Á árunum 2002 og 2003 voru seldir kjölfestuhlutar í ríkisbönkum með hætti sem hefur ekki staðist frekari skoðun, svo vægt sé til orða tekið. Fjölmiðlar reyndu mjög að nálgast upplýsingar um það einkavæðingarferli, svo sem fundargerðir einkavæðingarnefndar og önnur gögn úr söluferlinu. Blaðamanni á Fréttablaðinu var synjað um slíkan aðgang árið 2005. Sú niðurstaða var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem sagði líka nei.
Leiðarahöfundur óskaði eftir sambærilegum gögnum í árslok 2006 en fékk sama svar. Þeirri niðurstöðu var aftur vísað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem hafnaði því að birta þau gögn sem máli skiptu. Almannahagsmunir voru ekki taldir nægilega miklir til að fjölmiðlar fengju að vita hvernig eignum ríkisins, almannagæðum, var ráðstafað í hendur ákveðinna einstaklinga með skýrri pólitískri aðkomu og ábyrgð.
Svo kom bankahrun. Í febrúar 2009 tók við minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur fram að kosningum. Nokkrum dögum eftir að Jóhanna settist í stjórnarráðið ákvað höfundur að reyna aftur, og kanna hvort andrúmsloftið hefði breyst. Nú var netinu kastað enn víðar og óskað eftir afriti af öllum gögnum sem fyndust um einkavæðingu ríkisbankanna í skjalasafni ríkisins.
„Sjálfstætt mat“ á rétt almennings til að vita
Í bréfi sem Jóhanna skrifaði sjálf undir, og barst í marsmánuði 2009, var fallist á gagnabeiðnina. Það var gert á grundvelli þess að forsætisráðherrann lagði sjálfstætt mat á hana og komst að annarri niðurstöðu en aðrir á undan henni. Sú niðurstaða var meðal annars rökstudd með því að það væri mikilvægt sjónarmið að „stjórnvöldum beri að gera það sem í þeirra valdi stendur til að auðvelda starf fjölmiðla og efla þannig traust stjórnsýslunnar.“
Í kjölfarið var hægt að upplýsa almenning um að sú saga sem honum hafði verið sögð af þessari einkavæðingu, og ráðamenn höfðu barist árum saman fyrir að halda leyndri, var að mörgu leyti ósönn. Ferlið hafði verið ævintýralegt fúsk.
Þann 1. apríl síðastliðinn fór Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að fordæmi Jóhönnu og lagði sjálfstætt mat á nauðsyn þess að upplýsa almenning um hverjir fengu að kaupa 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka á afsláttarkjörum. Það var gert þvert á mat þeirra stofnana og lögmanna sem leitað var til. Bjarni lagði einfaldlega „sjálfstætt mat“ á þær röksemdir sem fram höfðu verið settar og komst að annarri niðurstöðu „með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna“.
Bjarni, og félagar hans í ríkisstjórn, þurfa nú að halda áfram á þessari leið, sem er hin rétta, og leggja sjálfstætt mat á fleiri ferli þar sem almannagæðum var úthlutað eða ríkiseignir seldar, undir leyndarhjúp.
Þrjú mál standa þar upp úr.
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands
Frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015 fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Allt í allt komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvaraði um 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands á tíma þar sem ströng fjármagnshöft voru við lýði. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði allt að 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar.
Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna á þáverandi gengi. Og mun meira á gengi dagsins í dag.
Seðlabankinn var í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman, ekki ósvipað og Bankasýsla ríkisins sem leiddi seljanda að hlut í Íslandsbanka, íslenska ríkið, saman við hóp kaupenda. Eftirlit með nýtingu leiðarinnar var ekkert. Seðlabankinn sagði bankanna eiga að að ganga úr skugga hvaðan peningarnir sem flæddu inn á vildarkjörum væru að koma. Hver uppruni þeirra væri. Bankarnir einfaldlega sinntu ekki því eftirliti. Fyrir vikið fengu gríðarlegar fjárhæðir, sem enginn vissi hvaða komu, heilbrigðisvottorð. Þær voru þvegnar og tilbúnar til löglegrar notkunar. Með virðisaukningu í boði íslenskra stjórnvalda sem auk þess buðu upp á brunaútsölu á verðmætum sem mátti kaupa fyrir þessa peninga.
„Hefði mátt fylgjast mun betur með því hvaðan peningarnir komu“
Hvaðan komu þessi peningar? Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar 2017, var fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina. Sú skýrsla var gerð fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Í skýrslu sem Seðlabanki Íslands gerði um leiðina og birt var 2019 sagði að hún hafi sett þá sem áttu óskilaskyldan erlendan gjaldeyri í betri stöðu til að kaupa kaupa innlendar eignir á lágu verði og gengi. „Áhrif þess á eignaskiptingu kunna að vera neikvæð. Í kjölfar efnahagskreppu geta aðilar sem eru í sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu jafnan eignast eignir á hagstæðu verði [...] Þótt deila megi um sanngirni þess var fátt sem Seðlabankinn gat gert til þess að stuðla að sanngjarnari útkomu innan þess lagaramma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því markmiði aðgerðanna að stuðla að stöðugleika. Í stöðugleikanum felast afar brýnir almannahagsmunir sem vega verður á móti óæskilegum tekjuskiptingaráhrifum.“ Seðlabankinn viðurkenndi einnig að gagnrýni á heimild félaga með heimilisfesti í þekktum skattaskjólum til þátttöku í fjárfestingarleiðinni hafi verið eðlileg í ljósi sögunnar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók meira að segja undir gagnrýnina á leiðina í eftirminnilegu viðtali við Stundina í fyrra. Þar sagði hann meðal annars: „Þetta myndi aldrei gerast á minni vakt. Aldrei. Ég er sammála, það hefði mátt fylgjast mun betur með því hvaðan peningarnir komu. Ég myndi aldrei samþykkja svona á minni vakt.“
Allt leiðir þetta að því að ríkir almannahagsmunir standa til þess að yfirlit yfir þá innlendu og erlendu aðila sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands verði birt opinberlega.
Forsætisráðherra þarf að leggja sjálfstætt mat á mikilvægi
Seðlabankinn og stjórnvöld hafa hins vegar aldrei viljað upplýsa hverjir það voru sem fengu að nýta sér þessa leið til að leysa út gengishagnað, fá lögmæti á fjármuni sem mögulega voru afurð skattaundanskota eða raunveruleg eign annarra og fá virðisaukningu úr hendi opinbers aðila sem öðrum landsmönnum bauðst ekki. Þeirra afstaða er að það sé mikilvægara að vernda þann afmarkaða hóp sem fékk þessi gæði afhent á silfurfati og gat keypt upp eignir í íslensku samfélagi á hrakvirði fyrir mögulega illa fengið fé, með virðisaukningu í boði gjaldeyrisverslunar Seðlabanka Íslands, en að upplýsa almenning um hverjir þetta voru.
Í áðurnefndri skýrslu sem Seðlabankinn skrifaði um eigin verk sagði að það væri ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeilda réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“ Það sé ekki úrlausnarefni hans heldur annarra.
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu einhverra aðila sem það gerðu.
Kjarninn hefur beðið forsætisráðherra, sem Seðlabanki Íslands heyrir undir, að leggja sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram um að þagnarskylduákvæði skuli ríkja yfir nöfnum þeirra sem fengu að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Um sé að ræða hóp sem fékk afhent gæði umfram almenna borgara sem leiddu til tækifæra sem almennir borgarar fengu ekki. Svara er beðið.
Eignasafn Seðlabanka Íslands
Eftir bankahrunið var eignum sem féllu Seðlabankanum í skaut vegna þess safnað saman í sérstakt félag, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ). Það var oft kallað „ruslakista Seðlabankans“. Um var að ræða allskonar eignir, t.d. skuldabréf, verðbréf, fasteignir. Þaðan voru þær svo seldar með ógagnsæjum hætti. Umfang þeirra var sagt 490 milljarðar króna árið 2017. Á núvirði er að mun hærra.
Varað var sérstaklega við að fara þessa leið við að selja ríkiseignir, áður en það var ákveðið. Mikilsmetnir hagfræðingar, Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, skrifuðu meðal annars grein snemma árs 2009 þar sem þeir sögðu að stærsti ókosturinn við hana væri hætta á spillingu. „Reynslan hefur kennt Íslendingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjónarmenn söluferlisins selji vinum, ættingjum eða jafnvel sjálfum sér verðmætar eignir á undirverði.“
Ekkert var hlustað á þessar viðvaranir.
Sölu eignanna lauk 2017 og Seðlabankinn tilkynnti að hann ætlaði sér að skrifa skýrslu um eigin verk. Hún átti að koma út 2018 og átti að varpa heildarmynd á starfsemi félagsins. Skýrslan er enn ekki komin út, meira en fjórum árum eftir að slitaferli ESÍ hófst. Seðlabankinn ber fyrir sig miklar annir og getur ekki sagt hvenær skýrslugerðin klárist. Allt lyktar þetta af því að verið sé að þæfa málið í þeirri von að það fenni yfir tilurð þessa félags.
Sigurður Ingi hafði einu sinni mikinn áhuga á þessum upplýsingum
Þrátt fyrir miklar umleitanir fjölmiðla á undanförnum árum hafa engar upplýsingar fengist um nákvæmlega hvaða eignir var um að ræða né hverjir fengu að kaupa þær. Þeim hefur öllum verið hafnað á grundvelli þagnarskylduákvæðis laga um Seðlabanka Íslands og þeirrar undanþágu frá upplýsingalögum sem ESÍ naut. Sú undanþága rann út í desember 2018.
Það hafa fleiri reynt að svæla fram þessar upplýsingar. Árið 2017 lagði stjórnarandstöðuþingmaður fram ítarlega fyrirspurn um ESÍ, hvaða eignir félagið hafi komist yfir og selt og hverjir hafi fengið að kaupa. Hann óskaði líka eftir ítarlegum upplýsingum um framkvæmd söluferlis eignanna. Fyrirspurn benti eindregið til þess að fyrirspyrjandinn vissi eitthvað um málið sem hann mátti ekki segja en vildi svæla fram. Það átti ekki að koma á óvart, enda var um að ræða Sigurð Inga Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra sem hafði setið í ríkisstjórninni 2013 til 2016 og var þegar þarna var komið í stuttri stjórnarandstöðuútlægð.
Sá ráðherra sem átti að svara fyrirspurninni var Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra. Hann tók sér þrjá og hálfan mánuð í að gera það en svörin voru hvorki efnisleg né sértæk, heldur vísaði Bjarni til þagnarskyldu Seðlabankans um verkefni ESÍ og að bankinn myndi skila af sér skýrslu um ESÍ og starfsemi þess fyrir lok árs 2018, þegar vinnu við slit væri lokið. Þeirri skýrslu hefur, líkt og áður sagði, enn ekki verið skilað.
Svarið við fyrirspurninni óþægilegu barst 8. september 2017, þremur og hálfum mánuði eftir að hún var lögð fram, en almennt hafa ráðherrar 15 virka daga til að svara fyrirspurnum. Viku síðar sprakk ríkisstjórn Bjarna og boðað var til nýrra kosninga. Eftir þær myndaði Sigurður Ingi ríkisstjórn með Bjarna og Katrínu Jakobsdóttur.
Hann hefur ekki spurt meira út í ESÍ eða beitt sér sértækt til að upplýsa um málefni félagsins.
Kjarninn spyr sömu spurninga og formaður Framsóknar gerði
Í ljósi þess að mikilvægt væri að gagnsæi ríki um ráðstöfun þeirra opinberu hagsmuna sem fór fram í gegnum ESÍ hefur Kjarninn óskað eftir því að forsætisráðuneytið, sem Seðlabanki Íslands heyrir undir, leggi sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram um þagnarskyldu og bankaleynd hvað varðar starfsemi ESÍ. Sérstaklega í ljósi þess að undanþáguheimild ESÍ frá upplýsingalögum er ekki lengur í gildi.
Sé Sigurður Ingi samkvæmur sjálfum sér þá ætti hann að styðja þessa opinberun. Kjarninn er enda að biðja um nákvæmlega sömu upplýsingar og hann sjálfur óskaði eftir að fá árið 2017.
Upplýsa þarf um fjársópseignirnar
Það eru fleiri dreggjar hrunsins. Á árunum 2016 til 2018 starfaði félag sem hét Lindarhvol. Hlutverk þess var að taka við eignum sem féllu ríkinu í skaut vegna stöðugleikasamninga við kröfuhafa. Um var að ræða eignir sem voru mörg hundruð milljarða króna virði.
Á meðal þessara eigna voru svokallaðar fjársópseignir. Í einföldu máli voru það eignir sem slitabú bankanna héldu eftir og seldu, en afrakstur þeirrar sölu rann í ríkissjóð. Erfitt er að skilja starfsreglur Lindarhvols öðruvísi en að stjórn þess félags hafi þurft að samþykkja það þegar slíkar eignir voru seldar.
Á meðal eigna sem töldust til fjársópseigna voru eignarhlutir í félögum sem seldir voru á hrakvirði en nýttust sem stökkpallur í gríðarleg auðæfi og völd í íslensku atvinnulífi fyrir þann hóp sem fékk að kaupa. Engar upplýsingar hafa fengist um slíkar sölur.
Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um starfsemi Lindarhvols er ekkert fjallað um hverjar fjársópseignirnar voru, hvernig þær voru seldar né hverjir fengu að kaupa þær. Þetta þarf allt saman að opinbera.
Í ljósi þessa hefur Kjarninn kallað eftir því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi sjálfstætt mat á að láta fjölmiðlinum í té yfirlit yfir allar eignir sem Lindarhvol seldi á starfstíma sínum, upplýsingar um hvenær sala þeirra fór fram og á hvaða verði. Enn fremur hefur verið óskað eftir upplýsingum um hver kaupandi að öllum eignunum var. Þá hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvernig fyrirkomulag á sölu á fjársópseignum var, öllum fundargerðum stjórnar Lindarhvols, afriti af stöðugleikasamningunum sem gerðir voru við slitabú föllnu bankanna og af öllum fylgiskjölum þeirra.
Auðveldið starf fjölmiðla og aukið um leið traust
Þegar núverandi ríkisstjórnarsamstarf hófst haustið 2017 var það meðal annars gert undir þeim formerkjum að efla þyrfti traust á stjórnmál og stjórnsýslu. Það þyrfti meðal annars að gera með því að auka gagnsæi.
Eyða þeirri tilfinningu að stjórnmálamenn væru að makka bakvið luktar dyr til að koma, með spilltum hætti, gæðum í handvaldar hendur.
Eitt af fyrstu verkum forsætisráðherra var að skipa starfshóp til að ná þessum markmiðum. Í skýrslu starfshópsins mátti finna ýmsar leiðir að þeim. Meðal annars að sett yrði ákveðin stefna um það hvernig miðla ætti upplýsingum til almennings, meðal annars með því að það væri meira frumkvæði í því hvernig það yrði gert fremur en að almenningur þurfi sífellt að sækja sér upplýsingarnar.
Þegar forsætisráðherra kynnti skýrsluna á þingi sagði hún meðal annars: „Það skiptir máli að það ríki traust á okkar störfum. Það er ekki ásættanlegt hversu hægt hefur gengið að byggja það traust upp aftur eftir hrun. Við vitum að það var mjög mikið fyrir hrun, mun meira en til að mynda í nágrannalöndum okkar á sama tíma. En að sama skapi hefðum við örugglega öll viljað sjá þetta traust byggjast hraðar upp. Ég held að við eigum tækifæri í því.“
Nú er tækifærið fyrir Katrínu, Bjarna og Sigurð Inga. Lyftið huliðshjálminum og leyfið almenningi að sjá hvernig gríðarlegum ríkiseignum, annars konar gæðum og tækifærum var ráðstafað yfir margra ára tímabil. Ef ekkert misjafnt átti sér stað hlýtur það að vera allra hagur að opinbera allt ofangreint.
Við bíðum öll spennt eftir að fá að vita.