Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
Ritstjórn Kjarnans vann Blaðamannaverðlaun ársins 2020 fyrir umfjöllun sína um brunann á Bræðraborgarstíg og margháttaðar afleiðingar hans. Hér er hægt að lesa umfjöllunina.
Ritstjórn Kjarnans hlaut í dag Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun ársins 2020 fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg 1 í fyrrasumar. Um var að ræða áttundu tilnefningu blaðamanna Kjarnans frá því að hann var stofnaður 2013, en þeir hafa hlotið tilnefningu á hverju ári á tæplega átta ára líftíma miðilsins. Blaðamenn Kjarnans hafa nú þrívegis hlotið verðlaunin. Þeir blaðamenn sem verðlaunin hlutu eru Sunna Ósk Logadóttir, Bára Huld Beck, Arnar Þór Ingólfsson, Jónas Atli Gunnarsson og Þórður Snær Júlíusson.
Í umsögn dómnefndar sagði: „Í umfangsmikilli umfjöllun er fjallað af næmni og dýpt um mannskæðan húsbruna á Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík í fyrrasumar. Blaðamennirnir nálgast atburðinn frá ótal hliðum, frá þeim mannlega harmleik sem átti sér stað, yfir í kerfislæga jaðarsetningu og oft á tíðum óboðlegan aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi.“
Aðrir verðlaunahafar voru Orri Páll Ormarsson á Morgunblaðinu, fyrir viðtal ársins við Ingva Hrafn Jónsson, og Nadine Guðrún Yaghi, Fréttastofu Stöðvar tvö, Bylgjunnar og Vísis, fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins vegna umfjöllunar um umfangsmikil og afdrifarík mistök sem gerð voru við greiningar á leghálssýnum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Þá hlaut Þórhildur Þorkelsdóttir, RÚV, Blaðamannaverðlaun ársins fyrir fréttaflutning og viðtöl í tengslum við erfið og oft viðkvæm mál.
Sá mannskæðasti í borginni
Bruninn, sem var í hjarta Reykjavíkur, er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni. Þrjár ungar manneskjur fórust, fólk sem hafði komið til Íslands frá heimalandinu Póllandi til að vinna. Það hafði séð hér tækifæri til að bæta hag sinn til framtíðar.
Í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg var fjallað um húsið sjálft, eigendur þess og sögu og viðbrögð opinberra stofnanna og annarra við atburði sem á sér enga hliðstæðu á síðari tímum. Varpað var ljósi á framlag erlends verkafólks í aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar, á kjör þess og þær aðstæður sem það er látið búa við og hvernig þær aðstæður gátu skapast.
Fjallað var um samfélagið í Gamla Vesturbænum sem stóð þétt saman og reyndi eftir fremsta megni að rétta fórnarlömbunum, sem mörg hver hafa lítið tengslanet hér á landi, hjálparhönd og sagðar sögur þeirra sem komu fyrst á vettvang brunans.
Þungamiðja umfjöllunarinnar voru frásagnir þeirra sem lifðu af. Fólks sem kom til Íslands í leit að betra lífi en glímir nú við afleiðingar áfallsins sem á eftir að fylgja því alla ævi.
Græðgi æðri mennsku
Um er að ræða umfangsmesta rannsóknarverkefni sem ritstjórn Kjarnans hefur ráðist í. Kjarninn vildi kafa ofan í málið frá öllum hliðum og upprunalega umfjöllunin, sem birt var um miðjan nóvember 2020, innihélt alls 15 fréttaskýringar og viðtöl, tæp 31 þúsund orð. Henni var svo fylgt eftir með ítarlegum hætti út síðasta ár.
Umfjöllunin snertir alla fleti málsins. Hún lýsir mannlegum harmleik, kerfislegri jaðarsetningu erlendra verkamanna á Íslandi og því hvernig við sem samfélag samþykkjum að græðgi sé æðri mennsku og reisn allra.
Kjarninn taldi mikilvægt að birta þessa umfjöllun og varpa með því ljósi á stöðu jaðarsettra hópa sem oft búa við óboðlegar aðstæður.
Allar myndir sem fylgdu með umfjölluninni, og eru sýnilegar hér, eru teknar af Golla og Báru Huld Beck. Myndbandið sem sést efst í þessari umfjöllun er gert af Golla.
Hér að neðan er hægt að lesa þau efni sem mynduðu umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg 1 á árinu 2020: