Lögreglan hefur tvisvar haft afskipti af dreng í gegnum árin sem á íslenskan föður og móður frá Karíbahafinu – fyrst þegar hann var sjö ára og í seinna skiptið þegar hann var 13 ára. Faðir hans telur að litarhaft hans hafi átt stóran þátt í því að lögreglan hafi valið hann úr fjöldanum en faðirinn segir að afskipti lögreglunnar hafi haft mikil áhrif á drenginn og að í bæði skiptin hafi hann ekkert unnið sér til saka. Þetta hafi meðal annars gert það að verkum að eitthvað hafi „verið tekið af honum“ þegar hann var einungis barn að aldri.
Faðirinn ræddi við Kjarnann um þessi atvik og hvaða áhrif þau höfðu á hann en hann telur að börn sem verða fyrir kynþáttamörkun eða fordómum finni í framhaldinu fyrir ákveðinni hræðslu sem þau taki síðan með sér út í lífið. Til þess að vernda son sinn vill hann ekki koma fram undir nafni.
Nýtt hugtak í íslensku – Kynþáttamörkun
Ekki hefur mikið verið talað um hugtakið kynþáttamörkun í íslensku samfélagi, sem útleggst sem „racial profiling“ á ensku en nýlegir atburðir hafa komið því í umræðuna og hefur fólk af erlendum uppruna bent í kjölfarið á brotalamir hvað varðar vinnubrögð lögreglunnar í slíkum málum.
Með hugtakinu er átt við það þegar kynþáttur eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni, samkvæmt hópi fræðafólks og aktívista sem kom með tillöguna að þýðingu á hugtakinu. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar eða húðlitar frekar en sönnunargagna.
Atvikin sem ýfðu upp umræðuna um kynþáttamörkun áttu sér stað í apríl síðastliðnum þegar þegar lögreglan hafði afskipti af 16 ára dreng í tvígang, dag eftir dag, vegna ábendinga frá almenningi um að hann væri strokufangi sem slapp úr haldi lögreglunnar um miðjan apríl. Drengurinn er dökkur á hörund og með svipaða hárgreiðslu og umræddur strokufangi.
7 ára í bænum og löggan kom
Drengurinn sem um ræðir í þessari umfjöllun var 7 ára þegar lögreglan hafði fyrst afskipti af honum. Atvikið átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur þegar hann var með fjölskyldu sinni í bæjarferð. Stuttu áður hafði hann farið á sirkúsnámskeið þar sem hann lærði ýmsar kúnstir og meðal þeirra var að halda á lofti jójói sem almennt kallast diabolo. Hann tók á það ráð að sýna listir sínar með jójóið fyrir túrista á umræddum degi með fjölskyldu sinni. Erlendir túristar vildu gefa honum klink fyrir sem hann þáði – og tók upp á því að „böska“ samhliða leiknum.
Stuttu síðar mætti lögreglan á svæðið til kanna hvað hann væri að gera og átti við hann orðastað og stöðvuðu leik hans. „Hann varð ofsalega hræddur þegar löggan kom,“ segir faðir hans í samtali við Kjarnann.
Síðar um daginn fékk hann símtal frá lögreglumanni sem greindi frá því að lögreglan hefði rætt málið við Reykjavíkurborg og samkvæmt upplýsingum frá þeim hvatti borgin krakka til að gera það sama og drengurinn hans var að gera fyrr um daginn. Þannig hafi lögreglan ekki haft heimild til að vísa drengnum frá iðju sinni.
„Þau höfðu þó manndóm í sér að hringja í okkur og segja að þau biðust innilega afsökunar – þau hefðu gert mistök og brugðist rangt við. En í þessu tilfelli er augljóst að krakkinn er af erlendu bergi brotinn og þetta voru viðbrögðin. Ég sjálfur myndi halda að ef það hefði verið sæt ljóshærð stelpa sem væri að dansa ballett eða eitthvað svoleiðis þá hefði verið litið á það sem frábært,“ sagir faðirinn.
Greina mátti sálrænar afleiðingar hjá drengnum af þessum afskiptum lögreglunnar. „Hann bara fær algjöran sviðsskrekk eftir þetta atvik alveg fram á þennan dag,“ segir faðirinn og bætir því við að hann sé mjög hæfileikaríkur – hann spili á hljóðfæri og hafi sýnt sýningar- og sviðslistum mjög mikinn áhuga. „En hann vill aldrei sýna vegna þess að hann lenti í þessu atviki með lögreglunni 7 ára gamall. Það er búið að eyðileggja mjög hæfileikaríkan sviðslistamann með röngum viðbrögðum.“
Hélt að barnaperri væri á eftir sér
Þetta er þó ekki eina atvikið sem þessi tiltekni drengur hefur lent í af hendi lögreglunni. Faðirinn greinir frá því að þegar strákurinn var þrettán ára hafi hann verið á gangi á leið á æfingu þegar bíll keyrði upp að honum og hægði á sér. Út steig maður sem spurði drenginn hvað hann héti.
„Hann segir til nafns, en hann átti náttúrulega ekki að gera það, og þá stígur maðurinn út og segist þurfa að tala við hann. Þetta var eldri maður og ekkert rosalega viðkunnanlegur. Strákurinn minn hélt virkilega að þessi maður væri barnaperri. Hann náttúrulega rýkur af stað og hleypur hann af sér,“ segir faðirinn.
Móðir drengsins sótti soninn eftir atvikið og tóku foreldrarnir þetta mjög alvarlega – enda vissu þau ekki hvað maðurinn vildi drengnum. Faðirinn tilkynnti atvikið til lögreglunnar vegna þess að þau höfðu heyrt af svipað hefði gerst áður þar sem maður reyndi að lokka börn upp í bíl.
Lögreglan hringdi aftur í föðurinn nokkru seinna og greindi frá því að um óeinkennisklæddan lögreglumann hefði verið að ræða. „Við kvörtuðum yfir þessu og vorum alveg brjáluð út af því að þarna var þetta í annað skiptið sem hann lenti í þessu,“ segir faðirinn.
Eftir á brást lögreglan rétt við
Þau fengu þær útskýringar að rétt áður hefði rán verið framið í nágrenninu – og að sá grunaði hefði verið í grænum jakka. Lögreglumanninn hefði grunað að drengurinn þeirra væri sá sem þeir leituðu að en hann kynnti sig aldrei eða gaf deili á sér í samskiptum við strákinn. Faðirinn veltir því fyrir hvort sonur hans hefði nokkurn tímann verið stoppaður eða honum sýnd þessi framkoma nema vegna þess að hann er með dekkra litarhaft en flestir á Íslandi.
Faðirinn vill þó taka það sérstaklega fram að í bæði skiptin sem lögreglan hafði afskipti af syni hans þá hafði hún frumkvæði að því að hafa samband til að útskýra málavexti. „Í fyrra skiptið báðust þau afsökunar að eigin frumkvæði og í seinna skiptið, þegar þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig atburðarásin hefði þróast, þá gerðu þeir það líka.“
Þannig séð hafi lögreglan brugðist rétt við eftir á.
„Samt þegar maður hugsar um hvað gerðist í bæði skiptin og hvernig framkoman er við hann þá erum við foreldrarnir ekki í neinum vafa að þetta hefði verið öðruvísi ef hann væri öðruvísi. Ef hugarfarið er alltaf hjá lögreglunni þannig að þau maldi í móinn með þetta og telja sig aldrei koma fram við fólk öðruvísi út af litarhætti, þegar þau augljóslega gera það, þá þarf að verða þessi vitundarvakning. Við getum ekki bara farið á eftir öllum dökkum strákum með fléttað hár því við gerum ekki það sama með ljóshærðar stelpur,“ segir hann.
Ekki hægt að ráðast í þá vinnu að leita í allri málaskrá lögreglu
Lögreglan heldur ekki sérstaklega utan um mál þar sem afskipti lögreglu má mögulega rekja til kynþáttamörkunar, samkvæmt svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans. Upplýsingar um slík mál, þar sem kynþáttamiðuð löggæsla eða kynþáttamörkun hafi mögulega komið við sögu, er þó hægt að nálgast með leit í kerfi lögreglu þar sem öll verkefni lögreglu eru skráð.
Það væri meðal annars hægt að gera með því að leita að málum þar sem lögregla hefur afskipti af einstaklingi sem reynist svo ekki vera sá einstaklingur sem leitað er að, líkt og gerðist í apríl.
Öll mál eru sem sagt skráð í kerfi lögreglu en upplýsingar um hörundslit þeirra sem lögregla hefur afskipti af eru ekki markvisst skráðar. Hægt er að setja slíkar upplýsingar í almennt textasvæði „sé talin þörf á því í þeim tilvikum þar sem verið er að lýsa eftir fólki og það skiptir máli að lýsing á grunuðum liggi fyrir,“ að því er segir í svari embættis ríkislögreglustjóra. Það er því hægt að taka saman upplýsingar þar sem grunur leikur á kynþáttamörkun en í svari embættisins segir að ekki sé „hægt að fara í slíka vinnu“.
Dómsmálaráðherra „algjörlega sannfærður“ um að kerfisbundinn rasismi sé ekki vandamál innan lögreglunnar
Eftir atvikin varðandi leit að strokufanganum fyrr í vetur hefur lögreglan tjáð sig opinberlega um rasisma í lögreglunni sem og hvort finna megi kynþáttamörkun innan þeirra raða. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri var til svara á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma um miðjan maí.
Þar sagði hún að ekki hefði verið um að ræða kynþáttamörkun þegar lögreglan hafði tvívegis afskipti af unga drengnum í apríl. Hún harmaði það þó mjög að þessi ungi drengur skyldi hafa orðið fyrir ítrekuðu áreiti. Hún sagði jafnframt að þau í lögreglunni væru vakandi fyrir kynþáttmörkun. „Það er raunverulega óþolandi að það skuli vera saklaust ungmenni sem þarna á í hlut sem verður fyrir þessari trámatísku reynslu, jafnvel þótt lögreglan hafi verið að sinna sínu starfi.“
Dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, og aðstoðarmaður hans, Brynjar Níelsson, tjáðu sig báðir opinberlega um vinnubrögð lögreglunnar eftir atvikin í apríl. Ráðherrann sagðist vera algjörlega sannfærður um að kerfisbundinn rasismi væri ekki vandamál innan lögreglunnar í samtali við Fréttablaðið þann 22. apríl. Hann sagði þó ástæðu til að fara yfir málið og læra af því.
Brynjar gaf lítið fyrir gagnrýni á lögregluna og sagði á Facebook að það væri ekki nýtt að ábendingar til lögreglu reyndust rangar og mætti segja að slíkt gerðist í öllum svona málum. „Rauðhærðir og skeggjaðir lenda oft í þessu veseni. Menn þurfa að vera sérkennilega innréttaðir til að sjá rasisma í þessu máli, og jafnvel plebbalegir,“ sagði hann.
„Núna er hið gullna tækifæri“
Faðir drengsins gagnrýnir þessi viðbrögð lögreglunnar, dómsmálaráðherra og aðstoðarmannsins. Hann segir að augljóst sé að þeir ætli ekki að horfast í augu við hvernig lögreglan vinnur.
Honum finnst þeir hafa haft tækifæri til að viðurkenna mistök innan lögreglunnar og ættu að leita til þeirra sem hafa sérhæft sig í málaflokknum. Lögreglan geti í framhaldinu bætt almannaþjónustuna til framtíðar. „Núna er hið gullna tækifæri,“ segir hann og bætir því við að hann bindi vonir við Sigríði Björk ríkislögreglustjóra – að hún muni taka öðruvísi á málunum, þ.e. af auðmýkt og viðurkenni að vandamálið sé til staðar.
„Aðkastið sem 16 ára drengurinn varð fyrir af hálfu lögreglunnar tvisvar nýlega kom ekki mér ekki á óvart vegna þess að drengurinn minn hefur líka lent í sams konar atvikum tvisvar. Þetta eru því ekki undantekningar eða tilviljanir. Síendurtekin atvik benda til þess að breytinga er þörf. Það er ekki nóg að biðjast alltaf afsökunnar eftir á heldur þarf að viðurkenna vandamálið, takast á við það og ráðast í aðgerðir til að breyta þessu.“
Þegar faðirinn er spurður hvort fjölskylda hans verði vör við fordóma í hinu daglega lífi eða hvort þau ræði þessi mál innan heimilisins svarar hann að einstaka sinnum hafi komið upp mál varðandi syni hans tvo.
Hann nefnir atvik þar sem eldri sonur hans var kallaður mjög ljótum uppnefnum tengdum litarhætti í búningsklefa hjá íþróttafélaginu sem hann æfði hjá. Erfiðlega hafi gengið að fá íþróttafélagið til að bregðast við og svara. Hann segir að fjölskyldan hafi aldrei fengið skrifleg svör frá félaginu og hvetur hann alla foreldra sem lenda í slíkum aðstæðum að sætta sig ekki einungis við munnlegar útskýringar eða afsökunarbeiðni. Ef aðstæður eru þannig að viðkomandi ábyrgðaraðili biðst afsökunar líkt og gert var í því tilviki þá þarf að fá hana skriflega.
„Eitthvað tekið frá honum“ þegar hann var 7 ára
Varðandi umræðu á heimili þeirra um leynda fordóma þá segir faðirinn að þau tali ekki mikið um það. „Konan mín telur sig ekki finna fyrir misrétti sjálf en hún er með meistarapróf frá háskóla, í fínu starfi hjá alþjóðlegu fyrirtæki og dugleg í félagsstarfi,“ segir hann en hann telur að það spili inn í að hún finni ekki fyrir fordómum í hinu daglega lífi.
„Heilt yfir allt finnst mér við ekki verða var við þetta – þ.e. dagsdaglega eða vikulega. Við þurfum að auka umræðuna innan okkar heimilis. En það sem gerist þarna þegar eldri drengurinn er 7 ára þá var eitthvað tekið frá honum.
Þetta er hræðsla sem þessi börn taka með sér út í lífið og það er stóra vandamálið. Lögreglan viðurkennir ekki að þetta sé vandamál en gerir þetta samt ítrekað. Með þau völd og hlutverk sem þau hafa skapa þau þessa hræðslu hjá mörgum gríðarlega hæfileikaríkum krökkum sem þau þurfa síðan að taka með út í lífið,“ segir hann að lokum.
Lesa meira
-
22. nóvember 2022Spyr dómsmálaráðherra hvernig það getur verið lausn við afbrotahegðun að fara í stríð
-
12. nóvember 2022Opinberu flóðljósin sem blinda fjölmiðla
-
15. september 2022Mál 16 ára drengs enn hjá eftirlitsnefnd fimm mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað
-
21. júlí 2022Veruleg styrking rannsókna á kynferðisbrotum
-
26. júní 2022Sænskir ráðherrar í læri hjá Dönum
-
22. júní 2022„Misskilningur“ olli því að mál 16 ára drengs rataði ekki til eftirlitsnefndar – fyrr en nú
-
20. júní 2022Ríkislögreglustjóri segir að ekki hafi verið um bein afskipti að ræða
-
12. júní 2022Rasismi innan lögreglunnar eins og annars staðar í samfélaginu
-
5. júní 2022„Hann varð ofsalega hræddur þegar löggan kom“
-
4. júní 2022„Löggæsla á Suðurnesjum er ekki kynþáttamiðuð“