Ríkissjóður var rekinn í 218 milljarða króna halla í fyrra, en fjárlög höfðu upprunalega gert ráð fyrir að heildarafkoman yrði neikvæð um tíu milljarða króna. Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn í um 320 milljarða króna halla á þessu ári og að samanlagður halli á honum á árunum 2022 til 2026 verði um 590 milljarðar króna.
Samanlagt er því gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 1.128 milljörðum krónum lægri en útgjöld hans á sjö ára tímabili, frá byrjun síðasta árs og út árið 2026.
Íslendingar voru alls 374.830 í lok september síðastliðins. Ef hallarekstri ríkissjóðs er deilt niður á alla landsmenn kemur í ljós að tapreksturinn sem þarf að vinna upp er um þrjár milljónir á mann á þessu tímabili.
A-hluti næst stærsta stjórnvald landsins, Reykjavíkurborgar, verður rekinn í um 19 milljarða króna hall á árunum 2020 til 2022. Þar er um að ræða þann hluta sem rekinn er fyrir skattfé. Mikill hallarekstur er fyrirsjáanlegur á því tímabili hjá ýmsum öðrum sveitarfélögum með tilheyrandi skuldaaukningu.
Ástæðan er öllum augljós: kórónuveirukreppan.
Þeir sem misstu atvinnu tapa
Atvinnuleysi fór hæst í 17,8 prósent í apríl í fyrra. Það hefur lækkað skarpt á þessu ári og helmingast frá því í mars. Um síðustu mánaðamót mældist það 4,9 prósent sem er nánast það sama og það var áður en faraldurinn skall á.
Í sögulegu samhengi er það enn mjög mikið atvinnuleysi. Í febrúar 2020 mældist mesta atvinnuleysi sem mælst hafði hérlendis í næstum átta ár, eða frá því í apríl 2012. Helstu orsakir þess voru gjaldþrot WOW air, með tilheyrandi samdrætti í ferðaþjónustu, og loðnubrestur.
Þótt hlutfallið sé nú það sama og var fyrir rúmu einu og hálfu ári er um öðruvísi atvinnuleysi að ræða. Langtímaatvinnulausum, þeim sem hafa verið án vinnu í ár eða meira, hefur til að mynda fjölgað mikið. Í febrúar 2020 voru þeir 1.893 talsins en um síðustu mánaðamót voru þeir 4.252. Þeim hefur fjölgað um 124 prósent frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á.
Bitnar illa á erlendum ríkisborgurum
Verst bitnar atvinnuleysið á erlendum ríkisborgurum, sem eru 14,4 prósent allra íbúa hérlendis. Um 40 prósent allra atvinnuleitenda tilheyra þeim hópi. Starfandi fólk með erlendan bakgrunn er enn langt frá því að vera orðið jafnmargt og það var áður en faraldurinn byrjaði, en þeim hefur fækkað um tæplega þrjú þúsund á þeim tíma.
Auk þess eru rúmlega sjö þúsund manns á svokölluðum ráðningarstyrkjum, sem greiddir eru út í tengslum við atvinnuátakið Hefjum störf. Það snýst um að ríkissjóður greiði þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum. Langflest störfin sem ráðið hefur verið í á grundvelli ráðningastyrks tengjast ferðaþjónustu eða tengdum greinum. Fyrirsjáanlegt er að störfum þar muni fækka yfir vetrarmánuðina og að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi lítið eða ekkert bolmagn til að taka við greiðslu launa þessa hóps að fullu í fyrirsjáanlegri framtíð.
Í nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar er því svo spáð að atvinnuleysi geti farið að aukast á ný nú í nóvembermánuði.
Þessi hópur sem fjallað er um hér að ofan er sá sem fer efnahagslega verst allra út úr yfirstandandi þrengingum.
Taparar og sigurvegarar á húsnæðismarkaði
Á húsnæðismarkaði er staðan flóknari. Leiguverð hefur að mestu staðið í stað frá byrjun síðasta árs, meðal annars vegna þess að fjöldi leiguíbúða sem í boði eru hefur aukist. Þar skiptir máli að íbúðir sem áður voru leigðar ferðamönnum í gegnum Airbnb og sambærilegar þjónustur hafa skilað sér inn á almennan markað og óhagnaðardrifin leigufélög eins og Bjarg hafa fjölgað verulega íbúðum á sínum vegum, en leiga innan þeirra er töluvert lægri en gengur og gerist á almennum leigumarkaði.
Þrátt fyrir þetta hefur hlutfall leigufjárhæðar af ráðstöfunartekjum leigjenda hækkað. Það var í kringum 40 prósent árum saman en er nú 45 prósent. Það þýðir að 4,5 krónur af hverjum tíu sem leigjendur þéna fara í að borga fyrir þak yfir höfuðið.
Þeir sem voru þegar eigendur húsnæðis þegar faraldurinn skall á hafa getað nýtt sér örvunaraðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans, sem fólu meðal annars í sér að afnema sveiflujöfnunarauka sem lagðist á eigið fé banka til að auka útlánagetu þeirra og að lækka stýrivexti gríðarlega, til að auka við eignir sínar. Það á sérstaklega við þá sem áttu sérbýli, sem eru að uppistöðu eldra fólk sem var vel stætt fyrir.
Mikill eftirspurnarþrýstingur hefur enda skilað því að vísitala paraðra viðskipta með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu á raunvirði, samkvæmt húsnæðisgagnagrunni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hefur hækkað um tæp 24 prósent frá byrjun síðasta árs.
Erfiðari staða fyrir marga
Íbúðaverð sem hlutfall af launum landsmanna hefur hins vegar farið hratt vaxandi á þessu ári eftir að hafa leitað hægt niður á við allt frá því í apríl 2017.
Frá ársbyrjun 2014 hefur hlutfallið hækkað um 19 prósent, en vísitala paraðra viðskipta með íbúðarhúsnæði hækkaði um 103 prósent á meðan að vísitala launa hækkaði um 71 prósent yfir sama tímabil.
Þróunin hefur leitt til þess að útlánagæði nýrra íbúðalána hafa farið minnkandi þar sem veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutföll hafa hækkað þrátt fyrir mikla hækkun fasteignaverðs og ráðstöfunartekna.
Samandregið er ljóst að sumir hafa hagnast umtalsvert á þeirri hækkun sem orðið hefur á íbúðaverði en að þær hækkanir hafa gert kaup erfiðari fyrir aðra.
Hlutabréfaeigendur í góðum málum
Skýrir efnahagslegir sigurvegarar kórónuveirukreppunnar eru nokkrir. Þar ber fyrst að nefna hlutabréfaeigendur. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem mælir gengi bréfa í þeim tíu skráðu félögum sem eru með mestan seljanleika, hefur enda hækkað um 58 prósent frá byrjun síðasta árs og um 111 prósent frá 23. mars í fyrra. Á þessu ári einu saman hefur virði félaga í Kauphöllinni hækkað um 700 milljarða króna. Hækkanir á alþjóðlegum mörkuðum hafa líka verið miklar.
Þetta hefur skilað því að lífeyrissjóðir landsins, sem eiga um helming allra innlendra hlutabréfa, hafa aukið eignir sínar úr rúmlega fimm þúsund milljörðum króna í byrjun árs 2020 í 6.445 milljarða króna í lok september. Þar af hefur virði innlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina þeirra aukist um 442 milljarða króna. Af þessari virðisaukningu, haldist hún við, munu allir sjóðfélagar njóta góðs þegar þeir fara á eftirlaun.
Sá hluti almennings sem gat tekið þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka hefu ávaxtað þann hlut vel, enda bréf í bankanum hækkað um næstum 60 prósent frá því að það fór fram. Um er að ræða nokkur þúsund einstaklinga og margir þeirra eru þegar búnir að leysa út hagnaðinn af þessari gjöf úr ríkissjóði. Raunar eru einstaklingar ekki stórir eigendur í skráðum félögum hérlendis. Um fimm prósent allra hlutabréfu eru í eigu einstaklinga.
Nokkrir hópar fjárfesta eru þó fyrirferðamiklir. Viðskiptablaðið greindi frá því á fimmtudag að sjö fjárfestingafélög hafi hagnast um 150 milljarða króna á hækkun á gengi hlutabréfa á árinu, en þau eiga samtals um 18 prósent af öllum hlutabréfum í skráðum félögum hérlendis. Skráðar eignir þessarra sjö félaga eru metnar á um 440 milljarða króna.
Samherji hefur hagnast um 60 milljarða vegna hlutabréfahækkanna
Þar munar mestu um verðmætaaukningu Samherjasamstæðunnar, sem samanstendur af systurfélögunum Samherja hf. og Samherja Holding. Þau eiga samtals 90 milljarða króna eignarhlut í skráðum félögum, en Samherji á um þriðjungshlut í bæði Síldarvinnslunni og Eimskipi auk þess að vera meðal stærstu hluthafa í Sjóvá og Högum.
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að verðmætaaukning vegna skráningu Síldarvinnslunnar á markað og hækkun hlutabréfaverðs í öðrum félögum sem Samherji á í hafi skilað samstæðunni 58 nýjum milljörðum króna. Samherji Holding hefur ekki skilað ársreikningum fyrir árin 2019 og 2020 en félagið er undir í umfangsmikilli sakamála- og skattrannsókn yfirvalda sem nú stendur yfir og á rætur sínar að rekja til viðskiptahátta þess í Namibíu. Viðskiptablaðið metur samanlagt eigið fé systurfélaganna á um 190 milljarða króna, sem er svipað og bókfært eigið fé Arion banka og Íslandsbanka.
Önnur fjárfestingafélög sem hafa hagnast gríðarlega á miklum hækkunum á hlutabréfamarkaði eru meðal annars Stoðir, Eyrir Invest, Hvalur og Strengur, félag sem stýrt er af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Stærsta einstaka eignin er fjórðungshlutur Eyris í Marel sem er um 160 milljarða króna virði.
Sjávarútvegur og áliðnaður fara vel út úr kreppunni
Aðrir stórir geirar sem hafa farið vel út úr kórónuveirukreppunni eru sjávarútvegur og áliðnaðurinn. Á síðasta ári greiddu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sér út arð upp á 21,5 milljarða króna. Það var hæsta arðgreiðsla sem atvinnugreinin hefur greitt til eigenda sinna á einu ári. Geirinn greiddi eigendum sínum meira í arð en hann greiddi samtals til samneyslunnar á síðasta ári. Þetta er í eina skiptið eftir bankahrun sem umfang greiddra opinberra gjalda er minna en arðgreiðsla sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna innan árs.
Óhætt er að fullyrða að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja verði enn meiri í ár en í fyrra í ljósi mikillar aukningar í veiðum á loðnu. Raunar verður komandi loðnuvertíð sú stærsta í tæp 20 ár og aflaverðmætið er áætlað um og yfir 50 milljarða króna. Stórútgerðir taka þorra þeirra verðmæta til sín en samþjöppun í geiranum jókst gríðarlega milli ára. Samkvæmt nýjum tölum Fiskistofu halda tíu stærstu útgerðir landsins nú á tveimur þriðja af úthlutuðum kvóta. Fjórar blokkir halda á yfir 60 prósent hans.
Álverð hefur hækkað mikið og í haust var það hærra en það hafði verið í áratug. Fyrir vikið hafa álverin þrjú hérlendis, sem öll eru í eigu erlendra auðhringja, hagnast vel á yfirstandandi ástandi og geirinn er nú upptekinn við að næla sér í græna fjármögnun til að stækka. Það er nokkuð skyndileg breyting frá því í fyrravor þegar umræðan um álver á Íslandi hverfðist að mestu um hótanir um að loka starfsemi vegna þess að raforkuverð á Íslandi þótti svo ósanngjarnt.
Kyrrstöðustjórnmál njóta ástandsins
Það er hægt að græða á annan hátt en í formi peninga. Fyrir því má færa rök að stjórnarflokkarnir þrír hafi líka grætt mikið á kórónuveirukreppunni. Hún tók í raun almenna stjórnmálaumræðu úr sambandi strax vorið 2020 og flokkarnir þrír sem nú ætla að endurnýja stjórnarsamstarf sitt nutu þess í kosningunum í september, þar sem þeir bættu við sig þingmönnum, aðallega vegna þess að fleirum þótti bara best að kjósa Framsókn, í mörgum tilvikum án þess að geta fyllilega útskýrt á af hverju. Þar hjálpaði dapurt kosningaupplegg stjórnarandstöðuflokka auðvitað líka mikið til.
Á grunni þessa ætla stjórnarflokkarnir að gera einfaldan og stuttan stjórnarsáttmála um áframhaldandi samstarf, enda öllum með nokkuð skýra hugsun ljóst að þeir eiga enga leið til að útkljá hugmyndafræðileg deilumál sem eru í orði þeirra á milli. Sennilegast eru þau deilumál þó aðallega til í textum sem dregnir eru fram á tyllidögum þegar Vinstri græn þurfa að þykjast til vinstri og græn eða þegar Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fóðra órólegu íhalds- eða frjálshyggjudeildirnar af innihaldsrýrum frösum til að viðhalda yfirborðskenndri ímynd þess að tilvera flokksins byggi enn á einhverskonar hugmyndafræði.
Því virðist stjórnin ætla að sitja áfram á svipuðum forsendum og hún samdi um 2017, þar sem áherslan verður á að fá að stjórna frekar en að rjúfa kyrrstöðu og gera það sem þarf að gera til að laga íslenskt samfélag að breyttum tímum eða útkljá ágreiningsefni sem hafa haldið þjóðmálaumræðunni í heljargreipum árum og jafnvel áratugum saman. Eina breytingin verður, samkvæmt því sem nú heyrist, sú að Sjálfstæðisflokkurinn sest í heilbrigðisráðuneytið, Vinstri græn taka að sér menntamálin og Framsókn fær utanríkisráðuneytið.
Það er búið að krýna sigurvegara kórónuveirukreppunnar og fyrir liggur hverjir tapa. Ósennilegt er að í komandi stjórnarsamstarfi muni verða lögð áhersla á að jafna þá stöðu með nokkrum hætti og því mun eignabilið milli þeirra sem taka til sín mest í íslensku samfélagi og allra hinna því nær örugglega halda áfram að aukast.
Það kusu Íslendingar yfir sig og við það verður að búa. En þeir sem sjá svo skýrt það óréttlæti sem í kerfunum býr verða að halda áfram að opinbera það með vísun í staðreyndir og með almannahag að leiðarljósi.
Þar mun Kjarninn ekki láta sitt eftir liggja.