Árið sem Samherji baðst afsökunar
Opinberun Kjarnans og Stundarinnar á starfsháttum „skæruliðadeildar Samherja“ í maí leiddi til þess að stjórnmálamenn og félagasamtök fordæmdu framfærði fyrirtækisins. Það baðst afsökunar á framgöngu sinni gagnvart blaðamönnum og ýmsum öðrum og síðar afsökunar á ámælisverðum viðskiptaháttum í Namibíu.
Samherjamálið komst í hámæli eftir að þáttur Kveiks sem opinberaði starfsemi Samherja í Namibíu fór í loftið í nóvember 2019 en umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Í málinu er grunur er að um mútugreiðslur hafi átt sér stað, meðal annars til erlendra opinberra starfsmanna. Auk þess er grunur um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um peningaþvætti og brot á ákvæði sömu laga um auðgunarbrot.
Málið hefur verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og skattayfirvöldum hérlendis. Það er einnig til rannsóknar í Namibíu þar sem fjölmargir einstaklingar hafa verið ákærðir. Í Færeyjum hefur Samherji þegar greitt mörg hundruð milljón króna í vangoldina skatta og meint skattasniðganga fyrirtækisins þar hefur verið tilkynnt til lögreglu.
Í könnun sem Stundin fékk MMR til þess að framkvæma í janúar á þessu ári í tengslum við umfjöllun blaðsins um áhrif Samherja á nærsamfélag sitt á Eyjafjarðarsvæðinu kom fram að 92 prósent landsmanna trúðu því að Samherji hafi átt aðild að mútugreiðslum til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu.
„Skæruliðadeild Samherja“ opinberuð
Samherji brást strax við af hörku eftir að þátturinn var sýndur. Það lét meðal annars framleiða áróðursþætti þar sem bornar voru fram margháttaðar ásakanir á hendur þeim blaðamönnum Kveiks sem unnu þáttinn, og RÚV sem sýndi hann. Og einn starfsmaður fyrirtækisins ofsótti Helga Seljan, einn blaðamannanna sem stýrði umfjölluninni, með því að elta hann og senda honum ógnandi skilaboð í gegnum SMS og samfélagsmiðla.
Kjarninn og Stundin birtu í maí 2021 röð fréttaskýringa um aðferðir sem Samherji beitti í áróðursstríði vegna þessa máls.
Í umfjölluninni kom fram að Samherji gerði út hóp fólks sem kallaði sig „skæruliðadeild Samherja“. Hlutverk þeirra var meðal annars að njósna um blaðamenn, greina tengsl þeirra, safna af þeim myndum, og skipuleggja árásir á þá. Þá var einnig opinberað að starfsmenn og ráðgjafar Samherja reyndu að hafa áhrif á formannskjör í stétta- og fagfélagi blaðamanna á Íslandi, að starfsmenn Samherja hefðu sett sig í samband við færeyskan ritstjóra til að rægja færeyska blaðamenn kerfisbundið, lagt á ráðin um að draga úr trúverðugleika rithöfundar sem gagnrýndi fyrirtækið, með því að fletta upp eignum hans.
Kjarninn greindi frá því að skýr vilji hefði verið til staðar innan Samherja til að skipta sér að því hverjir myndu leiða lista Sjálfstæðisflokks í heimakjördæmi fyrirtækisins og að starfsmenn Samherja hefðu verið með áætlanir um víðtæka gagnasöfnun um stjórn félagasamtaka sem berjast gegn spillingu. Kjarninn greindi líka frá því hvernig Samherji hugðist bregðast við gagnrýni frá sitjandi seðlabankastjóra á stríðsrekstur fyrirtækisins gegn nafngreindu fólki.
Athæfi Samherja fordæmt víða
Viðbrögðin við umfjölluninni voru mikil. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist telja framgöngu Samherja algerlega óboðlega, óeðlilega og ætti ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. „Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu. Svona gera menn einfaldlega ekki.“
Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, sagðist hafa áhyggjur af því ef það væri eitthvað óeðlilegt í gangi, með hvaða hætti fyrirtæki blanda sér í stjórnmálabaráttu einstakra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélaga og svo framvegis. „Ef fyrirtæki taka með einbeittum hætti ákvörðun um að fara að beita sér með slíkum hætti er það að allra mati og flestra mati ekki ásættanlegt.“
Þingmaður Pírata, Andrés Ingi Jónsson, sagði aðgerðir gegn fjölmiðlafólki geta komið niður á kosningum og að það væri stórhættulegt að „fjársterkt útgerðarfyrirtæki beiti sér með þessum hætti gegn gervöllu gangverki lýðræðisins“. Þingflokkur hans sendi formlegt erindi til ÖSE vegna málsins og kallaði eftir því að stofnunin myndi skipuleggja kosningaeftirlit á Íslandi í þingkosningunum sem fram fóru í haust.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að hann teldi að Samherji hefði „gengið óeðlilega fram í þessu máli með sínum afskiptum.“
Alvarleg aðför
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði að hún liti á framferðið sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi „sem er algjörlega ólíðandi“. Þessi aðför Samherja veki einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar stæðu nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu.
Alþjóðasamtökin Transparency International lýstu yfir miklum áhyggjum af því sem fram hefur komið í umfjöllunum Kjarnans og Stundarinnar. „Fyrirtæki sem vilja sanna heilindi sín nota ekki undirförular aðferðir gagnvart þeim sem segja frá staðreyndum í þágu almannahagsmuna.“
Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands fordæmdi þá „ljótu aðför að mál- og tjáningarfrelsi sem og æru rithöfunda og fréttafólks sem opinberast hefur síðustu daga í fréttum af Samherja og þeim vinnubrögðum sem þar eru stunduð“.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sögðu í yfirlýsingu telja það „mikilvægt að fyrirtækið axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum, stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum. Á þeim forsendum er unnið á vettvangi SFS og samtökin gera sömu kröfu til sinna félagsmanna.“
Samherji biðst afsökunar
Samherji sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins 30. maí. Þar sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið [...] Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Nokkrum vikum síðar, 22. júní, voru birtar heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um var að ræða bréf sem fjallar um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í Samherjamálinu, skrifaði undir bréfið.
Þar sagði einnig að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hefði fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu. Veikleikar hefði verið í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast. „Við brugðumst ekki við eins og okkur bar. Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fjölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu. Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“
Rannsóknin hélt áfram
Á meðan að allt þetta gekk yfir hélt rannsókn yfirvalda á meintum glæpum Samherja og starfsmanna fyrirtækisins áfram.
Kjarninn greindi frá því í október að rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar hefði færst yfir til embættis héraðssaksóknara skömmu áður.
Til viðbótar við rannsóknina á skattamálum Samherja er í gangi umfangsmikil rannsókn á meintum stórfelldum efnahagsbrotum samstæðunnar, meðal annars mútubrot og peningaþvætti, í tengslum við starfsemi hennar í Namibíu. Gögn málsins benda til að Samherjasamstæðan hafi greitt að minnsta kosti 1,7 milljarð króna í mútur fyrir aðgang að kvóta í Namibíu.
Átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara frá því að fyrsta lota þeirra hófst í fyrrasumar.
Á meðal þeirra er Þorsteinn Már, sem neitaði að svara spurningum héraðssaksóknara þegar hann var yfirheyrður í annað sinn vegna Namibíumálsins í seint í sumar. Í bókun sem lögmaður hans lagði fram fyrir hönd Þorsteins Más þegar hann var kallaður til yfirheyrslu sagði að ástæða þessa væri sú að forstjórinn hefði fengið takmarkaðar upplýsingar um sakarefnið.
Stundin greindi frá því í september að Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, hafi líka fengið slíka stöðu við yfirheyrslur í sumar.
Hinir sex sem voru þá kallaðir inn til yfirheyrslu og fengu réttarstöðu sakbornings við hana voru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.
Lestu meira:
-
5. janúar 2022Markaðsvirði veðsettra íslenskra hlutabréfa var 273 milljarðar króna í lok síðasta árs
-
3. janúar 2022Öll félögin á aðalmarkaði hækkuðu mikið í fyrra – Arion banki tvöfaldaðist í virði
-
3. janúar 2022Heimurinn er betri en við höldum
-
2. janúar 2022Austurland 2021: Árið eftir skriðurnar
-
2. janúar 2022Aðlögun er búin að vera og heyrir sögunni til
-
2. janúar 2022Vitskert veröld
-
1. janúar 2022Rugl, veiran, kerfið sem brást, hrunið og konan sem hefði átt að vera meira „kallinn“
-
1. janúar 2022Stafrænt langstökk til framtíðar
-
1. janúar 2022Árangur í skugga heimsfaraldurs
-
1. janúar 2022Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?