Kjarninn tilnefndur til blaðamannaverðlauna fyrir að greina umrót og breytingar í íslensku efnahagslífi
Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson voru í gær tilnefndir til Blaðamannaverðlauna Íslands fyrir umfjöllun um íslenskt efnahagslíf í fyrra. Á meðal þess sem fellur þar undir eru fordæmalausar greiningar á stöðu íslensks sjávarútvegs og hert tök hans á íslensku atvinnulífi.
Árið 2019 var mikið umrótsár í íslenskum efnahagsmálum. Gjaldþrot WOW air, loðnubrestur og aðrar búsifjar í ferðaþjónustu gerðu það að verkum að fordæmalaust góðæristímabil, sem staðið hafði yfir á tímabilinu 2012 til 2018, lauk sínu skeiði, þótt lendingin hafi á endanum verið mildari en svartsýnustu menn höfðu reiknað með.
Við tóku krefjandi aðstæður sem gerðar voru enn erfiðari með flókinni kjaradeilu í upphafi árs. Á sama tíma voru að eiga sér stað sviptingar í fjármálakerfinu sem fólu meðal annars í sér að eigendur eins banka voru að minnka hann hratt á sama tíma og unnið var að undirbúningi sölu ríkisbankanna þótt engir augljósir kaupendur væru af þeim.
Þá voru að myndast nýjar valdablokkir og fyrirtæki sem farið höfðu mikinn, lentu á vegg.
Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson skrifuðu fjölmargar fréttaskýringar á Kjarnann um stöðu mála á árinu 2019 þar sem hún var greind og sett í samhengi. Við vinnslu þeirra nutu þeir þess að hafa byggt upp víðfeðmt tengslanet á blaðamennskuferli sem spannar, hjá hvorum þeirra, vel á annan tug ára og þeirrar sérþekkingar sem þeir hafa byggt upp á þeim tíma þegar kemur að umfjöllun um efnahagsmál og viðskipti.
Þegar um er að ræða stórtækar breytingar sem verða í efnahagslífi þjóðar er nauðsynlegt að blaðamenn búi yfir getu til að geta útskýrt hvað sé að eiga sér stað, af hverju, hverjir séu í helstu hlutverkum þar og hvaða afleiðingar geti orðið af yfirstandandi þróun.
Umfjöllun um gjörbreytta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, sem eru nú í annarri deild en áður hefur þekkst hérlendis sökum umfangs og auðs, eru síðan einsdæmi í íslenskri fjölmiðlaumfjöllun. Sú kortlagning er almenningi afar mikilvæg í ljósi þess að þar er um að ræða fyrirtæki sem byggja veldi sín á nýtingu náttúruauðlinda sem eru, samkvæmt lagabókstaf, nýttar í þágu þjóðar.
Með skrifum sínum svöruðu Magnús og Þórður Snær mörgum ósvöruðum spurningum um stöðu mála í íslensku efnahagslífi og sjávarútvegsmálum og fylltu upp í heildarmynd af henni.
Hér að neðan er samantekt greinum sem Magnús og Þórður Snær skrifuðu um efnahagsmál, viðskiptalíf og sjávarútveg á síðasta ári.
Efnahagsmál og viðskipti:
Snúin staða
Ísland er allt annarri stöðu en flest lönd í Evrópu, Asíu og Norður- og Suður-Ameríku, þegar kemur að einum þætti: fjármálakerfinu. Einum áratug eftir fjármálahrunið stendur það traustum fótum, og búið að hreinsa út ónýt og slæm útlán. Þetta hefur ekki verið gert vítt og breitt um heiminn. Tjöldin eru fallin, því seðlabankar munu ekki halda hjólunum gangandi á næstunni í heiminum. Hvað þýðir það fyrir Ísland? Hvað er framundan?
Gripið inn í
Seðlabanki Íslands hefur að undanförnu ítrekað gripið inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði með það að markmiði að vinna á móti veikingu krónunnar. Miklar sveiflur hafa einkennt gengi krónunnar undanfarna mánuði. Hvað veldur? Hvers er að vænta? Hinn endanlegi lokahnykkur á endurskipulagningunni í kjölfar hrunsins er framundan.
Nýr veruleiki á markaði
Ýmsir óttast að ládeyða á íslenskum hlutabréfamarkaði sé komin til að vera, ef fjárfestingar glæðast ekki með meiri áhuga fjárfesta. Sé litið til baka þá kunna fjármagnshöftin að hafa verið áhrifameiri fyrir efnahagslífið en margir áttuðu sig á. Þrátt fyrir allt, gegnir skráður markaður verulega mikilvægu hlutverki fyrir almenning í landinu. Stjórnvöld gætu stigið skrefið og eflt hann með sölu á ríkiseignum í gegnum hann.
Nýtt Ísland og nýjar valdablokkir
Á Íslandi er að finna ansi kröftugar fjárfestingablokkir einkafjárfesta sem hafa verið að láta á sér kræla í fjárfestingum í atvinnulífinu. Og hafa getu til að gera enn meira.
Nýtt Ísland og nýjar leikreglur
Nýjar valdablokkir eru byrjaðar að teiknast upp í atvinnulífinu, og þar eru kunnuglegar persónur og leikendur í aðalhlutverkum. Afnám fjármagnshafta er nú að teiknast upp eins og strik í sandinn, fyrir þróun mála í hagkerfinu. Vaxandi þrýstingur er á afnám regluverks. Kunnuglegt, segja sumir.
Arion banki á breytingaskeiðinu
Einn kerfislægt mikilvægur banki, samkvæmt formlegri skilgreiningu stjórnvalda, er í einkaeigu. Það er Arion banki. Á sama tíma og rætt er um mikilvægi þess að bankar styðji við vöxt í efnahagslífinu, eftir áfall með falli WOW air, þá er Arion banki að endurskipuleggja rekstur og draga saman seglin. Tilgangurinn virðist meðal annars vera sá að geta greitt eins mikið eigið fé út úr bankanum og mögulegt er til hluthafa hans.
Hlupu hratt, uxu mikið en hrösuðu á endanum
Fjármálafyrirtækið GAMMA hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarið vegna þess að hluti sjóða þess reyndust ekki jafn burðugir og áður hafði verið greint frá. Vöxtur GAMMA á þeim rúma áratug sem það var sjálfstætt fyrirtæki var hraður og margir högnuðust vel á viðskiptum sínum við það. Nú er hins vegar lítið eftir af því og líklegra en ekki að GAMMA verði vart til í fyrirsjáanlegri framtíð.
Eigið fé sjóðs GAMMA þurrkaðist nánast út
Eigið fé GAMMA: Novus, sjóðs í stýringu hjá GAMMA sem á fasteignafélagið Upphaf, var metið á 4,4 milljarða króna um síðustu áramót. Eftir að eignir sjóðsins voru endurmetnar er eigið féð 40 milljónir króna.
Hvað gerðist eiginlega hjá GAMMA?
Tveir sjóðir í stýringu GAMMA færðu niður virði eigna sinna um milljarða króna. Fleiri sjóðir á vegum félagsins hafa verið í vandræðum. Kaupendur af skuldabréfum sem gefin voru út í byrjun sumars eru fokillir með upplýsingarnar sem þeim voru gefnar. GAMMA, sem fór með himinskautum í nokkur ár, virðist vera í miklum vandræðum. Hvað gerðist?
Sjávarútvegsmál:
Útgerðin í annarri deild
Undanfarinn áratugur hefur verið einn allra besti tíminn í sögu íslensks sjávarútvegs. Fjárhagsstaða margra stærstu útgerðarfyrirtækjanna er orðin það sterk, að þau eru í annarri deild heldur en meginþorri fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Umsvif þeirra í öðrum geirum fara vaxandi, og má búast við að sú þróun haldi áfram. En hvað þýðir það?
Sjávarútvegur hefur hagnast um tæpa 400 milljarða á áratug
Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa numið 92,5 milljörðum króna frá árinu 2010. Á sama tímabili hafa þau greitt 65,6 milljarða króna í veiðigjöld. Eigið fé geirans er nú 276 milljarðar króna og hagur hans hefur vænkast um tæpa 450 milljarða króna frá bankahruni.
Eigið fé Samherja var 111 milljarðar króna í lok síðasta árs
Samherjasamstæðunni var skipt upp á árinu 2018 í tvö félög. Samanlagður hagnaður þeirra í fyrra var um tólf milljarðar króna og samstæðan hefur hagnast alls um 112 milljarða króna á átta árum. Samherji er að uppistöðu í eigu þriggja einstaklinga.
Stóru sjávarútvegsrisarnir verða stærri
Óhætt er að segja að það hafi gengið á ýmsu hjá Brimi, áður HB Granda, undanfarin misseri. Lífeyrissjóðurinn Gildi seldi hlutabréf sín, meðal annars vegna óánægju með stjórnarhætti í félaginu. Þá kom FISK Seafood, útgerðararmur Kaupfélags Skagfirðinga, inn í hluthafahópinn en var svo farinn úr honum þremur vikum síðar. Guðmundur Kristjánsson forstjóri hefur ekki hikað við stór viðskipti við eigið fyrirtæki og notið stuðnings hluthafa til að gera það. Hinir stóru eru að verða stærri í íslenskum sjávarútvegi.
Útgerðarfélag Reykjavíkur kaupir allan hlut Kaupfélagsins í Brimi
Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brim, hefur keypt allan hlut Kaupfélags Skagfirðinga í sjávarútvegsrisanum Brimi á tæplega átta milljarða króna.
Samþykkt að kaupa eignir af stærsta eiganda HB Granda á 4,4 milljarða
Útgerðarfélag Reykjavíkur fær fulla greiðslu fyrir eignir sem það selur HB Granda en lofar að endurgreiða hana að hluta ef rekstraráætlanir standast ekki. Samþykkt að breyta nafni HB Granda í Brim.
Umfangsmikil og ítrekuð viðskipti við stærsta hluthafa HB Granda óheppileg
Forstöðumaður eignastýringar Gildis segir að ítrekuð viðskipti HB Granda við stærsta hluthafann sinn séu fordæmalaus á innlendum hlutabréfamarkaði og óheppileg. Til stendur að HB Grandi kaupi sölufélög af Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna.
Gildi selur hlut sinn í HB Granda/Brim vegna kaupa á sölufélögum
Einn stærsti lífeyrissjóður landsins hefur selt Kaupfélagi Skagfirðinga nær allan hlut sinn í HB Granda, sem nú heitir Brim, vegna viðskipta sem félagið hefur átt við stærsta hluthafa sinn.
Samherji kynnti Síldarvinnsluna sem hluta af samstæðunni
Þegar Samherji kynnti samstæðuna sína erlendis þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Á Íslandi hefur Samherji aldrei gengist við því að Síldarvinnslan sé tengdur aðili, enda fer sameiginlegur kvóti samstæðunnar þá langt yfir það þak á kvóta sem einn hópur má halda á. Samherji á, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni.
Uppskipting Samherja veitti skjól gegn víðtækri upplýsingagjöf
Velta Samherja eins og hún var á árinu 2018 var það há að samstæðan var við það að þurfa að veita skattayfirvöldum víðtækar upplýsingar um tekjur og skatta allra félaga innan hennar í þeim löndum sem þau starfa. Eftir að Samherja var skipt upp í tvö félög í fyrra var sú hætta úr sögunni.
Sjávarútvegsfyrirtæki áttu 709 milljarða um síðustu áramót
Frá hruni hefur hagur allra sjávarútvegsfyrirtækja landsins batnað um hátt í 500 milljarða króna. Eigið fé þeirra hefur tífaldast frá árinu 2010 og það jókst um 28,8 milljarða króna í fyrra. Veiðigjöld hafa his vegar lækkað vegna þess að fjárfesting síðustu ára er dregin frá þegar stofn þeirra er reiknaður.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði