Nýverið birtist leiðari á þessum vettvangi þar sem farið var yfir pólitíkina sem drífur áfram umræðu um hinn svokallaða þriðja orkupakka. Hann er hægt að lesa hér.
Á þeim örfáu dögum sem liðnir eru frá því að hann var birtur þá hefur umræðan um þetta mál orðið enn ofsafengnari og margfalt þvældari. Staðreyndir virðast ekki skipta neinu máli og orðræðan er rekin áfram af einskærri tilfinningu. Ráðherrar eru ásakaðir um að vera í stóru samsæri til að hagnast á málinu með ýmsum hætti án nokkurra sannana. Þeir stjórnmálamenn, þvert á flokka, sem kynnt hafa sér málið og komist að þeirri niðurstöðu að það sé uppblásið og meinlaust með öllu, jafnvel til umtalsverðs gagns, eru kallaðir landráðamenn eða gefið að sök að svíkja kjósendur sína.
Hér verður rakið málefnalega og út frá ófrávíkjanlegum staðreyndum hvað felst í þessu máli, hvernig upphrópanirnar ríma við raunveruleikann og hvernig heilbrigt samfélag sem ber virðingu fyrir sannleika myndi takast á við nauðsynlega og þarfa umræðu um orkumál.
Þriðji orkupakkinn
Í pakkanum felst meðal annars að aðgreina skal flutningskerfi frá öðrum rekstri á orkumarkaði. Það þýðir á mannamáli að orkufyrirtækin mega ekki lengur eiga Landsnet, það fyrirtæki sem annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa á Íslandi.
Ísland fékk reyndar undanþágu frá þessu ákvæði pakkans og landið ræður sjálft hvernig eignarhaldi Landsnet á að vera. Í febrúar var tilkynnt um að viðræður standi yfir á milli ríkisins og Landsvirkjunar um kaup á Landsneti. Gangi þau áform eftir fer eignarhaldið frá fyrirtæki að öllu leyti í eigu ríkisins til ríkisins. Gangi þau ekki eftir verður það áfram í höndum ríkisfyrirtækisins.
Þá felst í þriðja orkupakkanum aukin neytendavernd. Þ.e. ákvæði hans fela í sér aukinn rétt neytenda til að fá upplýsingar og aukin rétt til að skipta um orkusala. Þriðji orkupakkinn kemur einnig inn á mikilvægi þess að koma í veg fyrir orkuskort og inniheldur heimildir til að grípa til ráðstafana til að tryggja öruggt framboð á raforku fyrir almenning.
Eru einhverjir kostir?
Ástæðan fyrir því að Ísland tekur upp þriðja orkupakkann er þátttaka okkar í EES-samstarfinu, mikilvægasta efnahagslega samstarfi sem við eigum í. Kjarni þess er myndun innri markaðar Evrópu með vörur og þjónustu og því þarf að samræma reglur milli aðildarríkja.
Auk þess eiga ýmis íslensk fyrirtæki sem framleiða og selja eldsneyti eða framleiða vörur, meðal annars raftæki fyrir iðnað, mikið undir því að geta selt þau á markaði í Evrópu á grundvelli laga um orkumerkingar og visthönnun vöru. Það geta þau ekki gert nema að á Íslandi sé samræmi í lögum við þann markað sem verið er að selja á. Eða þau geta auðvitað bara flutt höfuðstöðvar sínar annað.
Góðar og gildar ástæður þess að innleiða þriðja orkupakkann eru því meðal annars áframhaldandi þátttaka okkar í EES-samstarfinu – mikilvægasta viðskiptasamstarfi Íslandssögunnar – , aukin neytendavernd, aukið raforkuöryggi fyrir almenning og til að tryggja tækifæri gjaldeyrisskapandi tækni- og iðnaðarfyrirtækja á Íslandi til að selja vörur sínar á innri markaði Evrópu.
Engin einkavæðir orkufyrirtæki nema Íslendingar
Í umræðunni er víða látið sem að í þessum þriðja orkupakka felist einhvers konar framsal á ákvörðun um að íslensk orkufyrirtæki verði einkavædd yfir til Evrópusambandsins.
Það er beinlínis fjarstæðukennt.
Þrátt fyrir að Ísland hafi innleitt bæði fyrsta og annan orkupakka Evrópusambandsins, og þar með markaðsvætt íslenskan raforkumarkað, þá er einungis eitt orkuframleiðslufyrirtæki á Íslandi í eigu einkaaðila. Það fyrirtæki heitir HS Orka. Og það voru ekki erlendir „landsreglarar“ eða andlitslausir embættismenn frá Brussel sem einkavæddu það, heldur íslenskir stjórnmálamenn.
Í byrjun árs 2007 var Hitaveita Suðurnesja, sem síðar var skipt upp í framleiðslufyrirtækið HS Orku og dreifingarfyrirtækið HS Veitur, að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins.
Í mars 2007 ákvað íslenska ríkið að auglýsa 15,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu til sölu. Það var pólitísk ákvörðun þeirra sem fóru með stjórn landsins á þeim tíma, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Öðrum orkufyrirtækjum á Íslandi, sem voru líka í opinberri eigu, var meinað að bjóða í hann.
Í byrjun árs 2008 höfðu níu af þeim tíu sveitarfélögum sem áttu í Hitaveitu Suðurnesja ári áður selt sig út úr fyrirtækinu eða áttu undir eitt prósent eignarhlut. Þessi blokk hafði átt 84,8 prósent hlut í fyrirtækinu í byrjun árs 2007. Eina sveitarfélagið sem enn átti umtalsverðan hlut var Reykjanesbær með 34,74 prósent hlut. Sá eignarhlutur var síðan seldur til einkaaðila sumarið 2009. Ákvörðun um það var tekin af þáverandi meirihluta Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, og engum öðrum.
Nær öll orkufyrirtæki í opinberri eigu
Önnur orkuframleiðslufyrirtæki á Íslandi eru, þrátt fyrir innleiðingu fyrri orkupakka sem heimila erlent eignarhald á orkufyrirtækjum, annað hvort í eigu ríkisins eða sveitarfélaga. Þ.e. í opinberri eigu. Og ákvörðunarvald um einkavæðingu þeirra áfram sem áður enn algjörlega í höndum þjóðkjörinna íslenskra stjórnmálamanna.
Það virðist ekki vera neinn pólitískur salur fyrir því að selja þessi orkufyrirtæki til einkaaðila. Síðast þegar einhver umræða átti sér stað um slíkt var 2014 þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, viðraði hugmyndir um að selja tíu til tuttugu prósent hlut í Landsvirkjun til íslenskra lífeyrissjóða. Sú hugmynd fékk nær engar undirtektir hjá öðrum stjórnmálaflokkum, ekki einu sinni samstarfsflokki Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn á þeim tíma. Hún hefur heldur ekki fengið neinar sérstakar undirtektir hjá þjóðinni. Samkvæmt könnun MMR frá árinu 2015 voru 86,8 prósent þeirra sem tóku afstöðu andvígir því að selja Landsvirkjun og stuðningur við slíkt hefur farið minnkandi.
Og HS Orka virðist hægt og rólega að vera að færast aftur í nokkurs konar almenna eigu. Fjórtán lífeyrissjóðir og breskur fjárfestingarsjóður sem þeir hafa valið að vinna með eru að eignast allt hlutafé í fyrirtækinu. Líklegast þykir að eignarhaldið verði til helminga. En áhrif Jarðvarma, félags lífeyrissjóðanna, eru enn meiri en eignarhaldið segir til um. Hluthafasamkomulag tryggir þeim neitunarvald gagnvart öllum stórum ákvörðunum sem teknar eru í HS Orku. Því neitunarvaldi hafa þeir beitt áður, t.d. þegar Blackstone, einn stærsti fjárfestingarsjóður í heimi, ætlaði að kaupa 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu.
Ofan á allt þetta þá eru gildandi lög í landinu, og hafa verið frá árinu 2008, sem banna sölu auðlinda sem eru í opinberri eigu og áskilin veitustarfsemi skuli ávallt vera að meiri hluta í eigu opinberra aðila.
Alþingi ákveður sæstreng
Þá komum við að hugmyndinni um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Umræða um lagningu slíks hefur stopult átt sér stað annað veifið í meira en 60 ár, án þess að hann hafi orðið að veruleika.
Eftir bankahrunið, þegar Ísland var vægt til orða tekið efnahagslega viðkvæmt, fór aftur í gang umræða um lagningu strengs. Hún náði mestum hæðum á árunum 2013 til 2016 þegar bresk og íslensk stjórnvöld unnu saman að því að kanna hversu vitræn slík lagning væri. Það samkurl náði líklega hámarki þegar David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, kom hingað til fundar við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra Íslands. Þeir ákváðu að skipa vinnuhóp til að kanna málið.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna þessa fundar, sem fór fram í október 2015, sagði meðal annars að eðlilegt væri að eiga „viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.“ Heimsókn Cameron til að ræða orkumál fékk aukið vægi í ljósi þess að hann var fyrsti breski forsætisráðherrann til að heimsækja Ísland og funda með íslenska kollega sínum frá árinu 1964.
Frá árinu 2016 hefur nær ekkert heyrst af þessu máli. Þær ríkisstjórnir sem setið hafa síðan að sú síðasta sem skoðaði málið hrökklaðist frá vegna Panamaskjalana hafa ekkert sinnt sæstrengsmálum. Landsvirkjun og Landsnet sóttu um að Ice-Link sæstrengsverkefnið færi inn á svokallaða PCI-lista, með samþykki stjórnvalda í upphafi árs 2015. Núverandi stjórnarflokkar drógu þá umsókn til baka í mars síðastliðnum til að undirstrika þá afstöðu sína að hér sé enginn sæstrengur í pípunum og að slíkur verði aldrei lagður nema að frumkvæði, og með samþykki, Alþingis.
Kannski hefur áhuginn á verkefninu líka dvínað vegna þess að kostnaður við sæstreng myndi líkast til vera á bilinu 800 til 1.100 milljarða króna án þess að tillit yrði tekið til kostnaðar vegna þeirra virkjanaframkvæmda sem ráðast þyrfti í til að gera sæstrenginn raunhæfan. Eða kannski hafa Bretar bara haft annað að hugsa um vegna Brexit, sem felur auðvitað í sér að sæstrengur til Bretlands myndi ekki tengja Ísland við sameiginlega evrópska orkumarkaðinn, enda Bretar að reyna að yfirgefa hann.
Einn þeirra bresku fjárfesta sem unnið hefur að því að safna fé til að leggja hingað sæstreng, Edmund Truell, reyndi að kaupa hlut í HS Orku í lok árs í fyrra. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans gekk honum þó ekki að safna saman fé til að fylgja tilboðinu eftir. Íslenskir lífeyrissjóðir stigu þess í stað inn í og ekkert varð að kaupum Truell. Þetta bendir til þess að fjárfestar séu nú ekki að bíða í röðum til að taka þátt í risafjárfestingu í íslenskum orkugeira til að liðka fyrir lagningu sæstrengs.
Á móti sem hagnast
Og við skulum bara vera með það á hreinu að þeir hagaðilar sem eru helst á móti lagningu sæstrengs til Íslands eru stórnotendurnir sem kaupa um og yfir 80 prósent af allri raforkuframleiðslu hérlendis. Þar af kaupa álver yfir 70 prósent hennar. Þessir aðilar hafa hag af því að raforkuverð til þeirra haldist lágt og á meðan að Ísland er ekki tengt öðrum við aðra markaði með streng þá eru takmarkanir á því hversu margir geta keypt orkuna sem við framleiðum innan okkar lokaða kerfis. Hluti þessara stórnotenda hafa sýnt það að þeir eru tilbúnir til að ganga ansi langt til að hald verðinu til sín lágu.
Í lok árs 2015, á meðan að viðræður milli Norðuráls og Landsvirkjunar stóðu yfir um verð á orku til álversins á Grundartanga, greiddi Norðurál meðal annars íslenskum markaðsráðgjafa fyrir að setja á fót vettvang á borð við „Auðlindirnar okkar“ á Facebook, og vefmiðilinn Veggurinn.is og halda þar úti áróðri fyrir sig. Hann skrifaði auk þess, og skrifar enn, pistla á vef mbl.is. Í skrifum markaðsráðgjafans og annarra á þessum síðum var talað fyrir lægra orkuverði til stóriðju, lengri orkusölusamningum og gegn lagningu sæstrengs til Bretlands. Markaðsráðgjafinn hefur einnig vakið athygli fyrir störf sín fyrir ákveðna stjórnmálamenn. Hægt er að lesa um þau hér.
Hann er líka einn stofnenda vettvangsins „Orkan okkar“ sem berst nú hatramlega gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, og kemur meðal annars fram í kynningarefni hans.
Fullveldisafsal
Ísland er fullvalda ríki. Sem fullvalda ríki tók það ákvörðun um að gera EES-samninginn sem felur í sér að Ísland skuldbindur sig til að taka þátt í aðlögun þess innri markaðar sem þar þrífst. Í staðinn fær Ísland ótrúlega margt. Hér er hægt að lesa um það.
Það valdaframsal sem felst í því að við framseljum ákveðnar og afmarkaðar valdheimildir til ESA sem fær með þeim úrskurðarvald um úrlausn deilumála og hvað varðar ýmis tæknileg málefni. Þannig hefur málum alltaf verið háttað frá því að EES-samningurinn tók gildi 1994.
Varðandi þriðja orkupakkann þá er það þannig að valdframsalið hefur enga þýðingu fyrr en Ísland tengist innri raforkumarkaði Evrópu með sæstreng. Sem er ekki til staðar.
Enginn lögfræðilegur vafi er auk þess á því að þriðji orkupakkinn svokallaði er í samræmi við gildandi stjórnarskrá Íslands og fyrirvarar í pakkanum valdi því að valdheimildir ACER muni ekkert hafa um að segja hvort að sæstrengur verði lagður hingað til lands.
Það er líka merkilegt að margir þeirra sem eru andsnúnastir því að gera breytingar á íslensku stjórnarskránni eru háværustu hræðsluberar gegn þriðja orkupakkanum.
Í þeirri stjórnarskrá var líka ákvæði sem myndi tryggja að ef Alþingi samþykkir fullgildingu samnings, eins og t.d. EES-samningsins, þá skuli ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði. Auk þess var þar ákvæði sem í fólst að tíu prósent kjósenda gæti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um lög sem Alþingi hefur samþykkt.
Allt eru þetta ákvæði sem væru mjög til gagns í þeirri gjörsamlega glórulausu umræðu sem á sér stað um þriðja orkupakkann um þessar mundir. En það ætlar að ganga treglega fyrir okkur að uppfæra gildandi stjórnarskrá, sem er órafjarri því að þjóna tilgangi sínum sem grundvallarreglur fyrir samfélag dagsins í dag.
Málefnaleg umræða þarf að byggja á staðreyndum
Við eigum að takast á um orkumál. Hvort að reka eigi opinber orkufyrirtæki út frá því arðsemissjónarmiðum sem skili ríkissjóði arði eða hvort það eigi að líta til „samfélagslegrar nýtingar“ og selja til dæmis orku til áburðarverksmiðju eða álvers í Skagafirði á lágu verði til að tryggja að störf verði til í völdum kjördæmum.
Við eigum að takast á um hvort og hversu mikið eigi að virkja. Hvort sala til stórnotenda eigi að niðurgreiða raforku til heimila og fyrirtækja eða hvort afraksturinn eigi að renna til ríkissjóðs og þaðan til samfélagslegra verkefna. Hvort við eigum að leggja sæstreng, sé það yfir höfuð mögulegt, eða hvort við eigum að selja þorra þess sem við framleiðum áfram langt undir eðlilegu markaðsverði til álvera, kísilmálmverksmiðja og gagnvera sem eru aðallega notuð af þeim sem grafa eftir rafmyntum. Hvort að opinberir aðilar eigi að eiga öll orkufyrirtækin eða ekki.
Við erum í kjör stöðu til þess í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í síðustu viku að það væri mesta gæfa Íslendinga að við ættum um 40 prósent af landinu í þjóðlendum og að við ættum samfélagsleg orkufyrirtæki. Þar nefndi hún Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða. Til viðbótar má auðvitað nefna Orkuveitu Reykjavíkur og Landsnet. Eða þá staðreynd að HS Orka er að stórum hluta á leið í almenna eigu félags íslenskra lífeyrissjóða og að HS Veitur eru í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar og Suðurnesjabæjar sem eiga samtals 65,62 prósent í því fyrirtæki.
Þetta er staða sem kollegar Katrínar í útlöndum segja við hana að sé stórkostleg gæfa okkar Íslendinga. „Ég skil alveg að fólk hafi áhyggjur af þessari stöðu. Það er hins vegar ekkert í þessum þriðja orkupakka sem ég tel að breyti því,“ sagði forsætisráðherra.
Og það er rétt hjá henni. Tökumst á málefnalega út frá ofangreindum forsendum og fyrirliggjandi staðreyndum, en festumst ekki bullumræðu um þriðja orkupakkann sem rekin er áfram af innihaldslausum hræðsluáróðri.