Það er enginn vafi að markaðsbúskapur og alþjóðasamvinna hefur aukið lífsgæði á Íslandi. Árið 1994, þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) tók gildi var landsframleiðsla Íslendinga 440 milljarðar króna. Í fyrra var hún 2.555 milljarðar. Kakan hefur því stækkað feikilega mikið á aldarfjórðungi. Það er gott. Íslandi gengur best þegar við stöndum fyrir viðskiptafrelsi, alþjóðasamvinnu, mannréttindi og leggjum áherslu á rétt neytenda.
En þessum mikla vexti hafa fylgt heimasmíðuð vandamál. Hér innanlands hefur nefnilega ekki verið nægjanlegur vilji til að skipta kökunni jafnt. Þvert á móti hafa þeir sem halda á kökuhnífnum lagt sig fram við að gera það ekki.
Íslensk efnahagsstefna er mótuð í anda brauðmolakenningarinnar. Þannig hefur málum verið háttað frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar, þegar EES-samningurinn breytti heimamarkaði okkar úr um 300 þúsund manns í um hálfan milljarð. Hún snýst um að skapa aðstæður þar sem fjármagnseigendur geta hagnast sem mest og að það eigi að leiða til þess að hinir hafi það aðeins betra.
Í framkvæmd er það þó þannig að hagur efsta lagsins eykst langt umfram hag hinna sem þurfa að bera ábyrgð á stöðugleikanum með því að halda launakröfum sínum í skefjum.
Þegar stöðugleikinn bregst og aðlögunar er þörf er hún tekin í gegnum veski launamanna með verðbólgu, atvinnuleysi og lækkun á gengi krónunnar. Slík aðlögun skapar hins vegar vanalega tækifæri fyrir efsta lagið til að auka enn á auð sinn með fjármagnsflutningum (sjá aflandsfélagaeign Íslendinga og fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands).
Afleiðing þessa kerfi, hvort sem það er góðæri eða kreppa, er sú að efsta lag samfélagsins, fjármagnseigendurnir, taka til sín flestar nýjar krónur sem verða til í efnahagskerfinu á hverju ári. Þetta er ekki tilfinning, heldur staðreynd sem studd er tölum.
Hinir ríku fá miklu fleiri krónur
Þeir sem vilja fela þessa staðreynd kjósa gera tvennt. Þeir benda á að samkvæmt Gini-stuðlinum margfræga sé Ísland Evrópumeistari í jöfnuði, en geta þess ekki að hann mælir ekki fjármagnstekjur nema í mjög litlu mæli. Hitt sem er gert er að horfa á eignaskiptingu og ójöfnuð út frá hlutfallstölu í stað þess að horfa á hana út frá krónutölu.
Dæmi um það er að ríkasta prósent landsmanna átti 23,9 prósent af eigin fé íslenskra fjölskyldna (bæði samskattaðra og einstaklinga) árið 2011. Í lok árs 2016 hafði hlutfall þessa hóps, sem telur rúmlega tvö þúsund mjög ríkar fjölskyldur, af heildarauði landsmanna, skroppið saman í 19,2 prósent. Fylgismenn brauðmolakenningarinnar benda á þetta og segja að ójöfnuður sé að minnka. Kakan sé einfaldlega að stækka. „Reaganomics“ virki.
En það er líka hægt að horfa á stöðuna frá öðru og eðlilegra sjónarhorni. Frá 2011 og út árið 2016 jókst eigið fé landsmanna um 1.487 milljarða króna. Af því fór 169,4 milljarðar króna til ríkasta prósents landsmanna. Á árinu 2016 einu saman jókst auður þeirra um 53,1 milljarð króna. Fyrir þá sem neita að ræða um jöfnuð nema í hlutfallstölum þá fór 11,4 prósent af öllum nýjum auði sem varð til í samfélaginu á ofangreindu tímabili til ríkasta eins prósents landsmanna. Reynið að finna jöfnuðinn í því.
Milljarður að meðaltali
Til samanburðar jókst eigið fé 90 prósent landsmanna um 209 milljarða króna það ár. 196.802 fjölskyldur fengu að meðaltali rúmlega eina milljón króna í sinn hlut af nýjum auði á árinu 2016. Sá auður var nánast einvörðungu til komin vegna þess að fasteignaverð hækkaði mikið og fór því til þess hluta hópsins sem átti fasteign. Ekki er um fé sem auðvelt er að ráðstafa, enda frumþörf að hafa þak yfir höfuðið. Ef fasteignir eru seldar, og eigið fé losað, þarf flest venjulegt fólk að nota þorra eiginfjár síns til að kaupa nýtt húsnæði.
Hver og ein fjölskylda innan ríkasta prósentsins jók á sama tíma hreina eign sína um 24,4 milljónir króna að meðaltali. Sumir auðvitað miklu meira en aðrir.
Ríkasta 0,1 prósentið, alls 218 fjölskyldur, tók til sín 46 nýja milljarða á árunum 2011 til 2016. Það er þrjú prósent af öllum nýjum auði. Bara á árinu 2016 jókst hrein eign hópsins um 14 milljarða króna og fór upp í 201 milljarð króna. Meðaltals hrein eign hverrar fjölskyldu sem tilheyrir þessari yfirstétt Íslands er um einn milljarður króna.
Ef þessi þróun heldur áfram eins og hún var árið 2016 mun 0,1 prósent ríkasta prósent þjóðarinnar eignast 87,5 milljarða króna í viðbót í hreina eign á næstu fimm árum.
Þetta er staðan í samfélagi sem er drifið áfram af þremur efnahagsstoðum sem nýta náttúruauðlindir. Sem treystir á innflutt vinnuafl til að halda við hagvexti og skapa góðæri. Sem hefur farið í gegnum heildarendurskipulagningu á atvinnulífi og fjármálastarfsemi eftir allsherjarhrun. Sem stærir sig af því að vera samfélag jöfnuðar, en er það ekki.
Launahækkanir efsta lagsins
Efsta lag íslensks samfélags, elítan, er ekki einungis sér á báti þegar kemur að hreinum eignum – sem eru reyndar vanmetnar í ofangreindu dæmi vegna vanmats á verðbréfum hópsins – heldur hefur það, samkvæmt mati sérfræðinga, ríka tilhneigingu til að geyma mikið magn eigna í eignarhaldsfélögum. Virði þeirra eigna, sem geta t.d. verið verðbréf, innbú, húsnæði eða dýr frístundabúnaður, getur hlaupið á tugum eða hundruðum milljóna króna. En á skattskýrslu er einungis gefin upp virði hlutafjár eignarhaldsfélagsins, oft lágmarksupphæð sem þarf að greiða inn í slíkt, eða 500 þúsund krónur. Umfang eigna þeirra er því falið og er mun meira en skattframtölin segja til um.
Staða þessa hóps er líka allt önnur en flestra þegar kemur að launum. Á undanförnum árum hefur átt sér stað ótrúlega skammlaus sjálftaka á því sviði. Þekkt er hvernig æðstu embættismenn á borð við ráðherra, þingmenn, aðstoðarmenn ráðherra og dómarar fengu skammtað tugprósenta launahækkunum af kjararáði, sem sömu aðilar skipuðu. Þingmenn hækkuðu til að mynda um 44,3 prósent í launum á kjördag 2016. Í staðinn voru laun kjararáðs hækkuð af stjórnmálamönnum.
Þekkt er hvernig tekin var pólitísk ákvörðun um það að færa forstjóra ríkisfyrirtækja undan kjararáði með þeim afleiðingum að stjórnir sömu fyrirtækja, skipaðar af stjórnmálaflokkum, ákváðu að hækka laun útvarpsstjóra um 16 prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Isavia um 20 prósent í 2,1 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Landsvirkjunar um 32 prósent upp í 2,7 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Íslandspósts um 17,6 prósent í 1,7 milljónir króna á mánuði og laun forstjóra Landsnets um tíu prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði.
Þetta var gert þrátt fyrir að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, hefði beðið stjórnarmenn sérstaklega um það, bæði skriflega og í eigin persónu, að sýna hófsemi í launaákvörðunum forstjóranna.
Kannski reiknaði einhver með því að þetta myndi þýða að stjórnarformennirnir yrðu látnir taka pokann sinn. Engir fleiri bitlingar fyrir þá. Einhver reiknaði rangt. Jónas Þór Guðmundsson, trúnaðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður kjararáðs og stjórnarformaður Landsvirkjunar, var endurskipaður í síðarnefnda starfið fyrr í þessum mánuði.
Forstjórar fyrirtækja í Kauphöll, sem eru meira og minna fyrirtæki sem þurftu á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda eftir bankahrunið og stunda þjónustustarfsemi á fákeppnismarkaði, eru með nálægt fimm milljónum króna að meðaltali í mánaðarlaun. Það eru 17-18föld lágmarkslaun. Umtalsvert launaskrið er að eiga sér stað þar.
Meðallaun starfsmanna sjóðsstýringarfyrirtækja, milligönguaðila fyrir fjárfestingar lífeyrissjóða og þeirra örfáu annarra sem kaupa verðbréf á Íslandi, eru um tvær milljónir króna á mánuði. Laun starfsmanna GAMMA hækkuðu að meðaltali um 327 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Lágmarkslaun á Íslandi eru sem stendur 280 þúsund krónur á mánuði.
Skattbyrði tekjulægstu eykst mest
Kannski hefðu einhverjir vænst þess að samhliða þessari gósentíð efsta lagsins þá hefðu millifærslukerfi hins opinbera verið styrkt til að halda almúganum góðum. Það er þó ekki alveg þannig. Þvert á móti.
Hér koma nokkrar staðreyndir:
- Fjölskyldum sem fengu barnabætur hér á landi fækkaði um tæplega tólf þúsund milli áranna 2013 og 2016.
- Skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags hefur aukist mest allra hópa frá 1998. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
- Í nýlegri bók, Ójöfnuður á Íslandi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson, kemur fram að tekjuskipting á Íslandi að frá árinu 1997 hafi hlutur fjármagnstekja aukist mikið en tekjur af atvinnurekstri minnkuðu samhliða þeim vexti. Sú breyta sem orsakaði helst aukningu á ójöfnuði á árunum 1994 til 2007 var söluhagnaður verðbréfa, sem reiknast ekki til ráðstöfunartekna útreikningum Hagstofunnar á Gini-stuðlinum, sem sýnir einn mesta tekjujöfnuð í heimi á Íslandi. Með öðrum orðum jókst ójöfnuður vegna þess að tekjur fyrir skatt urðu ójafnari, einkum vegna mikils vaxtar fjármagnstekna hátekjufólks.
- Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín 55 milljarða króna af þeim fjármagnstekjum sem urðu til árið 2016, eða 47 prósent þeirra. Þessi staða þýðir því að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.
- Ungt fólk á Íslandi hefur dregist aftur úr í tekjum undanfarin aldarfjórðung á meðan að eftirlaunaþegar hafa bætt stöðu sína umtalsvert. Áhrif skatta- og bótakerfa á tekjudreifingu milli aldurshópa virðast hafa verið fremur lítil, samkvæmt skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um kynslóðareikninga.
- Um þúsund manns eiga ríflega 98 prósent alls eigin fjár í fyrirtækjum á Íslandi sem er í eigu einstaklinga. Hluturinn sem tilheyrir einstaklingum nemur um 1.200 milljörðum króna. Tíu eignamestu einstaklingar landsins eiga tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum, sem er í höndum einstaklinga.
- Nú stendur til að lækka neðra þrep tekjuskatts um eitt prósentustig. Sú aðgerð, sem rýrir tekjur ríkissjóðs um 14 milljarða króna, mun skila fólki sem er með meira en 835 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði þrisvar sinnum fleiri krónum í vasann en fólki sem er á lágmarkslaunum.
Húsnæðismál
Nú er í tísku að segja að það hafi alltaf verið erfitt að eignast húsnæði. Og það er rétt að það hefur líkast til alltaf verið basl. En hagtölur sýna að það hefur aldrei verið erfiðara en nákvæmlega núna að geta haft þak yfir höfuðið, óháð því hvort viðkomandi á það eða leigir.
Aftur skulum við taka nokkur dæmi:
- Meirihluti leigjenda, alls 57 prósent, er á leigumarkaðnum af nauðsyn og 80 prósent leigjenda vilja kaupa sér íbúð, en geta það ekki. Einungis 14 prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir leigjendur geta safnað sér sparifé.
- Um 20.000 manns á aldrinum 20 til 29 ára býr í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi vaxið ótrúlega hratt á undanförnum árum. Fjöldi Íslendinga sem er á þeim aldri er í kringum 50 þúsund.
- Aðeins um helmingur leigjenda er með séreignarsparnað, samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs. Eftir því sem tekjur leigjenda eru lægri, minnka líkur á því að viðkomandi sé að safna séreignarsparnaði. Úrræði stjórnvalda um að veita þeim sem safna sér séreign skattleysi til að borga niður húsnæðislánin sín gagnast því fyrst og fremst tekjuhærri einstaklingum samfélagsins. Ungt fólk hefur sáralítið getað nýtt sér úrræðin.
- Leiðréttingin, greiðsla úr ríkissjóði til hluta landsmanna sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, kostaði 72,2 milljarða króna. Þau tíu prósent Íslendinga sem höfðu hæstu launin árið 2014 fengu tæplega 30 prósent upphæðarinnar, eða um 22 milljarða króna. Sá helmingur Íslendinga sem þiggur hæstu launin fékk 86 prósent af henni en sá helmingur sem þénar minna en hinn fékk 14 prósent. Því fengu tekjuháir nánast alla Leiðréttinguna en tekjulitlir lítið sem ekkert.
- Þegar eignastaða er skoðuð er þjóðhagsleg niðurstaða Leiðréttingarinnar enn meira sláandi. Rúmlega 20 þúsund framteljendur sem áttu mestar eignir fengu 9,6 milljarða króna í leiðréttingu á húsnæðislánum sínum. Þessi hópur á hundruð milljarða í hreinni eign.
- Fasteignaverð hefur tvöfaldast á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010. Um er að ræða eina mestu hækkun á fasteignaverði sem orðið hefur á tímabilinu í heiminum. Íbúð sem kostaði þá 15 milljónir króna kostar nú um 30 milljónir króna. Þessi hækkun er langt umfram vöxt á kaupgetu. Ástæður þessa eru margar. Eftirspurn er mun meiri en framboð, mikil fjölgun útlendinga sem hingað flytja hefur áhrif, fimmföldun á fjölda ferðamanna hefur gert það að verkum að þúsundir íbúða eru nú teknar undir Airbnb og aðra sambærilega starfsemi og arðsemisdrifin leigufélög hafa tvöfaldað umsvif sín á örfáum árum.
- Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík, langstærsta sveitarfélagi landsins, ætlar að afnema fasteignagjöld á 70 ára og eldri komist hann að völdum. Það er sá hópur sem er langlíklegastur til að eiga húsnæði sitt skuldlaust og tekjulægstu hópar ellilífeyrisþega, sem eru með tekjur undir 426 þúsund, eru nú þegar með 50-100 prósent afslátt á fasteignasköttum. Þess vegna er um skattafnám að ræða fyrir tekjuhærri og eignamikla hópa. Nákvæmlega þá sem þurfa ekki á meðgjöf ríkisins að halda.
Það þarf að kalla kjaftæði
Svona er staðan. Það á sér stað sjálftaka þeirra sem hafa betri aðgengi að tækifærum, upplýsingum og peningum annarra. Sú sjálftaka er annað hvort til að mylja undir þá sjálfa eða gerð til að tryggja völd þeirra í sessi.
Samtímis eru send út eftirfarandi skilaboð: Launafólk með nokkur hundruð þúsund krónur í laun á mánuði, sem er í vandræðum með að ná endum saman, sem hefur ekki fengið millifærslur úr ríkissjóði, hefur misst barnabætur sínar vegna þess að það þénar nú of mikið af krónum, sem eyðir rúmlega helmingi af ráðstöfunarfé sínu í leigu á húsnæði vegna þess að það getur ekki keypt (og getur þar af leiðandi ekki lagt fyrir vegna þess að leigan er svo dýr), sem fær ekki skattaafslátt vegna séreignarsparnaðar vegna þess að það telur sig ekki hafa efni á að safna séreign, á að axla ábyrgð á stöðugleika með því að sætta sig við minna. Það á að viðhalda stöðugleikanum með hóflegum launahækkunum þrátt fyrir sífellt kostnaðarsamari lífsbaráttu á meðan að efsta lagið skóflar til sín fjármunum og lífsgæðum.
En það er kominn tími til að kalla kjaftæði. Það kerfi sem er við lýði er til fyrir hina fáu á kostnað hinna mörgu. Og hinir mörgu eiga ekki lengur að sætta sig við brauðmola þegar kakan stækkar, heldur að fara fram á alvöru sneið. Þeir bökuðu þessa köku líka, ekki bara gömlu ríku karlarnir í úthverfasveitarfélögunum.
Ef elítan vill stöðugleika þá skal hún hætta að hækka laun forstjóra á fákeppnismarkaði um margföld lágmarkslaun á mánuði. Þá skal hún draga til baka tugprósenta launahækkun helstu opinberu starfsmanna og fylgitungla þeirra.
Þá skal hún tryggja að greitt sé eðlilegt gjald fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðar í stað þess að handfylli fólks sem ræður yfir sjávarauðlindinni auki enn við mörg hundruð milljarða króna eigið fé sitt og svo að þessi sami hópur geti keypt þá fleti þjóðfélagsins sem hann er ekki þegar búinn að kaupa. Þá skal hún hefja sanngjarna gjaldtöku á ferðaþjónustu fyrir þann ágang á innviði og náttúruauðlindir okkar sem vöxtur hennar hefur haft.
Þá skal hún tryggja að markaðshagkerfið sem sannarlega eykur efnahagslega velsæld okkar sem heildar haldist í sessi með því að kökunni sem bökuð er með nýtingu náttúruauðlinda, rekstri fyrirtækja á einokunar- eða fákeppnismarkaði, fyrirtækjum sem búið er að keyra í gegnum skuldaþvottavél áður gjaldþrota banka og færa völdum þegnum á silfurfati skiptist jafnar á milli þegnanna og nýtist betur til að bæta lífsgæði þeirra allra.
Ef þetta er ekki gert mun ágjöfin á hið markaðsdrifna vestræna og lýðræðislega stjórnskipulag aukast og reiði þeirra sem skildir eru út undan verða enn meiri. Valkvæð misskipting og sjálftaka sem leiðir af sér aukna misskiptingu er nefnilega helsta ógnin við þetta kerfi. Með því grefur það undan sjálfu sér.
Misskipting gæða á Íslandi gerðist ekki óvart. Hún er afleiðing af vilja og hún var innleidd í kerfin okkar. Það þarf ekkert annað en vilja til að breyta henni.