Það er ekki pólitískur ómöguleiki að fara eftir vilja þjóðar

Auglýsing

Fyrir kosningarnar 2013 sögðu fjórir af sex oddvitum Sjálf­stæð­is­flokks­ins sem leiddu kjör­dæmi flokks­ins, þar á meðal formaðurinn Bjarni Benediktsson, að áfram­hald við­ræðna um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu yrði sett í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu á komandi kjör­tíma­bil­inu. Allir fjórir urðu síðar ráð­herrar í þeirri rík­is­stjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyr­ir­varar voru settir um meiri­hluta á Alþingi, meiri­hluta innan rík­is­stjórnar eða sýni­legan þjóð­ar­vilja í skoð­ana­könn­unum þegar þessi fyrirheit voru gefin. 

Umsóknin var síðan dregin til baka eftir kosningar án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Í viðtölum í kjölfarið bar Bjarni fyrir sig „pólitískan ómöguleika“ þess að halda slíka í ljósi þess að báðir þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru andvígir aðild. 

Í könnun sem gerð var á vormánuðum ársins 2014 kom í ljós að 72 prósent landsmanna vildu þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna en 21 prósent var á móti. 

Sá skýri þjóðarvilji breytti engu. „Pólitískur ómöguleiki“ trompaði hann. 

Mikill og viðvarandi meirihluti fyrir breytingum í sjávarútvegi

Fiskveiðistjórnunarkerfið sem gert hefur handfylli einstaklinga á Íslandi forríka á alþjóðlegum mælikvarða vegna nýtingar á þjóðarauðlind, og tryggt þeim gríðarleg ítök í öðrum öngum íslensks samfélags, er líklega eitt stærsta svöðusárið á þjóðarsálinni. 

Í ágúst var birt niðurstaða könnunar sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Afgerandi meirihluti kjósenda allra flokka var fylgjandi breytingunni þótt stuðningurinn væri minni hjá kjósendum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks en þeim sem ætla að kjósa aðra flokka.

Auglýsing
Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst, 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af sögðust 38 prósent vera mjög óánægð með hana. Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, sagðist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent voru ánægð með hana. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls sögðust 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð. 

Í sömu könnun kom fram að 64 prósent landsmanna töldu að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks töldu reyndar að sú ógn væri ekki til staðar en kjósendur allra annarra flokka sem eiga möguleika á að komast inn á þing voru á annarri skoðun.

Samt virðist pólitískt ómögulegt að breyta þessu kerfi í samræmi við vilja þjóðarinnar.

Meirihluti vill endurskoðun á stjórnarskrá

Í nóvember 2020 birti MMR niðurstöður úr könnun um stjórnarskrármál. Þar var spurt hversu mikilvægt eða lítilvægt fólki þætti að Íslendingar myndu fá nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Í ljós kom að 59 prósent töldu það mikilvægt en 25 prósent lítilvægt. 

Í sömu könnun kom í ljós að tveir af hverjum þremur landsmönnum vildi að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarps að nýrri stjórnarskrá. Afstaðan gagnvart þessum atriðum hefur verið nær óbreytt frá árinu 2012. 

Gallup gerði svo sambærilega könnun, þar sem spurt var um skoðun fólks á stjórnarskránni og til breytinga á henni, í júlí 2021. Niðurstaðan var að 53 prósent vildu breytingar á stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs og rúmlega 18 prósent vildu breytingar á stjórnarskrá en ekki þær sem stjórnlagaráð lagði til. Um 13 prósent vildu að stjórnarskráin héldist óbreytt og nær 16 prósent sögðu engan af fyrrnefndum kostum lýsa skoðun sinni. 

Það hefur legið fyrir frá því í október 2018 að heildarendurskoðun á stjórnarskrá yrði ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir að það stæði í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin vildi halda áfram með heildarendurskoðun hennar. Þá greindi Bjarni Benediktsson frá því að hann teldi ekki þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, og við það varð hún pólitískur ómöguleiki. 

Gerðu athugasemdir við hugtakið „þjóðareign“

Þær útvötnuðu breytingartillögur á stjórnarskránni sem forsætisráðherra valdi til umfjöllunar á kjörtímabilinu áttu heldur ekki mikla möguleika. Vinna við þær mallaði áfram í hálfgerðu tilgangsleysi allt kjörtímabilið en þegar þrjú stærstu lobbýistasamtök landsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð skiluðu öll umsögnum um stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra, sögðu það ýmsum annmörkum háð og lögðu til að það næði ekki óbreytt fram að ganga varð flestum ljóst sem þekkja hefðbundið gangverk mála hérlendis á undanförnum árum ljóst hvernig málið myndi enda. Athugasemdir þeirra voru að uppistöðu við hugtakið „þjóðareign“ sem öll samtökin gerðu verulegar athugasemdir við.

Það kom því engum á óvart þegar fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd felldu tillögu um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið úr nefnd í sumar. Og slógu þar umbótum á því plaggi á enn lengri frest, í takti við vilja minnihluta þjóðar, Sjálfstæðisflokksins og stærstu lobbýistasamtakanna. 

Mikill meirihluti vildi ekki selja banka sem var samt seldur

Í Hvítbók um framtíð fjármálakerfisins sem birt var í desember 2018 kom fram að 61,2 pró­sent lands­manna væri jákvæður gagn­vart því að íslenska ríkið sé eig­andi við­skipta­banka. Ein­ungis 13,5 pró­sent þeirra voru nei­kvæðir gagn­vart því og 25,2 pró­sent höfðu ekki sér­staka skoðun á því.

Í könnun Gallup sem gerð var snemma á þessu ári kom fram að tæp 56 prósent landsmanna lögðust gegn því að ríkið selji hlut sinn í Íslandsbanka. Samkvæmt niðurstöðum hennar sögðust 23,5 prósent vera fylgjandi sölu og 20,8 prósent sögðust ekki hafa skoðun á málinu, hvorki með né á móti.

Auglýsing
Kjósendur eins flokks, Sjálfstæðisflokks, voru fylgjandi sölu Íslandsbanka á þessu ári. Kjósendur allra annarra flokka voru að meirihluta á móti henni. Sjálfstæðisflokkurinn er líka langvinsælasti stjórnmálaflokkur landsins hjá tekjuhæstu einstaklingunum á Íslandi. 

Samt var 35 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur í sumar á verði sem var 34 prósent undir markaðsvirði Arion banka (sem er minni banki), eða á um 55 milljarða króna. Markaðsvirði þess hlutar er nú, tæpum þremur mánuðum eftir útboðið, um 31 milljarði krónum hærra en það var við skráningu Íslandsbanka á markað.

Fleiri vilja taka við fleiri flóttamönnum 

Tæp 40 prósent landsmanna telja að hér á landi séu tekið á móti of fáum flóttamönnum, 35 prósent telja fjölda flóttafólks sem tekið er við hæfilegan og 26 prósent landsmanna telja að verið sé að taka á móti of miklum fjölda flóttamanna, samkvæmt könnun MMR sem birtist í síðustu viku.

Þrátt fyrir að hér hafi undanfarin fjögur ár setið ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna sem boðar stærri skref í móttöku flóttafólks en áður hafa verið stigin finnst 57 prósentum þeirra kjósenda Vinstri grænna sem tóku afstöðu í könnuninni að verið sé að taka á móti of fáum flóttamönnum hingað til lands.

Stuðningsmenn hinna ríkisstjórnarflokkana eru ekki alveg á sömu skoðun. Aðeins 18 prósent aðspurðra kjósenda Sjálfstæðisflokksins finnst að verið sé að taka á móti of fáum flóttamönnum, á meðan að 36 prósent þeirra finnst fjöldi flóttamanna hér á landi of mikill.

Framsóknarflokkurinn er síðan, eins og í mörgum öðrum málum, mitt á milli samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn, en 32 prósentum þeirra sem sögðust ætla að kjósa flokkinn finnst tekið á móti of fáum flóttamönnum og 22 prósentum finnst tekið á móti of mörgum, samkvæmt könnun MMR.

Ísland tekur áfram sem áður á móti fáum flóttamönnum miðað við getu.

Allir nema Sjálfstæðismenn vilja að þeir ríkustu greiði hærri skatta

Næstum átta af hverjum tíu landsmönnum, eða 77 prósent, töldu samkvæmt nýlegri könnun að auðugasta fólkið á Íslandi, það sem tilheyrir því eina prósenti sem á mest, ætti að greiða hærri skatta. Einungis fimm prósent töldu að skattar á ríkasta fólkið ættu að lækka. 

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kemur að vilja til að hækka skatta þeirra sem mest eiga. Alls sögðu 37 prósent þeirra að það ætti að hækka skatta á auðugustu Íslendinganna. 45 prósent þeirra vildu að skattar væru óbreyttir en 18 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks vildu að skattar á efsta prósentið yrðu lækkaðir, eða næstum einn af hverjum fimm kjósendum flokksins.

Ríkasta eitt prósentið, alls um 2.400 fjölskyldur, bættu 37,3 milljörðum króna við eigið fé sitt í fyrra, eða um 30 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á því ári. Þessar fjölskyldur áttu samtals 902,2 milljarða króna í lok árs 2020.

Eigið fé ríkustu hópanna hérlendis hefur verið stórlega vanmetið, og er mun meira en þær tölur sem hér eru til umfjöllunar hér að ofan. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.

Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 115 prósent frá því í mars á síðasta ári. 

Meginþorri verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga tilheyra þeim tíu prósentum landsmanna sem eru ríkastir. Sá hópur átti 86 prósent allra verðbréfa sem eru í beinni eigu einstaklinga í lok árs 2019.

Samt stórlækkaði skattbyrði efsta prósentsins á árunum 1995 til 2018, á sama tíma og skattbyrði lægri tekjuhópa jókst.

Þarf að viðhalda stöðugleikanum?

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði nýverið að alþingiskosningarnar í lok september snúist „fyrst og fremst um það að halda vinstristjórn frá völdum“.

„Að hér verði ekki til vinstristjórn eftir kosningar, það er stóra málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið aflið sem hefur komið í veg fyrir það hingað til og það er það sem við stefnum á að gera,“ sagði Bjarni í viðtali við Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á sjónvarpsstöð.

Vinstristjórn þýðir í þessu samhengi allar ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðili að, óháð því hvort slíkar væru aðallega samsettar af miðjuflokkum. Að sama skapi er stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum ekki vinstristjórn að mati formanns Sjálfstæðisflokksins. 

Það sem hann á við er að það þurfi að mynda stjórn til að „viðhalda stöðugleika“. Á mannamáli þýðir það stjórn sem breytir ekki ofangreindum kerfum. Ver fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir breytingum, ver stjórnarskránna fyrir breytingum, selur áfram hluti ríkisins í bönkum, tekur ekki á móti marktækt fleiri flóttamönnum og eykur ekki skattbyrði hinna allra ríkustu, svo þeir geti orðið enn ríkari. Í stuttu máli stjórn sem framfylgir stefnu flokks sem er með undir 24 prósent fylgi, en ekki vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Þessi stöðugleiki er pólitískur möguleiki á meðan að aðrir flokkar eru tilbúnir að fyrirgera sínum stefnumálum til að fá sæti við ríkisstjórnarborðið.

Það er engin ómöguleiki að breyta þessu. Vandamálið er heimatilbúið. Það er hægt að koma á umbótastjórn með góðan meirihluta sem tekur á öllum ofangreindum málum í takti við þjóðarvilja. Hún þyrfti að innihalda fjóra til fimm flokka og starfa eins og stjórnir hafa gert lengi á hinum Norðurlöndunum með góðum árangri. Þessi leið reynir meira á stjórnmálamennina, það er erfiðara að breyta en standa kyrr, en hún gerir þeim líka kleift að koma hugsjónum sínum og stefnum í verk. 

Það skiptir nefnilega öllu máli hver stjórnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari