá fyrir að vera ekki betri. En það að sníða sér stakk eftir vexti, einbeita sér að því að segja færri fréttir en að segja þær alltaf með almannahagsmuni að leiðarljósi, og vera fyrir vikið með sjálfbær fyrirtæki með mikla innri vaxtarmöguleika, getur ekki verið rökstuðningur fyrir að dæma þá úr leik. Þar eru viðskiptamódel sem eiga sóknarfæri og geta vaxið. Og þar er ríkur hugsjónavilji til að nota stuðninginn sem er í boði til að verða betri. Hjá gömlu stóru sérhagsmunamiðlunum er einungis verið að spila varnarleik, að stoppa upp í risastór göt, fyrir rekstur sem á ekki tilverurétt á 21. öldinni.
En boltinn hefur verið gefinn upp. Það er ljóst hvað eigendur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ætla sér. Tónninn í umsögnum þeirra er skýr og fyrirlitningin gagnvart minni samkeppnisaðilum líka.
Þeir ætla að þrýsta á stjórnmálamenn til að láta einungis þá, viðskiptafélaganna sem stunda bullandi taprekstur ár eftir ár, fá þann stuðning sem hugmyndir eru uppi um að setja í einkarekna fjölmiðla. Samhliða vilja þeir gera út af við minni miðla sem reka sig sjálfbært og heiðarlega í ótrúlega óskammfeilnu rekstrarumhverfi en tala upp eigið ýkta mikilvægi á sama tíma og við blasir öllum með augu að eigendur og stjórnendur miðlanna tveggja skilja hvorki eðlileg mörk, grundvallarreglur blaðamennsku né hvað felst raunverulega í almannahagsmunum.
Nú reynir á stjórnmálamenn að standa í lappirnar og standa af sér storminn. Nú reynir á almenning að standa með þeim fjölmiðlum sem hann telur að séu raunverulega að vinna með hans hagsmuni að leiðarljósi. Það er til að mynda hægt að gera með því að gerast styrktaraðili Kjarnans hér. Gæði felast nefnilega ekki í fjölda starfsmanna, heldur getu.
Vonandi ber okkur gæfa til þess að komast í gegnum þessa stöðu með vitrænt frumvarp sem styrkir lýðræðisstoðir landsins og fjölbreytileika fjölmiðlaflórunnar.
Ef ekki þá erum við að sigla inn í sérstaka tíma.