Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar stíga nú fram hver á fætur öðrum og tala upp árangur sinn í baráttunni við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar. Það er skiljanlegt að þeir geri slíkt, enda stutt í kosningar og þá eyða ráðamenn að jafnaði tíma sínum í að tala upp eigin verk.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vitnaði nýverið á Facebook- síðu sinni í greiningu hagsmunasamtaka til þess að selja þá hugmynd að mikill meirihluti úrræða stjórnvalda hafi runnið til heimila. Ýmsir túlka þessa stöðu þó verulega öðruvísi og færa fyrir því haldbær rök.
Bjarni var líka til viðtals í frétt í Morgunblaðinu í vikunni um að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi að mati meirihluta stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja reynst gagnlegar. Þetta telur Bjarni að feli í sér það útbreidda álit að almennt sé ekki talin þörf á miklu meiri efnahagsaðgerðum. Hallinn á ríkissjóði hafi ekki reynst jafn mikill og búist var við og því sé ríkisstjórnin búin að bjarga málunum nú þegar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði grein í Kjarnann í vikunni þar sem sambærilegt sjálfshól var á boðstólum. Samdráttur á landsframleiðslu hafi ekki verið nema 6,6 prósent og að það sé viðbrögðum stjórnvalda og Seðlabanka Íslands að þakka. „Halli ríkissjóðs er umfangsmikill vegna þess að við tókum þá pólitísku ákvörðun að fara ekki eingöngu í sértækar stuðningsaðgerðir heldur verja alla samfélagslega innviði; að beita ekki niðurskurði heldur verja velferðina og afkomu fólks og tryggja þannig að áfram verði jöfnuður mikill á Íslandi,“ skrifaði Katrín.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fylgdi í kjölfarið og fjallaði um yfirvofandi átak ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem á að skapa sjö þúsund störf, og er blanda af þegar fram komnum úrræðum og nýjum sem beinast að mestu að þeim sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Það er talið kosta 4,5-5 milljarða króna.
Atvinnuleysi og verðbólga
Það er þó hætt við því að fólkið sem verður mest fyrir efnahagslega barðinu á faraldrinum, þeir sem misstu atvinnu og hafa lækkað verulega í framfærslu, taki ekki undir það að ríkisstjórnin hafi gripið til nægjanlegra aðgerða til að verja velferðina og jöfnuðinn í landinu.
Staðan á Íslandi er nefnilega sú að hér mælist 12,5 prósent atvinnuleysi og hér eru 25.683 án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Langflestir, 21.352, eru atvinnulausir að öllu leyti. Af þeim hafa 12.761 verið atvinnulausir í meira en hálft ár, en í þeim hópi hefur fjölgað um 8.941 á einu ári.
Hér er líka 4,1 prósent verðbólga, sem er það mesta sem mælist á meðal þróaðra ríkja. Á mannamáli þýðir það að verðið á hlutunum sem við kaupum bólgnar. Það sem kostaði ákveðna upphæð fyrir ári kostar meira í dag.
Ef þú ert einn þeirra 25.683 sem eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta – eða hluti af nánustu fjölskyldu þeirra – og hefur upplifað mikla kjaraskerðingu, þá er aukin verðbólga tvöföld refsing. Tekjurnar dragast saman og verð á nauðsynjavöru hækkar.
Það sjá auðvitað allir sem vilja að ef met atvinnuleysi ríkir, og verðbólga er umtalsverð – ef fjórðungur launafólks og helmingur atvinnulausra á erfitt með að láta enda ná saman – þá hefur ríkisstjórn ekki náð góðum árangri í efnahagsmálum fyrir alla landsmenn. Það er ekki verið að tryggja að „jöfnuður verði áfram mikill hér á landi“ eða verja að öllu leyti velferðina.
Gildir þar einu á hversu margan máta leiðtogar hennar reyna að selja okkur hið gagnstæða.
Lítið gert fyrir tapara
Sértækar efnahagsaðgerðir íslenska ríkisins hafa verið afar mildar í nær öllum eðlilegum samanburði, þrátt fyrir að umbúðirnar hafi verið íburðarmiklar. Og þær hafa að mestu beinst að fyrirtækjum í ferðaþjónustu eða þeim heimilum sem eiga eignir, hafa haldið störfum í gegnum faraldurinn og hafa getað unnið heima.
Hlutafé og eigið fé eigenda ferðaþjónustufyrirtækja hefur verið varið og peningum hefur verið dælt til hinna betur settu. Þeir sem eiga fasteignir sáu þær hækka um 7,7 prósent í fyrra. Þeir sem eiga hlutabréf hafa séð þau hækka um tæp 80 prósent á einu ári. Og svo framvegis. Ef þú átt eitthvað, þá græðir þú á kreppunni. Ef þú átt ekki neitt og hefur orðið fyrir kjaraskerðingu, þá ertu í taparaliðinu.
Í sumum tilfellum hefur hluti þess hóps hreinlega verið nýttur til tekjuöflunar. Ein af COVID-19 aðgerðum ríkisstjórnarinnar var að heimila fólki að taka út séreignarsparnaðinn sinn tímabundið til að takast á við fjárhagserfiðleika og eiga fyrir reikningum. Þeir sem hafa tekið út séreignarsparnað undanfarið ár hafa greitt yfir níu milljarða króna í skatta af honum. Þeir sem hafa nýtt séreignarsparnað til að borga niður húsnæðislánið sitt undanfarin tæp sjö ár, í aðgerð sem er kennd við leiðréttingu, hafa hins vegar fengið 21 milljarð króna í skattaafslátt.
Báðir hóparnir eru að gera það sama, að nýta séreignarsparnað. Annar, sem er ekki að mynda eign né ávöxtun heldur að lifa af, er látinn borga skatta af því. Hinn, sem er að mynda eign og ávaxta virði hennar á hverju ári (íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 77 prósent frá því að úrræðið var kynnt til leiks), þarf ekki að borga skatta.
Meiri tekjur og minni fjárfesting
Halli ríkissjóðs reyndist mun minni í fyrra en áætlað var í október, þegar ríkisstjórnin áætlaði hann 269,2 milljarða króna. Á endanum var hann 201 milljarðar króna, eða 545 þúsund krónur á hvern lifandi Íslending, að meðtöldum hinum sjálfvirku sveiflujöfnurum (aukinn kostnaður vegna til dæmis atvinnuleysisbóta og lægri tekjur vegna minnkandi skattheimtu). Til samanburðar má nefna að þeir þrír pakkar sem samþykktir hafa verið í Bandaríkjunum, sem seint verður kallað norrænt velferðarríki með áherslu á jöfnuð, eru metnir á 1,8 milljónir íslenskra króna á hvern lifandi íbúa. Þar er svo framundan innviðafjárfesting á skala sem er svo stór að erfitt er að ná höfðinu utan um tölurnar.
Ástæður þess að svona miklu skeikaði í ríkisfjármálunum hér var að tekjur á Íslandi reyndust einfaldlega miklu hærri en lagt var upp með, aðallega vegna viðspyrnuþróttar þeirra heimila (heimilin bættu á sig 200 milljörðum króna af skuldum og eyddu 200 milljörðum krónum sem þau eyddu erlendis árið 2019 innanlands í fyrra) og fyrirtækja sem urðu ekki fyrir beinum neikvæðum efnahagsáhrifum af kórónuveirunni.
Fjárfestingar hins opinbera voru hins vegar langt undir áætlun, sérstaklega hjá stórum ríkisstofnunum og fyrirtækjum á borð við Vegagerðina, Nýja Landsspítalann og Isavia. Rétt viðbrögð við þeim mikla slaka sem skapaðist í efnahagslífinu á síðasta ári hefðu verið að ráðast hratt í mikilvæga innviðauppbyggingu.
Það má alveg segja það fullum fetum að síðasta ár fór efnahagslega betur að mestu þrátt fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda, ekki vegna aðgerða þeirra.
Landið opnað vegna pólitískra hagsmuna
Í þessu samhengi verður að skoða ákvörðun stjórnvalda um að opna landið fyrir ferðamönnum frá 1. maí, löngu áður en bólusetning mun skapa hjarðónæmi hjá Íslendingum, og það að ráðast í auglýsingaherferð erlendis til að draga sem flesta ferðamenn hingað í sumar. Sitjandi ríkisstjórn veðjaði nefnilega húsinu á að ferðaþjónustan myndi bjarga málunum hér. Og tengdi þá viðspyrnu þar með við pólitíska framtíð sína.
Tilkynnt var um það 24. júlí í fyrra að kosið yrði næst til þings seint í september 2021. Áður hafði forsætisráðherra ekki útilokað að kosið yrði að vori, likt og hefð er fyrir hérlendis. Ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um að opna landamærin fyrir ferðamönnum um miðjan júní 2020 og fram að yfirlýsingu forsætisráðherra um kosningar hafði allt gengið vel.
Það er eiginlega ómögulegt að draga aðra ályktun en þá að ákvörðunin um tímasetningu kosninga hafi verið tekin með von um að hér yrði mikil efnahagsleg viðspyrna þegar kæmi inn á árið 2021 vegna vaxtar í ferðaþjónustu sem myndi skila því að atvinnuleysi yrði mun minna þegar kosið yrði um haustið. Og fjölga fyrir vikið atkvæðum greiddum stjórnarflokkunum þremur.
Það hljóta allir að vera sammála um að það séu ekki skynsamleg heilbrigðisrök til staðar fyrir því að opna landamærin upp á gátt fyrir bólusettum áður en við sjálf erum nægjanlega bólusett. Þá er málum blandið hvort þau séu efnahagslega vitræn vegna þeirrar áhættu sem fylgir opnun.
En allir geta verið sammála um að á bakvið ákvörðunina hvíla sterk pólitísk rök. Stjórnarflokkarnir þurfa betri árangur fyrir kosningar.
Ávinningur og tap
Sú heilbrigðisáhætta sem verið er að skapa endurspeglast í orðum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem sagðist í vikunni hafa áhyggjur af ákvörðunum stjórnvalda um að hvetja til tilefnislausra ferða hingað til lands. Hann benti líka á að frá því að fólk þurfti að skila inn PCR vottorðum eða prófum til að komast inn í landið hafa 30 af þeim 34 sem greinst hafa með virkt smit skilað inn neikvæðu PCR vottorði. Og af þessum 34 greindist helmingur í fyrri skimun og helmingur í seinni skimun.
Í fyrra var sá efnahagslegi fórnarkostnaður sem fylgir opnun landamæra ekki metinn áður en tekið var í gikkinn. Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, birti grein í Vísbendingu í ágúst þar sem hann færði hagfræðileg rök fyrir því að stjórnvöld hefðu gert mistök með því að opna landamæri Íslands frekar. „Með ákvörðunum sínum um opnun landsins hafa stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efnahag landsins einnig stefnt í hættu.“ Hann reyndist hafa rétt fyrir sér að öllu leyti.
Þegar mat var loksins framkvæmt á hver ávinningur af því að forðast harðar sóttvarnaaðgerðir væri kom í ljós að hann hljóp á hundruðum milljarða króna.
Gylfi skrifaði aðra grein í Vísbendingu sem birtist í síðasta mánuði. Þar sagði hann að hægt væri að halda því fram að best sé að hafa hóflegar en sem stöðugastar sóttvarnir innan lands þangað til þjóðin hefur verið bólusett sem minnki líkur á að farsóttin færist í aukana. „Stöðugleiki hjálpar einstaklingum og fyrirtækjum að aðlaga sig að þeim reglum sem í gildi eru. Tilslakanir sem verða til þess að farsótt breiðist út á ný sem kallar síðan á harðari aðgerðir eru ekki skynsamlegar vegna þess að harðar aðgerðir bitna illa á efnahagslífinu.“
Það að opna landamæri fyrir öllum bólusettum, og auka þar með verulega líkurnar á því að smit taki sig aftur upp hér innanlands, skapar ekki góð skilyrði fyrir stöðugleika.
Við höfum haft það betra en nær allir aðrir
Ísland hefur lifað við lúxus COVID-19. Sóttvarnaryfirvöld hafa verið skynsöm og nánast öll þjóðin hefur stutt aðgerðir þeirra. Heilbrigðiskerfið, og fólkið sem vinnur innan þess, hefur verðskuldað unnið sér inn traust og aðdáun. Það að vera fámenn og rík eyja út í ballarhafi með eina gátt inn í landið hefur líka hjálpað verulega að hemja óværuna.
Fyrir vikið höfum við haft miklu meiri lífsgæði og frelsi en flest önnur lönd í heiminum á kórónuveirutímum. Skólar og leikskólar hafa verið meira og minna opnir. Flest fólk hefur getað stundað vinnu á vinnustað sínum þorra síðastliðins árs í einhverju formi. Við getum ferðast um landið. Farið á veitingastaði, bari, í leikhús, kvikmyndahús og tónleika. Hist í stærri hópum. Og efnahagslega fór þetta allt miklu betur en sérfræðingarnir í spágerð töldu.
Önnur lönd eru að bólusetja til að öðlast það frelsi og þau lífsgæði sem við erum þegar með. Ísraelar, sem eru lengst komnir með bólusetningar, eru til að mynda nýbyrjaðir að heimila bólusettum að mæta á nokkur hundruð manna tónleika. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, talaði í ræðu fyrir viku síðan um að ef bólusetning gengi vel næstu mánuði myndi 4. júlí, þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna, verða dagur sjálfstæðis frá veirunni. Í þeirri yfirlýsingu var hann samt ekki að tala um að þar í landi yrðu haldnar tugþúsunda manna skrúðgöngur eða að hvetja landsmenn sína til að hoppa upp í næstu flugvél, heldur að þá væri hægt að heimila smærri hópum að hittast.
En við? Við ætlum að galopna landamærin okkar fyrir þeim sem framvísa mótefna- og bólusetningarvottorðum áður en við erum komin nálægt því að bólusetja nægjanlegt magn íslensku þjóðarinnar til að öðlast hjarðónæmi.
Dragið úr áhættu á eigin hegðun
Ríkisstjórnin telur þetta réttlætanlegan mögulegan fórnarkostnað – að auka möguleika þess að fá aðra bylgju smita verulega – til að geta opnað landið fyrir ferðamönnum fyrir kosningar. Eðlilegt skref í átt að frelsi segja ráðherrarnir, án þess að minnast á að mögulega er núverandi frelsi undir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skrifaði grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem hún varði og rökstuddi þessa ákvörðun. Þar stóð meðal annars: „Við verðum að velta því fyrir okkur hvert og eitt, sem ekki verðum bólusett þegar landið opnast, hver ábyrgð okkar sjálfra er við að draga úr áhættu á eigin hegðun.“
Þetta segir ráðherra sem deilir flokki með tveimur ráðherrum sem hafa farið gegn sóttvarnaráðstöfunum á síðastliðnum mánuðum án þess að hafa þurft að axla nokkra ábyrgð á þeim gjörðum sínum.
Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru samkvæmt þessu eftirfarandi: Það er ekki ákvörðun okkar um að opna landamærin sem er áhættan í þessari breytu, heldur það hvernig þið landsmenn hagið ykkur í kjölfarið. Við ætlum að skapa aðstæður fyrir hættu til að koma ferðaþjónustu af stað, en það er ykkar að verða ekki fyrir henni.
Það er ekki víst að þetta klikki, en það getur samt gerst
Vonandi fer þetta allt vel. Vonandi tekst ferðaþjónustunni að ná vopnum sínum. Vonandi minnkar atvinnuleysið hratt. Vonandi tekst okkur að forðast aðra bylgju og vonandi náum við, og heimurinn allur, að bólusetja okkur í eðlilegheit sem fyrst. Undir eru miklir heilbrigðis- og efnahagslegir hagsmunir.
En við skulum líka vera hreinskilin. Kalla hlutina það sem þeir heita. Það að reyna að flýta bataferlinu með opnun landamæra og auglýsingaherferðum erlendis, og leggja fyrir vikið alla ofangreinda hagsmuni í aukna hættu, er ekkert annað en pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar sem er að sjá að upphaflega leikáætlun sín gekk ekki að öllu leyti upp.
Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort pólitískt veðmál þeirra með heilbrigði okkar og efnahag gangi upp eða ekki. Svo vitnað sé aftur í skrif Gylfa Zoega í síðasta mánuði: „Stjórnmálamenn sem grípa til óvinsælla en nauðsynlegra aðgerða sem síðar kemur í ljós að hafi verið farsælar fá góða dóma sögunnar. Hið sama á við um embættismenn sem slá í borðið og gera það sem rétt er og einstaklinga í samfélaginu sem sýna hugrekki. Þeir sem fara með straumnum gleymast með straumnum.“