Skjáskot/www.ja.is Bræðraborgarstígur 1 Mynd: Skjáskot/www.ja.is
Skjáskot/www.ja.is

„Viðbrögð mín við þessum stað voru bara tár – og niðurbrot“

Víða er pottur brotinn varðandi aðstæður erlends starfsfólks hér á landi og var bruninn á Bræðraborgarstíg 1 áminning þess. Pólsk kona sem bjó í húsinu árið 2015 lýsir örvæntingu sinni á sínum tíma og vanlíðan í samtali við Kjarnann en hún segir að það ár hafi verið það allra versta síðan hún flutti til landsins.

Við­brögð mín við þessum stað voru bara tár. Nið­ur­brot. En við höfðum ekk­ert val, svo við þurfum að dvelj­ast þar. Her­bergið var hræði­legt. Lítið með brotnum glugga. Eitt eld­hús sem varla virk­aði fyrir öll her­bergin á hæð­inni. Bað­her­bergi með brotnum glugga í jan­ú­ar.“

Þetta segir pólsk kona í sam­tali við Kjarn­ann en hún bjó ásamt eig­in­manni sínum á Bræðra­borg­ar­stíg 1 fyrir rúmum fimm árum. Hún vill ekki kom fram undir nafni en ástæðan fyrir því að hún hefur ákveðið að segja frá reynslu sinni er sú að hún vill að rétt­lætið nái fram að ganga. Hún segir að erlent fólk sem hingað kemur til að vinna hafi oft engan vett­vang til að láta í sér heyra.

Hjónin fluttu til Íslands seinni hluta árs 2014 en fyrst um sinn dvöldu þau í bæ úti á landi. Þau fluttu um ára­mótin 2014 til 2015 til Reykja­vík­ur. „Við höfðum engan pen­ing til að leigja „venju­lega“ íbúð þar sem trygg­ing er oft mjög há.“

Auglýsing

Þau leit­uðu á sam­fé­lags­miðlum eftir íbúð í Reykja­vík á pólskum síðum og var þeim bent á að hægt væri að leigja her­bergi á AR Guest­hou­se, til húsa á Bræðra­borg­ar­stíg 3. „Ég hafði sam­band til þess að bóka her­bergi en þá kom í ljós að hægt væri að leigja her­bergið til lengri tíma.“

Allar myndir sem þau fengu voru af hýbýlum við Bræðra­borg­ar­stíg 3 en þegar þau komu á stað­inn kom í ljós að her­bergið sem þau hefðu bókað væri á Bræðra­borg­ar­stíg 1, annarri hæð, innst á gang­in­um.

Öskr­aði á hana og spurði hvort hún vildi „þéna pen­inga eða borga skatta“

Hún segir að fólk hafi búið í hinum her­bergj­unum á hæð­inni og að þau hafi tengst einum pólskum íbúa vina­bönd­um. Í hinum her­bergj­unum hafi einnig búið pólskir karl­menn, en allir voru þeir verka­menn. Fleiri bjuggu þarna sem voru verka­fólk en ekki fylgir sög­unni hvaðan þeir íbúar komu.

Parið gat flutt lög­heim­ilið sitt á Bræðra­borg­ar­stíg 1 en það var skil­yrði þess að fá kenni­tölu sem var ekki til bráða­birgða. Þetta gátu þau með hjálp kunn­ingja­konu sinn­ar. Þessi sama kona hjálp­aði henni að fá atvinnu­við­tal varð­andi starf sem ræsti­tæknir við gisti­heim­ilið þangað til hún myndi finna eitt­hvað betra.

Hún fékk starfið og vann þar yfir sumar í nokkra mán­uði.

„Sko, ég hafði ekk­ert kynnt mér rétt­indi mín og vanda­málið hófst þegar ég komst að því að per­sónu­af­slátt­ur­inn minn var ekki rétt reikn­að­ur. Eftir að hafa talað við Skatt­inn um málið sögðu þeir mér að tala við yfir­mann minn – og í allra fyrsta lagi að fá launa­seð­il­inn minn.

Ég reyndi í mörg skipti að fá launa­seð­il­inn en í hvert ein­asta skipti voru afsak­anir fyrir því að fá hann ekki. Ég reyndi aftur og aft­ur. Einu sinni reyndi ég að tala um þetta í bíl­ferð með einum af yfir­mönn­unum og sagði ég honum að ég hefði haft sam­band við Skatt­inn þar sem ég hefði fengið þær upp­lýs­ingar að ekki væri allt með felldu og að ég vildi koma þessu öllu á hreint. Til þess þyrfti ég launa­seð­il­inn. Yfir­maður minn öskr­aði á mig og spurði mig hvort ég vildi þéna pen­inga eða borga skatta.“

Höfðu ekki hug­mynd um þau gætu gengið í stétt­ar­fé­lag

Upp frá þessu hafði hún var­ann á. „Ég vissi að það væri ekk­ert sem ég gæti gert,“ segir hún og bætir því við að lík­leg­ast hafi hún ekki verið í neinu stétt­ar­fé­lagi.

Við­mæl­andi Kjarn­ans segir frá því þegar lög­reglan kom í eitt skiptið í mót­töku gisti­heim­il­is­ins og lok­aði því. Lög­reglan hafi vísað öllum ferða­mönnum á brott og inn­siglað dyrnar í tveimur bygg­ingum við Bræðra­borg­ar­stíg 1 og 3.

Parið dvaldi í her­berg­inu á Bræðra­borg­ar­stíg 1 í sirka fjóra mán­uði. Eftir það leigðu þau litla íbúð ann­ars staðar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem einnig var ólög­leg. „Við gátum ekki flutt lög­heim­ilið okkar þangað vegna þess að íbúðin var í iðn­að­ar­hverfi. Við hringdum í Þjóð­skrá og þau vissu að í þessu húsi byggju um 10 fjöl­skyldur ólög­lega. En þarna höfðum við skrifað undir leigu­samn­ing og lagt fram inn­borgun svo við höfðum ekk­ert val um ann­að.“ Áfram þurftu þau að hafa lög­heim­ilið á Bræðra­borg­ar­stíg.

Hún vann á gisti­heim­il­inu yfir sum­arið og segir hún að þau hafi ekki haft hug­mynd um þau gætu gengið í stétt­ar­fé­lag – og fékk hún aldrei boð um slíkt frá vinnu­veit­enda. Hún spurði heldur ekki út í það þar sem hún þekkti ekki rétt­indi sín. „Ég veit það aftur á móti núna, en því miður ekki þá,“ segir hún.

Eftir að hún fékk vinnu um haustið gekk hún í stétt­ar­fé­lag og síðan þá hefur það aldrei verið vanda­mál. „En aldrei sá ég nokkra launa­seðla frá gisti­hús­inu og hafði ég ekki hug­mynd um hvað vinnu­veit­endur mínir væru að borga í skatt af mínum laun­um.

Auglýsing

Stétt­ar­fé­lög hafa enga lög­sögu yfir íbúð­ar­hús­næði félags­manna sinna

Í skýrslu Rann­­sókna­mið­­stöðvar ferða­­mála um aðstæður erlends starfs­fólks í ferða­þjón­ustu sem birt­ist í júlí síð­ast­liðnum voru hús­næð­is­mál áber­andi þema í við­tölum skýrslu­höf­unda við starfs­menn stétt­ar­fé­laga. Þar kom fram að fyr­ir­tæki í ferða­þjón­ustu sem ráða til sín erlent starfs­fólk í vinnu hefðu í mörgum til­fellum einnig skaffað hús­næði fyrir það. Átti þetta ekki bara við svæði þar sem skortur var á hús­næði heldur virt­ist þetta vera venjan frekar en ekki, alla­vega til að byrja með í upp­hafi ráðn­ing­ar­sam­bands.

„Fjöl­breytt mál varð­andi hús­næði erlendra félags­manna hafa verið til skoð­unar og þau sem sinna vinnu­staða­heim­sóknum hafa séð sitt­hvað í sínum heim­sókn­um. Erfitt hefur verið fyrir stétt­ar­fé­lögin að takast á við mál sem ber­ast á borð þeirra varð­andi hús­næði félags­manna. Félögin hafa enga lög­sögu yfir íbúð­ar­hús­næði þeirra og geta lítið gert annað en að senda ábend­ingu til heil­brigð­is­eft­ir­lits á svæð­inu. Þó að starfs­menn stétt­ar­fé­laga sjái óvið­un­andi hús­næð­is­að­stöðu hjá erlendu starfs­fólki gæti það haft áhrif á bæði starf við­kom­andi og heim­ili ef gerðar eru alvar­legar athuga­semdir við atvinnu­rek­and­ann,“ segir í skýrsl­unn­i. 

Þá komu enn fremur fram í við­töl­unum fram fjöl­þættar áhyggjur vegna aðstæðna þeirra sem voru háðir vinnu­veit­endum um hús­næði. Við­mæl­endur komu með dæmi um þrengsli, margir starfs­menn voru látnir búa saman í litlu rými. Leigu­upp­hæð var yfir mark­aðs­verði á svæð­inu og ýmis­legt athug­un­ar­vert við ástand hús­næð­is. Einnig voru dæmi um að leigu og launum væri skeytt saman á vafa­saman hátt, sem var þyrnir í augum verka­lýðs­fé­lag­anna.

Samkvæmt skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu er árangursríkasta leiðin til að stöðva alvarleg brot í geiranum að stoppa upp í göt í lögum og efla eftirlit opinberra stofnana.
Pexels

Upp­lifði lít­ils­virð­ingu

Við­mæl­andi Kjarn­ans og þessi fyrr­ver­andi íbúi á Bræðra­borg­ar­stíg 1 segir að árið sem hún bjó þar hafi verið það allra versta síðan hún flutti til lands­ins. Hún segir að launin hafi verið mjög lág og að lítil virð­ing hafi verið borin fyrir henni. „Við vildum reyndar snúa aftur til Pól­lands á þessum tíma vegna þess að þetta var gríð­ar­lega lýj­andi and­lega og lík­am­lega. En við tókum ákvörðun að vera aðeins lengur og athuga hvernig gengi. Sem betur fer var næsta ár betra.“

Parið tók þá ákvörðun á þessu ári að flytja aftur til Pól­lands – reynsl­unni rík­ari. „Ég var mjög ánægð með að búa hér síð­ustu ár og okkur hafa hlotn­ast ýmis tæki­færi en núna erum við viss um að vilja flytja aftur til Pól­lands. Þetta er komið gott.“

Hún segir að henni hafi liðið hræði­lega þegar hún heyrði af harm­leiknum á Bræðra­borg­ar­stíg í sum­ar, vit­andi það að gamla her­bergið hennar væri lík­lega það sem brann.

„Ég fer til Pól­lands með víð­ari sýn á líf­ið, en þar eru einnig inn­flytj­end­ur, og nú veit ég hvernig það er að vera einn af þeim,“ segir hún að lok­um. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal