Framlag Kjarnans hingað til á árinu 2018
Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2017.
Á meðal þeirra mála sem Kjarninn hefur fjallað ítarlega um á árinu 2018 er hinn mikli órói sem er til staðar á vinnumarkaði, meðal annars vegna mjög bættra kjara æðstu ráðamanna veórígna úrskurða kjararáðs. Þeir hafa tryggt ráðherrum, þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra og dómurum tugprósenta launahækkanir af kjararáði, sem sömu aðilar skipuðu. Þingmenn hækkuðu til að mynda um 44,3 prósent í launum á kjördag 2016. Í staðinn voru laun kjararáðs hækkuð af stjórnmálamönnum.
Þá greindi Kjarninn frá því að pólitísk ákvörðun hefði verið tekin um það að færa forstjóra ríkisfyrirtækja undan kjararáði með þeim afleiðingum að stjórnir sömu fyrirtækja, skipaðar af stjórnmálaflokkum, ákváðu að hækka laun útvarpsstjóra um 16 prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Isavia um 20 prósent í 2,1 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Landsvirkjunar um 32 prósent upp í 2,7 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Íslandspósts um 17,6 prósent í 1,7 milljónir króna á mánuði og laun forstjóra Landsnets um tíu prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði.
Þetta var gert þrátt fyrir að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hefði beðið stjórnarmenn sérstaklega um það, bæði skriflega og í eigin persónu, að sýna hófsemi í launaákvörðunum forstjóranna.
Kjarninn fjallaði einnig um að forstjórar fyrirtækja í Kauphöll væru með nálægt fimm milljónum króna að meðaltali í mánaðarlaun. Það eru 17-18föld lágmarkslaun. Umtalsvert launaskrið er að eiga sér stað þar.
United Silicon
Kjarninn fjallaði um málefni United Silicon, en félagið var sett í þrot 22. janúar 2018.
Um miðjan febrúar náðist samkomulag milli skiptastjóra þrotabús United Silicon og Arion banka um að bankinn fái að ganga að sínum veðum og taka yfir allar helstu eignir félagsins.
Hluthafar og kröfuhafar félagsins hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna United Silicon það sem af er þessu ári. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn tók yfir hlutafé í United Silicon og bókfærir virði eignanna á 5,4 milljarða króna. Auk þess eru útistandandi lánsloforð og ábyrgðir upp á um 900 milljónir króna.
Arion banki ábyrgðist rekstur United Silicon frá því að félagið var sett í greiðslustöðvun og fram að gjaldþroti og borgaði um 200 milljónir króna á mánuði vegna rekstur þess á því tímabili.
En fleiri hafa tapað stórum fjárhæðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur fært niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í félaginu um 90 prósent. Um varúðarniðurfærslu er að ræða, og nemur hún rúmum milljarði króna. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 90 prósentum. Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ) fjárfestir einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Enn hleðst utan á þetta dæmalausa mál. Í liðinni viku var greint frá því að þrotabú United Silicon hefur stefnt stofnanda og fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, Magnúsi Garðarssyni, öðru sinni fyrir meint fjársvik hans. Þrotabúið hafði áður stefnt Magnúsi í byrjun árs 2018 vegna meints fjárdráttar upp á rúmlega hálfan milljarð króna. Samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir þrotabúið, og Kjarninn greindi ítarlega frá í janúar síðastliðnum í röð fréttaskýringa, kom fram að alls sé Magnús grunaður um að hafa dregið að sér 605 milljónir króna.
Vantraust á ráðherra
Um miðnætti 5. mars lögðu tveir stjórnarandstöðuflokkar, Píratar og Samfylking, fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Sú gjörð á rætur sínar að rekja í Landsréttarmálinu svokallaða.
Tillagan var tekin fyrir á Alþingi 6. mars. Þar var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason Miðflokki.
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Í kjölfarið hefur því verið haldið fram, meðal annars af varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að stjórnarmeirihlutinn telji nú 33 þingmenn en ekki þá 35 sem sitja á þingi fyrir stjórnmálaflokkanna þrjá sem mynda ríkisstjórn. Kjarninn krufði málið.
Lokakaflinn í fléttunni um Arion banka
Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka, eina stóra viðskiptabankans á Íslandi sem er ekki að meirihluta í ríkiseigu, fór fram á fyrri hluta árs.
Hann hófst þegar lífeyrissjóðum landsins var boðið að kaupa allt að fimm prósent hlut í bankanum. Sjóðirnir höfðu til 12. febrúar að svara tilboðinu. Þeir sögðu pass hver á fætur öðrum.
Í kjölfarið var þeim skilaboðum komið til Bankasýslu ríkisins að vilji væri hjá Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafarnir, að virkja kauprétt á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka og greiða um 23 milljarða króna fyrir 13 prósent hlut ríkisins.
15. febrúar var samþykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 prósent hlut í sjálfum sér af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Um er að kaup á eigin bréfum í samræmi við ákvörðun hluthafafundar. Til viðbótar var greidd arðgreiðsla upp á 7,9 milljarða króna.
Mikil pólitísk átök urðu um ofangreindar vendingar. Hluti þingmanna vildi að stjórnvöld myndu grípa inn í ferlið með einhverjum hætti, annað hvort með því að nýta forkaupsrétt sinn á hlutum í Arion banka eða með því að hafna nýtingu Kaupþings á kaupréttinum á hlut ríkisins. Ástæðan var meðal annars sú að umfjöllun fjölmiðla, m.a. Kjarnans, hafði sýnt fram á að það var mikið falið virði í Arion banka. Stjórnvöld töldu hvorugt gerlegt, enda engar forsendur til staðar til nýtingar á forkaupsréttinum og nýting kaupréttar í samræmi við gerða samninga. Auk þess er það skoðun margra ráðamanna að æskilegt sé að ríkið selji að minnsta kosti hluta þeirra bankaeigna sem það á.
Arion banki var svo skráður á markað í júní.
Skipting gæða
Kjarninn hélt áfram umfjöllun sinni um skiptingu gæða á Íslandi og í apríl greindi hann frá því að um 218 fjölskyldur, sem mynda ríkasta 0,1 prósent landsmanna, áttu 201,3 milljarða króna í hreinni eign í lok árs 2016. Hópurinn jók hreinar eignir sínar um 14 milljarða króna á því ári. Það þýðir að ef sú tala myndi dreifast jafnt á hvern og myndi það þýða að hver og einn framteljandi hafi aukið hreina eign sína um 67 milljónir króna á árinu 2016, eða um 5,6 milljónir króna á mánuði. Um er að ræða framteljendur og því getur bæði verið um samskattaða og einstaklinga að ræða. Þessi hópur hefur samtals áttfaldað hreina eign sína í krónum talið, án tillits til verðbólgu, á tæpum tveimur áratugum.
Ríkasta prósent landsmanna, 2.180 framteljendur, áttu 612,6 milljarða króna í hreinni eign í árslok 2016. Auður þeirra jókst um 53,1 milljarða króna á því ári. Þessi hópur átti meira eigið fé á þessum tíma en þau 80 prósent landsmanna sem áttu minnst. Sameiginlegar eignir þess hóps, sem telur 174.935 framteljendur, var 516,1 milljarðar króna. Ríkasta prósentið hefur aukið hreina eign sína sjöfalt á tveimur áratugum í krónum talið.
Ríkustu fimm prósent landsmanna, alls um 10.900 framteljendur, áttu 1.388,3 milljarða króna í hreina eign í árslok 2016. Sá hópur jók eignir sínar um 139 milljarða króna á því ári.
Eigið fé allra landsmanna jókst um 394 milljarða króna á umræddu ári. Það þýðir að ríkasta 0,1 prósentið tók til sín 3,5 prósent af öllu nýju eigin fé, ríkasta eitt prósentið tók til sín 13,5 prósent þess og ríkustu fimm prósent landsmanna tók til sín 35,3 prósent af öllu nýju eigin fé sem varð til á árinu 2016. Ríkasta tíund þjóðarinnar tók til sín tæpan helming þeirrar hreinu eignar sem varð til á því ári.
Kosningasvindl, leigufélög og allt hitt
Neytendamál eru ætið ofarlega á baugi í Kjarnanum. Í maí rýndi hann í fjarskiptamarkaðinn og þau sögulegu tíðindi sem þá voru orðin að bæði Nova og Vodafone eru nú stærri en Síminn á farsímamarkaði. Þá eru tvö af hverjum þremur símakortum Íslendinga nú 4G kort og Notkun Íslendinga á gagnamagni í gegnum farsímakerfið hefur rúmlega 1oofaldast frá árslokum 2009.
Kjarninn leiddi líka umfjöllun um mögulegt kosningasvindl sem átt hefur sér stað á Íslandi og greindi frá fjölmörgum atvikum sem áttu sér stað í kringum síðustu tvær alþingiskosningar þar sem grunur leikur á um að farið hafi verið á skjön við lög um fjármál stjórnmálasamtaka til að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga. Engin rannsókn hefur farið fram á þeim.
Þá opinberaði Kjarninn að stór hluti þeirra eigna sem eru í Heimavöllum, stærsta leigufélagi landsins sem starfar á almennum markaði, hafði áður verið í eigu félaga eða stofnana í eigu ríkisins. Rúmlega helmingur allra vaxtaberandi skulda félagsins eru auk þess við Íbúðalánasjóð. Meðal annars er um að ræða lán sem eiga að fara til félaga sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.
Kosningar fóru fram í maí og Kjarninn var að venju með umfangsmikla umfjöllun um aðdraganda þeirra, birti kosningaspár þar sem skoðanakannanir voru vigtaðar og greindi viðræðurnar sem áttu sér stað í kjölfarið. Þær enduðu með myndun meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar og Dagur B. Eggertsson sat áfram sem borgarstjóri.
Þegar greint var frá því í byrjun júní að Skeljungsfléttan svokallaða væri til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara tók Kjarninn það að sér að útskýra nákvæmlega fyrir lesendum hvað í henni fólst.
Þá hélt Kjarninn áfram umfangsmikilli umfjöllun sinni um stöðu erlendra ríkisborgara á Íslandi og þær gríðarlegu samfélagsbreytingar sem fylgja metaukningu í fjölda þeirra.
Á síðustu vikum opinberaði Kjarninn síðan meðal annars það að Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði verið ákærður fyrir peningaþvætti. vegna eigna sem hann geymir í aflandsfélagi. Júlíus Vífill hefur ávallt neitað sök en nú liggur ákæra fyrir í málinu. Hann er fyrsti stjórnmálamaðurinn sem var opinberaður í Panamaskjölunum til að vera ákærður.
Og svo auðvitað þetta með WOW air, sem er orðið of stórt til að falla.