„Viðbrögð mín við þessum stað voru bara tár – og niðurbrot“
Víða er pottur brotinn varðandi aðstæður erlends starfsfólks hér á landi og var bruninn á Bræðraborgarstíg 1 áminning þess. Pólsk kona sem bjó í húsinu árið 2015 lýsir örvæntingu sinni á sínum tíma og vanlíðan í samtali við Kjarnann en hún segir að það ár hafi verið það allra versta síðan hún flutti til landsins.
Viðbrögð mín við þessum stað voru bara tár. Niðurbrot. En við höfðum ekkert val, svo við þurfum að dveljast þar. Herbergið var hræðilegt. Lítið með brotnum glugga. Eitt eldhús sem varla virkaði fyrir öll herbergin á hæðinni. Baðherbergi með brotnum glugga í janúar.“
Þetta segir pólsk kona í samtali við Kjarnann en hún bjó ásamt eiginmanni sínum á Bræðraborgarstíg 1 fyrir rúmum fimm árum. Hún vill ekki kom fram undir nafni en ástæðan fyrir því að hún hefur ákveðið að segja frá reynslu sinni er sú að hún vill að réttlætið nái fram að ganga. Hún segir að erlent fólk sem hingað kemur til að vinna hafi oft engan vettvang til að láta í sér heyra.
Hjónin fluttu til Íslands seinni hluta árs 2014 en fyrst um sinn dvöldu þau í bæ úti á landi. Þau fluttu um áramótin 2014 til 2015 til Reykjavíkur. „Við höfðum engan pening til að leigja „venjulega“ íbúð þar sem trygging er oft mjög há.“
Þau leituðu á samfélagsmiðlum eftir íbúð í Reykjavík á pólskum síðum og var þeim bent á að hægt væri að leigja herbergi á AR Guesthouse, til húsa á Bræðraborgarstíg 3. „Ég hafði samband til þess að bóka herbergi en þá kom í ljós að hægt væri að leigja herbergið til lengri tíma.“
Allar myndir sem þau fengu voru af hýbýlum við Bræðraborgarstíg 3 en þegar þau komu á staðinn kom í ljós að herbergið sem þau hefðu bókað væri á Bræðraborgarstíg 1, annarri hæð, innst á ganginum.
Öskraði á hana og spurði hvort hún vildi „þéna peninga eða borga skatta“
Hún segir að fólk hafi búið í hinum herbergjunum á hæðinni og að þau hafi tengst einum pólskum íbúa vinaböndum. Í hinum herbergjunum hafi einnig búið pólskir karlmenn, en allir voru þeir verkamenn. Fleiri bjuggu þarna sem voru verkafólk en ekki fylgir sögunni hvaðan þeir íbúar komu.
Parið gat flutt lögheimilið sitt á Bræðraborgarstíg 1 en það var skilyrði þess að fá kennitölu sem var ekki til bráðabirgða. Þetta gátu þau með hjálp kunningjakonu sinnar. Þessi sama kona hjálpaði henni að fá atvinnuviðtal varðandi starf sem ræstitæknir við gistiheimilið þangað til hún myndi finna eitthvað betra.
Hún fékk starfið og vann þar yfir sumar í nokkra mánuði.
„Sko, ég hafði ekkert kynnt mér réttindi mín og vandamálið hófst þegar ég komst að því að persónuafslátturinn minn var ekki rétt reiknaður. Eftir að hafa talað við Skattinn um málið sögðu þeir mér að tala við yfirmann minn – og í allra fyrsta lagi að fá launaseðilinn minn.
Ég reyndi í mörg skipti að fá launaseðilinn en í hvert einasta skipti voru afsakanir fyrir því að fá hann ekki. Ég reyndi aftur og aftur. Einu sinni reyndi ég að tala um þetta í bílferð með einum af yfirmönnunum og sagði ég honum að ég hefði haft samband við Skattinn þar sem ég hefði fengið þær upplýsingar að ekki væri allt með felldu og að ég vildi koma þessu öllu á hreint. Til þess þyrfti ég launaseðilinn. Yfirmaður minn öskraði á mig og spurði mig hvort ég vildi þéna peninga eða borga skatta.“
Höfðu ekki hugmynd um þau gætu gengið í stéttarfélag
Upp frá þessu hafði hún varann á. „Ég vissi að það væri ekkert sem ég gæti gert,“ segir hún og bætir því við að líklegast hafi hún ekki verið í neinu stéttarfélagi.
Viðmælandi Kjarnans segir frá því þegar lögreglan kom í eitt skiptið í móttöku gistiheimilisins og lokaði því. Lögreglan hafi vísað öllum ferðamönnum á brott og innsiglað dyrnar í tveimur byggingum við Bræðraborgarstíg 1 og 3.
Parið dvaldi í herberginu á Bræðraborgarstíg 1 í sirka fjóra mánuði. Eftir það leigðu þau litla íbúð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu sem einnig var ólögleg. „Við gátum ekki flutt lögheimilið okkar þangað vegna þess að íbúðin var í iðnaðarhverfi. Við hringdum í Þjóðskrá og þau vissu að í þessu húsi byggju um 10 fjölskyldur ólöglega. En þarna höfðum við skrifað undir leigusamning og lagt fram innborgun svo við höfðum ekkert val um annað.“ Áfram þurftu þau að hafa lögheimilið á Bræðraborgarstíg.
Hún vann á gistiheimilinu yfir sumarið og segir hún að þau hafi ekki haft hugmynd um þau gætu gengið í stéttarfélag – og fékk hún aldrei boð um slíkt frá vinnuveitenda. Hún spurði heldur ekki út í það þar sem hún þekkti ekki réttindi sín. „Ég veit það aftur á móti núna, en því miður ekki þá,“ segir hún.
Eftir að hún fékk vinnu um haustið gekk hún í stéttarfélag og síðan þá hefur það aldrei verið vandamál. „En aldrei sá ég nokkra launaseðla frá gistihúsinu og hafði ég ekki hugmynd um hvað vinnuveitendur mínir væru að borga í skatt af mínum launum.
Stéttarfélög hafa enga lögsögu yfir íbúðarhúsnæði félagsmanna sinna
Í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu sem birtist í júlí síðastliðnum voru húsnæðismál áberandi þema í viðtölum skýrsluhöfunda við starfsmenn stéttarfélaga. Þar kom fram að fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ráða til sín erlent starfsfólk í vinnu hefðu í mörgum tilfellum einnig skaffað húsnæði fyrir það. Átti þetta ekki bara við svæði þar sem skortur var á húsnæði heldur virtist þetta vera venjan frekar en ekki, allavega til að byrja með í upphafi ráðningarsambands.
„Fjölbreytt mál varðandi húsnæði erlendra félagsmanna hafa verið til skoðunar og þau sem sinna vinnustaðaheimsóknum hafa séð sitthvað í sínum heimsóknum. Erfitt hefur verið fyrir stéttarfélögin að takast á við mál sem berast á borð þeirra varðandi húsnæði félagsmanna. Félögin hafa enga lögsögu yfir íbúðarhúsnæði þeirra og geta lítið gert annað en að senda ábendingu til heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Þó að starfsmenn stéttarfélaga sjái óviðunandi húsnæðisaðstöðu hjá erlendu starfsfólki gæti það haft áhrif á bæði starf viðkomandi og heimili ef gerðar eru alvarlegar athugasemdir við atvinnurekandann,“ segir í skýrslunni.
Þá komu enn fremur fram í viðtölunum fram fjölþættar áhyggjur vegna aðstæðna þeirra sem voru háðir vinnuveitendum um húsnæði. Viðmælendur komu með dæmi um þrengsli, margir starfsmenn voru látnir búa saman í litlu rými. Leiguupphæð var yfir markaðsverði á svæðinu og ýmislegt athugunarvert við ástand húsnæðis. Einnig voru dæmi um að leigu og launum væri skeytt saman á vafasaman hátt, sem var þyrnir í augum verkalýðsfélaganna.
Upplifði lítilsvirðingu
Viðmælandi Kjarnans og þessi fyrrverandi íbúi á Bræðraborgarstíg 1 segir að árið sem hún bjó þar hafi verið það allra versta síðan hún flutti til landsins. Hún segir að launin hafi verið mjög lág og að lítil virðing hafi verið borin fyrir henni. „Við vildum reyndar snúa aftur til Póllands á þessum tíma vegna þess að þetta var gríðarlega lýjandi andlega og líkamlega. En við tókum ákvörðun að vera aðeins lengur og athuga hvernig gengi. Sem betur fer var næsta ár betra.“
Parið tók þá ákvörðun á þessu ári að flytja aftur til Póllands – reynslunni ríkari. „Ég var mjög ánægð með að búa hér síðustu ár og okkur hafa hlotnast ýmis tækifæri en núna erum við viss um að vilja flytja aftur til Póllands. Þetta er komið gott.“
Hún segir að henni hafi liðið hræðilega þegar hún heyrði af harmleiknum á Bræðraborgarstíg í sumar, vitandi það að gamla herbergið hennar væri líklega það sem brann.
„Ég fer til Póllands með víðari sýn á lífið, en þar eru einnig innflytjendur, og nú veit ég hvernig það er að vera einn af þeim,“ segir hún að lokum.
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann