„Helst vildi seðlabankinn að fólk hætti að eyða peningum“. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við RÚV í vikunni í kjölfar þess að stýrivextir voru hækkaðir upp í 5,5 prósent, með tilheyrandi áhrifum á greiðslubyrði húsnæðislána heimila í landinu. Svo hló hann.
Ásgeir var væntanlega ekki að tala við þann rúmlega þriðjung heimila í landinu sem átti ekkert eftir í veskinu í lok mánaðar fyrir þessa miklu vaxtahækkun. Hann var varla að tala við þá sem búa þegar við íþyngjandi húsnæðiskostnað (greiddu meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínu í að halda þaki yfir höfuðið) sem varð enn meira íþyngjandi eftir nýjustu vaxtahækkun Seðlabankans. Fólkið sem býr við næstum tveggja stafa verðbólgu og hefur séð mat, þjónustu, eldsneyti og aðrar lífsnauðsynjar hækka gríðarlega það sem af er ári.
Það fólk þarf nefnilega að eyða peningum til að lifa af. Sumt þarf að ganga á sparnað til þess sé hann til. Aðrir þurfa beinlínis að skuldsetja sig svo lífið gangi upp. Eða sækja sér bara næstum útrunninn mat í Matarbanka til að svelta ekki.
Lágir vextir til frambúðar og verðtryggingin, hún er dauð
Ásgeir var sennilega heldur ekki að tala við fólkið sem hann seldi fyrir tveimur árum að lágvaxtarumhverfið væri komið til að vera og að verðtryggingin myndi deyja. Það sem keypti sér íbúð á þessu tímabili gríðarlegra verðhækkana, sem eiga rætur sínar að rekja í aðgerðum Seðlabankans og stjórnvalda, með því að rétt slefa yfir greiðslumat einungis til að fá mestu vaxtahækkun hins vestræna heims í andlitið til að éta upp allt þeirra fjárhagslega svigrúm.
Hann er alveg örugglega ekki að tala við fólkið sem þarf nú, vegna takmarkana sem Seðlabankinn hefur innleitt á lántöku til að stemma stigu við eignabólu sem hann blés upp sjálfur, að taka verðtryggð lán á tveggja stafa raunvöxtum vilji það tryggja sér öruggt þak yfir höfuðið. Að mati seðlabankastjóra ætti sá hópur, og hinir næstum 100 þúsund íbúar landsins sem hafa ekki átt húsnæði, enda helst að búa áfram heima hjá foreldrum sínum á meðan að Seðlabankinn stillir af krónuhagkerfið. Kælir það.
Þessi hópur getur beðið með lífið, að minnsta kosti þar til að það passar inn í seðlabankastjóraleikinn sem Ásgeir er að leika.
Vextir bíta ekki á þeim sem staðgreiða híbýli
Kannski var hann að tala við millistéttina, sem náði að byggja upp mikinn sparnað á kórónuveirutímanum vegna aukins kaupmáttar sem féll til út af skattalækkunum ríkisstjórnarinnar 2019 og tímabundnu lágu vaxtastigi. Þeirrar sem hefur nú gengið skarpt á þann sparnað með því óhófi að fara til útlanda í sumarfrí eftir tveggja ára þvingað frí frá slíkum eða keypti sér nýjan bíl. Ásgeir verður samt að hafa í huga að staða þessa fólks, sem er pikkfast í krónuhagkerfinu, hefur líka gjörbreyst á nokkrum mánuðum. Greiðslubyrði húsnæðislána hefur aukist hjá mörgum um vel á aðra milljón króna á ári án þess að krónunum í veskinu um mánaðamótin hafi fjölgað neitt á móti. Hann getur því gengið að því vísu að svigrúm margra innan millistéttarinnar til að eyða um efni fram er að mestu horfið með verð- og vaxtahækkunum. Og andað léttar.
Nei, vaxtahækkanir, takmarkanir og hvatningarorð Ásgeirs beinast að heimilum annars vegar og litlum og meðalstórum fyrirtækjum hins vegar.
Þeim sem þurfa að notast við krónuna. Og lifa í efnahagsstefnu sitjandi ríkisstjórnar.
Stöðugleiki Bjarna
„Við þurfum að undirgangast viðurkennd lögmál hagfræðinnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði þegar hann var spurður út í stýrivaxtahækkanir og kjarasamninga. Hann sagði ennfremur að verja þurfi þann kaupmátt sem hafi áunnist á undanförnum árum.
Þetta er sami Bjarni og skrifaði grein eftir grein eftir grein fyrir síðustu kosningar þar sem hann lofaði því að vextir yrðu lágir til frambúðar ef fólk myndi bara kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það skipti heimilin öllu máli að stöðugleiki og lágir vextir yrðu varðveittir með ábyrgri ríkisfjármálastefnu þesss flokks. „Íslensk heimili finna að við erum á réttri leið. Það er auðveldara að láta mánaðamótin ganga upp [...]Þetta getur allt breyst hratt ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur. Reikningurinn fyrir loforðalistana birtist okkur öllum í hærra vöruverði.“
Bjarna varð að ósk sinni. Flokkur hans hélst í ríkisstjórn og tök hans á efnahagsmálum þjóðarinnar voru áfram algjör.
Síðan að Bjarni skrifaði greinarnar sínar fyrir síðustu kosningar hefur verðbólga aukist úr 4,4 í 9,9 prósent. Verð á almennri þjónustu hefur hækkað um 8,5 prósent á einu ári. Innlendar vörur hafa hækkað um 8,7 prósent á sama tíma, en þar vegur verðhækkun á matvöru þyngst. Eldsneytisverð hækkaði líka skarpt á fyrri hluta ársins, eða alls um 41 prósent milli ára. Stýrivextir hafa verið hækkaðir úr 1,25 í 5,5 prósent.
Mánaðamótin ganga ekki lengur auðveldlega upp hjá mörgum. Aukna ráðstöfunarféð fer í að borga sífellt meira af húsnæðilánunum, kaupa dýrara í matinn, dæla dýrara bensíni á bílinn og borga fleiri krónur fyrir þjónustu.
Þetta er stöðugleikinn hans Bjarna.
Lögmál Bjarna
Lögmál þeirrar hagfræði sem formaður Sjálfstæðisflokksins stundar er að lækka skatta til að auka ráðstöfunartekjur. Og það er auðvitað rétt að skarpar skattalækkanir skila auknum ráðstöfunartekjum, enda fjölgar krónunum sem verða eftir í veskjum landsmanna þegar ríkið tekur minna til sín. Á sama tíma er rekin sveltistefna í velferðarþjónustu vegna þess að ekki eru sóttar nýjar tekjur, til dæmis með eðlilegri álagningu veiðigjalda, til halda henni uppi eftir að tekjustofnar eru gefnir eftir. Þetta er draumaheimur fyrir gíruga fjármagnseigendur. Þeir borga lægri skatta og sveltistefnan, með tilheyrandi biðlistum og kaosi, skapar grundvöll til að breyta velferðarþjónustu í ný viðskiptatækifæri.
En hagfræðilögmál Bjarna virkar ekki jafn vel fyrir alla. Ávinningnum er afar misskipt.
Þar má til að mynda horfa á nýbirtar tölur frá Alþýðusambandi Íslands sem sýna að tekjuójöfnuður jókst í fyrra. Í þeim tölum kom líka fram að skattbyrði þeirra tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest dróst saman á síðasta ári á meðan að skattbyrði allra annarra tekjuhópa, 90 prósent skattgreiðenda með lægstu tekjurnar, jókst.
Ástæða þess að ráðstöfunartekjur efstu tíundarinnar jukust svona mikið er að langmestu leyti sú að fjármagnstekjur þeirra stórjukust á síðasta ári, en hópurinn tók til sín 81 prósent af þeim 181 milljarði króna sem féll til sem fjármagnstekjur í fyrra.
Helsta ástæðan fyrir því að fjármagnstekjur jukust svona mikið í fyrra eru aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar, sem ákváðu að dæla fjármunum á eignarmarkaði sem viðbragði við kórónuveirufaraldrinum í stað þess að beina þeim að illa stöddum hópum sem þurftu mest á peningum að halda í gegnum millifærslukerfi. Rúmlega helmingur af öllum nýjum auð heimila sem féll til í fyrra, 331 af 608 milljörðum króna, fór til efstu tíundarinnar, sem er langt umfram meðaltal síðustu ára.
Þetta tilbúna ástand kostaði okkur skattgreiðendur fullt. Afkoma ríkissjóðs var neikvæð um 443 milljarða króna á árunum 2020 og 2021. Samkvæmt fjárlögum fyrir þetta ár verður hallinn í ár 186 milljarðar króna. Þetta eru ekki litlir peningar sem stjórnvöld notuðu úr sameiginlegum sjóðum til að skapa núverandi ástand. Reikningurinn er sendur til skattgreiðenda framtíðar.
Þetta er hagfræðin hans Bjarna.
Hugsum um þá sem eru með mörg hundruð milljónir á ári
Í þessu ástandi erum við að sigla inn í kjarasamninga. Ljóst má vera af vendingum innan verkalýðshreyfingarinnar að farið verður í þá af fullri hörku, með það að leiðarljósi að byrðum og gæðum verði skipt með réttlátari hætti en gert er í hagfræðilegum veruleika Ásgeirs og Bjarna.
Ásgeir, Bjarni og allir hinir sem eru alveg eins og þeir hafa ítrekað boðað, hótað eða hrútskýrt fyrir fólkinu sem það finnst ekki vita nógu mikið um hvað sé hvað að ekkert svigrúm sé til launahækkana fyrir venjulegt launafólk. Það sé allt uppurið. Ef pöpullinn axli ekki sína ábyrgð og sæki engar nýjar krónur í launaumslagið, þrátt fyrir að útgjöldin við að lifa af hafi stóraukist, þá muni allt fara til fjandans á verðbólgubáli sem kveikt verður með víxlverkun launa. Það sé bara einfalt hagfræðilegt lögmál.
Það eru þó hópar sem lúta ekkert þessu lögmáli. Til dæmis útgerðarforstjórinn sem í tekjublaði Frjálsrar verslunar var sagður með rúmlega 3,6 milljónir króna í mánaðarlaun en með fjármagnstekjur upp á 870 milljónir króna á ári ofan á þau smánarlaun. Saman ná launa- og fjármagnstekjur hans að verða meiri en þær 907 milljónir króna sem útgerðarfyrirtækið sem hann stýrir, eitt það stærsta á Íslandi, borgaði í veiðigjöld fyrir afnot af þjóðarauðlind í fyrra.
Góðar og gildar ástæður fyrir því að fákeppnisforstjórar fái ofurlaun
Lögmálið á auðvitað heldur ekki við um skattasniðgöngufólkið sem skilar ekki tugum milljarða króna í ríkissjóð á ári, og ríkisstjórnin veit af en velur að fara ekki eftir líka til að sækja réttlátar og nauðsynlegar tekjur. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn, sem hafa tekið launahækkanir langt umfram aðra síðustu ár og eru í sumum tilfellum með margföld meðallaun á mánuði, eru líka súkkulaði í þessu lögmáli. Forstjórar fyrirtækja á fákeppnis- eða einokunarmörkuðum, sem eru að meðaltali með á sjöttu milljón króna á mánuði, teljast heldur ekki með. Fyrir því eru víst góðar og gildar ástæður. Ef forstjórarnir eru ekki settir á þennan launastall, helst með kaupaukakerfi og brjálaða starfslokasamninga til viðbótar, þá ná stórfyrirtækin ekki að njóta „starfskrafta þeirra og hæfileika sem allra best þannig að hagur þeirra og félagsins fari saman“. Þá eru ótaldir lobbíistarnir sem gæta hagsmuna stórfyrirtækja, og eru margir hverjir með vel á fjórðu milljón króna á mánuði.
Þetta eru ofurmenni sem eiga engan sinn líkan. Sjálfkrýndu sigurvegararnir. Einu sem komast með tærnar þar sem það hefur hælana er annað fólk í sama mengi. Hinir fjármagnseigendurnir, fákeppnisforstjórarnir, lobbíistarnir. Og auðvitað Ásgeir. Og Bjarni.
Tölum við hvort annað
Við skulum bara tala af alvöru við hvort annað, ekki út frá talnaleikfimi, gaslýsingu eða lögmálum fólks sem deilir ekki kjörum með þorra fólks í landinu. Á Íslandi, sem er moldríkt land, er að teiknast upp ískyggileg mynd. Stór hluti fólks er þegar kominn í vandræði og nær ekki endum saman. Enn stærri hluti fólks finnur tilfinnanlega fyrir þeim gríðarlegu hækkunum sem daglegt líf kostar í þessari, að hluta til heimatilbúnu, dýrtíð. Þeir verst settu eiga ekki fyrir mat.
Verðbólgan skaðar þennan hóp. Krónuhagkerfið skaðar þennan hóp. Vaxtahækkanir skaða þennan hóp. Kerfisbundin vanfjármögnun velferðarkerfisins skaðar þennan hóp. Þetta er þorri landsmanna. Þessi hópur þarf að krefjast aðgerða sem gagnast honum. Aðgerða sem ríkisstjórn sem einblínir á ómöguleika breytinga virðist óhæf til að grípa til.
Hún er uppteknari af öðrum hópi. Þeim sem finnur ekkert fyrir þessu ástandi í sínu daglega lífi. Hópnum sem hún hefur að stóru leyti framselt ákvörðunarvaldið til, hvort sem það er meðvitað eða ekki.
Hópnum sem finnst hann vera betri, virðismeiri, en hinir. Ekki vegna þess að hann búi endilega yfir einhverjum sérstökum hæfileikum öðrum en hroka og óskammfeilni. Ekki vegna þess að hann skapi verðmæti á hverjum degi út úr einstökum hugmyndum. Heldur vegna þess að fjölskyldutengsl, stjórnmál eða annars konar pilsfaldarkapítalisma hefur fært honum tækifæri, áhrif eða aðgengi að peningum annarra til að hagnast á sjálfur innan kerfis sem er smíðað utan um þennan hóp.
Tilgangur lífs hans er að verja þetta kerfi. Krónuna, fákeppnina, skattasniðgönguna, auðlindanýtingu án rétts endurgjalds, Ásgeir og Bjarna.
Á kostnað allra hinna.