Bruninn á Bræðraborgarstíg
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg í sumar, sem kostaði þrjár ungar manneskjur lífið, er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni. Um íkveikju var að ræða en fleiri þættir gerðu það að verkum að svo margir létu lífið. Bruninn afhjúpaði auk þess þær slæmu aðstæður sem útlendingar búa hér oft við. „Þetta endurspeglar hræðilegan veruleika á Íslandi.“
Þær ganga þétt saman, pískra sín á milli og hlæja. Á bak við þær er róluvöllur og þar er hávaxið tré með breiða krónu. Þetta er selja, víðitegund sem á ættir að rekja til meginlands Evrópu og Asíu. Og líkt og mörg tré á þessum slóðum hefur hún staðið þarna styrkum rótum í áratugi. Þótt vetur sé genginn í garð samkvæmt almanakinu hafa lægðirnar sem honum fylgja verið miskunnsamar að mestu það sem af er og á seljunni eru enn lauf á stangli.
Það skrjáfar í þeim blöðum sem hún þegar hefur fellt undir smáum fótum er þær nema staðar við gangbrautina, líta til beggja hliða og bíða þess að bílarnir stöðvi. Krækja svo saman höndum og allt að því valhoppa yfir götuna af áhyggjuleysi sem aðeins börnum er gefið. Þær eru á að giska níu ára. Vinkonur í Gamla Vesturbænum.
Þegar götunni sleppir og bílarnir halda áfram stoppa þær og horfa upp. Á gangbrautarmerkinu hangir hvít kertalukt og neðan þess liggja blóm. Húsið sem við þeim blasir er hulið gráu neti. Umhverfis það er járngirðing og innan hennar liggja glerbrot og brunnar spýtur. Blár kaðall, sem notaður er til að halda netinu föstu, hefur losnað á einum stað. Hann lafir niður með norðurhlið hússins og á enda hans er bundin stór lykkja. Þetta minnir óþægilega á hengingarsnöru.
Það er þó vart hægt að kalla þetta hús. Þetta eru rústir húss. Húss sem stóð á þessu götuhorni í 114 ár. Í því hafa mörg börn alist upp, setið yfir heimalærdómnum, lært að tefla. Horft út um gluggana á efri hæðunum til fjallanna í fjarska. Í það lögðu Vesturbæingar leið sína í áratugi til að kaupa brauðmeti af Sveini bakara eða nýlenduvörur af Hirti bróður hans. Í þá daga lagði lokkandi ilm af nýbökuðu frá því. Nú liggur þung brunalykt í loftinu.
Forvitnin hefur borið einhverja ofurliði og járngrindurnar við suðurgafl hússins hafa verið færðar í sundur, nógu mikið svo hægt sé að smeygja sér á milli þeirra. Gluggi á jarðhæðinni, sem í er enn heil rúða, hefur verið spenntur upp.
Það er greið leið inn.
Vinkonurnar ungu setur hljóðar á meðan þær virða fyrir sér rústirnar. Þetta er þó eflaust ekki í fyrsta skipti sem þær berja þær augum. Rústirnar hafa blasað við nágrönnum og öðrum vegfarendum í tæpa fimm mánuði. Krossviðsplötur eru fyrir sumum dyrum og gluggum. Í þeim sem enn eru heilir eru dökkar gardínur dregnar fyrir. Húsið var á þremur hæðum en nú standa aðeins sperrurnar eftir af rishæðinni.
Önnur stúlknanna lítur niður og bendir á blómin. Rekur svo augun í eitthvað smágert sem liggur á gangstéttinni. Tekur það upp, veltir því um í lófanum en festir það svo á járngirðinguna. Að því búnu halda þær sína leið.
Þetta er hjarta. Smátt rautt hjarta úr plasti sem hefur eflaust dottið af girðingunni. En nú er það komið aftur á sinn stað.
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 í sumar, í hjarta Reykjavíkur, er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni. Þrjár ungar manneskjur fórust, fólk sem hafði komið til Íslands frá heimalandinu Póllandi til að vinna. Það hafði séð hér tækifæri til að bæta hag sinn til framtíðar.
„Við erum öll manneskjur,“ stendur á pappaspjaldi sem fest er á járngirðinguna. Ís-lendingur, út-lendingur – „tveggja stafa munur,“ er þar minnt á. „Við höfum nafn, eigum okkur menningu, tónlist, ljóð, fortíð, fjölskyldur, drauma og réttindi. Við erum brothætt. Við höfum hæfileika, sögur að segja. Við höfum þarfir. Við erum einstök.“
Fjölskyldur unga fólksins sem lést eru ekki tilbúnar að segja sögur þeirra. Sársaukinn er enn of mikill, segja þær. Fyrir því verður borin virðing í þessari umfjöllun og hvorki greint frá nöfnum þeirra né öðrum persónulegum upplýsingum umfram það sem þegar hefur komið fram opinberlega.
Frá fjölskylduhúsi til herbergjaútleigu
Hornhúsið samanstendur af tveimur byggingum; tveggja hæða húsi við Vesturgötu og tvílyftu timburhúsi með risi við Bræðraborgarstíg.
Bræðraborgarstígur 1 var fjölskylduhús á árum áður. Á efri hæðunum tveimur var búið en atvinnustarfsemi fór fram á jarðhæðinni. Um árabil var það svo í útleigu og síðustu ár hafa herbergi þess, hvert og eitt, verið leigð út, fyrst og fremst til erlendra verkamanna. Leigjendurnir á hvorri hæð fyrir sig deildu baðherbergi og eldhúsi og greiddu að minnsta kosti á bilinu 75-90 þúsund krónur á mánuði í leigu. Fæstir þeirra voru með þinglýsta leigusamninga og áttu því ekki rétt á húsaleigubótum.
Fjórtán íbúar voru heima er eldur kom upp síðdegis fimmtudaginn 25. júní. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði sitt að segja um þann fjölda. Að minnsta kosti fjórir höfðu misst vinnuna og tveir voru heima í fjarnámi þar sem staðnám hafði tímabundið verið lagt til hliðar. Aðrir voru í vaktavinnu; höfðu ýmist lokið morgunvakt eða voru í vaktafríi.
Í þeim hluta hússins sem stendur við Vesturgötu var leigð út íbúð á efri hæðinni. Þar bjuggu tveir ungir menn og voru þeir báðir heima er eldurinn kom upp. Í atvinnuhúsnæði á jarðhæðum bygginganna beggja bjó fólk en óvíst hversu margt. Að minnsta kosti tveir voru heima.
Á rishæð timburhússins við Bræðraborgarstíg bjuggu sex manns í fjórum herbergjum. Fimm þeirra voru heima er eldurinn kom upp.
Á 2. hæðinni bjuggu að því er Kjarninn kemst næst um níu manns í fimm herbergjum og um helmingur þeirra var heima er eldurinn kom upp.
Einn þeirra var Marek Moszczynski.
Marek er rúmlega sextugur. Hann er pólskur en hafði flutt til Íslands fyrir nokkrum árum og bjó á Bræðraborgarstígnum að minnsta kosti um hríð en með hléum. Hann hafði stundað hér vinnu en var orðinn atvinnulaus.
Fyrstu fréttir
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins berst nú við mikinn eld í húsi á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Vesturbæ Reykjavíkur,“ sagði í fyrstu fréttum Ríkisútvarpsins af eldsvoðanum. „Reyk leggur nú yfir stóran hluta borgarinnar.“
Fyrsta tilkynning um brunann barst neyðarlínu klukkan 15.15. Á sömu mínútu barst aðstoðarbeiðni frá sendiráði Rússlands í Garðastræti vegna manns sem léti ófriðlega við húsið. Lögreglan fór þegar á vettvang og handtók manninn. Fljótlega var ljóst að hann var íbúi í húsinu sem var að brenna skammt frá. Á milli Bræðraborgarstígs 1 og Garðastrætis 33, þar sem sendiráð Rússlands er til húsa, eru 500 metrar. Það tekur um 6 mínútur að ganga þessa leið og um 2 til 3 að aka. Á hlaupum er hægt að komast vegalengdina á um þremur mínútum.
Sá handtekni var Marek Moszczynski. Þegar vaknaði grunur um að hann væri valdur að brunanum og um miðjan september var hann ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps. Í ákæru héraðssaksóknara er hann sakaður um að hafa kveikt eld á gólfi herbergis síns á annarri hæðinni og undir stiga á sömu hæð, stiga sem lá upp á rishæðina.
Talið er að bensín hafi verið notað til íkveikjunnar. Eldurinn er í ákæru sagður hafa breiðst hratt út um aðra og þriðju hæðina og að húsið hafi verið „nánast alelda“ er slökkvistarf hófst.
Sáu manneskjur í gluggunum
Þeir sem fyrstir komu á vettvang brunans, nágrannar og sjúkraflutningamenn, sáu fimm manneskjur í gluggum rishæðarinnar. Þær voru fastar inni. Stiginn, eina útgönguleiðin af hæðinni, stóð í ljósum logum og reykurinn sveið í augu og háls. Og eldurinn hélt áfram að magnast allt í kring. Reykurinn að þykkna. „Það var mikill eldur. Við heyrðum sprengingar og sáum þrjár slasaðar manneskjur fyrir utan,“ lýsir sjúkraflutningamaður aðkomunni. „Við litum upp og sáum manneskju í glugganum.“
Í örvæntingu brugðu tvær þeirra á það ráð að brjóta glugga í herbergjum sínum og stökkva út. Önnur þeirra, ung kona, lést skömmu síðar. „Ég gat ekki beðið,“ segir karlmaðurinn sem einnig stökk. „Ég vissi að ég myndi bráðlega missa meðvitund ef ég kæmist ekki út.“ Hann hlaut alvarlega áverka. En hann lifði.
Hlaut alvarleg brunasár
Sjúkraflutninga- og slökkviliðsmönnum tókst að bjarga karlmanni sem bjó í næsta herbergi við hann út um glugga. Karlmaður sem bjó á annarri hæðinni, þeirri hæð sem eldurinn kviknaði, hlaut þriðja stigs brunasár á stórum hluta líkamans og gekkst vikurnar á eftir undir nokkrar aðgerðir. Hann var dögum saman á gjörgæsludeild og ekki útskrifaður af Landspítalnum fyrr en eftir miðjan ágúst. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, á frekari aðgerðir fyrir höndum.
Tvær manneskjur á rishæðinni, karl og kona, komust ekki út í tæka tíð og létu lífið í eldsvoðanum.
Marek neitar sök. Samkvæmt mati geðlæknis var hann ósakhæfur á verknaðarstundu. Verjandi hans hefur farið fram á að þinghaldið verði lokað. Tveir geðlæknar til viðbótar, svokallaðir yfirmatsmenn, voru fengnir til að fara yfir geðmatið. Þeir hafa ekki lokið þeirri vinnu og ákvörðun um hvort þinghaldið verður lokað hefur enn ekki verið tekin.
Óháð því hvort að kveikt var viljandi í voru fyrir hendi í húsinu að Bræðraborgarstíg 1 fleiri samverkandi þættir sem höfðu áhrif á eldsvoðann og urðu til þess að hann varð jafn mannskæður og raun ber vitni.
Húsið er gamalt og úr timbri. Einangrun var að mestu leyti brennanleg sem auðveldaði útbreiðslu eldsins á milli hæða og herbergja. Að innan var húsið almennt klætt með timbri á veggjum og í lofti. Búið var að mála mörgum sinnum, ýmist með olíu- eða plastmálningu. Allt jók þetta á brunaálagið.
Átján herbergi og ein íbúð
Þá var búið að breyta notkun hússins. Á efri hæðunum tveimur var hvert einasta herbergi leigt út. Milli 15 og 20 manns bjuggu í þessum rýmum þegar mest lét. Á jarðhæðinni, sem er skráð sem atvinnuhúsnæði, hafðist einnig fólk við og svaf. Í fasteignaauglýsingu í upphafi árs kom fram að húsið væri „leigt út sem átján herbergi og ein tveggja herbergja íbúð“.
Á þeim hluta hússins sem brann voru engar svalir. Engir brunastigar. Aðeins ein flóttaleið var af rishæðinni. Opnanleg fög á gluggum voru lítil og í herbergjum var enginn hamar til að brjóta glerið. Á göngum voru slökkvitæki en þau höfðu ekki verið tekin út í lengri tíma. Engar brunaæfingar höfðu farið fram í húsinu í að minnsta kosti sex ár.
Heyrðu aldrei í reykskynjara
„Hefði verið hægt að slökkva í þessu með slökkvitæki?“ spyr einn viðmælandi Kjarnans sem kom að rannsókn brunans. „Á einhverju augnabliki hefði það verið hægt.“
Einhverjir reykskynjarar voru í sameiginlegum rýmum að Bræðraborgarstíg 1. En þeir eftirlifendur eldsvoðans sem Kjarninn hefur rætt við og þeir sem skýrsla var tekin af hjá lögreglu eftir brunann, heyrðu aldrei í þeim. „Það fór enginn reykskynjari í gang,“ segir einn íbúinn. „Ég er alveg viss.“
Þeir áttuðu sig ekki á því að kviknað væri í fyrr en þeir heyrðu skelfingaróp sambýlinga sinna fram á gangi.
Óháð lögreglurannsókninni sem þegar hefur leitt til ákæru á hendur Marek Moszczynski, hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun rannsakað eldsvoðann þar sem sjónum er beint að húsinu sjálfu, slökkvistarfinu og fleiri þáttum. Sú skýrsla verður kynnt slökkviliðsstjórum á næstu dögum og í kjölfarið verða helstu niðurstöður hennar birtar opinberlega.
„Ef einhver segir að ekkert hefði verið hægt að gera til að bjarga lífum í brunanum á Bræðraborgarstíg þá er það óábyrgt og hættulegt,“ segir Benjamin Julian, starfsmaður stéttarfélagsins Eflingar. Flestir sem bjuggu í húsinu voru í því félagi og nokkrir þeirra leituðu þangað eftir aðstoð. „Harmleikurinn á Bræðraborgarstíg getur farið á tvo vegu: Hann getur orðið harkaleg lexía fyrir okkur um að taka á rót vandans eða að við yppum öxlum og segjum: Það er aldrei hægt að stoppa íkveikjur.“
Vandinn sem Benjamin bendir á er sá oft á tíðum slæmi aðbúnaður sem erlent verkafólk þarf að búa við í íslensku samfélagi. Tæpur áratugur er liðinn síðan að afhjúpað var að mikill fjöldi fólks, mörg hundruð manns, byggi í iðnaðarhúsnæði og öðru óleyfishúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þannig var staðan árið 2014, áður en ferðaþjónustan sprakk út af krafti og byggingariðnaðurinn fór samtímis á flug. Starfsmannaleigum óx fiskur um hrygg, milliliðnum milli fyrirtækja og vinnuafls, þar sem dæmi er um að litið var á fólk sem „vörur“ og þær ítrekað orðið uppvísar að því að brjóta á réttindum starfsmanna sinna.
Rifu sig upp með rótum
Íslendingar hafa á síðustu árum upplifað mesta góðærisskeið allra tíma. Vöxtur í ferðaþjónustu var hraður og hann útheimti mikið vinnuafl. Þetta vinnuafl var ekki á lausu og því þurfti að sækja það að utan. Innflytjendur voru því aflið sem knúði góðærisvélina. „Fjöldinn allur af erlendu verkafólki reif sig upp með rótum í heimalöndum sínum til þess að hlaupa undir bagga með okkur í uppsveiflunni,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, sviðsstjóri félags- og þróunarsviðs Eflingar.
Þetta er svo sá samfélagshópur sem samdráttur í ferðaþjónustu á síðasta ári kom einna verst niður á og einnig það fólk sem orðið hefur hvað harðast úti í efnahagskreppunni sem hófst með kórónuveirufaraldrinum og sér ekki fyrir endann á.
„Yfirmaður minn öskraði á mig og spurði mig hvort ég vildi þéna peninga eða borga skatta,“ segir kona sem starfaði fyrir eigendur Bræðraborgarstígs 1 fyrir nokkrum árum. Hún fékk aldrei neina launaseðla, þekkti ekki réttindi sín og hafði ekki hugmynd um að hún gæti gengið í stéttarfélag. „Ég veit það aftur á móti núna, en því miður ekki þá.“
Ekki allra hagur að bæta úr
Mikil umræða skapaðist eftir eldsvoðann á Bræðraborgarstíg og þess var krafist að aðbúnaður erlends verkafólks yrði bættur. Lausnin felst í því að auka aðgengi að ódýru og öruggu húsnæði. Það er ekki til staðar og því þarf að byggja. Mál voru sett í nefnd og umræðan koðnaði niður að mestu. „Ef það væri hagur allra að laga þetta yrði það gert,“ segir Benjamin. „En það er ekki allra hagur. Lykill málsins er sá að það er fólk hér á landi sem græðir á þessu fyrirkomulagi.“
Fyrirkomulagi sem gengur út á að fá hingað til starfa fólk sem er tilbúið að vinna fyrir lægri laun en flestir Íslendingar, tilbúið að sinna störfum sem Íslendingar hafa fæstir áhuga á. Og til að þessi formúla gangi upp, svo að útlendingarnir beri eitthvað úr býtum, þurfa þeir ódýrt húsnæði. Það húsnæði sem þeim býðst í dag á viðráðanlegu verði er meðal annars iðnaðarhúsnæði eða lítil leiguherbergi eins og þau sem var að finna á Bræðraborgarstíg 1. Húsnæði sem uppfyllir ekki alltaf kröfur um eldvarnir, þar sem margir ótengdir aðilar búa saman og deila eldhúsi og salernum og nú á sama tíma og faraldur bráðsmitandi og hættulegrar veiru gengur yfir heimsbyggðina.
Vilja ekki rífa húsið
Brunarústirnar standa enn á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur sendi eigandanum bréf í lok október þar sem honum var gert að sækja um niðurrif og fjarlægja það sem eftir stæði af húsinu innan þrjátíu daga. Var honum gefinn fimmtán daga frestur til að gera athugasemd við ákvörðunina.
Hún barst byggingarfulltrúa í síðustu viku. Í henni kemur fram að eigandinn vilji ekki að húsið verði rifið strax. Það sé sönnunargagn í vátryggingamáli sem geti dregist í marga mánuði, jafnvel ár. Ákveði yfirvöld engu að síður að rífa það verði farið í mál og þau krafin bóta. Lögfræðingur byggingarfulltrúa fer nú yfir málið og ákvörðun um næstu skref verður tekin í framhaldinu.
Í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg verður fjallað um húsið sjálft, eigendur þess og sögu og viðbrögð opinberra stofnanna og annarra við atburði sem á sér enga hliðstæðu á síðari tímum. Varpað er ljósi á framlag erlends verkafólks í aukinni hagsæld íslensku þjóðarinnar, á kjör þess og þær aðstæður sem það er látið búa við og hvernig þær aðstæður gátu skapast.
Fjallað er um samfélagið í Gamla Vesturbænum sem stóð þétt saman og reyndi eftir fremsta megni að rétta fórnarlömbunum, sem mörg hver hafa lítið tengslanet hér á landi, hjálparhönd og sagðar sögur þeirra sem komu fyrst á vettvang brunans.
Þungamiðja umfjöllunarinnar er frásagnir þeirra sem lifðu af. Fólks sem kom til Íslands í leit að betra lífi en glímir nú við afleiðingar áfallsins sem á eftir að fylgja því alla ævi. „Ég hugsa stundum um það hvort að ég hefði getað leikið ofurhetju og bjargað þeim,“ segir Vasile Tibor Andor sem komst út úr brennandi húsinu á síðustu stundu. „En ég veit innst inni að ég gat það ekki. Að þegar ég vissi af eldinum var það orðið of seint.“
Myndband: Golli. Myndir: Golli og Bára Huld Beck
Umfjöllun Kjarnans um brunann á Bræðraborgarstíg í heild sinni:
Lesa meira
-
23. október 2021„Vanda þarf til verka á þessu mikilvæga og viðkvæma horni“
-
14. október 2021Byggingin „lík virki“ og skýringarmyndir „fráhrindandi“
-
9. október 2021Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
-
19. júní 2021„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
-
11. júní 2021Bæturnar aðeins „dropi í hafi“ miðað við tjónið
-
10. júní 2021Ríkissaksóknari ætlar ekki áfrýja dómi í Bræðraborgarstígsmálinu
-
3. júní 2021Marek metinn ósakhæfur og sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins
-
5. maí 2021„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
-
28. apríl 2021Marek segist ekki hafa tekið geðlyfin í hálft ár
-
27. apríl 2021„Íslenska parið“ og yfirlýsingar Mareks um Moskvuferð
-
26. apríl 2021„Ég man allt saman. Þó að ég hafi verið veikur“
-
25. apríl 2021Eitt stærsta manndrápsmál sögunnar loks fyrir dóm
-
26. mars 2021Kjarninn vann Blaðamannaverðlaunin fyrir umfjöllun um brunann á Bræðraborgarstíg
-
20. mars 2021Bruninn á Bræðraborgarstíg: Græðgin æðri mennskunni og reisn allra
-
19. mars 2021Kjarninn tilnefndur til verðlauna fyrir umfjöllun um Bræðraborgarstígsbrunann
-
20. janúar 2021Rannsaka ætluð brot eiganda Bræðraborgarstígs 1
-
16. janúar 2021Keyptu hús og rústir á Bræðraborgarstíg á 270 milljónir og sækja um niðurrif eftir helgi
-
22. desember 2020Beið í yfir þrettán mínútur eftir björgun úr eldhafinu
-
20. desember 2020Einn reykskynjari en án rafhlöðu fannst í rústum hússins
-
18. desember 2020Húsið að Bræðraborgarstíg 1 var „óbyggilegt“