Fólk á ekki að þurfa að reiða sig á hjálparstofnanir – Við hljótum að geta gert betur
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að mörg hundruð milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Síðust í röðinni er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Ég hafna því alfarið að við ættum að lifa eftir þeirri hugmyndafræði að hver sé sinnar gæfu smiður. Það virkar ekki svoleiðis, það þarf að búa betur um fólk en svo og hjálpa til dæmis útlendingum að aðlagast samfélaginu þannig að þeir fái sömu tækifæri og möguleika.“
Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um framtíðarsýn sína varðandi íslenskt samfélag. Henni finnst vanta markvissa stefnu hér á landi um það hvernig Íslendingar ætli að jafna möguleika og tækifæri fólks með raunverulegum hætti.
Ástandið í samfélaginu er flókið og erfitt fyrir marga og segir hún að núna þurfum við öll að læra að lifa með veirunni. „Ég hef trú á því að flest okkar muni standa saman í þessu verkefni og vinna það þannig að við getum átt tímabil eins og sumarið var þar sem við hlýddum fyrirmælum og gátum þá verið frjálsari en við erum núna. Þó er gott að minna sig á að við hér á Íslandi erum nokkuð frjáls miðað við aðrar þjóðir. Börnin okkar mega fara út að leika og í skólann.“
Hún bendir á að allt þetta ástand hafi minnt okkur á að heilbrigði sé það allra mikilvægasta. „Við þurfum líka að gæta að umhverfinu okkar og lifa í sátt og samlyndi við það. Ég vonast til þess að þetta ástand breyti gildismatinu okkar og að það skili sér líka í breyttum áherslum og hvernig við ætlum að búa okkur í haginn til framtíðar.“
Ísland hefur ekki ávallt verið ríkt land og bendir Sonja Ýr á að þjóðin hafi farið á methraða í gegnum þroskaferli annarra ríkja. „Ég held að við getum bara byggt á þessum góða grunni og lært af mistökunum og ekki endurtekið þau. Svo ég er mjög bjartsýn á að við náum vel í gegnum þetta ástand. Allir sérfræðingar spá því nú að viðspyrnan verði fljót þegar við náum tökum á veirunni – og þá getum við aftur farið upp á við hratt og vel.“
Verðum að finna nýjar leiðir til að ná utan um þessa hópa
Sonja Ýr segir að stærsta verkefni vetrarins verði að tryggja afkomuöryggið. Öll þeirra orka í BSRB muni fara í það að hlustað verði á þau sjónarmið.
„Bankarnir sýna ekki að það sé aukning á vanskilum einstaklinga og við erum ekki enn að sjá aukningu í greiðsluerfiðleikum út frá þessum mælieiningum sem við vorum að skoða í hruninu. En svo sjáum við hjálparstofnanir sem eru svo sannarlega að vekja athygli á því að álagið hefur stóraukist hjá þeim. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að sætta okkur við að búa í samfélagi þar sem einhverjir þurfa að reiða sig á hjálparstofnanir. Við hljótum að geta gert betur en svo,“ segir hún.
Ástæða sé til að vera á varðbergi og reyna að finna nýjar leiðir til að ná utan um þá hópa sem lifa við knöppustu kjörin og fæst tækifærin. „Þeir eru fjölbreyttari en áður og að einhverju leyti þarf að nálgast mælingar með nýjum hætti.“
Ákvarðanir teknar í algjörri þoku
Aðgerðir stjórnvalda í faraldrinum hafa verið umdeildar eins og gefur að skilja. Þegar Sonja Ýr er spurð út í skoðun hennar á þeim þá segir hún ástandið auðvitað vera þannig að hlutirnir breytist mjög hratt og að búið sé að taka ákvarðanir í algjörri þoku. Þrátt fyrir það finnist henni aðgerðir stjórnvalda hafa heppnast að mestu leyti mjög vel.
„Það sem við erum hins vegar að glíma við núna og átta okkur á er að orðræðan hefur breyst. Í vor vorum við að vonast til að þetta yrði ein bylgja og svo yrði aftur farið í venjulegt ástand. En eins og staðan er núna held ég að það sé nokkuð ljóst að ástandið muni vara í 6, 12 eða jafnvel 18 mánuði og við verðum að fara að undirbúa okkur fyrir það,“ segir hún.
Sonja Ýr nefnir enn fremur að skortur hafi verið á innviðauppbyggingu sem Íslendingar hafi ekki einungis fundið fyrir í faraldrinum heldur líka þegar slæmt veður skall á síðasta vetur.
Gagnrýnir að ekki sé komið meira til móts við konurnar
Sonja Ýr segir að langstærsta áskorunin sem Íslendingar standa frammi fyrir núna sé atvinnuleysið. „Stjórnvöld auðvitað hafa brugðist við með þeim verkfærum sem þau hafa í kistunni hvað það varðar. Þau hafa aukið fjárfestingu en störfin sem þau eru að skapa fara aftur á móti 85 prósent til karla – það er sem sagt verið að skapa karlastörf.
Það þarf að vera eitthvað jafnvægi þarna á milli og atvinnuleysi kvenna er hlutfallslega hærra en meðal karla. Svo er ungt fólk líka stór áhættuhópur – og sömuleiðis aðfluttir einstaklingar.“ Hún bendir á að BSRB hafi varað við því frá upphafi að ekki væri nægilegt að bregðast við með því að skapa störf sem karlar sækja helst í.
„Þetta er ástand sem er komið til að vera í einhvern tíma þá er ekki nægilegt að bíða eftir að verkefni hefjist á ný. Það þarf líka að tryggja að fólk nái endum saman, þ.e. tryggja afkomuöryggi þar sem við erum í hálfgerðu biðástandi.“
Jafnréttismál eru Sonju Ýr hugleikin. „Það er hætta á bakslagi í jafnréttismálum í faraldrinum. Það eru sem betur fer allir með það á hreinu að við þurfum að passa upp á umhverfið okkar en það er eins og jafnréttismál séu sett til hliðar.“
Hún telur að við megum ekki gleyma jafnréttismálunum, þau séu gríðarlega mikilvæg. „Við verðum að byggja á þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur í þessum málum. Íslendingar hafa staðið sig mjög vel á þessu sviði en það þýðir ekki að verða værukær. Við verðum að halda áfram að vera fyrirmyndin sem er framsækin og sem er raunverulega að grípa til aðgerða.“ Hún telur að vissu leyti að við séum stöðnuð í jafnréttismálum og að meira þurfi að gera í baráttunni.
Niðurskurður mikil mistök
Sonja Ýr segir, eins og áður hefur komið fram, að stjórnvöld hafi staðið sig vel í erfiðum aðstæðum. „Þegar umræðan byrjaði um það hvernig bregðast ætti við þá voru margir þeirrar skoðunar í grunninn að það ætti að grípa til sömu aðgerða og gert var í bankakreppunni. Þá bentum við á í BSRB að niðurskurður hefði verið mistök á sínum tíma. Margar skýrslur sýna það að þessi niðurskurður hafi verið of harkalegur þannig að við vorum lengur að rétta okkur við. Síðan, sem betur fer, kemur það í ljós að það eru flestir sammála um það og flestar alþjóðastofnanir sem við horfum til ráðleggja þetta. OECD hefur til dæmis sagt að það mætti ekki endurtaka þessi mistök – svo allt ber þetta að sama brunni.
Við erum sammála um að við ætlum að vaxa út úr þessari kreppu, sem er mjög mikilvægt fyrsta skref. Hins vegar finn ég að hugmyndafræðin togast svolítið á. Það eru þeir sem halda í þessa gömlu stefnu og þeir sem núna eru að sjá ljósið í því að það sé almannaþjónusta, og þá aðallega starfsfólkið, sem er að bjarga okkur út úr þessum vandræðum og að það þurfi að styrkja hana.“
Það sem þau í BSRB hafa helst harmað að ekki væri gert og liggur mest á núna, að þeirra mati, er að hækka atvinnuleysisbætur og sömuleiðis örorkulífeyri. „Því að þegar stærsta áskorunin er fjöldaatvinnuleysi þá þarf að grípa þennan hóp sem nær ekki endum saman. Við þurfum að byrja forgangsröðina á því að hjálpa þeim sem eru í viðkvæmustu stöðunni. Það mun líka skila sér í aukinni einkaneyslu.“ Þar vanti upp á aðgerðir hjá stjórnvöldum.
„Maður finnur það að þeirra viðbrögð eru á þá leið að það eigi að eyða orkunni í að skapa störfin, og við erum svo sannarlega sammála því, en það tekur tíma. Og af því að þetta er ákveðið biðástand þá verðum við að grípa til einhverra úrræða á meðan þannig að vandi fólks verði ekki þannig að það nái hreinlega ekki að vinna úr honum þegar viðspyrnan hefst aftur.“
Við þurfum að byrja forgangsröðina á því að hjálpa þeim sem eru í viðkvæmustu stöðunni.
Fjárhagsáhyggjur sjöfalda líkur á kulnun
Varðandi það hvernig ástandið verður í vetur þá bendir Sonja Ýr á að það fari mikið eftir því hvernig útbreiðslan á veirunni verður og hvernig muni ganga að ná tökum á henni. „Efnahagslífið er í nákvæmlega sama takti og útbreiðsla smita hvort sem er hér á landi eða í öðrum löndum. Þetta tvennt helst í hendur. Og þess vegna þarf að hjálpa fólki í gegnum þessi erfiðu tímabil, eins og gert var að einhverju leyti í fyrstu bylgjunni.
Þær ákvarðanir sem teknar eru í dag munu hafa áhrif á okkur til langs tíma. Kannanir Gallup á líðan fólks í kjölfar bankahrunsins sýna að fjárhagsáhyggjur sjöfalda líkurnar á kulnum. Við höfum verið að benda á tengslin milli þess að það var svo harkalegur niðurskurður hjá hinu opinbera í síðustu kreppu að það gekk mjög nærri velferðarþjónustunni. Það varð svo mikil undirmönnun og mikil vanfjármögnun. Fólk átti í rauninni að hlaupa hraðar. Þannig að þeir sem eru helst að leita til Virk eru búnir að missa starfsgetuna og þeir sem þurfa aðstoð er fólk innan velferðarkerfisins – helst í umönnun og kennslu og fólk sem sinnir þessum óáþreifanlegu verðmætum. Verðmætin í þessum störfum er ekki hægt að einfalda niður í tölur í excel-skjali sem hægt er að raða snyrtilega í bókhaldið.. Þau koma fram með öðrum hætti en áþreifanleg verðmæti.“
Sonja Ýr bendir á að afleiðingar hrunsins 2008 hafi þar af leiðandi verið þær að fólk í þessum umönnunarstörfum hafi hlaupið hraðar og ekki einungis í vinnunni heldur einnig heima við. „Afleiðingarnar af því að fólk hafi hlaupið hraðar voru miklar. Of margir bognuðu undan álaginu og misstu starfsgetu tímabundið eða varanlega. Þau báru því byrðarnar af því að hafa valið starf sem felst í því að þjónusta aðra og niðurstaðan var veikindi eða örorka.“
Sama hvert er litið er aukið álag
Hvernig er þá hægt að minnka höggið þannig að afleiðingarnar verði sem minnstar? Sonja Ýr segir vandamálið hafa verið til staðar áður en faraldurinn kom til skjalanna. „Áður vorum við að berjast við undirmönnun en að einhverju leyti er erfitt að fá fólk í þessi störf vegna þess hvernig launin eru og svo framvegis. Fólk velur einnig þessi störf af ákveðinni hugsjón og þá áttar það sig líka á því að starfsumhverfið er svolítið öðruvísi heldur en víðast annars staðar. Þú þarft að hlaupa hraðar. Núna erum við með mjög mikið atvinnuleysi og undirmönnun á þessum stöðum og aukið álag því þetta eru fleiri handtök og eru aukin verkefni sem fylgja því að gæta að sóttvörnum í þessari þjónustu.“
Hún telur að í fyrsta lagi þurfi að leiðrétta mönnunargatið og endurskoða mönnunina. „Það er fyrsta skref. Síðan þarf tímabundið að veita aukinn stuðning því það sama hvert er litið er aukið álag.“ Hún segist til að mynda sjá þetta aukna álag í menntakerfinu. Mikið auka álag sé á starfsfólki skólanna, hvort sem um er að ræða þá sem sinna ræstingum, kenna eða sinna börnunum okkar. Jafnframt nefnir hún heilbrigðisþjónustuna, öldrunarheimilin, löggæsluna og sjúkraflutninga í þessu samhengi. „Þetta er svo ótrúlega víðtækt.“
Sonja Ýr segist ekki kunna vel við það þegar fólk talar um svokallað „bákn“ en stundum er það notað um almannaþjónustuna. „Ef ég ætti eina von þá myndi ég óska þess að fólk myndi átta sig á lítilsvirðingunni sem felst í því orði, að maður tali ekki þannig um almannaþjónustuna sem við treystum öll á í hinu daglega lífi.“
Tog um hugmyndafræði
Sonja Ýr segist upplifa ákveðið tog um hugmyndafræði, hvaða leið skuli fara út úr kreppunni. „Framþróunin eða breytingin byrjaði að einhverju leyti eftir bankahrunið. Forgangsröðunin hjá fólki varð önnur. Það var ekki endilega lengur mikilvægast að leggja áherslu á peningana heldur raunverulega að njóta tíma með fjölskyldunni. Þar finnst mér kristallast þetta tog sem nú er í gangi og í framtíðinni vonast ég til þess að við verðum búin að ná raunverulegum jöfnuði í stað þess að breikka bilið.“
Hún vonast enn fremur til þess að Íslendingar verði búnir að vinna að því að útrýma fátækt en eins og staðan er núna séu ekki tekin markviss skref í þá átt. „Sömuleiðis að það verði orðin almenn skoðun eða viðurkennt að opinber þjónusta sé jafn mikilvæg og aðrir geirar á vinnumarkaði. Þetta snýst um þetta jafnvægi og virðingu fyrir því hvaða störfum er verið að sinna og með hvaða hætti. Og að virðingin sé ekki alltaf beintengd bara einhverju fjárhagslegu heldur líka samfélagslegu virði.“
Jöfnuðurinn eða félagslegi stöðugleikinn er leiðarljósið framundan, að hennar mati, og heilmiklu máli skiptir hvernig staðið er að hlutunum núna í þessu ástandi.
Almennir starfsmenn eru að „bjarga okkur út úr krísunni“
Sumir hafa talað um að í og eftir faraldurinn verði von á breyttu gildismati og eru ákveðnar væntingar til þess að samfélagið breytist til batnaðar í kjölfar þess.
Telur Sonja Ýr þetta vera í augsýn? „Það er áhugavert að bera saman viðbrögðin við fyrstu og þriðju bylgju faraldursins. Í þeirri fyrstu var meira að segja listamaðurinn Banksy farinn að teikna myndir af hjúkrunarfræðingum sem ofurhetjum og það náðist að draga það svo skýrt fram hversu mikilvæg þessi störf eru. Það eina sem ég saknaði var að fólk áttaði sig á breiddinni. Það er ekki bara heilbrigðisþjónusta heldur í raun allar grunnstoðirnar okkar, hvort sem verið er að sinna öldruðum, veikum eða börnum. Þessir starfsmenn eru svo sannarlega að bjarga okkur út úr þessari krísu.
Eins og staðan er núna finnur maður að það er meiri þreyta í fólki og skarpari skil milli þeirra sem líta á COVID sem hálfgerða flensu, og þar með afneita því að þetta sé svona mikilvægt, og hinna sem taka veiruna alvarlega.“
Tími til kominn að prófa eitthvað nýtt
Sonja Ýr minnir á að þrátt fyrir að Ísland sé eyja þá séu íbúarnir ekki eyland. „Ég finn það svo sterkt að umræðan sé um þetta hér á landi og annars staðar, að áherslan er á félagslega réttlætið. Við verðum að fara að líta til þessara gilda sem felast í samstöðunni og manngæskunni. Hvort sem það eru neikvæðar raddir á móti þessu eður ei þá ætla ég allavega að trúa því að það hafi yfirhöndina og við sköpum réttlátt samfélag fyrir alla – því við erum búin að prófa hitt í talsvert langan tíma. Það er komið að því að prófa eitthvað nýtt og aðlaga sig betur að stöðu þekkingar.“
Ef fólk er almennt sammála því hvernig íslensk samfélag ætti að vera, hver er þá besta leiðin þangað að mati Sonju Ýrar? Þarf að umbylta þeim kerfum sem nú þegar eru til staðar á Íslandi eða breyta þeim sem fyrir eru?
Hún bendir í þessu samhengi á að nálganir BSRB hvað þetta varðar hafi verið mjög vinnumarkaðsmiðaðar. „Það fyrsta sem mér dettur í hug er að við höfum kallað eftir því að við mótum okkur atvinnustefnu. Að við horfum til þess hvernig atvinnuvegirnir verða í framtíðinni. Við erum með sjávarútveginn og ál- og ferðamannaiðnaðinn en þetta eru allt geirar sem eru frekir á náttúruna okkar. Þess vegna teljum við mikilvægt að fleiri atvinnugeirar verði til hér á landi. Það er einnig hætt við því í svona ástandi þegar einn eða tveir geirar minnka eða það verður eitthvað högg að það hafi gríðarleg áhrif á allt efnahagskerfið.“
Ekki að velta fyrir sér stjórnmálaflokkunum
Þá telur Sonja Ýr að Íslendingar verði að byggja á hugvitinu og á nýsköpun og þróun. „Það verður að vera hluti af þessum grunnstoðum okkar til framtíðar. Það kostar auðvitað fjárfestingu og tekur býsna langan tíma að byggja það upp.“
Enn fremur vonast Sonja Ýr til að nýsköpunin skili sér inn í þá starfsemi sem nú þegar er til staðar.
„Að öðru leyti er þetta, eins og ég sagði áðan, tog um hugmyndafræði. Innan bandalagsins er fólk úr öllum flokkum og við erum bara með okkar pólitík, sem er verkalýðspólitík, og við erum ekkert að velta fyrir okkur stjórnmálaflokkunum. Við einfaldlega fögnum öllum góðum hugmyndum sem samræmast okkar stefnu,“ segir hún.
Geta talað einni skýrri röddu
Mikil breyting hefur orðið innan verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár. Hvernig upplifir Sonja Ýr samstöðuna og samtakamátt hreyfingarinnar á þessum tímum? Hún segir að innan BSRB hafi samstaðan haldist vel í gegnum hrunið 2008 en það sem sameini þeirra fólk sé almannaþjónusta og barátta fyrir meiri velferð og aukinni samstöðu um að styrkja grunninnviðina. „Það hefur alltaf í gegnum árin verið gott samstarf við önnur heildarsamtök launafólks en eins og staðan er núna finn ég það miklu sterkar en áður að við getum talað einni skýrri röddu.“
Nefnir hún samstöðuna varðandi hækkun atvinnuleysisbóta og örorkulífeyri. „Þegar við skoðum hvað samtökin hafa sent frá sér varðandi aðgerðir stjórnvalda þá má segja að þetta séu í grunninn sömu áherslur. Þetta er auðvitað misítarlegt en kjarninn er sá sami. Það er ríkt samstarf okkar á milli.“
Hún segist vera stolt af því að fá að vera hluti af BSRB. „Mér finnst styrkur bandalagsins liggja í samstöðunni og það er ómetanlegt að vera fulltrúi þeirra og tala einni skýrri röddu og vita það að ég get alltaf staðið fast við það sem ég er að segja af því að það er búin að vera svo góð og í raun áralöng umræða til þess að móta þessa stefnu okkar sem ég byggi á fyrir hönd bandalagsins.“
Fleiri viðtöl við fulltrúa atvinnulífs og launafólks
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði