Um síðustu helgi var birt frétt á fréttasíðu Víkurfrétta, bæjarfjölmiðils á Suðurnesjum. Fréttin er stutt en fyrirsögn hennar er: „Slógust með hnífum á gistiheimili“. Hún fjallar um að átök hafi átt sér stað á gistiheimili á vegum Útlendingastofnunar á Ásbrú. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta slógust menn á gistiheimilinu og „komu hnífar við sögu í átökunum“. Í niðurlagi fréttarinnar segir að lögreglumenn hafi komið „ró á mannskapinn og enginn mun hafa slasast.“
DV.is, einn mest sótti fréttavefur landsins, tók fréttina upp og birti sína eigin útgáfu. Þar var endurtekið að þeir sem tekið hefðu þátt í átökunum hefði verið vopnaðir hnífum og að gistiheimilið þar sem þau hafi átt sér stað væri á vegum Útlendingastofnunar.
Fordómar og hatur
Ekki eru leyfðar athugasemdir við fréttir á vef Víkurfrétta. Á sjöunda hundrað manns hafa hins vegar annað hvort deilt fréttinni á Facebook eða líkað við hana. Hún var m.a. sett inn í Facebook-hópinn „Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri“. Textinn sem fylgdi með þeirri deilingu var eftirfarandi: „Gerum góðan bæ betri, ekki verður hann betri allavega við að fá þessa hælisleitendur í hverfi innanum börn og fullorðna.“
Umræður sem fylgdu í kjölfarið voru allar á þeim forsendum að hælisleitendur sem vistaðir væru á Ásbrú hefðu slegist með stórhættulegum vopnum, og væri stórhættulegt fólk sem eitraði samfélag okkar. Innsláttar- og málfarsvillur í eftirfarandi upptalningu eru látnar standa óbreyttar.
Gunnar setti inn athugasemd og skrifaði: „Burtu með þessa menn ur landi með næstu vel bless.“ Ragnar tók þátt og bætti við: „geðslegt að hrúga þessu fólki eftirlitslausu innan um allar barnafjölskyldurnar hér !!!! En því miður eru íslendingar í neðsta sæti hjá þessum pólitískt rétttrúaða hyski sem stjórnar landinu !!!!!“
Ólafur skrifaði: „Burtu með þettað hyski. Hanna tók undir og skrifaði: „Já burt með þá“. Rakel kvað fastari að orði: „Þetta er bara rétt byrjunin á þessarri óöld hér, að hrúga þessum ungu fullfrísku allavega mönnum á okkur.“ Hófí skrifaði athugasemd af svipuðu meiði: „Æi....sendið bara þessa menn heim til sin...er viss um að við fengjum frímerkið heim..ef við myndum haga okkur svona í öðru landi…“ Berglind setti síðan endapunktinn við umræðuna með því að skrifa m.a. „...Burt þes þessa einsteruógeðis karla“.
Á DV.is kemur fram að á sjöunda hundrað manns hafi líkað við eða deilt frétt af vefnum um málið. Þar eru ummæli leyfð við fréttir og ýmsir sem leggja orð í belg um þessa. Þorsteinn skrifaði t.d.: „Úr landi með þetta fólk það vantar íbúðir fyrir okkar fólk.“ María skrifaði: „Ùt ùr landinu með þetta lið sem kallast gerviflòttamenn.........fòlk vaknið! Viljið þið að Ìsland verði eins og Evròpa? Ef ekki.....þá mòtmælið þessum innflutningi fòlks...“. Lárus bætti við: „Sama hversu lengi þið berjið höfði við stein! EKKI ER HÆGT AÐ BLANDA VATNI OG OLÍU! Siðferði múslima er einfaldlega annað en okkar, þess vegna þurfa þeir sín eigin Sharíalög! Það þýðir ekkert að troða ferköntuðu í hringlaga, nema annað gefi sig! Fórnum ekki eigin sið; verðum ekki íslam að bráð!“
Tryggvi tók þátt og skrifaði: „hefi sagt það áður, og segi enn; - burt með alla múslima frá Íslandi!“. Sigmar gekk þó líkast til lengst allra þegar hann skrifaði: „Ef þeir eru ekki farandi um í hópum um Reykjanesbæ stelandi öllu steini léttara og eru með kynferðislegt áreiti við börn þá berjast þeir með hnífum. Ætla hirðfíflin í Rauða krossinum, „no border“ og rétttrúnaðar fáráðlingarnir að bera ábyrgð á þessu liði, ætla þeir að taka þetta fólk inn til sín, koma þeim fyrir í 101 Reykjavík eða ætla þeir öðrum um að sitja uppi með ofbeldið og neyðast til að víggirða sig fyrir ósköpunum með tilheyrandi skerðingu á frelsi og lífsgæðum sem fábjánunum er svo annt um fyrir sjálfa sig?“ Reynir sló svo botninn í umræðuna með því að skrifa: „Ásbrú að verða firsta No-go zone á Íslandi, Hafnarfjörður verður númer 2“.
Falsfrétt
Það er búið að uppfæra fréttina sem birtist á vef Víkurfrétta og var öll samkvæmt heimildum miðilsins. Nú hefur verið bætt við hana leiðréttingu vegna þess að sagt var upphaflega að gistiheimilið væri á vegum Útlendingastofnunar. Það er hins vegar rangt. Sú leiðrétting hefur ekki skilað sér til DV.is.
Auk þess verður að teljast rökrétt að álykta að atvikið hafi ekki verið mjög alvarlegt, og átökin ekki mjög hættuleg, í ljósi þess að viðbrögð lögreglu sem kom á staðinn voru einungis þau – samkvæmt fréttinni— að koma „ró á mannskapinn“. Ef menn hefðu reynt að stinga eða skera hvorn annan með stórhættulegum eggvopnum þá er enginn vafi á því að þeir hefðu verið handteknir vegna gruns um stórfellda líkamsárás eða jafnvel manndrápstilraun. Og ekki hefur neins staðar komið fram að þeir sem tóku þátt í meintum átökum séu múslimar. Raunar hefur ekkert verið minnst á þjóðerni eða trúarskoðun þeirra í þeim fréttum sem skrifaðar voru.
Samandregið þá var upphaflega frétt Víkurfrétta, sem og endursögn DV.is, bull. Þetta var svokölluð falsfrétt, sem byggði ekki á neinum staðreyndum. Af hverju vefur Víkurfrétta ákvað að gera frétt upp úr ekki betri upplýsingum, sem reyndust síðan vera rangar, sem skapaði þau hugrenningatengsl hjá lesendum að hælisleitendur, sem væru líklega múslimar, hefðu átt í hnífabardaga innan um íslenskar barnafjölskyldur, ætla ég ekki að segja til um.
Það blasir hins vegar við af þeim umræðum sem spunnust um falsfréttina að þau hugrenningatengsl voru orðin að staðreyndum hjá ansi mörgum sem voru að leita sér að staðfestingu á eigin fordómum gagnvart hælisleitendum og öðrum innflytjendum.
Valkvæðar staðreyndir til að staðfesta fordóma
Ofangreint dæmi er alls ekki einsdæmi í íslenskri umræðu. Þar skipta raunveruleikinn og staðreyndir minna og minna máli. Það sem fólki finnst, tilfinning þess, er nóg til að skapa valkvæðar staðreyndir (e. alternative facts).
Fólk sem af annað hvort hræðslu við hið óþekkta, af fullkominni vanþekkingu eða jafnvel af hatri, leitar uppi upplýsingar sem það telur geta stutt við að heimurinn sé eins og þeim finnst hann vera, þótt staðreyndir segi annað.
Þetta er mjög ráðandi í umræðu um innflytjendamál. Það eru líkast til allir sammála um að bæta þarf málsmeðferð hérlendis þegar kemur að hælisleitendum. Koma þarf í veg fyrir að fjöldi fólks frá löndum sem falla ekki undir þau skilyrði sem við setjum fyrir móttöku flóttafólks flykkist hingað og gera þarf ráðstafanir til að stytta málsmeðferðartíma hvers umsækjanda umtalsvert. Þannig drögum við úr komum þeirra sem við munum hvort eð er ekki veita hæli og getum tekið við enn fleirum sem uppfylla þau skilyrði og klárað mál þeirra innan skynsamlegs tímaramma. Það er nefnilega staðreynd, studd vísindalegum gögnum, að ef Ísland ætlar að halda áfram að vaxa efnahagslega, og vera velferðarsamfélag sem veitir sterka grunnþjónustu, þá þarf innflytjendum að fjölga gífurlega hérlendis á næstu árum.
Flóttamenn eru góð fjárfesting
En eru hælisleitendur, innflytjendur og útlendingar einhvers konar vandamál á Íslandi? Skoðum fyrst hælisleitendur, sem flestir eru flóttamenn aðstæðna í heimalandi sínu. Þeim fjölgar eðlilega hérlendis líkt og annarsstaðar í hinum vestræna heimi. Samkvæmt tölum sem birtar eru á vef Útlendingastofnunar sóttu 1.132 um vernd hérlendis á árinu 2016. Af þeim var alls 111 manns veitt vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi til að dvelja á Íslandi. Öðrum var annað hvort synjað, þeir endursendir, veitt vernd í öðru ríki eða drógu til baka umsóknir sínar. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 sóttu alls 500 manns um vernd. Á árinu hafa 61 fengið vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Í desember 2016 voru 820 umsækjendur hérlendis annað hvort þjónustaðir af sveitarfélögum eða Útlendingastofnun. Þeim hefur farið hratt fækkandi og 1. júlí voru þeir 548 talsins. Því virðist málsmeðferð vera að batna.
Þessi fjöldi getur varla talist baggi – hvorki efnahagslegur né samfélagslegur – á mjög ríku landi. Í raun má færa mjög sterk rök fyrir því að Íslandi beri að taka við miklu fleiri flóttamönnum í ljósi þeirra ömurlegu aðstæðna sem ríkja í mörgum löndum heims. Við getum það sannarlega, en kjósum að gera það ekki.
Rannsóknir sýna að flóttamenn hafi almennt jákvæð efnahagsleg áhrif og séu ekki byrði á samfélögum til lengri tíma, þótt móttaka þeirra geti stundum verið kostnaðarsöm. Þannig séu langtímaáhrif af aukinni móttöku flóttamanna jákvæð. Þeir leiða því ekki af sér „sokkin kostnað“, líkt og misvitrir stjórnmálamenn í leit að skyndivinsældum halda fram, heldur eru þeir hagkvæm langtímafjárfesting, ef horft er á þá einvörðungu út frá hagfræðilegu sjónarhorni.
Um þetta var t.d. fjallaði í leiðara í The Economist árið 2015. Þar sagði: „Fólk sem ferðast yfir eyðimerkur og úthöf til að komast til Evrópu er ólíklegt til að vera slugsarar þegar það kemur. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að innflytjendur um allan heim séu líklegri til að stofna fyrirtæki heldur en heimamenn og ólíklegri til að fremja alvarlega glæpi, auk þess að vera nettó greiðendur í ríkiskassann. Óttinn um að þeir steli störfum og lækki laun á sér einnig litla stoð.“
Borga með sér
Ísland er að upplifa mesta góðærisskeið sitt í sögunni. Hér er gríðarlegur hagvöxtur, atvinnuleysi er nánast ekkert og kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri. Þessi vöxtur er drifinn áfram af innfluttu vinnuafli. Útlendingum sem koma hingað til lands til að vinna. Ástæðan er sú að Íslendingar eru ekki nógu margir til að standa undir þessum vexti. Frá byrjun árs 2013 hefur erlendum ríkisborgurum hérlendis fjölgað um 12.550. Á síðasta ársfjórðungi einum saman fjölgaði þeim um 3.130. Alls eru erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi nú 34.460, eða tíu prósent landsmanna. Þeir hafa aldrei verið fleiri.
Á árinu 2015 voru erlendir ríkisborgarar t.d. 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda. Þeir styrkja því samneysluna líka. Það er því bein fylgni milli þess að erlendum ríkisborgurum fjölgar hérlendis og þess að lífskjör batni.
Vinsæl fullyrðing hjá andstæðingum fjölmenningar er að halda því fram að innflytjendur séu flestir „velferðartúristar“. Þ.e. að þeir flytji til betur settri landa til að leggjast á velferðarkerfi þeirra. Til að lifa á félagslegri framfærslu. Líkt og áður sagði hefur útlendingum sem hingað flytja fjölgað meira en nokkru sinni áður á undanförnum árum. Á sama tíma hefur þeim heimilum sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum fækkað á hverju ári frá 2013. Í fyrra fækkaði þeim um 16,3 prósent og útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar lækkuðu um 792 milljónir króna á milli 2015 og 2016, eða um 17,6 prósent. Útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækkuðu að sama skapi um 1,5 milljarða króna í fyrra og 2,5 milljarða króna árið á undan. Samkvæmt þessu er engin fylgni milli þess að útlendingum hérlendis fjölgi og aukningu á fjárhagsaðstoð hins opinbera.
Þá benda engar tölur til þess að fjölgun útlendinga hérlendis hafi leitt af sér aukna glæpatíðni.
Stjórnmálamenn hræra í rasista-pottum
Samt grassera hér fordómar, útlendingahatur og menningarlegur rasismi. Stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar hræra iðulega í þessum pottum til að reyna að afla sér aukins fylgis. Sá málflutningur byggir aldrei á neinu nema tilfinningu. Aldrei eru nein gögn lögð fram máli þeirra til stuðnings.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, hefur verið einna duglegust við slíkt. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur einnig lagt sín vog á vogarskálarnar. Íslenska þjóðfylkingin sömuleiðis. Og bragð mánaðarins í íslenskum stjórnmálum, Flokkur fólksins, virðist líka ætla að „taka umræðuna“ við „rétttrúnaðarkenningarnar“ þrátt fyrir að engar tölur styðji við hræðsluáróðurinn sem er undirliggjandi í þeim málflutningi. Ritstjóri Morgunblaðsins og helstu fylgitungl hans hafa einnig mátað sig vandlega við aukna einangrunarhyggju, óundirbyggðan hræðsluáróður og útlendingaandúð sem byggir á málflutningi sem á sér ekki stoð í hagtölum. Né raunveruleikanum.
Af hverju ákveða þessir aðilar, og fjölmargir aðrir, að gera þennan ömurlega málflutning að sínum? Vegna þess að það er markaður fyrir honum. Evrópunefnd gagnvart kynþáttafordómum og umburðarleysi, sem er sjálfstæð eftirlitsnefnd, gaf t.d. út skýrslu árið 2010 sem sýndi að 30 prósent Íslendinga vildu takmarka fjölda innflytjenda til landsins. Einn þriðji þess hóps, um tíu prósent landsmanna, vildi takmarka komu fólks með annan litarhátt, trú og menningu en meirihluti Íslendinga. Miðað við þá orðræðu sem sést á samfélagsmiðlum og í völdum fjölmiðlum í dag má ætla að þessi hópur hafi stækkað frekar en hitt.
Verið að hengja innflytjenda fyrir elítu
Ástæðan er einföld. Þrátt fyrir hið mikla góðæri þá finnst stórum hópum landsmanna þeir vera skildir eftir. Að þeir njóti ekki aukinna lífsgæða. Þetta eru t.d. hópar sem eiga í húsnæðisvanda, eldri borgarar og öryrkjar sem gert er að lifa við sultarmörk, fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni og ekki haft bakland til að takast á við þau fjárhagslega. Fólk sem vinnur í atvinnugreinum sem aukin alþjóðavæðing og tækniframþróun ógnar. Og ýmsir aðrir. Í stuttu máli, fólk sem finnst lífið ekki sanngjarnt. Og leitar af sökudólgum fyrir því. Þar eru innflytjendur, og sérstaklega flóttamenn, auðveld bráð.
Þegar rýnt er í hagtölur og fyrirliggjandi staðreyndir blasir þó við hver ástæðan er fyrir því að þessi stóri hópur landsmanna finnst hann skilin eftir í lífsgæðakapphlaupinu. Hann hefur ekkert með útlendinga að gera, heldur aukna misskiptingu gæða. Ísland býr til meiri og meiri gæði á hverju ári – flest með nýtingu á náttúruauðlindum sem eru í orði í sameign þjóðar – en lítill hópur fjármagnseigenda tekur alltaf stærri og stærri hluta þessara gæða til sín. Á sama tíma hefur grunnþjónusta veikst vegna þess að ekki hefur verið fjárfest nægjanlega mikið í henni til að þjónustustigið sé boðlegt. Og þegar við bætist að skortur er á húsnæði á markaði, að húsnæðisverð hefur hækkað þrisvar sinnum hraðar en laun undanfarna tólf mánuði – og alls hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um meira en 80 prósent frá 2010 – þá er reiðin og örvæntingin miklu skiljanlegri. Stór hópur landsmanna nær ekki að láta enda ná saman, telur sig ekki fá nægjanlega þjónustu úr samneyslunni og getur nú ekki fundið sér þak yfir höfuðið. Á meðan mokgræðir efsta lag samfélagsins á samfélagsgerðinni og kerfunum sem við erum með til staðar.
Þetta er ekki bara tilfinning, heldur er það stutt vísindalegum rökum að lagskipting hérlendis hefur aukist verulega og að sú mantra um að félagslegur og efnahagslegur jöfnuður hérlendis sé meiri en annars staðar í hinum vestrænum heimi sé beinlínis röng. Þá sýna hagtölur að lítill hópur fjármagnseigenda tekur til sín sífellt stærri hluta þeirra eigna sem verða til í íslensku samfélagi.
Í kerfislægum ójöfnuði liggur helsta samfélagsmein Íslendinga. Það sem orsakar þær óásættanlegu aðstæður sem stórir hópar búa við hérlendis. Þær aðstæður hafa hins vegar ekkert með innflytjendur eða flóttamenn að gera. Og það er óheiðarlegt að reyna að skapa þau hughrif til að beina sjónum frá rótum vandans. Þá er verið að hengja innflytjanda fyrir elítu.