61% líkur á að vinstrikvartettinn geti myndað meirihluta
Flokkarnir fjórir sem hafið hafa þreifingar um meirihlutasamstarf að loknum kosningum fengu eins manns meirihluta í aðeins 61% 100.000 sýndarkosninga í Kosningaspánni.
Samanlagt eru 61 prósent líkur á því að Píratar, Vinstri græn, Björt framtíð og Samfylkingin geti myndað eins manns meirihluta á Alþingi að loknum kosningum ef marka má þingsætaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Þingsætaspáin byggir á upplýsingum sem má finna í fyrirliggjandi könnunum á fylgi stjórnmálaflokka sem gerðar hafa verið í aðdraganda kosninganna á laugardaginn.
Forsvarsmenn þessara fjögurra flokka hittust um liðna helgi og ræddu mögulegt ríkisstjórnarsamstarf að kosningum loknum og er ráðgert að fulltrúar flokkanna hittist aftur á morgun til að halda þessum viðræðum áfram.
Ljóst er af niðurstöðum kosningaspárinnar að ólíklegt er að þessir flokkar geti myndað sterkan meirihluta á þinginu, og alls ekki víst að þeim takist að mynda meirihluta yfir höfuð.
Þingsætaspáin er reiknilíkan sem framkvæmir 100.000 „sýndarkosningar“ þar sem niðurstöður fyrirliggjandi kannana eru hafðar til grundvallar. Líkanið hönnuðu stærðfræðingarnir Baldur Héðinsson og Stefán Ingi Valdimarsson með það að markmiði að reikna líkur á því að einstaka frambjóðandi nái kjöri í Alþingiskosningunum. Skoðanakannanir í aðdraganda Alþingiskosninga 2009 og 2013 voru notaðar til að sannprófa þingsætaspána, þar sem spáin er borin saman við endanlega úthlutun þingsæta.
Hér að neðan er rýnt í samanlagðar líkur á því hversu marga þingmenn einstaka flokkur getur náð á landsvísu miðað við fyrirliggjandi kannanir. Kjarninn hefur undanfarna daga fjallað um niðurstöður þingsætaspárinnar. Á mánudag voru landsbyggðarkjördæmin þrjú tekin fyrir; Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Á þriðjudag var fjallað um þrjú stærstu kjördæmi landsins; Reykjavíkurkjördæmi Norður, Reykjavíkurkjördæmi Suður og Suðvesturkjördæmi.
Nánar má lesa um framkvæmd þingsætaspárinnar á Kosningaspárvef Kjarnans þar sem allar niðurstöður Kosningaspárinnar verða aðgengilegar fram að kosningum og kosningaúrslitin að þeim loknum.
Samfylkingin og Björt framtíð fallvöltust
Áður en við förum að púsla saman hugsanlegum þingmeirihlutum skulum við líta á möguleika einstaka flokka til að ná mönnum á þing í töflu #1 hér að neðan. Eins og það sem kjördæmatöflurnar á kosningavef Kjarnans sýna þá eiga Sjálfstæðismenn langmestan möguleika á að eiga stærsta þingflokkinn að afstöðnum kosningum. Í öllum 100.000 hermunum sýndarkosninganna náðu 12 fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kjöri. Í tæplega helming hermananna varð þingflokkurinn 17 þingmenn og í einu prósent tilvika fékk flokkurinn 21 þingmann kjörinn.
Þetta rímar við fylgiskannanir á landsvísu sem sýna að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgis meðal kjósenda. Næst stærstir eru Píratar og þeir munu fá, ef þingsætaspáin gengur eftir, minnst níu þingsæti. Í öllum sýndarkosningunum fékk flokkurinn níu þingsæti, í 60 prósent tilvika fékk flokkurinn 13 þingsæti. Aðeins tvö prósent líkur eru á að þingflokkur Pírata muni telja 17 þingmenn.
Þetta kemur heim og saman við kjördæmatöflurnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætla að eiga flest örugg þingsæti í öllum kjördæmum nema í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Birgitta Jónsdóttir mun leiða Pírata til sigurs, ef þingsætaspáin reynist rétt.
Þingmenn | A | B | C | D | P | S | V |
---|---|---|---|---|---|---|---|
>=24 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
>=23 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
>=22 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
>=21 | 0% | 0% | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% |
>=20 | 0% | 0% | 0% | 4% | 0% | 0% | 0% |
>=19 | 0% | 0% | 0% | 13% | 0% | 0% | 0% |
>=18 | 0% | 0% | 0% | 28% | 0% | 0% | 0% |
>=17 | 0% | 0% | 0% | 49% | 2% | 0% | 0% |
>=16 | 0% | 0% | 0% | 71% | 6% | 0% | 0% |
>=15 | 0% | 0% | 0% | 88% | 16% | 0% | 1% |
>=14 | 0% | 0% | 0% | 97% | 35% | 0% | 3% |
>=13 | 0% | 0% | 0% | 99% | 60% | 0% | 10% |
>=12 | 0% | 0% | 1% | 100% | 82% | 0% | 25% |
>=11 | 0% | 1% | 5% | 100% | 94% | 0% | 49% |
>=10 | 0% | 3% | 16% | 100% | 99% | 0% | 73% |
>=9 | 1% | 9% | 37% | 100% | 100% | 0% | 90% |
>=8 | 4% | 24% | 62% | 100% | 100% | 2% | 97% |
>=7 | 14% | 47% | 83% | 100% | 100% | 7% | 99% |
>=6 | 33% | 72% | 95% | 100% | 100% | 20% | 100% |
>=5 | 59% | 90% | 99% | 100% | 100% | 42% | 100% |
>=4 | 82% | 98% | 100% | 100% | 100% | 68% | 100% |
>=3 | 92% | 100% | 100% | 100% | 100% | 82% | 100% |
>=2 | 92% | 100% | 100% | 100% | 100% | 83% | 100% |
>=1 | 95% | 100% | 100% | 100% | 100% | 92% | 100% |
Fimm af þeim sjö flokkum sem mældir eru í Kosningaspánni fengu mann kjörinn í öllum 100.000 hermunum sýndarkosninganna. Tveir flokkar þurkuðust út í einhverjum tilvikum. Það eru Björt framtíð og Samfylkingin sem eru fallvöltust framboðanna. Samkvæmt þingsætaspánni þá eru átta prósent líkur á því að Samfylkingin hverfi af Alþingi eftir kosningarnar á laugardaginn. Fimm prósent líkur eru á að Björt framtíð fái ekki mann kjörinn.
Þessir tveir flokkar munu jafnframt eiga minnstu þingflokkana ef þeir ná kjöri. Séu niðurstöður allra sýndarkosninganna birtar fyrir hvert framboð getum við séð hvernig þingsætafjöldinn dreifðist og áttað okkur á líklegustu niðurstöðunni.
Eins og sést í töflu #2 þá fékk Samfylkingin oftast fjóra þingmenn kjörna í sýndarkosningunum 100.000, eða í 26 prósent tilvika. Nærri því jafn oft, eða í 26 prósent tilvika, fékk Björt framtíð fimm þingmenn kjörna. Þetta er því líklegasta niðurstaða kosninganna fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Þess bera að geta að í 22 prósent tilvika fékk Samfylkingin fimm þingmenn kjörna og nærri því jafn oft fékk Björt framtíð aðeins fjóra þingmenn. Hér eru vikmörk þingsætaspárinnar að verki.
Út frá þessari töflu má ætla að átta prósent líkur séu á að Samfylkingin nái ekki kjöri og fimm prósent líkur á því að Björt framtíð nái ekki kjöri. Að sama skapi eru auðvitað 92 prósent líkur á að Samfylkingin fái í það minnsta einn fulltrúa og 95 prósent líkur á að Björt framtíð verði áfram á Alþingi.
Eðli vikmarka Kosningaspárinnar er að þau stækka eftir því sem fylgi við framboðin eykst. Þingsætaspáin dreifir fjölda þingmanna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum, þess vegna aðeins meira en í hinum framboðunum. Oftast hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 16 þingmenn kjörna eða í 22 prósent tilvika. Í 20 prósent tilvika var þingflokkurinn 17 þingmenn.
Þingmenn | A | B | C | D | P | S | V |
---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 5% | 0% | 0% | 0% | 0% | 8% | 0% |
1 | 3% | 0% | 0% | 0% | 0% | 9% | 0% |
2 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 1% | 0% |
3 | 10% | 2% | 0% | 0% | 0% | 14% | 0% |
4 | 23% | 8% | 1% | 0% | 0% | 26% | 0% |
5 | 26% | 18% | 4% | 0% | 0% | 23% | 0% |
6 | 20% | 25% | 11% | 0% | 0% | 13% | 0% |
7 | 10% | 24% | 21% | 0% | 0% | 5% | 2% |
8 | 3% | 15% | 25% | 0% | 0% | 1% | 8% |
9 | 1% | 6% | 20% | 0% | 1% | 0% | 17% |
10 | 0% | 2% | 11% | 0% | 5% | 0% | 24% |
11 | 0% | 1% | 4% | 0% | 12% | 0% | 23% |
12 | 0% | 0% | 1% | 1% | 22% | 0% | 15% |
13 | 0% | 0% | 0% | 3% | 25% | 0% | 7% |
14 | 0% | 0% | 0% | 8% | 19% | 0% | 2% |
15 | 0% | 0% | 0% | 17% | 10% | 0% | 1% |
16 | 0% | 0% | 0% | 22% | 4% | 0% | 0% |
17 | 0% | 0% | 0% | 21% | 1% | 0% | 0% |
18 | 0% | 0% | 0% | 15% | 0% | 0% | 0% |
19 | 0% | 0% | 0% | 8% | 0% | 0% | 0% |
20 | 0% | 0% | 0% | 3% | 0% | 0% | 0% |
21 | 0% | 0% | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% |
22 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
23 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
24 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% |
Það þarf miklu fleiri en tvo til að dansa tangó
Ef við gefum okkur að sá þingmannafjöldi sem flokkarnir fengu oftast verði niðurstaða kosninganna á laugardaginn er hægt að bjóða í örlítinn samkvæmisleik og raða í stæti við ímyndað ríkisstjórnarborð. Nú þegar hafa fulltrúar stjórnmálaflokkana rætt heilmikið um hugsanlegt samstarf þeirra á milli að kosningum loknum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til dæmis á fundi Félags kvenna í atvinnulífinu á dögunum að hann hefði heilmiklar áhyggjur af stöðunni því það er alls ekki á hreinu hver eða hverjir eiga að leiða stjórnarmyndunarviðræður ef niðurstaðan verður á þá leið sem skoðanakannanir benda til. Það mun þurfa fleiri en tvo flokka til.
Kjarninn hefur fjallað um þessa hugsanlegu stjórnarkreppu og bent á að Guðni Th. Jóhannesson gæti átt erfitt verkefni fyrir höndum við sína fyrstu stjórnarmyndanir eftir að hann tók við embætti forseta Íslands í sumar. Ekki bætir úr skák að einhverjir flokkar hafa útilokað samstarf með öðrum og aðrir flokkar gefið misvísandi skilaboð um hvað þeir muni gera eftir kosningar.
Fjórir flokkar hafa þegar fundað um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf að loknum kosningum. Það eru Píratar (P), Vinstri græn (V), Björt framtíð (A) og Samfylkingin (S). Þessir flokkar munu, samkvæmt líklegustu niðurstöðu kosninganna, fá 13, 10, 5 og 4 þingmenn (í þeirri röð sem flokkarnir voru taldir upp). Slíkt dugar fyrir einfaldan meirihluta á Alþingi, með 32 þingmenn gegn 31 stjórnarandstöðuþingmanni.
Í kosningaspánni er hægt að finna líkur á því hversu marga þingmenn flokkarnir munu fá samanlagt í kosningunum. Aðeins 61 prósent líkur eru á því að samstarf þessara fjögurra flokka muni duga til þess að mynda 32 manna – eins manns – meirihluta á þinginu. Það þýðir að í 61 prósent 100.000 hermana sýndarkosninganna fengu þessir flokkar samanlagt 32 þingmenn kjörna.
Líkurnar eru enn minni ef þröskuldurinn fyrir ásættanlegan meirihluta hækkar. 27 prósent líkur eru til dæmis á því að þessir flokkar geti myndað 34 manna meirihluta á þinginu að loknum kosningum.
Flokkur | BD | BCD | DV | DP | PV | APV | APSV | ACPSV | ACPV |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
>=40 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 61% | 8% |
>=39 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 77% | 15% |
>=38 | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 1% | 88% | 27% |
>=37 | 0% | 1% | 0% | 0% | 0% | 0% | 3% | 95% | 43% |
>=36 | 0% | 3% | 0% | 1% | 0% | 0% | 7% | 98% | 59% |
>=35 | 0% | 7% | 0% | 2% | 0% | 0% | 15% | 99% | 75% |
>=34 | 0% | 14% | 0% | 4% | 0% | 1% | 27% | 100% | 86% |
>=33 | 0% | 25% | 1% | 9% | 0% | 3% | 44% | 100% | 94% |
>=32 | 0% | 39% | 2% | 18% | 0% | 7% | 61% | 100% | 97% |
>=31 | 0% | 56% | 6% | 31% | 0% | 15% | 75% | 100% | 99% |
>=30 | 0% | 73% | 13% | 48% | 0% | 28% | 86% | 100% | 100% |
>=29 | 1% | 85% | 24% | 65% | 1% | 43% | 93% | 100% | 100% |
>=28 | 2% | 93% | 40% | 81% | 3% | 60% | 97% | 100% | 100% |
>=27 | 5% | 97% | 58% | 91% | 7% | 76% | 99% | 100% | 100% |
>=26 | 12% | 99% | 75% | 97% | 16% | 87% | 100% | 100% | 100% |
>=25 | 23% | 100% | 87% | 99% | 29% | 94% | 100% | 100% | 100% |
Hingað til hefur ekkert verið minnst á Viðreisn (C). Þessi nýji flokkur mun skjóta rótgrónum flokkum á borð við Framsóknarflokk og Samfylkingu ref fyrir rass ef marka má kosningaspána. Viðreisn mun líklegast fá átta þingmenn kjörna, miðað við sex þingmenn Framsóknarflokks og fjóra þingmenn Samfylkingarinnar.
Viðreisn hlýtur að vera nærtækasti kosturinn fyrir „vinstrikvartett“ Pírata, Vinstri grænna, Bjartar framtíðar og Samfylkingar, vilji þeir styrkja meirihluta sinn á þingi. Í öllum 100.000 hermunum kosningaspárinnar fengu þessir fimm flokkar samanlagt 34 þingmenn kjörna. Í 95 prósent tilvika fengu þeir samanlagt 37 þingmenn og í 61 prósnet tilvika var þessi meirihluti kominn í 40 þingmenn.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, hefur sagt að flokkur sem fær ekki formanninn sinn kjörinn sé varla stjórnartækur flokkur. Það gæti þess vegna farið svo að Samfylkingin segi sig frá þessum hugsanlega „vinstrikvartett“. Píratar, Vinstri græn og Björt framtíð munu ólíklega geta myndað meirihluta án aðkomu fjórða flokksins. Saman hafa þessir þrír flokkar sjö prósent líkur á að fá 32 þingmenn kjörna.
Með Viðreisn innanborðs eru líkurnar mun meiri á því að hægt verði að mynda meirihluta á þinginu. Líkurnar á að Píratar, Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð geti myndað 32 manna meirihluta eru 97 prósent. Ef markmiðið er að mynda 36 manna meirihluta eru líkurnar 59 prósent.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks ekki möguleg
Núverandi ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins (D) og Framsóknarflokksins (B) á enga möguleika á að halda meirihluta á þinginum, samkvæmt kosningaspánni. Til þess að ná einföldum meirihluta þarf 32 þingmenn en líkurnar á því að þessir tveir flokkar geti saman fengið 29 þingmenn er eitt prósent.
Ef mynda ætti ríkisstjórn til hægri hlýtur Viðreisn að vera nærtakasti kosturinn til að stoppa upp í gatið. Það eru hins vegar aðeins 39 prósent líkur á að þessir þrír flokkar nái að mynda meirihluta.
Sjálfstæðisflokkurinn mun samkvæmt líklegustu niðurstöðu Kosningaspárinnar verða stærstur flokka á þinginu eftir kosningar. Mjög litlar líkur eru á að hann geti myndað tveggja flokka meirihluta. Tveir næst stærstu flokkarnir, Píratar og Vinstri græn, hafa auk þess nær útilokað ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðismönnum. En, allt er hægt í pólitík er stundum sagt; Með Pírötum eru 18 prósent líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti myndað 32 manna meirihluta á þinginu. Með Vinstri grænum eru tvö prósent líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn geti myndað meirihluta.
Pólitískur ómöguleiki?
Ef við lítum hlutlægt á gögnin úr kosningaspánni og reynum að finna mestar líkur á meirihlutasamstarfi tveggja flokka verður það líklegast samstarf Sjálfstæðisflokks og Pírata. Líkurnar á 32 manna meirihluta eru, eins og áður sagði, 18 prósent.
Ef við reynum að finna mestar líkur á meirihlutasamstarfi þriggja flokka verður það líklegast samstarf Sjálfstæðisflokks, Pírata og Vinstri grænna. Líkurnar á því að þessir þrir flokkar geti myndað 32 manna meirihluta eru 100 prósent. Og ef þröskuldurinn er færður ofar þá eru 71 prósent líkur á að þessi meirihluti verði 39 þingmenn.
Ef við reynum að finna mestar líkur á meirihlutasamstarfi fjögurra flokka verða það líklega sömu flokkar auk Viðreisnar sem mynduðu þann meirihluta. Líkurnar á því að þessi hópur verði að minnsta kosti 42 þingmenn eru 100 prósent.
Svona væri hægt að setja saman líkindin endalaust. Í öllum 100.000 hermunum kosningaspárinnar var eina samsetningin sem virkaði í öllum tilfellum samstarf allra flokka. Líkurnar á því að sá meirihluti geti verið 63 þingmenn er 100 prósent.
Meira um þingsætaspá: Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi
Meira um þingsætaspá: Reykjavíkurkjördæmin og Suðvesturkjördæmi
Þingsætaspáin
Þingsætaspáin er ítarlegri greining á gögnum kosningaspárinnar sem mælir líkindi þess að einstaka frambjóðandi nái kjöri í Alþingiskosningum. Niðurstöðurnar byggja á fyrirliggjandi könnunum á fylgi framboða í öllum sex kjördæmum landsins hverju sinni og eru niðurstöðurnar birtar hér að vefnum. Þingsætaspáin sem nú er birt byggir á Þjóðarpúlsi Gallup 3.–12 október (vægi 57%) og Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 23. september - 5. október (vægi 43%). Ef fleiri könnunaraðilar birta fylgi framboða niður á kjördæmi ásamt upplýsingum um framkvæmd könnunar verður þeim upplýsingum bætt inn í þingsætaspánna.
Gallup er eini könnunaraðilinn sem hefur veitt opinn aðgang að fylgistölum niður á kjördæmi. Auk þess var að finna fylgi niður á kjördæmi í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar sem birt var í Morgunblaðinu. Fylgi flokka í kjördæmum hefur ekki hefur verið birt í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 6.–12 október eða í Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar 13.–19 október.
Fyrir kjördæmin
Líkur á því að einstaka frambjóðandi nái kjöri byggja á reiknilíkani stærðfræðinganna Baldurs Héðinssonar og Stefáns Inga Valdimarssonar. Í stuttu máli er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum. Frávikið frá líklegustu niðurstöðu fyrir flokk er því ekki óháð milli kjördæma. Ef frávikið er neikvætt í einu kjördæmi fyrir ákveðinn flokk aukast líkurnar á að það sé sömuleiðis neikvætt í öðrum kjördæmum.
Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.
Tökum ímyndað framboð X-listans í Norðvesturkjördæmi sem dæmi: Framboðið mælist með 20 prósent fylgi. Í flestum „sýndarkosningunum“ fær X-listinn 2 þingmenn en þó kemur fyrir að fylgið í kjördæminu dreifist þannig að niðurstaðan er aðeins einn þingmaður. Sömuleiðis kemur fyrir að X-listinn fær þrjá þingmenn í kjördæminu og í örfáum tilvikum eru fjórir þingmenn í höfn.
Ef skoðað er í hversu mörgum „sýndarkosningum“ hver frambjóðandi komst inn sem hlutfall af heildarfjölda fást líkurnar á að sá frambjóðandi nái kjöri. Sem dæmi, hafi frambjóðandinn í 2. sæti X-listans í Norðvesturkjördæmi náð kjöri í 90.000 af 100.000 „sýndarkosningum“ þá reiknast líkurnar á því að hann nái kjöri í Alþingiskosningunum 90 prósent.
Skoðanakannanir í aðdraganda Alþingiskosninga 2009 og 2013 voru notaðar til að sannprófa þingsætaspánna, þar sem spáin er borin saman við endanlega úthlutun þingsæta.
Fyrir landið í heild
Þegar niðurstöður í öllum kjördæmum liggja fyrir er hægt taka niðurstöðurnar saman fyrir landið í heild og reikna út líkur á því hversu marga þingmenn hver flokkur fær á landsvísu. X-listinn gæti, svo dæminu hér að ofan sé haldið áfram, fengið:
- 8 þingmenn í 4% tilfella
- 9 þingmenn í 25% tilfella
- 10 þingmenn í 42% tilfella
- 11 þingmenn í 25% tilfella
- 12 þingmenn í 4% tilfella
Þetta veitir tækifæri til þess að máta flokka saman reyna að mynda meirihluta þingmanna og skoða líkur á því hvaða flokkar muni ná meirihluta á þingi að afstöðnum kosningum. Ef X-listinn er einn af þeim flokkum sem myndar meirihluta að loknum kosningum er þingmannaframlag hans til meirihlutans aldrei færri en 8 þingmenn, í 96% tilfella a.m.k. 9 þingmenn, í 71% tilfella a.m.k. 10 þingmenn o.s.frv. Landslíkur X-listans eru því settar fram á forminu:
- = > 8 þingmenn í 100% tilfella
- = > 9 þingmenn í 96% tilfella
- = > 10 þingmenn í 71% tilfella
- = > 11 þingmenn í 29% tilfella
- = > 12 þingmenn í 4% tilfella
- = > 13 þingmenn í 0% tilfella
Umfjöllun Kjarnans um kosningarnar
-
14. janúar 2017Bjarni Benediktsson jafnar met Þorsteins Pálssonar
-
11. janúar 2017Ekki einhugur um ráðherraval innan Sjálfstæðisflokksins
-
10. janúar 2017Það sem ný ríkisstjórn ætlar að gera
-
9. janúar 2017Stjórnarsáttmáli: Evrópumál fara til þingsins undir lok kjörtímabils
-
4. janúar 2017Ríkisstjórn Bjarna á lokametrunum
-
4. janúar 2017Þingmenn innan Sjálfstæðisflokks efast um samstarf við miðjuflokka
-
2. janúar 2017Katrín staðfestir viðræður við Framsókn og Samfylkingu
-
2. janúar 2017Vinstri græn og Framsókn reyna við Sjálfstæðisflokk
-
31. desember 2016Segir að mistök við einkavæðingu hafi breytt bönkum í spilavíti
-
30. desember 2016Bjarni kominn með umboð til að mynda ríkisstjórn
-
30. desember 2016Bjarni Benediktsson boðaður á Bessastaði í dag
-
28. desember 2016Segir að Sjálfstæðisflokkur eigi að leiða næstu ríkisstjórn
-
21. desember 2016Ein stjórn í myndinni og fylkingar farnar að myndast á þingi
-
20. desember 2016Kosningaþátttaka var minnst hjá ungu fólki en mest hjá þeim elstu
-
18. desember 2016Sigmundur Davíð greiddi síðast atkvæði í þingsal 8. júní