Innlyksa í eldhafi
Hvað gerðist á vettvangi brunans mannskæða á Bræðraborgarstíg og hvað tók svo við í kjölfarið fyrir þá sem lifðu af? Hér má finna samantekt á því helsta sem fram kemur í umfangsmiklum greinaflokki Kjarnans um harmleikinn.
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg í sumar, sem kostaði þrjár ungar manneskjur lífið, er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni. Um íkveikju var að ræða en fleiri þættir gerðu það að verkum að svo margir létu lífið. Bruninn afhjúpaði auk þess þær slæmu aðstæður sem útlendingar búa hér oft við.
Kjarninn skoðaði harmleikinn út frá mörgum hliðum í ítarlegri umfjöllun sem birst hefur síðustu daga. Hún samanstendur af fréttaskýringum og fjölmörgum viðtölum við eftirlifendur, eftirlitsaðila, fólk úr velferðarþjónustu og hjá Rauða krossinum, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn og nágranna í Gamla Vesturbænum sem komu fyrstir á vettvang eldsvoðans.
Hér á eftir fara nokkrir hápunktar úr þeim fimmtán greinum sem umfjöllunin samanstendur af.
Bruninn á Bræðraborgarstíg
Þegar eldur kviknaði í húsinu á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs 25. júní voru fjórtán íbúar heima. Einn íbúinn hefur verið ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Samkvæmt geðmati, sem yfirmatsmenn eru nú að fara yfir, var hann ósakhæfur á verknaðarstund.
Allir þrír sem létust bjuggu á rishæðinni. Tveir slösuðust alvarlega. Annar þeirra, maður á sextugsaldri, hlaut alvarleg brunasár á stóran hluta líkamans og hefur þurft að gangast undir aðgerðir, m.a. húðágræðslur. Hann á fleiri aðgerðir fyrir höndum.
Óháð því hvort að kveikt var viljandi í voru fyrir hendi í húsinu fleiri samverkandi þættir sem urðu til þess að hann varð jafn mannskæður og raun ber vitni. Húsið er úr timbri og einangrun að mestu leyti brennanleg. Þá var eldvörnum verulega ábótavant. Á þeim hluta hússins sem brann voru engar svalir. Aðeins ein flóttaleið var af rishæðinni, stigi sem stóð í ljósum logum. Á göngum voru slökkvitæki en þau höfðu ekki verið tekin út lengi. Einhverjir reykskynjarar voru í sameiginlegum rýmum en eftirlifendur segja þá ekki hafa farið í gang. „Hefði verið hægt að slökkva í þessu með slökkvitæki?“ spyr einn viðmælandi Kjarnans sem kom að rannsókn brunans. „Á einhverju augnabliki hefði það verið hægt.“
Viðtal við Vasile Tibor Andor
„Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju og bjargað þeim. En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eldinum var það orðið of seint.“ Þetta segir Vasile Tibor Andor sem bjó á rishæðinni og var bjargað út um glugga. Hann sá nágrannakonu sína deyja í eldinum og heyrði þegar annar nágranni hans stökk út um gluggann.
Tibor hefur búið á Íslandi í átta ár. Hann missti allt sitt í eldsvoðanum og fannst hann afskiptur í kjölfar hans. „Ég hefði viljað fá meiri aðstoð og leiðbeiningar. En í staðinn hefur mætt okkur sem lifðum af þögn og ég kemst ekki hjá því að hugsa að kerfið hafi brugðist okkur. Að syrgja saman þegar svona mikill harmleikur verður er nauðsynlegt skref í sorgarferli samfélags. Það hefur ekki enn gerst og ég velti fyrir mér hvers vegna?“
Saga hússins á horninu: Frá himnaríki til heljar
„Bræðró“ var „himnaríki á jörðu“. Þannig lýsti fóstursonur hjóna sem lengi bjuggu að Bræðraborgarstíg 1, heimilinu. Í það flykktust Vesturbæingar í áratugi til að versla við þá bræður Svein og Hjört Hjartarsyni. Bakarí og búð þeirra voru miðstöð hverfisins en húsið var einnig fjölskylduhús þar sem atorkumikið og hjálpsamt fólk bjó, elskaði missti og saknaði.
Hornhúsið sem Otti Guðmundsson skipasmiður úr Engey byggði stóð í heila öld og fjórtán ár til, eða þar til það stóð í ljósum logum á júnídegi í sumar.
Deilt um peninga og húsið ekki rifið
Félagið HD verk ehf. sem á Bræðraborgarstíg 1 sættir sig ekki við mat VÍS á tjóninu sem bruni þess olli. Það vill hærri fjárhæð frá tryggingafélaginu. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur krafist niðurrifs þess innan fárra daga en lögmaður eigandans segir að nokkur ár gætu liðið þar til að rústirnar verði fjarlægðar. Rífi borgin húsið, og spilli þar með „sönnunargögnum“ í bótamálinu, muni HD verk sækja bætur til borgarinnar. „Borgin verður þá bara að borga.“
Viðtal við fyrrverandi starfsmann húseigandans
Pólsk kona sem bjó á Bræðraborgarstíg 1 segist ekki hafa haft annað val en að leigja þar herbergi. Hún hafði ekki efni á að leigja „venjulega“ íbúð.
Hún vann um hríð við ræstingar fyrir eigendur hússins við lág laun og litla virðingu. Hún fékk aldrei neina launaseðla, þrátt fyrir að hafa ítrekað beðið um þá. Þegar hún hafði samband við Skattinn og sagði yfirmanni sínum frá því varð hann brjálaður og spurði hvort að hún væri hér á landi til að „þéna peninga eða borga skatta“. Hún vissi lítið um sín réttindi og t.d. ekki að hún gæti gengið í stéttarfélag. Tíminn sem hún bjó á Bræðraborgarstíg 1 og starfaði fyrir eigendur hússins, er sá alversti sem hún upplifði á Íslandi.
Skipulagsmál og eftirlit
Eigendur Bræðraborgarstígs 1 hafa á síðustu árum borið ýmsar tillögur að breytingum á húsinu undir borgina. Neikvætt var tekið í þær allar en engu að síður hafði notkun þess verið breytt í óleyfi er í því var kveikt í sumar. Nágrannar höfðu oft kvartað vegna hússins og m.a. lýst yfir áhyggjum af íbúum þess.
Yfirvöld segjast ekki hafa heimild til að fara inn í íbúðarhús og kanna aðstæður án samþykkis húsráðenda eða leigjenda nema með dómsúrskurði. Á það úrræði hefur aldrei verið látið reyna og þótti ekki tilefni til þess í tilviki Bræðraborgarstígs 1.
Að breyta notkun mannvirkis án byggingarleyfis er ólöglegt. Brot á lögum um mannvirki og reglugerðum þeim tengdum, sem m.a. snúa að eldvörnum, varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. „Það er alltaf húseiganda að tryggja að það sé ekki hættulegt að búa í húsnæðinu,“ segir byggingarfulltrúi. Hann minnist þess ekki að eigandi húss hafi verið sóttur til saka í kjölfar eldsvoða vegna óviðunandi eldvarna.
Slökkviliðsmaður lýsir störfum á vettvangi
Bruninn á Bræðraborgarstíg er „það langversta“ sem Valur Marteinsson, slökkviliðsmaður til þrjátíu ára, hefur lent í. Er hann kom á vettvang var húsið orðið nær alelda og fólk í gluggum á efstu hæð að berjast fyrir lífi sínu.
„Það var svartur reykur alls staðar í kringum hann og hann var kominn með annan fótinn út þegar ég tók á móti honum og hjálpaði honum niður,“ segir hann um björgun Vasile Tibor Andor út um glugga á rishæðinni. „Þarna mátti ekki miklu muna.“
Borg á ný í spennitreyju
Fjöldi fólks bjó á Bræðraborgarstíg 1, þrátt fyrir að húsið hafi ekki verið stórt og ekki í góðu ásigkomulagi. Hvers vegna bjuggu svona margir þar við slæmar aðstæður í einu dýrasta hverfi landsins?
Tilvist húsa sem þessa er afleiðing efnahagslegra og samfélagslegra þátta. Uppgangur ferðaþjónustunnar síðustu árin ásamt lítilli nýbyggingu, takmörkuðum almenningssamgöngum en vilja til þess að búa nálægt miðbænum, hefur leitt til þess að hægt hefur verið að leigja út húsnæði í svipuðu ástandi og herbergin á Bræðraborgarstíg.
Sú staða hefur því skapast á ný að höfuðborgin er í nokkurs konar landfræðilegri spennitreyju svipaðri þeirri sem hún var í fyrir tæpri öld síðan.
Viðtal við ungan mann frá Afganistan
Eftir að hafa flúið Afganistan og sest að á Íslandi leigði Alisher Rahimi íbúð á Bræðraborgarstíg. Hann var heima að læra er eldurinn braust út heyrði hávaða og komst út. Hann heyrði hins vegar aldrei í reykskynjara.
Hann er fluttur í Breiðholtið en fær enn martraðir um að það sé kviknað í. „Ég þarf hjálp til að vinna úr þessu. Mér gekk mjög vel í skólanum áður. Núna á ég stundum erfitt með að einbeita mér. Þetta var hræðileg lífsreynsla og atburðirnir sitja enn í mér.“
Framlag innflytjenda til íslensks efnahagslífs
Það var uppgangur á Íslandi áður en kórónuveiran skall á. Meginástæðan var gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu og byggingariðnaði samhliða. Það var hins vegar ekki til staðar vinnuafl á Íslandi til að manna þessi störf sem skiptu tugum þúsunda. Því þurfti að sækja það fólk annað, eða lokka það hingað. Þess vegna kom aflið sem knúði góðærisvélina áfram fyrst og síðast að utan.
Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um 142 prósent frá byrjun árs 2011. Í lok september síðastliðins voru erlendir ríkisborgarar sem búa hérlendis 51.120 talsins, eða tæplega 14 prósent íbúa. Þessi hópur er líklegri til að missa vinnuna þegar kreppir að en innfæddir.
Maðurinn sem stökk út: Ég gat ekki beðið
„Reykur kom úr öllum áttum inn í herbergið,“ segir ungur maður sem greip til þess örþrifaráðs að stökkva út um glugga af rishæð hússins. Hann braut gluggann með stól og klifraði út. Greip um gluggakarminn og hékk utan á húsinu þar til hann sleppti takinu og féll niður á gangstéttina.
Hann missti meðvitund. Hann er ekki viss hvenær hann rankaði við sér. „Það var ringulreið í hausnum á mér. Ég vissi ekki hvað væri raunverulegt og hvað ekki. Ég átti erfitt með að trúa að því að þetta hefði allt saman gerst.“
Starfsmannaleigur: Frá Kárahnjúkum að Bræðraborgarstíg
Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð voru í fyrsta sinn hundruð starfsmanna hér á landi á vegum starfsmannaleiga. Ljótar sögur að austan urðu kveikjan að sérstakri löggjöf um þetta form ráðninga sem þó er enn gallað og misnotað. Í uppganginum sem varð á Íslandi á síðustu árum margfaldaðist fjöldi starfsmannaleiga og starfsmanna á þeirra vegum.
Hús HD verks ehf. við Bræðraborgarstíg 1 hafði, rétt eins og fjögur önnur hús í eigu sömu aðila, hýst starfsmenn sem voru á Íslandi á vegum starfsmannaleigna. Enginn starfsmaður á vegum starfsmannaleigu var þó búsettur í húsinu þegar það brann, en einhverjir höfðu flutt út nokkru áður.
„Viðskiptamódelið þeirra hefur í áraraðir verið að leigja út húsnæði til starfsmanna starfsmannaleigna og mörg þessara húsa eru ekki hæf til íbúðar,“ segir Benjamin Julian, starfsmaður stéttarfélagsins Eflingar.
Sjúkraflutningamaður lýsir aðstæðum á vettvangi
„Þetta var ólýsanlegt,“ segir Sigurjón Ingi Sveinsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður sem var meðal þeirra fyrstu á vettvang brunans. „Það var mikill eldur. Við heyrðum sprengingar og sáum þrjár slasaðar manneskjur fyrir utan. Við lítum upp og sáum manneskju í glugganum. Svo kom dælubíllinn og út úr honum stukku reykkafarar. Þetta allt og miklu fleira var að gerast á örfáum sekúndum.“
Sigurjón og lögreglumaður tóku stiga af dælubílnum, reistu hann upp við gafl hússins og Sigurjón hljóp svo upp til bjargar íbúa sem var fastur inni í reykskýi með glæður í veggjum í kringum sig.
Nágranninn sem kom hlaupandi til hjálpar
Í sumar varð hún vitni að því þegar fólk stökk út um glugga á brennandi húsi. Sá höndum veifað í glugga á herbergi sem var orðið fullt af reyk. Gekk fram hjá blóðblettum á götunni í marga daga á eftir. Býr í nágrenninu og finnur enn þann dag í dag brunalykt leggja frá brunarústunum.
„Við, sem vorum þarna fyrst á vettvang, urðum að ganga í allt sem við gátum. Í mínútur sem mér fannst eins og klukkutími. Og þó að ég hafi reynt að gera allt sem ég gat fannst mér ég svo vanmáttug. Að sjá fólk inni. Að geta ekki bjargað því. Þetta er það hræðilegasta sem ég hef nokkru sinni upplifað og mun fylgja mér alla tíð.“
Formaður íbúasamtakanna: Ekki „við“ og „þau“ heldur við öll
„Sú staðreynd stendur eftir að það er stór gjá í okkar samfélagi sem þarf að brúa,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar, um það sem bruninn hörmulegi á Bræðraborgarstíg afhjúpaði. Hún vill að starfsemi þjónustumiðstöðva verði færð í auknum mæli inn í hverfin. „Við þurfum að finna betri leiðir svo að nærsamfélagið geti tekið þátt, geti gripið inn í þegar það telur eitthvað bjáta á og viti hvert á að leita.“
Hún segir innflytjendur sem ekki eigi séu með börn vera á „jaðri jaðarsins“. „Þessi hópur hefur oft litla eða enga tengingu inn í samfélagið, er jafnvel algjörlega utanveltu. Þetta er fólkið sem hefur verið að byggja öll húsin hér síðustu ár og vinna í þjónustustörfunum í ferðaþjónustunni og á veitingahúsunum. En þau eru einhvern veginn alveg ósýnileg.“
Leiðari eftir ritstjóra Kjarnans
Eldsvoðar eru ekki náttúruhamfarir, skrifar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í leiðara um brunann á Bræðraborgarstíg. „Þeir eru afleiðingar af ákvörðunum. Til dæmis ákvörðun einhvers sem kveikti í. Eða ákvörðun húseiganda sem taldi ekki þörf á viðeigandi brunavörnum. Eða ákvörðun samfélags sem ákveður að koma þannig fram við erlent verkafólk, sem hingað flytur til að leggja sitt að mörkum við að auka velmegun Íslendinga, að það sé látið búa við óboðlegar og óöruggar aðstæður.“
Í hvert einasta sinn sem þessi meinsemd er opinberuð þá skapast mikil umræða um að nú þurfi að breyta málunum, skrifar Þórður. Auka aðgengi að ódýru og öruggu húsnæði. Bæta eftirlit og heimildir þeirra sem sinna því eftirliti til inngripa. En ekkert gerist.
„En það er val að gera ekkert. Ástæðan er augljós og einföld: Það er fólk sem græðir á fyrirkomulaginu. Hagsmunir þess fólks eru teknir fram yfir hagsmuni erlenda verkafólksins. Meira að segja þegar það verður eldsvoði.“
Lestu meira:
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð