Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lögð umtalsverð áhersla á traust. Þar stendur meðal annars: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ Til að fylgja þessu markmiði eftir skipaði Katrín starfshóp strax í janúar 2018 sem hafði það hlutverk að efla traust á stjórnmál og stjórnsýslu.
Sá hópur skilaði af sér niðurstöðum í byrjun september síðastliðins. Hann lagði til 25 tillögur. Þær sem munu breyta mestu snúa annars vegar að því að hefta völd og aðgengi hagsmunaaðila að stjórnsýslunni og hins vegar að því að setja reglur um starfsval eftir að einstaklingar ljúka opinberum störfum. Þá á að endurskoða siðareglur og setja löggjöf sem verndar uppljóstrara.
Þegar ríkisstjórnin hafði setið í nokkrar vikur í byrjun síðasta árs mældist traust á Alþingi 29 prósent. Það var mjög lágt, nægilega lágt til þess að ofangreindar áherslur fengu mikið svigrúm í stjórnarsáttmála og í verkum ríkisstjórnarinnar á fyrstu starfsmetrum hennar. En það traust var samt sem áður það mesta sem mælst hafði gagnvart löggjafarþinginu í áratug.
Von þeirra sem stóðu að hinni sérstæðu ríkisstjórn, með vinsælasta stjórnmálamann þjóðarinnar á forsætisráðherrastóli að leiða samankurl flokka með mjög ólíka hugmyndafræði um hvað sé gott samfélag, var að hún myndi leiða til meiri sáttar. Ef andstæðingar í stjórnmálum, frá vinstri til hægri, gætu myndað ríkisstjórn um að eyða peningum í innviðafjárfestingar, og komið sér saman um að leggja stór kosningaloforð sín að mestu til hliðar, þá ættu Íslendingar allir að geta farið að treysta hvorum öðrum, og stofnunum samfélagsins, betur.
Þetta var auðvitað draumsýn.
Fleiri treysta bönkum en stjórnmálum
Gallup birti í lok síðustu viku nýjan þjóðarpúls þar sem spurt var um traust til stofnana. Þar kom í ljós að traust til Alþingis hefur hrunið um ellefu prósentustig á einu ári og einungis 18 prósent landsmanna treysta því nú. Til samanburðar má nefna að fyrir bankahrunið treystu 42 prósent þjóðarinnar Alþingi.
Athygli vekur að bankakerfið nýtur nú trausts 20 prósent landsmanna. Það er auðvitað afleit niðurstaða og sýnir að þar er mikið verk óunnið til að rétta við traust. Samkvæmt könnun sem gerð var vegna vinnu við Hvítbók um fjármálakerfið kom í ljós að fólk vantreysti bönkum vegna hrunsins, vegna þess að það telur að þeir bjóði fólki ekki upp á réttlætanleg kjör og vegna þess að því mislíkar háttsemi sem einkennir menningu bankanna.
Það þýðir að bankar, sem fólkið í Hvítbókarkönnuninni lýsti meðal annars sem spilltum og gráðugum, njóta meiri trausts en helstu stjórnvöld á Íslandi. Það er í fyrsta sinn frá hruni sem það gerist.
Í samhengi við íslensk stjórnmál er hægt að nefna þrennt sem stjórnmálamenn hafa gert sjálfir, eða sem hópur, sem var óumflýjanlegt að myndi leiða af sér þá niðurstöðu að traust myndi tapast.
Neita að axla ábyrgð
Í fyrsta lagi þá þykir ekki við hæfi að axla ábyrgð í íslenskum stjórnmálum með því til að mynda að víkja til hliðar þegar einhver sem starfar innan þeirra tekur rangar ákvarðanir sem hafa miklar afleiðingar. Þegar einhver sýnir af sér meðvitaða tilburði til að leyna almenning upplýsingum. Þegar ráðherra fremur lögbrot. Þegar stjórnmálamenn kjósa að lifa í öðrum efnahagslegum veruleika en þeim sem þeir bjóða þegnum sínum upp á. Eða þegar stjórnmálamaður eða -menn misfara með fé almennings með svo grófum hætti að þeim sem þeir vinna hjá ofbýður, í kjördæmapoti eða sjálftöku, til dæmis með því að rukka almenning um kostnað vegna keyrslu í prófkjörum. Með því að eyða tugum milljóna króna til að halda ofur vel upplýstan elítufund á fullveldisafmælinu með umdeildum erlendum talsmanni kynþáttahyggju. Eða með allri frændhyglinni sem hefur verið opinberuð um skömmtun á störfum, stjórnarsetu, verkefnum eða öðrum tækifærum og aðgengi til vildarvina í strokusamfélaginu Íslandi. Svo fátt eitt sé nefnt.
Pólitíska menningin hér á landi er sú að áframhaldandi stjórnmálastarf þess einstaklings sem brýtur gegn trausti almennings sé mikilvægari en að almenningur treysti stjórnmálum. Og að einu skuldaskilin sem stjórnmálamenn ættu að standa fyrir séu í kosningum, þar sem einstaklingar eru reyndar ekki kosnir heldur listar með tugum manns.
Nýjustu dæmin eru þau að stjórnmálamenn ákváðu, í samtryggingu, að vinda ekki ofan af launahækkunum sínum upp á tugi prósenta sem veittar voru fyrir tveimur og hálfu ári þrátt fyrir að fyrir lægi að þær myndu setja næstu kjarasamninga í uppnám. Fyrir vikið eru þær táknrænt vopn sem er notað til að sýna fólki sem nær ekki endum saman hversu ójafnt sé gefið í íslensku samfélagi þegar sannfæra þarf það um að fara í verkfall. Það er búið að vera morgunljóst lengi að niðurlagning kjararáðs yrði ekki nægjanleg aðgerð. En ráðamenn ákváðu að gera ekkert frekar.
Eða að stjórnir ríkisfyrirtækja, smekkfullar af flokksgæðingum og vildarvinum, hefðu ekki allar verið reknar strax og ljóst var að þær hunsuðu tilmæli ráðherra um að hækka ekki laun ríkisforstjóra upp úr öllu valdi, þar með talin ríkisforstjóra í gjaldþrota fyrirtæki sem hefur þurft að leita á náðir skattgreiðenda til að halda rekstrinum gangandi. Ekkert var gert í því fyrr en 12. febrúar 2019, rúmu einu og hálfu ári eftir að launahækkanirnar tóku flestar gildi, þegar ráðherra sendi loks bréf og óskaði skýringa.
Því miður er líklega of seint að sýna hörku og dug núna. Sá gluggi hefur lokast og afleiðingarnar hafa þegar átt sér stað.
Kosningasvindl
Í öðru lagi hefur það fengið að viðgangast á Íslandi að svindlað sé í kosningum eða í kringum þær. Stjórnmálaflokkarnir gerðu með sér samkomulag í apríl 2018 um að vera ægilega hneykslaðir á, en ráðast ekki í aðgerðir vegna nafnlauss áróðurs sem dælt var yfir landsmenn í síðustu nokkrum kosningum með ærnum tilkostnaði án þess að fyrir lægi hver fjármagnaði áróðursvélarnar, sem er í fullkominni andstöðu við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þar sem segir að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum.
Alþingi hefur heldur ekkert við það að athuga að stjórnmálamaður greiddi almannatengli rúmlega milljón króna og lofaði honum umtalsverðri viðbótarfjárhæð fyrir að vinna fyrir sig tvær varnarvefsíður. Báðar vefsíðurnar voru skýr kosningaáróður í aðdraganda kosninga. Kjósendur voru blekktir með því að rangar upplýsingar voru settar fram um hverjir stóðu að þessum vefsíðum. Fjármögnun þeirra var í andstöðu við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og að sjálfsögðu hefði átt að rannsaka málið, annað hvort af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða öðru viðeigandi yfirvaldi. Það var ekki gert.
Þá liggur fyrir að tveir stjórnmálaflokkar, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins, brutu lög með sms-skilaboðasendingum í síðustu þingkosningum. Flokkur fólksins sendi 80.763 slík daginn fyrir kjördag með hvatningu til að kjósa sig og Miðflokkurinn sendi 57.682 á sjálfan kjördaginn, 28. október 2017. Báðir flokkarnir fengu mun meira fylgi í kosningunum en kannanir höfðu spáð þeim og því rökstuddur grunur um að ólöglega athæfið hafi skilað þeim árangri. Alþingi hefur ekkert gert vegna þessara lögbrota. Þau hafa einfaldlega ekkert verið rædd.
Þess í stað sammæltust fulltrúar flestra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi um að auka framlög til síns sjálfs um 160 prósent, úr 286 milljónum króna í 744 milljónir króna. Með því voru þeir sem svindluðu í kosningum, og gengu því gegn lýðræðinu, verðlaunaðir fyrir það.
Að endingu er vert að minnast á athæfi Reykjavíkurborgar um að fara í ólöglegt átak til auka kosningaþátttöku þar sem send voru gildishlaðin skilaboð til ungra kjósenda, eldri kvenna og erlendra ríkisborgara. Þar er fullt tilefni til að rannsaka í kjölinn það sem átti sér stað og alla ákvörðunartöku.
Við blasir að Alþingi ætti að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir allt ofangreint. Kosningasvindl er ein alvarlegasta aðför að lýðræðinu sem hægt er að hugsa sér. Það að láta rökstuddar grunsemdir um slíkt órannsakaðar er ekki til að auka traust.
Framkoma
Þá er ótalin framkoma sumra stjórnmálamanna gagnvart hvorum öðrum, embættismönnum og fjölmiðlum. Fyrst ber auðvitað að nefna Klausturmálið. Ætla verður að sú ömurlega orðræða sem þingmenn Miðflokksins höfðu um aðra stjórnmálamenn, fatlaða og samkynhneigða í nóvember sé ráðandi þáttur í minnkandi trausti milli ára. Ásamt því auðvitað að þingheimi hefur fullkomlega mistekist að taka á málinu af einhverri alvöru sem hefur leitt af sér að fólkið sem bar ábyrgð á ömurlegheitunum hefur verið normaliserað á ný. Það virðist raunar sem viðkomandi telji sig vera með vind í seglin. Tærasta birtingarmynd þess var í síðustu viku þegar þeir hertóku Alþingishúsið í sýningu sem í fólst að hylla leiðtoga sinn, segja uppáhaldsstikkorðin „Icesave“ og „vogunarsjóðir“ til að hræra upp í grunnfylginu eins og Trump gerir þegar hann talar um múrinn sinn og krefjast þess að tíminn verði skrúfaður til baka til vorsins 2016, þegar foringi þeirra var settur af sem forsætisráðherra.
Þessi sami hópur fólks sem stendur að Miðflokknum hefur stundað árásir á embættismenn og stjórnsýsluna árum saman. Það átti sér stað ítrekað þegar hópurinn stýrði Framsóknarflokknum.
Fremst í flokki er auðvitað Vigdís Hauksdóttir. Hún hefur unnið sér það til frægðar sem þingmaður að ásaka embættismenn um að vilja misnota aðstöðu sína í starfi fyrir ríkið til að fá flugvildarpunkta fyrir fjölskyldur sína, hún hefur ásakað Ríkisendurskoðanda um þöggunartilburði vegna þess að bróðir hans var skrifstofustjóri í ráðuneyti, ásakað lögmann sem vann fyrir ríkið við að endurreisa bankakerfið um skjalafals, hún lét vinna skýrslu um það sem hún kallaði „Einkavæðing bankanna hin síðari“ sem var svo léleg að Alþingi neitaði að bera ábyrgð á henni en fól þó í sér grófar ærumeiðingar á hendur þeim sem unnu að samningsgerðinni, ásakaði forstjóra Landsspítalans um að beita andlegu ofbeldi þegar hann kvartaði yfir ókurteisi hennar, ásakaði embættismenn um að ljúga að sér, hún hefur sagt að stjórnendur ríkisfyrirtækja séu „eins og smákrakkar í sælgætisbúð“, kvartað yfir starfsfólki Alþingis fyrir að draga úr virðingu stofnunarinnar með því að yrða á sig að fyrra bragði og gefið í skyn að IPA-styrkir Evrópusambandsins hafi verið einhverskonar mútugreiðslur til forstöðumanna ríkisstofnana og starfsmanna þeirra til að æsa þá upp.
Nú er Vigdís í borgarstjórn og hefur tekið höndum saman við fólk úr minnihluta og stundum úr meirihluta um að draga trúverðugleika þess stjórnvalds niður í svaðið. Þar er ullað á fólk, persónuárásir daglegt brauð og umfjöllunarefnin eru nánast undantekningarlaust um eitthvað sem skiptir litlu eða engu máli fyrir framþróun borgarinnar, en meira máli fyrir pólitíska skammtímahagsmuni þeirra sem kosnir eru til að stýra henni.
Vigdís í samfloti við nokkra aðra hefur haldið uppteknum hætti og ráðist að embættismönnum. Hún hefur á skömmum tíma ásakað borgarlögmann um að taka þátt í lögbroti, ásakað skrifstofustjóra um einelti á grundvelli dómsniðurstöðu sem snerist ekki um einelti, sagt að engu líkara sé en að starfsmenn borgarinnar hafi tekið þátt í kosningasvindli, ásakað borgarritara um að fremja skítverk fyrir borgarstjóra og vísað því á bug að mögulega sé eitthvað athugavert við framkomu hennar þegar tugir starfsmanna borgarinnar kvarta yfir henni. Pólitíkusinn segist hafinn yfir pólitík.
Þetta er allt í takt við þá pólitík sem formaður Miðflokksins stundar, og þar af leiðandi flokkurinn sem búinn var til utan um hann. Sá sér samsæriskenningu, helst alþjóðlega, á bakvið hvert einasta skipti sem hann verður sér til skammar með því að vera kröfuhafi, skila ekki sköttum í samræmi við lög, að hóta fjölmiðlum málsóknum fyrir að fjalla um sig með sönnum og löglegum hætti, vera gripinn fullur á bar að plotta, atyrða og grobba eða bara þegar einhver er ósammála honum. Um tíma var meira að segja maður ráðinn í vinnu við „ákveðna greiningarvinnu, hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir.“
Pólitíkin hans, hin grimma fleygapólitík, snýst um að eiga stanslaust í stríði við helst andlitslaust fólk sem enginn nema hann einn, hinn hugrakki og kjarkaði leiðtogi, getur varið almenning fyrir. Ein orðræðan snýst um að það sé ólýðræðislegt að embættismönnum verði eftirlátið að stjórna, en undir niðri kraumar auðvitað lítið annað en vilji til að safna sem mestum völdum á hendur fárra, og ganga þar með gegn lýðræðislegum markmiðum um dreifingu valds.
Við blasir að það er pólitískt markmið átakalýðskrumara í íslenskri pólitík að draga úr trausti á stjórnmál, stjórnsýslu og embættismenn. Við þannig aðstæður gengur þeim sjálfum best. Pólitík þeirra gengur út á glundroða, sensasjónalisma og andlýðræðislegar niðurstöður með því að bera fyrir sig lýðræðisleg vinnubrögð. Svart verður hvítt og sannleikurinn skiptir engu máli.
Fólkið sem hefur verið ásakað um að beita ofbeldi fær að komast upp með það. Það er með dagskrárvaldið. Og hinir sem taka þátt í stjórnmálum leyfa þessu að gerast.
Að skilja ekki vandann
Það versta við þetta allt saman er að þessi staða kemur ekkert sérstaklega á óvart. Pólitískt menning á Íslandi leiðir af sér vantraust. Það hefur gjörsamlega mistekist að vinna til baka traust almennings á lykilstofnunum lýðræðisins hérlendis á undanförnum áratug. Stjórnmálamennirnir sjálfir keppast við að finna ástæður þess. Þeir horfa á tækni- og upplýsingabyltinguna sem leitt hefur af sér óheflaðri orðræðu á samfélagsmiðlum, aukna neikvæðni þegnana sem eigi ekki neina innstæðu ef horft er einvörðungu á hagtölur og heildarástand þjóðarbúsins og auðvitað helvítis fjölmiðlana.
En það er ekki hægt að kenna alltaf viðbrögðum við eigin hegðun um að vera röng. Það er nefnilega þannig að ef einhver treystir þér ekki þá er það – að minnsta kosti að uppistöðu – vegna þess að þú hefur hagað þér með hætti sem leiddi til þess. Eða ekki brugðist við aðstæðum sem upp hafa komið með hætti sem er til þess fallinn að auka traust.
Það þýðir ekki alltaf að benda á einhvern annan eða eitthvað annað. Finna sér strámann og ráðast á hann og segja „þú ert ástæðan fyrir mínu vandamáli“.
Þegar allir aðrir eru orðnir fífl þá er tímabært að líta í eigin barm og kanna hvort viðkomandi sjálfur sé mögulega fíflið.