Mynd: Samsett samsettatvinnulifid3112.jpeg
Mynd: Samsett

Ferðaþjónustu lokað, lífskjarasamningur á bláþræði og ósk um nýja atvinnustefnu

Árið 2020 verður lengi í minnum haft sem fordæmalaust. Tugir þúsunda sáu fram á að verða án atvinnu á árinu og mörg fyrirtæki stóðu frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau kæmu til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti á haustmánuðum fulltrúa atvinnulífs og fékk sýn þeirra á stöðu mála og hvernig best væri að komast út úr því ástandi sem upp var komið.

Kjarn­inn ákvað að taka ítar­leg við­töl við þetta fólk um ástandið vegna veirunnar og mesta atvinnu­leysi sem þjóðin hefur upp­lif­að. Við­tölin sem vísað er í hér að neðan birt­ust frá lokum ágúst og til loka sept­em­ber­mán­að­ar. Þriðja bylgjan svo­kall­aða var ekki skollin á Íslandi af þunga, en ljóst var að ein­hverjar hömlur myndu þurfa að vera á mann­lífi áfram um sinn. Nýbúið var að herða aðgerðir á landa­mær­um.

Hags­munir ferða­þjón­ust­unn­ar, hags­munir sam­fé­lags­ins

Fyrstur í röð­inni var Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjón­ust­unn­ar, atvinnu­greinar sem nán­ast var búið að loka í sótt­varna­skyni. Sam­talið hverfð­ist því að nokkru leyti um það og hertar aðgerðir á landa­mærum sem frá því 19. ágúst hafa falið í sér að ferða­menn þurfi að fara í tvær skimanir með sótt­kví á milli áður en þeir megi fara að blanda nokkru geði við þá sem hér á landi búa.

Jóhannes Þór sagði að taka þyrfti lang­tíma­á­hrif fjölda­at­vinnu­leysis inn í þær sviðs­myndir sem stjórn­völd væru að setja upp varð­andi efna­hags­leg áhrif mis­mun­andi sótt­varna­að­gerða. Hann sagði ferða­þjón­ust­una verða að ná við­spyrnu eins fljótt og mögu­legt væri, ann­ars myndi Ísland verða lengur að ná sér upp úr krepp­unni.

Auglýsing

„Þú getur ekki talað um hags­muni ferða­þjón­ust­unnar án þess að tala um hags­muni sam­fé­lags­ins um leið. Hags­munir ferða­þjón­ust­unnar eru í raun­inni þeir að halda 25 þús­und manns í vinnu. Að ná inn tekjum sem hafa haldið fyr­ir­tækjum á lífi sem hafa staðið undir hátt í 40 pró­sent af verð­mæta­sköpun þjóð­ar­innar í gjald­eyri und­an­farin ár. Hags­munir sam­fé­lags­ins eru að þessi atvinnu­grein geti haldið áfram að standa undir einum þriðja af öllum inn­flutn­ingi vöru og þjón­ustu til lands­ins, eins og í fyrra,“ sagði Jóhannes Þór.

Jóhannes Þór nefndi í við­tal­inu að þegar hann starf­aði við kennslu í grunn­skóla eftir hrun fjár­mála­kerf­is­ins árið 2008 hefðu hann og kollegar hans í kenn­ara­stétt séð áhrifin af atvinnu­leysi og öðrum vanda­málum heim­il­anna koma fram löngu síð­ar.

„Það er ekki fyrr en haustið 2010 sem við fórum að sjá, til dæmis í ung­linga­deild­inni þar sem ég var að kenna, stór­aukn­ingu á hegð­un­ar­vanda­mál­um, vímu­efna­vanda­málum og alls kyns aga­vanda­málum sem fylgja því aug­ljós­lega að það eru erf­ið­leikar á heim­il­un­um; langvar­andi atvinnu­leysi, fjár­hags­erf­ið­leikar eða ann­að. Þetta eru bara áhrifin á börn­in,“ sagði Jóhannes Þór.

Sagð­ist neita að horfa á vinnu­mark­að­inn sem stríðs­völl

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son fram­kvæmda­stjóri Sam­taka atvinnu­lífs­ins var næstur í röð­inni og tók á móti blaða­manni Kjarn­ans í Húsi atvinnu­lífs­ins í byrjun sept­em­ber. Atvinnu­leysi og vinnu­mark­aðs­mál – lífs­kjara­samn­ing­ur­inn – voru aðal­um­ræðu­efn­ið.

„Við tveir getum reynt hérna að rýna í krist­alskúlu og spurt okk­ur: „Mun atvinnu­á­standið á Íslandi batna í sept­em­ber, októ­ber og nóv­em­ber?“ Ég skal bara gefa þér mitt afdrátt­ar­lausa svar, að atvinnu­leysið mun halda áfram að aukast alla þessa mán­uð­i,“ sagði Hall­dór Benja­mín – og reynd­ist sann­spár.

Kröfur verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar um hækkun grunnatvinnu­leys­is­bóta voru til umræðu í sam­fé­lag­inu þarna í sum­ar­lok. Sam­tök atvinnu­lífs­ins höfðu lagst gegn slíkum hækk­unum og Drífa Snæ­dal for­seti Alþýðu­sam­bands Íslands sakað SA um mann­fjand­sam­lega afstöðu.

„Mér finnst svona munn­söfn­uður ekki sæm­andi for­seta ASÍ,“ sagði Hall­dór Benja­mín um þau orð Drífu. Hann sagð­ist hafa farið hring­inn um landið í sumar og alls staðar fengið að heyra sömu sögu frá atvinnu­rek­end­um: Þværi erfitt, þrátt fyrir atvinnu­á­stand­ið, að fá fólk til vinnu.

Stjórn­völd kynntu 20. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn að grunnatvinnu­leys­is­bætur næsta árs yrðu hækk­aðar um rúm­lega 7.000 krónur frá því sem áður var áætl­að, með sér­stöku við­bót­ar­á­lagi. Þær verða því 307.430 krón­ur.

Í við­tal­inu ræddi Hall­dór Benja­mín um að Íslend­ingum hefði sem þjóð mis­tek­ist að ná fram hag­kvæmni. „Við erum föst í viðjum van­ans og erum of hrædd við að gera drastískar breyt­ing­ar, sama hvort við horfum inn í heil­brigð­is­kerf­ið, mennta­kerfið eða stjórn­kerf­ið. Ég vil meina að skipu­lag á vinnu­mark­aði sé ekki ákjós­an­legt heldur og það sé kostn­að­ar­samt og búi til sóun í kerf­in­u,“ sagði Hall­dór Benja­mín.

Í því sam­hengi benti hann á að eitt og hálft ár væri liðið frá því að lífs­kjara­samn­ing­ur­inn var und­ir­rit­að­ur, en að ekki væri enn búið að ljúka kjara­lot­unni. Mögu­leiki væri þannig á að samn­ingnum yrði sagt upp án þess að búið væri að semja við öll félög á hans grunni. Það gerð­ist þó ekki – þrátt fyrir að Sam­tök atvinnu­lífs­ins lýstu yfir for­sendu­bresti – sem leiddi til mik­ill­ar störu­keppni á vinnu­mark­að­i. 

Segja má að rík­is­stjórnin hafi á end­anum orðið fyrst til að blikka, en kynn­ing 25 millj­arða króna aðgerða­pakka þann 29. sept­em­ber leiddi til þess að Sam­tök atvinnu­lífs­ins ákváðu að láta kjara­samn­inga standa.

Stjórn­völd verði að hætta að velja sig­ur­veg­ara

„Það eru mjög stórar ákvarð­anir og stra­tegískar sem bíða þess að vera tekn­ar, um það á hverju við ætlum að byggja verð­mæta­sköp­un­ina,“ sagði Sig­urður Hann­es­son við blaða­mann Kjarn­ans í við­tali sem birt­ist 14. sept­em­ber. 

Auglýsing

Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að ferða­þjón­ustan hefði á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórn­valda á sama tíma og önnur vaxt­ar­tæki­færi hafi farið for­görð­um. Það sama megi ekki ger­ast nú – stjórn­völd þurfi að hætta að velja sig­ur­veg­ara.

„[É]g held því fram, og við hjá Sam­tökum iðn­að­ar­ins, að á næstu einum til tveimur árum verði teknar ákvarð­anir sem muni ráða því hvernig fram­tíðin til næstu tíu, tutt­ugu og jafn­vel þrjá­tíu ára verði í þessu sam­heng­i,“ segir Sig­urður og bætir við að Sam­tök iðn­að­ar­ins hafi árum saman kallað eftir því að stjórn­völd móti hér atvinnu­stefnu.

„Það hrökkva ýmsir í kút þegar þetta orð er nefnt, því það er ekki vel skil­greint hug­tak og hefur breyst í tím­ans rás. Ef við förum langt aftur í tím­ann, segjum 100 ár, þá byggði atvinnu­stefna – ekki bara hér á landi heldur víðar – á miklum rík­is­af­skiptum og eign­ar­haldi rík­is­ins á atvinnu­rekstri. Síðan kom tíma­bil þar sem stjórn­völd völdu sig­ur­veg­ara og þar á eftir kom tíma­bil einka­væð­ingar og kannski afskipta­leys­is,“ sagði Sig­urð­ur. Atvinnu­stefna stjórn­valda í dag ætti hins vegar að snú­ast um að auka sam­keppn­is­hæfni með umbót­um.

Sig­urður sagði að efna­hags­að­gerðir stjórn­valda vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins sýndu „svart á hvítu“ að stjórn­völd væru með atvinnu­stefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æski­lega.

„Sú atvinnu­stefna gengur út á það að velja sig­ur­veg­ara og þar er raunar einn sig­ur­veg­ari sem er á blaði og það er ferða­þjón­ust­an. Aðgerðir stjórn­valda miða fyrst og fremst við að bjarga ferða­þjón­ust­unni. Það er skilj­an­legt, með hlið­sjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjöl­mörg störf undir og greinin mun sann­ar­lega ná fyrri styrk, það er bara spurn­ing um tíma, en á sama tíma eru tæki­færi sem fara for­görðum vegna þess að athygli stjórn­valda bein­ist ekki að þeim,“ sagði Sig­urð­ur. 

Alltaf til að taka umræð­una

Kjarn­inn hitti Heiðrúnu Lind Mart­eins­dóttur fram­kvæmda­stjóra Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi undir lok mán­að­ar­ins. Á meðal þess sem var til umræðu var staðan á útflutn­ings­mörk­uðum fyrir íslenskan fisk og sú við­var­andi umræða sem er í sam­fé­lag­inu um sjáv­ar­út­veg og það hversu miklu atvinnu­greinin skil­ar, eða ætti að skila, í fjár­hirslur rík­is­ins.

Heiðrún Lind sagði ágætt að talað væri um sjáv­ar­út­veg, það sem hann skap­aði og skil­aði til sam­fé­lags­ins. „Allt er þetta eðli­leg umræða og við eigum að taka hana, sama á hvaða tíma hún kem­ur. En það er hins vegar mik­il­vægt, nú sem fyrr, að við séum með traustar stoðir undir efna­hag lands­ins,“ sagði Heiðrún Lind og nefndi að tvær hinar stóru stoð­irn­ar, ferða­þjón­ustan og álið, ættu undir högg að sækja.

„Þá hefði ég talið þeim mun mik­il­væg­ara að umræðan sner­ist um það hvernig við skjótum styrk­ari stoðum undir sjáv­ar­út­veg. Hvernig getur hann skapað meira verð­mæti? Umræð­an, því mið­ur, er stundum á þann veg eins og einu verð­mætin geti falist í veiði­gjaldi eða gjaldi fyrir nýt­ingu auð­lind­ar­inn­ar,“ sagði Heiðrún Lind.

„Það að skatt­leggja grein­ina úr hófi mun leiða til þverr­andi sam­keppn­is­hæfni. Það mun draga úr fjár­fest­ing­um, það verður minna svig­rúm til að fjár­festa í nýsköpun og mark­aðs­starfi, öllu því sem á að leiða til verð­mæta­sköp­un­ar. Vel má vera að aukin gjald­taka leiði til þess að meiri fjár­munir fara í rík­is­sjóð til skamms tíma, en til lengri tíma litið mun það þýða þverr­andi sam­keppn­is­hæfni og minni verð­mæti. Og þannig að end­ingu minni verð­mæti til bæði rík­is­sjóðs og sam­fé­lags­ins.

Mér finnst umræðan oft ein­földuð að þessu leyti, eins og að verð­mætin verði til með því að við fáum skatt í formi auð­linda­gjalds­ins. Ef að tekjur rík­is­ins á ári eru ríf­lega 900 millj­arðar króna, þá hefur einn millj­arður til eða frá í formi veiði­gjalds ekki úrslita­á­hrif í því hvort okkur tak­ist að reka Land­spít­al­ann þannig að sómi sé af eða byggja tvær Hörpur á ári eða hvað sem að menn vilja að verði gert fyrir gjald af nýt­ingu auð­linda,“ sagði Heiðrún Lind.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar