Vildu nothæfan lista, afgreiða Ásgeir og safna upplýsingum um stjórn samtaka
Í samræðum „skæruliðadeildar“ Samherja kemur fram að Þorsteinn Már Baldvinsson vilji ekki að Njáll Trausti Friðbertsson verði næsti oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi. Þau ræddu einnig að safna upplýsingum um stjórn samtaka gegn spillingu.
Þann 21. mars síðastliðinn, fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan, ræddu tveir meðlimir hinnar svokölluðu skæruliðadeildar Samherja, Arna Bryndís McClure og Páll Steingrímsson, saman um komandi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þar greindi Páll frá samtali sem hann hafi átt við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, um pólitík og sagði: „Hann eins og ég vill ekki sjá Njáll í efstasæti.“
Umræddur Njáll er Njáll Trausti Friðbertsson, sitjandi þingmaður Sjálfstæðisflokks í kjördæminu, sem sækist eftir því að verða næsti oddviti flokksins þar nú þegar Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tilkynnt að hann fari ekki aftur fram. Arna svarar því að „enginn“ vilji fá Njál í fyrsta sætið og Páll lofar að ræða málið við nokkra áhrifamenn innan flokksins.
Þau ræða svo að reyna að „koma saman nothæfum lista fyrir kjördæmið“. Af þeim sem frambjóðendum tvímenningarnir raða á þann lista endaði einungis einn einstaklingur í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Því virðist lítið hafa gengið hjá „skæruliðadeildinni“ að hafa áhrif á framboðsmál Sjálfstæðisflokksins.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum, sem sýna meðal annars tölvupóstsamskipti og samtöl milli einstaklinga í spjallforriti, sést hvernig varnarbarátta Samherja hefur þróast frá því að opinberun fjölmiðla á hinu svokallaða Namibíumáli – þar sem grunur er um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti – varð í nóvember 2019. Þar er einnig að finna ýmis samtöl þar sem lagt er á ráðin um að reyna að hafa áhrif á gang mála í stjórnmálum.
Ræddu viðbrögð við viðtali
Þann 23. apríl birtist viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Stundinni. Þar sagði hann meðal annars að Íslandi væri „að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá“.
Í viðtalinu fjallaði Ásgeir einnig um aðfarir Samherja gagnvart fimm starfsmönnum Seðlabanka Íslands, en fyrirtækið kærði starfsmennina fimm, þar á meðal Má Guðmundsson fyrrverandi Seðlabankastjóra, til lögreglu vorið 2019 eftir að Seðlabankinn hafnaði því að greiða Samherja bætur vegna hins svokallaða Seðlabankamáls. Það mál hefur til skoðunar hjá lögreglustjóranum á Vestfjörðum.
Ásgeir sagðist ekki skilja „hvern andskotann þessi lögreglustjóri þarf að rannsaka og af hverju þessu er ekki bara vísað frá. Ég óttast það að mörgu leyti, í svona eftirlitsstofnun eins og Seðlabankinn er, að við lendum í því að við verðum hundelt persónulega eins og farið var á eftir þessu starfsfólki.“
Greint var frá því opinberlega eftir að viðtalið við Ásgeir birtist að kæru Samherja til lögreglu hefði verið vísað frá í mars, en að Samherji hefði kært þá niðurstöðu til ríkissaksóknara.
Ásgeir sagði enn fremur í viðtalinu að það væri ótækt að einkafyrirtæki eins og alþjóðlegi útgerðarrisinn Samherji gæti ráðist persónulega að ríkis- og embættismönnum með þeim hætti sem hann taldi að hefði átt sér stað. „Ég er mjög ósáttur við þennan anga af þessu Samherjamáli: Að farið hafi verið svona persónulega á eftir þessu fólki.[...]Eitt er að fara gegn stofnuninni, það er hægt að berja á þessari stofnun eða mér sem framkvæmdastjóra hennar. En ég er mjög ósáttur við að farið sé á eftir einstaka starfsmönnum með þessum hætti. Það má alveg berja á þessari stofnun, hún er virki, en það má ekki gera þetta svona persónulega gegn fólki.“
Þetta viðtal var rætt í hópspjalli þeirra Örnu, Páls og Þorbjarnar Þórðarsonar, lögmanns og ráðgjafa Samherja, sem stofnaður var um miðjan síðasta mánuð og fékk nafnið „PR Namibia“.
Ætluðu að afgreiða seðlabankastjóra í 250 orðum
„Ég skil ekki Ásgeir,“ segir einn meðlimur hópsins og í kjölfarið er rætt hvort Samherji eigi ekki að svara seðlabankastjóra. Þorbjörn segir að verið séð að athuga hvort „einn alls ótengdur okkur ætli að skrifa“. Síðan er skrifað inn í spjallið að það sé „fullkomlega ástæðulaust að veita embættismönnum friðhelgi fyrir lögbrotum. Þeir verða að axla ábyrgð á sínum embættisfærslum ef þeir hafa farið á svig við lög.“
Það væri hægt að „afgreiða Ásgeir í 250 orðum. (Leiðarar í Fbl. eru 450-500).[...]Það væri hægt að gera þrjár mismunandi útgáfur af greininni, með svipuðu inntaki en ólíkum stíl og áherslum, og birta í sömu vikunni í þremur ólíkum miðlum. Vísi, Mbl og Fréttablaðinu.“
Vildu safna upplýsingum um stjórn samtaka gegn spillingu
Síðar saman dag sendi Íslandsdeild Transparency International, alþjóðlegra samtaka gegn spillingu, frá sér tilkynningu vegna framgangs Samherja í tengslum við fréttaflutning og eftirlits með starfsemi fyrirtækisins. „Fyrirtækið hefur fjármagnað áróðursþætti til birtinga, fjármagnað bókaskrif í áróðurstilgangi og haldið úti fordæmalausu túlkunarstríði á sögunni. Jafnvel á nefndarfundum Alþingis hafa fulltrúar fyrirtækisins sýnt af sér hegðun sem engum er sæmandi. Í Namibíumálinu hefur fyrirtækið brugðist við með samskonar hætti og raunar gefið í. Fulltrúar fyrirtækisins hafa ógnað og njósnað um einstaklinga sem fjallað hafa um málið, kostað áróðursmyndbönd til almennings þar sem hreinum og klárum ósannindum er haldið fram og ítrekað hafa verið leiðrétt. Framganga fyrirtækisins getur ekki talist innan eðlilegra marka,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.
Páll Steingrímsson spyr félaga sína í „PR Namibia“-hópnum í kjölfar þess að tilkynningin birtist hverjir séu í forsvari fyrir Íslandsdeild samtakanna Transparency International. Honum er bent á að spyrja: „þmb [Þorstein Má Baldvinsson] út í þetta fólk. Hann veit allt um ansi mörg þeirra[...]og Jónas út í guðrunu [Johnsen, formann stjórnar Transparency International á Íslandi]. Hann þekkir eitthvað út í hennar forsögu“. Umræddur Jónas er Sigurgeirsson og rekur Almenna bókafélagið sem gaf meðal annars út bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, þar sem fjallað var með afar neikvæðum hætti um rannsókn Seðlabanka Íslands á Samherja sem hófst árið 2012. Samherji keypti stórt upplag af bókinni og gaf starfsfólki sínu í jólagjöf. Jónas var upplýsingafulltrúi Kaupþings fyrir bankahrun og er giftur Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði og oddvita Sjálfstæðisflokksins þar. Guðrún Johnsen, sem er doktor í hagfræði, vann meðal annars að gerð skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, skrifaði bók um íslenska bankahrunið, sat í stjórn Arion banka í átta ár, hefur starfað sem efnahagsráðgjafi VR og starfað í akademíu í rúm 20 ár.
Búin að ýta og ýta á á Þorstein Má
Tveimur dögum síðar, 26. apríl, deilir Páll Steingrímsson þremur hlekkjum inn í „PR-Namibia“-hópinn. Einum með stöðuppfærslu eftir Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, á Facebook þar sem hann sagði meðal annars að „viðbrögð stjórnenda Samherja í kjölfar Seðlabankamálsins og Namibíuskjalanna gefa t.d. tilefni til að ætla að þeir telji sig lúta öðrum lögmálum og annað fólk[...]Árásir Samherja á einstaka embættis- og blaðamenn taka svo hlutina alveg á nýtt og áður óþekkt stig og grafa undan því að fólk sem sinnir eftirliti og aðhaldi geti sinnt störfum sínum óhrætt.“
Annar hlekkur er stöðuuppfærsla eftir Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann Vinstri grænna, þar sem hann segir Samherja vera að nýta auð sinn í „endalausar árásir gegn fréttamanni sem þeim finnst hafa verið sér óþægur ljár í þúfu. Og í leiðinni að allri fréttastofu RÚV. Auð sem þeir hafa öðlast við að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Og sækja að einstaka starfsmönnum Seðlabankans. Þetta er ljótt. Smásálarlegt. Þráhyggjan er slík að manni verður einfaldlega illt að fylgjast með þessu.“
Þriðji hlekkurinn er grein eftir Jóhann Pál Jóhannsson, frambjóðanda Samfylkingarinnar og fyrrverandi blaðamann. Í greininni skrifaði Jóhann Páll meðal annars að stjórnmálamenn hafi meðvitað gelt eftirlitsstofnanir með útgerðinni og með aðgerðum sínum búið til ofurstéttina sem eigni sér fiskinn í sjónum. „Olígarkana sem eitra og skekkja þjóðmálaumræðu á Íslandi með því að kaupa upp fjölmiðla og pólitíkusa og reka áróðursstríð gegn blaðamönnum, embættismönnum og eftirlitsstofnunum, hverjum þeim sem ógna sérhagsmunum þeirra. Olígarka sem virðast einfaldlega hafa sagt sig úr lögum við samfélagið okkar. Yfirgangurinn mun halda áfram að eitra út frá sér og bitna á okkur öllum meðan samherjar Samherja stjórna Íslandi.“
Arna svarar með innleggi þar sem segir: „Nú þarf efnisleg svör. Ég er búin að ýta og ýta í þmb [Þorstein Má Baldvinsson]“. Í kjölfarið segir hún að það sé lítið mál „að svara kjaftæðinu í frænda mínum“, en þar á hún við Jóhann Pál, en langamma Örnu og amma Jóhanns Páls voru systur. Hún beinir svo fyrirspurn til Þorbjarnar og spyr hvort hann geti „ekki hent upp svörum á fíflið hann frænda minn?“
Nokkru síðar svarar Þorbjörn: „Klárt“.
Lestu meira:
-
2. nóvember 2022BÍ sendir umboðsmanni Alþingis ábendingu vegna máls gegn fjórum blaðamönnum
-
22. júlí 2022Hagnaður Samherja nam 17,8 milljörðum
-
15. júlí 2022„Guð minn góður, af hverju hefði ég átt að fá greiddar mútur?“
-
15. júlí 2022Fitty segir milljónirnar hafa verið ráðgjafagreiðslur frá Samherja
-
20. febrúar 2022Endalausar tilraunir til þöggunar
-
19. febrúar 2022Yfirheyrslum yfir blaðamönnum frestað
-
18. febrúar 2022Ákvæði til að verjast stafrænu kynferðisofbeldi nýtt til að gera blaðamenn að sakborningum
-
15. febrúar 2022Bjarni: „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
-
15. febrúar 2022Lýsa yfir áhyggjum og undrun yfir því að blaða- og fréttamenn fái stöðu sakborninga vegna starfa sinna
-
14. febrúar 2022Blaðamenn með stöðu sakbornings fyrir að skrifa fréttir um „skæruliðadeild Samherja“