„Lífskjör fólks á Íslandi ráðast nú mjög á stöðu þess á fasteignamarkaði. Hvenær fólk kom inn á fasteignamarkaðinn og á hvaða aldri þú ert.“
Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, og formaður peningastefnunefndar, á upplýsingafundi nefndarinnar nýverið sem haldinn var vegna ákvörðunar hennar að hækka stýrivexti upp í 4,75 prósent. Þeir hafa ekki verið hærri í fimm ár. Sú ákvörðun var tekin til að reyna að ná verðbólgu, sem þá mældist 7,6 prósent, niður. Hún mælist nú 8,8 prósent og hefur ekki verið hærri frá árinu 2009. Greinendur spá því að verðbólgan nái hámarki í ágúst og fari þá í tveggja stafa tölu.
Þetta er ekki lítil yfirlýsing úr hendi Seðlabankastjóra. Hann sagði einfaldlega beint út að ef viðkomandi hefur unnið í íslenska fasteignamarkaðslottóinu þá eru lífskjör hans mun betri en annarra. Það sé ráðandi breyta.
Svo skulum við velta því fyrir okkur hvort það sé eðlilegt ástand.
Á Íslandi hafa nefnilega næstum 100 þúsund þeirra 308 þúsund einstaklinga sem eru 18 ára og eldri aldrei átt húsnæði. Um þriðjungur fullorðinna getur ekki einu sinni spilað með. Þegar horft er á fullorðið fólk undir fimmtugu þá kemur í ljós að um helmingur hópsins hefur aldrei átt húsnæði.
Sumir græða, aðrir þurfa bara að búa lengur hjá foreldrum
Ástæða þess að Ásgeir lét ofangreind orð falla er sú að eina leiðin fyrir flesta venjulega Íslendinga til að mynda einhverja eign er í gegnum hækkun á húsnæðisverði. Það að eiga húsnæði veitir því bæði öruggt húsaskjól og tækifæri til að hagnast. Viðkomandi eignast fyrir vikið varasjóð sem hægt er að seilast í í gegnum endurfjármögnun á láni ef það þarf að kaupa nýjan bíl, borga tannréttingar eða svala uppsöfnuðum ferðavilja. Svo dæmi séu tekin. Þessir valkostir, húsnæðisöryggi og varasjóður í formi eignar, standa þriðjungnum sem er utan eignarmarkaðar (og helmingi fullorðna undir fimmtugu) ekki til boða.
Á síðustu rúmu tveimur árum hafa margir þeirra sem voru komnir inn á húsnæðismarkað fyrir kórónuveirufaraldurinn mokgrætt. Virði eigna þeirra hefur rokið upp. Á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 43,2 prósent síðan í mars 2020. Á mannamáli þýðir það að sá sem átti íbúð sem metin var á 60 milljónir króna þá á nú íbúð sem er metin á 86 milljónir króna.
Hinir, sem voru og eru fyrir utan hann eða komu inn í bóluástandinu, eru í margir hverjir í miklum vanda. Þar er ungt fólk fyrirferðamikið. Skilaboð seðlabankastjóra til þeirra eru að það geti bara búið lengur heima hjá foreldrum sínum.
Opinberar aðgerðir sköpuðu ástandið
Af hverju gerðist þetta? Um það er mikið rifist. Ákveðið mengi hagsmunaafla hefur lengi trommað upp með að skortur á aðgengi að lóðum, aðallega í Reykjavík, sé ástæðan. Það stenst enga skoðun, nóg er til af þegar úthlutuðum lóðum sem ekki er byggt á. Enda er nokkuð almennt fyrirliggjandi hvað ýtti þessu brjálæði af stað: aðgerðir Seðlabanka og ríkisstjórnar sem kynntar voru í kjölfar þess að faraldurinn lagðist á þjóðina, og heiminn.
Það skal tekið fram að þær aðgerðir skiluðu einhverjum árangri, sérstaklega þegar kom að því að halda fyrirtækjum á floti og ná atvinnuleysi aftur niður eftir faraldur. En þær höfðu líka margháttaðar afleiðingar.
Ríkisstjórnin réðst í allskyns þensluhvetjandi aðgerðir, t.d. milljarðaendurgreiðslur undir hatti „Allir vinna“ sem lentu að stærstum hluta hjá byggingarverktökum (þriðjungur af greiðslunum fór þangað) og tekjuhæsta fólkinu í landinu (helmingur af greiðslum til einstaklinga fór til tekjuhæstu tíundarinnar), sem fékk góðan ríkisstyrk til að gera upp eldhúsin sín og baðherbergin á faraldurstímum.
Þá ákvað ríkisstjórnin að framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður húsnæðiskostnað. Hluti getur notað þau úrræði vegna innborgunar. Alls var 72 prósent af þeim skattafslætti, sem hleypur alls á tugum milljarða króna, á árinu 2020 beint til tekjuhæstu 20 prósent landsmanna. Samhliða hefur vaxtabótakerfið, sem beint var að tekjulægri og eignaminni, nánast lagst af.
Þá hafa stjórnvöld hvatt til meiri skuldsetningar á íbúðamarkaði með því að gera söluhagnað á húsnæði undanþeginn fjármagnstekjuskatti, að því gefnu að seljendurnir hafi keypt það að minnsta kosti tveimur árum áður. Þessi undanþága er ekki nýtilkomin, en hún veitir samt sem áður afslátt á gíraðar fjárfestingar á íbúðamarkaðnum. Með öðrum orðum þá hvetur hún til brasks. Sem sannarlega er stundað, enda eru rúmlega þriðjungur allra íbúða í eigu einstaklinga eða lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð. Það eru um 52 þúsund íbúðir alls.
Að endingu ákvað ríkisstjórnin svo auðvitað stórlækka bankaskatt, sem skilaði neytendum engum sérstökum breytingum á þegar allt of miklum vaxtamun en stórjók hagnað banka, enda um sex milljarða króna árlega tilfærslu úr ríkissjóði til stærstu fjármálafyrirtækja landsins að ræða.
Boðaði dauða verðtryggingarinnar
Þá komum við að hlut Seðlabanka Íslands. Hann lækkaði stýrivexti niður í 0,75 prósent og afnam hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka til að gefa bönkum landsins stóraukið svigrúm til útlána á faraldurstímum.
Skömmu eftir að þessar aðgerðir, sem ætlaðar voru til að hjálpa okkur efnahagslega í gegnum faraldurinn, voru kynntar var seðlabankastjóri til viðtals í Fréttablaðinu. Þetta var í júní 2020, fyrir tveimur árum síðan.
Þar sagði Ásgeir meðal annars að í nágrannalöndum okkar hefðu svo lágir vextir leitt til mikilla hækkana á fasteignaverði á síðustu árum. Fylgjast þyrfti „mjög vel með því ef slökunaraðgerðir okkar koma fram með því að fasteignaverð fari að hækka mikið. Og þá hvort það verði að grípa til einhverra aðgerða vegna þess.“ Það væri þó allt of snemmt að segja fyrir um áhrifin af vaxtalækkunum bankans á fasteignamarkað.
Hann bætti svo við að það myndi „breyta mjög miklu ef almenningur fer yfir í breytilega, óverðtryggða vexti. Það þýðir að okkar vaxtabreytingar munu bíta mjög fast [...] Þegar fólk er komið í umhverfi breytilegra nafnvaxta mun það án efa fylgjast mun betur með öllum vaxtabreytingum Seðlabankans – og greiða lánin hraðar niður.“
Seðlabankastjóri klykkti út með því að, vegna óvissuástandsins, þyrftu bankarnir að búa við lága arðsemi í mögulega tvö ár eða svo. Það fór hins vegar ekki alveg þannig. Samanlagður hagnaður þeirra í fyrra var 81,2 milljarðar króna. Það er um 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020. Arðsemi þeirra var í methæðum.
Óverðtryggðu íbúðalánin þrefölduðust
Þessi hagnaður kom aðallega til vegna þess að landsmenn flykktust í óverðtryggð lán til að taka þátt í hinu nýja ástandi seðlabankastjórans. Á meðan að á faraldrinum stóð þrefölduðust óverðtryggð húsnæðislán viðskiptabankanna, fóru úr 370 milljörðum króna í 1.090 milljarða króna. Í þetta, að stórauka eftirspurn, fór lánasvigrúmið sem Seðlabankinn veitti bönkunum með tímabundnu afnámi sveiflujöfnunaraukans. Samhliða lánuðu bankarnir ekki til byggingaframkvæmda, sem hefði getað aukið framboð á móti. Á árunum 2020 og 2021 voru útlánin til byggingageirans, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, neikvæð um 29,7 milljarða króna.
Á sama tímabili græddu fjármagnseigendur á tá og fingri. Aðgerðirnar hækkuðu hlutabréfahagnaðinn þeirra upp úr öllu valdi. Á árinu 2021 hækkuðu fjármagnstekjur einstaklinga um 65 milljarða króna, eða 57 prósent, og voru 181 milljarður króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna.
Nokkrar breytingar voru gerðar í álagningu fjármagnstekjuskatts í upphafi árs 2021. Eftir þær þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði sem var undir 300 þúsund krónum og frítekjumark hjóna var hækkað upp í 600 þúsund krónur.
Á meðan að fjármagnseigendur mokuðu inn vegna ákvarðana og aðgerða stjórnvalda og seðlabanka þá ákvað ríkisstjórn leidd af Vinstri grænum að hækka frítekjumark vegna arðgreiðslna og söluhagnaðar hlutabréfa. Færa fé úr ríkissjóði til hlutabréfaeigenda.
Meltið það aðeins.
Greiðslubyrðin þyngist gríðarlega
En nú er partíið búið. Áhrif innrásar Rússa í Úkraínu gerir þynnkuna enn verri en ella. Verðbólgan, drifin áfram af húsnæðisverðshækkunum, er komin í eftirhrunshæðir og Seðlabankinn hefur hækkað vexti svo skarpt að þeir hafa ekki verið hærri í fimm ár.
Fyrir vikið hafa allir landsmennirnir sem tóku óverðtryggðu lánin með breytilegu vöxtunum sem seðlabankastjóri fagnaði svo mjög séð greiðslubyrði sína stóraukast. Í nýjustu hagsjá Landsbankans er tekið dæmi af 40 milljóna króna láni á lægstu óverðtryggðu vöxtum. Vaxtabyrði þeirra hefur hækkað um 98 þúsund krónur frá því í maí í fyrra. Landsbankinn býst við því að vextir haldi áfram að hækka og að vaxtabyrðin muni aukast um 25 þúsund krónur í viðbót á þessu ári. Þá hefur hún farið úr 110 þúsund krónum á mánuði i 233 þúsund krónur á mánuði.
Þetta er ekki það eina sem hækkar í svona verðbólgufári. Allur kostnaður við hefðbundið líf er að stóraukast. Launafólk fær sífellt minna fyrir krónurnar sínar. Kaupmáttur er að dragast skarpt saman. Um miðjan júní var bensínlítrinn orðinn 72 prósent dýrari en fyrir tveimur árum. Samgöngukostnaður er þess utan 85 prósentum hærri á Íslandi en að meðaltali innan landa Evrópusambandsins. Hvergi í Evrópu er samgöngukostnaðurinn eins mikill.
Verð á mat og drykk hefur líka rokið upp og er auk þess 39 prósent hærra hér en að jafnaði í Evrópusambandslöndunum.
Mun fleiri heimili lenda í vanda
Það þarf því ekki mikið annað en barnaskólastærðfræði til að reikna sig niður á að fleira og fleira fólk mun eiga í vandræðum með að ná endum saman og standa við gerðar skuldbindingar í nánustu framtíð. Hlutfall þeirra heimila sem bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað (greiddu meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í að halda þaki yfir höfuðið) var 12,8 prósent í fyrra og það jókst milli ára. Í ljósi þess að stýrivextir hafa hækkað um 2,75 prósentustig síðan um áramót án þess að laun hafi hækkað mikið blasir við að þetta hlutfall mun snarhækka á árinu 2022.
Augljósasti hópurinn sem verður fyrir áhrifum eru þeir tekjulægstu sem hírast á fullkomlega gölnum leigumarkaði. Fyrir marga í þeim hópi er efnahagslegt svartnætti framundan, og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til svo þúsundköllunum í vasa hópsins fjölgaði um örfáa um hver mánaðamót voru bæði of litlar og komu til framkvæmda of seint.
Tekjuhærri hópar sem hafa gírað sig upp í fasteignakaupum munu líka lenda í verulegum vandræðum, enda finnur allt venjulegt fólk fyrir því ef greiðslubyrði húsnæðisláns fer að aukast um vel á annað hundrað þúsund krónur á mánuði. Í fyrra fjölgaði þeim heimilum sem eru með hærri tekjur en 61-80 prósent landsmanna sem eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað úr 3,3 í 5,6 prósent milli ára og hjá 20 prósent tekjuhæsta hópnum tvöfaldast fjöldinn sem er í þeirri stöðu, fór úr þremur prósentum í sex.
Skattalækkanir skapa veruleika
Þetta er veruleikinn sem ríkisstjórn skattalækkana hefur skapað. Skattalækkanir sem falið hafa í sér endurskoðun á tekjuskattskerfi einstaklinga, sérstaka hækkun persónuafsláttar, lægra tryggingagjald, endurskoðun á stofni fjármagnstekjuskatts, skattafslátt vegna stuðnings einstaklinga við almannaheillafélög, hækkun frítekjumarks erfðaskatts og fjármagnstekna og svo auðvitað lækkun bankaskatts. Flestar gagnast þær eignameira og tekjuhærra fólki umfram aðra. Tekjustofnar ríkissjóðs hafa veikst um á fimmta tug milljarða króna árlega vegna þessa.
Hin hliðin er nefnilega sú að með því að veikja kerfisbundið tekjuöflun ríkissjóð til að skila fleiri krónum, að stóru leyti í vasa fjármagnseigenda en brauðmolum til hinna, þá hefur velferðarkerfunum og innviðum verið leyft að veikjast verulega. Þau grípa ekki lengur viðkvæmustu hópa samfélagsins heldur loka þá inni í fátækragildrum. Þau þjónusta ekki millitekjuhópana heldur skipa þeim í langar biðraðir eftir þjónustu sem þeir telja sig þegar vera búna að greiða fyrir. Niðurstaða sérfræðinga Eflingar er að Ísland sé tæplega norrænt velferðarríki lengur.
Það er ekkert sem ýtir fastar við stærsta kjósendahópnum, millistéttinni, en það þegar hún finnur að lífskjör hennar eru markvisst að skerðast.
Sú staða er komin upp.
Verðskulduð vandræði
Þegar við bætist allt hitt: fúskið í kringum bankasölu, endalaus pólitísk hrossakaup, oftekin laun þjóðkjörinna fulltrúa og launahækkanir þeirra langt umfram það sem tíðkast í samfélaginu, málamiðlanir um lægstu samnefnara í lykilmálum, algjört aðgerðarleysi við að breyta gjaldtöku í sjávarútvegi og fjármálageira og þá sýnilegu staðreynd að sitjandi ríkisstjórnarflokkar eru varla sammála um neitt nema að hanga á völdum, þá er ekki furða að stjórnarflokkarnir séu að mælast í vandræðum.
Það er ekki furða að þeir hafi tapað næstum tíu prósent af sameiginlegu fylgi sínu það sem af er kjörtímabili. Það er ekki furða að stuðningur við ríkisstjórnina er að mælast sá minnsti sem hann hefur nokkru sinni mælst.
Það er ekki furða að fylgi Sjálfstæðisflokks er að mælast nú stöðugt minna en nokkru sinni áður og að fylgi Vinstri grænna sé það minnsta síðan að Katrín Jakobsdóttir tók við flokknum fyrir rúmu níu árum.
Það er heldur ekki furða að eini stjórnarflokkurinn sem talar meira og minna gegn stefnu stjórnarinnar í flestum málaflokkum, Framsókn, heldur sínu kjörfylgi og er ekki langt frá því að mælast stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Kannski felast í því skilaboð um hvað það sé sem landsmenn kalli eftir að verði gert í landsstjórninni, en hluti sitjandi ráðamanna hefur ekki dug, vilja eða getu til að framkvæma.